Austurglugginn


Austurglugginn - 19.08.2021, Blaðsíða 6

Austurglugginn - 19.08.2021, Blaðsíða 6
6 Fimmtudagur 19. ágúst AUSTUR · GLUGGINN Pétur Kristjánsson hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina. Hann ólst upp í Bandaríkjunum en kom til Íslands á fermingaraldri og kunni þá lítið í íslensku. Hann lauk prófi í búfræði og síðar hélt hann til Svíþjóðar þar sem hann nam þjóðfræði. Hann fluttist til Seyðisfjarðar árið 1984 og hefur verið virkur í menningarlífi bæjarins æ síðan. Hann vann að uppbyggingu Tækniminjasafnsins og Skaftfells auk þess að fást við margt annað. Í sumar hefur verið opin myndlistarsýning Péturs í Skaftfelli sem ber heitið „Fikt og fræði.“ Sú sýning sem hann ætlaði upphaflega að sýna varð að mestu undir aurskriðu sem féll á Seyðisfjörð í desember síðastliðnum og tók meðal annars vinnustofu hans. Austurglugginn hitti Pétur á sýningu hans og ræddi við hann um lífið og tilveruna. Red alert Pétur Kristjánsson fæddist árið 1952 í Minnesota í Bandaríkjunum, þriðji í röð fimm systkina. Foreldrar hans höfðu flutt til Bandaríkjana sjö árum fyrr þar sem faðir hans, Kristján Ingi Einarsson, nam byggingaverkfræði. Pétur ólst upp í Bandaríkjunum til 13 ára aldurs og kom aðeins einu sinni til Íslands allan þann tíma. Þetta var á tímum Kalda stríðsins þar sem stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin gnæfðu yfir heiminum. „Það er möst í Ameríku að allir verða að vera Ameríkanar annars er maður bara „out“. Í skólanum var fánahylling alla morgna og farið með galdraþulu um fánann,“ segir Pétur og bendir á að þrátt fyrir að Sovétríkin hafi verið höfuðandstæðingurinn var meira rætt um hvað Kínverjar væru slæmir. Sagðar voru sögur af þeim svo að drungi og dulúð varð yfir því ríki í hans æsku. Æska Péturs í Bandaríkjunum litaðist nokkuð af Kalda stríðinu og þeirri kjarnorkuvá sem var alltumlykjandi. „Það voru æfingar í skólanum sem kallaðar voru „Red alert.“ Það var kallkerfi í skólanum í öllum stofum þar sem skólastjórinn kom á framfæri ýmsum skilaboðum til okkar. Í gegnum þetta kerfi kom svo kallið um „Red alert“ og þá stóðu allir upp og fóru í röð út þar sem kennari merkti við alla. Svo voru fyrirmæli að við skyldum fara heim og ofan í kjallara og bíða þar í u.þ.b. hálftíma. Ég man eftir því þegar ég tók þátt í svona æfingu í fyrsta sinn þá kom ég heim til mömmu og spurði hvað kjallari væri því ég ætti að fara ofan í hann og bíða því það væri „Red alert.“ Mamma svaraði mér: „Það er enginn kjallari hérna farðu bara út að leika þér,““ segir Pétur og brosir að nokkuð íslenskum viðbrögðum móður sinnar. Fyrirvinnan í Víetnam Fyrstu árin bjuggu Pétur og fjölskylda í Minnesota en færðu sig svo yfir til Kaliforníu þegar hann var á skólaaldri. Þau áttu heima í stóru húsi í San José og faðir hans rak fyrirtæki snemma á sjöunda áratugnum. Það var svo einn daginn sem fyrirtækið fór í þrot og foreldrum Péturs var gert að flytja út úr húsinu innan nokkra vikna. Þau fluttu þá til Soquel rétt hjá Santa Cruz þar sem faðir hans fékk starf en fljótlega fékk hann annað starf fyrir bandaríska herinn í Víetnam. „Hann starfaði hjá fyrirtæki sem vann við flugvöllinn í Da Nang sem var alltaf sprengdur upp á nóttunni. Stríðsrekstur er aðallega iðnaður og pabbi hafði gríðarlega vel upp úr þessu. Mánaðarlega bárust okkur háar upphæðir og við fluttum til Menlo Park sem í dag er hluti af Kísildalnum,“ segir Pétur en svo fór að halla undan fæti. „Við fengum reglulega bréf og pakka en svo allt í einu hættu að berast peningar og bréf frá pabba. Það heyrist ekki múkk frá honum og það vissi enginn hvar hann var, hann var bara horfinn. Með einhverjum leiðum fær mamma þó þær fréttir að hann sé ekki talinn særður eða dauður. Pabbi var alki og hann var sennilega bara á fylleríi.“ Móðir Péturs, Sigríður Ágústa Söebech, ákvað að flytja heim árið 1965 þegar fjárhagsstaða heimilisins var orðin mjög bágborin. Börnin á heimilinu voru fjögur en elsta dóttirin, Inger, hafði gifst og flutt til Hawaii. „Þarna voru góð ráð dýr og mamma ákvað að selja demantshringa sem hún gekk alltaf með, þar á meðal giftingarhringinn, til þess að kaupa bíl. Við hlóðum í bílinn eins og við gátum en það sem ekki komst með varð eftir. Við keyrðum svo þvert yfir Bandaríkin til Pennsylvaníu þar sem vinir fjölskyldunnar áttu heima og við gátum verið um stundarsakir. Þar var bíllinn seldur og mamma og yngri systkinin mín flugu heim til Íslands en ég og Einar eldri bróðir minn sigldum með Jökulfellinu til Íslands í hræðilegu veðri,“ segir Pétur um ástæðu þess að fjölskyldan flutti heim. Síðar kom faðir hans til landsins. „Víser! Víser!“ Pétur segir að hann hafi notið þess að vera í bandarísku skólakerfi; andrúmsloftið hafi verið létt og það hafi ekki verið nein kvöð að vera í skóla. Öll verkefni voru unnin í skólanum og því þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af heimanámi. Í frímínútunum var oft mikið fjör, leikinn tónlist og krakkarnir tvistuðu. Þegar hann var kominn í eldri bekki var Bítlaæðið komið til Bandaríkjanna og í skólanum stofnaði hann Bítlahljómsveit þar sem hann og vinir hans settu á sig skúringarmoppur úr skólanum til að líkjast hinum hárprúðu Bítlum. Hann segist eiga hlýjar minningar úr bandarísku skólakerfi. Hann á þó ekki eins góðar minningar úr íslensku skólakerfi sem hann segir hafa verið stíft og þungt þegar hann flutti heim. Þar á hann aðeins við kennara og stjórnendur því hann átti auðvelt með að kynnast samnemendum sínum og eignaðist vini meðal þeirra. Hann talaði litla sem enga íslensku þegar hann flutti heim 13 ára og segir hann að fáir hafi talað með hreim hérlendis í þá daga. „Ég man eftir því að ég seldi Vísi eftir að við fluttum til Reykjavíkur. Ég var að labba niður Bankastrætið og kallaði „Víser! Víser!“ og þá þrumaði eldri kona töskunni sinni í hausinn á mér og æpti á mig: „Talaðu ekki svona barn! Skammastu þín!“ Við systkinin voru bara stimpluð sem Ameríkanar í Keflavík. Fólk annaðhvort elskaði eða hataði Kanann í Keflavík og sumir kölluðu á eftir okkur: „Kanadrasl!“ og hræktu jafnvel. Maður var einhver óljós blendingur af Kana og Íslending,“ segir Pétur. „Skólakerfið á Íslandi var byggt upp á því að láta þig hlýða til að kennararnir færu ekki yfir um. Maður átti bara að sitja og þegja og helst að passa að andardrátturinn truflaði engan. Ég upplifði bara Pétur Kristjánsson í Kaliforníu árið 1958. Ljósm: Úr einkasafni „Ef maður ætlar að finna nýja fegurð þá verður maður að skoða þetta ljóta“ Seyðisfjörður

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.