Austurglugginn


Austurglugginn - 04.11.2021, Page 3

Austurglugginn - 04.11.2021, Page 3
Fréttir frá Síldarvinnslunni Ábyrgðarmaður: Gunnþór B. Ingvason Risavaxin loðnuvertíð framundan Um 1920 hófu austfirskir sjómenn að nota loðnu til beitu á vetrarvertíðum á Hornafirði. Það voru fyrstu kynni þeirra af loðnunni. Til að byrja með var loðnan týnd upp þar sem hún rak á fjörur en fljótlega var farið að veiða hana til beitu í smáum stíl, ýmist í háfa eða litlar fyrirdráttarnætur. Loðnuveiðar til framleiðslu á mjöli og lýsi hófust löngu síðar. Ef undan eru skildar tilraunaveiðar, sem efnt var til seint á fimmta áratug tuttugustu aldarinnar, hófust loðnuveiðar í hringnót veturinn 1963. Veiðarnar fóru hægt af stað og fyrstu árin var einungis veitt um hrygningartímann við suður- og vesturströnd landsins. Fyrsti Norðfjarðarbáturinn hóf veiðar á loðnu með hringnót árið 1964. Það var Gullfaxi. Síldarvinnslubátarnir, Barði og Bjartur, hófu slíkar veiðar árið 1966. Sífellt var loðnunni gefinn meiri gaumur og veturinn 1969 lögðu fimm Norðfjarðarbátar stund á slíkar veiðar, þar af fjórir í eigu Síldarvinnslunnar. Loðna barst í fyrsta sinn til vinnslu í Neskaupstað veturinn 1968. Alls bárust tæplega 8.000 tonn til Síldarvinnslunnar á þeirri vertíð og kom öll sú loðna af miðunum fyrir sunnan land. Loðnuveiðar austur af landinu voru fyrst reyndar árið 1970 en á þeim miðum náðist ekki góður veiðiárangur fyrr en árið 1972. Í fyrstu fór öll loðna, sem barst til Neskaupstaðar, til framleiðslu á mjöli og lýsi. Framleiðsla á frystri loðnu til útflutnings hófst þar ekki fyrr en árið 1970. Framleiðsla á frystum loðnuhrognum hófst síðan árið 1978. Loðnuveiðar og –vinnsla skiptu sífellt meira máli en rétt eins og síldin er loðnan ólíkindatól. Stundum var fullur sjór af loðnu en svo komu tímar þar sem lítið mældist af henni. Loðnuárin hafa því verið býsna misjöfn; stundum risavertíðir, stundum mjög takmarkað veitt og stundum bann við veiðum. Vegna þeirrar óvissu sem tengist loðnunni ríkir ávallt ákveðin óvissa og spenna í kringum hana og má líkja þeirri spennu við spennuna sem löngum hefur ríkt í kringum silfur hafsins. Yfir 900 þúsund tonn Síðustu ár hafa svo sannarlega verið sveiflukennd hvað loðnuna varðar. Á árunum 2017 og 2018 voru veidd um 300 þúsund tonn af loðnu hvort ár en í kjölfarið fylgdu tvö loðnuleysisár. Loksins kom að því að loðna var veidd á ný í upphafi þessa árs en þá gátu íslensk skip veitt um 70 þúsund tonn og loðnustemmning gerði vart við sig á ný. Segja má að öll loðnan sem þá var veidd hafi farið til manneldisvinnslu. Sérstök áhersla var lögð á að vinna hrogn en hrognin eru verðmætasta afurð hverrar loðnuvertíðar. Fyrir utan íslensk skip lönduðu norsk skip loðnu á Austfjörðum í nokkrum mæli en þau hófu veiðarnar fyrr en íslensku skipin. Rannsóknir fyrir síðustu loðnuvertíð bentu til þess að næsta vertíð gæti orðið ágæt en seiðafjöldi mældist mikill. Líklega er þó óhætt að segja að sá kvóti sem út hefur verið gefinn fyrir komandi vertíð hafi komið flestum í opna skjöldu. Hann er mun stærri en almennt var gert ráð fyrir. Það standa vonir til að vertíðin gefi yfir 900 þúsund tonna heildarafla og er það stærsti kvóti sem gefinn hefur verið út frá aldarbyrjun. Grænlendingar, Norðmenn og Færeyingar eiga hlutdeild í loðnukvótanum sem gefinn er út hér við land en gert er ráð fyrir að um 670 þúsund tonn komi í hlut íslenskra fyrirtækja. Þegar hefur verið úthlutað tæplega 630 þúsund tonnum til íslensku skipanna og komu þá 115.939 tonn í hlut Síldarvinnslunnar eða 18,49%. Alls er gert ráð fyrir að innan við tuttugu íslensk skip muni leggja stund á loðnuveiðarnar á komandi vertíð. Þeim hefur fækkað mikið frá því sem áður var, en til dæmis á vertíðinni 1998-1999 voru þau 50 talsins. Að undanförnu hefur komandi loðnuvertíð verið undirbúin af krafti og það er að mörgu að hyggja. Fyrirtæki sem þjónusta loðnuflotann hafa þurft að láta hendur standa fram úr ermum og ber þar ekki síst að nefna veiðarfæragerðir. Ýmsar vörur þarf til framleiðslunnar og hefur kórónaveirufaraldurinn haft áhrif á afhendingu og flutning þeirra þannig að óvissa hefur verið nokkur. Allt virðist þó ætla að ganga upp og er spennandi vertíð framundan. Polar Amaroq leitaði loðnu Um miðjan októbermánuð hélt grænlenska skipið Polar Amaroq til loðnuleitar við línuna á milli Grænlands og Íslands. Veður truflaði leitina töluvert en skipið tók nokkur hol og kom að landi með um 180 tonna afla sem var frystur um borð. Geir Zoëga skipstjóri segir að það hafi verið dásamlegt að finna loðnulyktina. „Við leituðum einungis Grænlandsmegin við línuna og þar var sjórinn mjög kaldur eða á bilinu frá hálfri gráðu og niður í eina og hálfa. Loðnan sem við fengum var í smærri kantinum en vel getur verið að stærri loðnan haldi sig Íslandsmegin við línuna. Það spáði ekki sérstaklega vel á þessu hafsvæði svo við ákváðum að snúa okkur að síldinni í bili. Mér líst afar vel á komandi loðnuvertíð og ég er reyndar alltaf bjartsýnn. Vonandi verður veðrið til friðs og hægt að hefja loðnuveiðarnar fyrir áramótin. Það má gera ráð fyrir að skipin fari að snúa sér að loðnunni núna í nóvember og desember af fullum krafti og það verður svo sannarlega spennandi að taka þátt í þessu ævintýri,“ segir Geir. Nú er loðnan efst á dagskrá. Brátt verða loðnunætur teknar um borð. Ljósm. Smári Geirsson. Börkur NK (nú Barði NK) að loðnuveiðum á síðustu vertíð. Ljósm. Helgi Freyr Ólason.

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.