Austurglugginn


Austurglugginn - 04.11.2021, Page 6

Austurglugginn - 04.11.2021, Page 6
6 Fimmtudagur 4. nóvember AUSTUR · GLUGGINN Hér birtist ferðalýsing Hlöðvers Jóhannssonar af ferð yfir Fagradal árið 1951. Mikill snjór var á dalnum þennan vetur og unnu bílstjórar oft við erfið skilyrði. Þessi ferð var þó öðrum erfiðri. Bakgrunnur sögunnar Sumarið 1950 var óvenjulega úrkomusamt, eitt það versta á liðinni öld. Heyfengur var því lítill og lélegur. Ófærð vegna snjóa byrjaði í október, veturinn var mjög snjóþungur og ekki voru til upplýsingar um önnur eins snjóþyngsli, enda alltaf nefndur Snjóaveturinn mikli. Ef ég man rétt þá var hægt að ganga upp á þak íþróttahússins á Eiðum. Hér er sagt frá einni ferð sem tók lengstan tíma, en við þessi skilyrði unnu þessir menn alveg til vors. Haft var á orði að þeir myndu hljóta varanlegt heilsutjón. Ég hef þó ekki heyrt um að svo hafi orðið. Þegar Guðmundur Jónasson kom með snjóbíl sinn flýtti það fyrir dreifingu á Héraðinu, þó var mjög takmarkað hvað hann komst. Þessir snjóbílar voru byggðir fyrir sléttur og ísilögð vötn í Norður-Ameríku, vél, gírkassi (þriggja gíra) og drif samskonar og í Chrysler fólksbílum. Það gat verið erfitt að fara um í lausamjöll og nær ómögulegt í hliðarhalla en á sléttlendi voru þeir mjög fljótir í förum. Hlöðver Jóhannsson er einn eftir lifandi af þeim mönnum sem fóru þessa ferð. Hann býr nú í Kópavogi. Frásögnina skrifaði hann upp 64 árum eftir ferðina samkvæmt vinnubókum sínum og gaf mér í einni af heimsóknum mínum til hans. Vigfús Ólafsson Myndir úr einkasöfnum og frá Ljósmyndasafni Austurlands Formáli Lýsing á snjóalagi og lagningu slóðar á Fagradal 1951. Leiðin frá Reyðarfirði til Egilsstaða er 33 kílómetrar. Frá Grænafelli til Egilsstaða var 2 – 3 metra djúpur snjór. Snjóstikur með veginum voru 2 metrar á hæð og allar komnar á kaf í snjó. Ekki mátti leggja slóðina eftir veginum, hún varð það hörð að vont hefði verið að moka veginn um vorið. Slóðin var lögð í febrúar og notuð eins lengi og hægt var, eða fram á vor. Slóðin var lögð með jarðýtu, ýtunni var ekið eftir hjarninu, með tönninni var skorinn 10 cm frosinn snjór. Við það myndaðist smá snjóröst til hliðar við slóðina. Þetta var gert til að hún þjappaðist betur, og eins sást hún betur í vondu veðri. Að þurfa að halda ýtutönninni í þessari stellingu yfir allan Dalinn var mjög þreytandi. Við lagningu á slóð fór ýtan fyrst, síðan komu bílarnir og þjöppuðu snjóinn, úr þessu varð hálfgerður vegur þegar hún fraus. Ef bíll lenti út úr slóðinni var vont að komast í hana aftur vegna þess hvað snjórinn var laus fyrir utan, oftast varð ýtan að hjálpa til að koma bílunum í slóðina aftur. Lagt af stað Ferðalýsing þessi er endurskrifuð úr dagbók frá 4. apríl 1951. Þessi ferð var farin 1. til 4. apríl 1951. Sunnudaginn 1. apríl kl. 6 að morgni var lagt af stað frá Reyðarfirði til Egilsstaða yfir Fagradal. Í þessari ferð voru 5 GMC trukkar með drif á öllum hjólum ásamt tveimur jarðýtum frá Vegagerðinni á Reyðarfirði og tveimur stórum sleðum. Bílar og sleðar hlaðnir með fóðurbæti og heyi handa bændum á Héraði. Í þessa ferð fóru eftirtaldir menn sem stjórnuðu bílunum og jarðýtum. Bílstjórar voru: Gunnar Stefánsson 24 ára, Sigurður Guttormsson 30 ára, Steingrímur Bjarnason 32 ára, Stefán Guttormsson 33 ára og Björn Stefánsson 34 ára. Hlöðver Jóhannsson stjórnaði jarðýtu nr. 7 og Steinþór Pálsson jarðýtu nr. 11. Með í för voru fjórir farþegar á leið til Egilsstaða. Lagt var af stað frá KHB klukkan sex að morgni í sæmilegu veðri, ferðin gekk nokkuð vel, komum við í Kofa (Sæluhúsið á Fagradal) klukkan tólf á hádegi, þar var hitað kaffi og borðað nesti. Eftir klukkutíma stopp í Kofa var lagt af stað til Egilsstaða. Erfiðleikarnir hefjast Um þetta leyti versnaði veðrið og eftir stuttan tíma var komið vont veður með snjókomu og roki. Veðrið var það vont að slóðin sást mjög illa og ákveðið var að fá einn farþeganna til að ganga á undan jarðýtu nr. 7, hún fór fyrir lestinni. Hann gafst fljótlega við að ganga í slóðinni á undan ýtunni í þessu veðri, og fór hann í bílinn hjá Gunnari. Áfram var haldið, og fljótlega varð að hreinsa lausasnjó ofan af slóðinni. Bílunum gekk mjög illa að keyra slóðina. Þá var ákveðið að losa sleðann frá ýtu 7 og festa hann aftan í bílinn hjá Gunnari, síðan var bíllinn tengdur við ýtuna. Eins var gert við ýtu 11, sleðinn festur í bíl Sigga og bíllinn festur í ýtuna. Nú voru ýturnar farnar að draga bíla og sleða, eftir þetta fór hinum bílunum að ganga betur í slóðinni. Alltaf var sama vitlausa veðrið, rok og snjókoma, ferðin sóttist mjög seint, en til Egilsstaða komum við klukkan eitt um nóttina 2. apríl eftir 12 tíma ferð úr Kofa. Mynd: AE 86 klukkutíma á ferð yfir Fagradal Snjóaveturinn 1951 Sæluhúsið eða Kofinn á Fagradal. Mynd: GG Bílalest á Fagradal um mánaðamótin maí/júní árið 1951.

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.