Austurglugginn


Austurglugginn - 04.11.2021, Side 7

Austurglugginn - 04.11.2021, Side 7
 AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 4. nóvember 7 Á Egilsstöðum tók á móti okkur Sigurður Einarsson, við losuðum bíla og sleða, tókum bensín og olíu og fórum síðan heim með Sigurði, Margrét kona hans hafði mat handa okkur, en við höfðum aðstöðu hjá þeim þegar við vorum á Egilsstöðum. Þegar við höfðum borðað hjá þeim hjónunum sváfum við til kl. hálf átta um morguninn. (Sváfum í tvo tíma.) Aftur til baka Mánudaginn 2. apríl klukkan átta var lagt af stað til Reyðarfjarðar. Þá var mjög vont veður, en samt var lagt á Fagradal. Ferðin gekk mjög seint, jarðýta 7 fór á undan og dró hún bíla Gunnars og Stefáns og báða sleðana. Jarðýta 11 kom á eftir með bíla Sigurðar, Björns og Steingríms, þetta gerðum við til að tapa engum úr lestinni. Alltaf var sama vitlausa veðrið, mikil snjókoma og rok, við Steini Páls skiftumst á að vera á undan á jarðýtu 7 (Snuðruðu slóðina uppi, sögðu bílstjórarnir). Um klukkan sex um kvöldið 2. apríl fann ég Kofa fyrir tilviljun. Við vorum þá búnir að vera tíu tíma frá Egilsstöðum, þar var stutt stopp og við fengum okkur að borða af matnum frá Möggu. Ég hringdi heim til Sigga Sveins úr símanum í Kofa, til að láta vita af okkur. Siggi sagði: „Þið megið ekki fara frá Egilsstöðum, það er snarvitlaust veður á Reyðarfirði.“ Ég sagði við Sigga: „Við erum í Kofa á heimleið, og ætlum að halda áfram, en hér er mjög vont veður.“ Siggi sagði: „Þið ráðið því.“ Úr Kofa fórum við klukkan rúmlega sex um kvöldið. Lokahnykkurinn Þegar við fórum að nálgast Neðstu Brú á Fagradal ofan við Biskupshlaup var stoppað, fórum að leita að brúnni, ekki er hægt að komast yfir ána nema á henni. Við fundum hana og beið Bjössi þar til að vísa veginn. Á meðan við leituðum að brúnni tengdi Steingrímur ferðasímann við símalínuna, sagði að við kæmum heim um morguninn 3. apríl. Síðan var haldið af stað, þegar komið var niður fyrir Biskupshlaup, þá var klukkan fjögur um nóttina 3. apríl, sáum við að fallið hafði stórt snjóflóð úr fjallinu, yfir dalinn og veginn og upp í hlíð hinu megin í dalnum. Við skoðuðum snjóflóðið, það var mjög stórt, breitt og djúpt. Nú var ákveðið að fara með alla lestina upp á Biskupshlaup ef kæmi annað snjóflóð á meðan við vorum að moka í gegn. Við Steini byrjuðum strax að moka á ýtunum, við vorum orðnir ansi þreyttir. Stebbi bauðst til að moka með okkur, hann kunni á ýtu. Bíll Steingríms var með tvöföldu húsi, með góðu sæti aftur í, þar var hægt að leggja sig. Stebbi tók við ýtu 11 og Steini fór í bílinn hjá Steingrími og svaf í aftursætinu í einn og hálfan tíma, svo kom hann og tók við ýtu 7, ég fór í bílinn og svaf jafnlengi. Ég tók við ýtu 11 þegar ég kom og þá fór Stebbi og svaf í bílnum. Bílstjórarnir sváfu í bílum sínum meðan við mokuðum. Bensín og hráolíu höfðum við í fjórum tunnum á bíl Steingríms, úr tunnunum dældum við með dælum sem festar voru aftan á ýturnar. Bensín og olíu tókum við á Egilsstöðum. Um morguninn klukkan níu þann 4. apríl var búið að moka snjóflóðið, þá voru bílar og sleðar sóttir upp á Biskupshlaup. Tengt var við ýturnar eins og áður, ýta 7 fór á undan lestinni. Veðrið var ennþá mjög vont, snjókoma og rok. Þegar komið var niður í Skriður var allt kolófært. Byrjað var að moka þær, en við hættum því fljótlega. Slóð var lögð niður Skriðurnar og Grænafellið. Bílarnir gátu ekið í slóðinni með sleðana aftan í niður fyrir Grænafell, þar fór aðeins að lagast færðin. Nú gátum við komist með sæmilegu móti út í Kollaleirukrók, þar var kolófært fyrir bílana. Við Steini mokuðum Krókinn og klukkan átta um kvöldið 4. apríl komum við á lóðina hjá Vegagerðinni eftir 86 klukkutíma ferðalag. Eftirmáli Þessi ferð var sú erfiðasta sem við höfðum farið um veturinn 1951, og voru þær þó margar vondar. Við höfðum mat og kaffi að heiman á leiðinni til Egilsstaða, en nesti frá Möggu á Egilsstöðum á heimleið. Við stoppuðum á leiðinni og borðuðum í bílnum hjá Steingrími, fimm voru í aftursæti og tveir í framsætum. Eftir matinn fengum við okkur smá blund í sætunum, svona 15-20 mínútur. Alltaf var vel heitt í bílnum. Í þessari ferð var mjög vont veður mest alla leiðina. Ferðin tók samtals 86 klukkustundir. Unnið var í 82 stundir, hvílst og matast í fjórar stundir. Þessa ferð rifja ég upp til minninga um mína ágætu félaga, sem voru með í þessu ferðalagi 1951. Hlöðver Jóhannsson Þegar lífs er þrotið stjá, þróttur burtu flúinn. Fátt er sælla en sofna þá, syfjaður og lúinn. (Rögnvaldur Björnsson) Bílalest á Fagradal um mánaðamótin maí/júní árið 1951. Gunnar Stefánsson Sigurður Guttormsson Steingrímur Bjarnason Hlöðver Jóhannsson Björn Stefánsson Steinþór Pálsson

x

Austurglugginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.