Árbók Reykjavíkur - 01.12.1999, Blaðsíða 13
Formáli að Árbók Reykjavíkur 1999
-t~Xrbók Reykjavíkur kemur nú út í 27. sinn frá því útgáfa var hafin með
reglulegum hætti 1972 og eins og sjá má hafa verið gerðar allróttækar breytingar
á efnisvali og uppsetningu bókarinnar. Þetta er fyrsta árið sem Þróunarsvið sér
um útgáfuna og vonandi hefur tekist að færa bókina í nútímalegri búning, þar
sem framsetning upplýsinga er skýrari og höfðar til sem flestra notenda. Á hinn
bóginn má búast við því að næsta eintak Árbókarinnar muni enn taka nokkrum
breytingum, þar sem efni verður aukið og brugðist við góðum ábendingum um
það sem betur má fara.
í framhaldi af þessari útgáfu mun efni Árbókarinnar verða fært á heimasíðu
Reykjavíkurborgar og við það vinnst tvennt. Annars vegar munu fleiri hafa aðgang
að þeim upplýsingum sem þar er að finna og hins vegar verður kleift að uppfæra
einstaka þætti í bókinni jafnóðum og tölfræðin liggur fyrir. Því er að því stefnt að
Árbók Reykjavíkurborgar á netinu bjóði sífellt upp á nýrri og nýrri upplýsingar.
Við lestur Árbókar er lesendum bent á að nýta sér kort af hverfaskiptingu
Árbókar, en það er samanbrotið aftast í bókinni. Hverfalykill er nauðsynlegur, en
hann skýrir tengsl hverfanúmera, hverfaheita og borgarhluta.
Efni í Árbók Reykjavíkur á sér marga upprunastaði, en þeim má skipta í tvennt,
hinar ýmsu stofnanir borgarinnar og aðrar stofnanir og ber hlut Hagstofu íslands
þar hæst. Myndað hefur verið sérstakt net tengiliða milli borgarstofnana og ber
hver tengiliður ábyrgð á skilum á réttu efni á tilsettum tíma til ritstjórnar
Árbókar. Mun þetta kerfi vonandi skila sér í greiðara flæði upplýsinga í framtíð-
inni.
Er öllum þeim sem að gerð þessarar bókar komu, innan borgarkerfisins og utan,
þakkað kærlega fyrir þeirra framlag og minnt á hið fornkveðna að margar hendur
vinna létt verk.
Verði vart við villur eða vilji lesendur koma með ábendingar um aukið efni eða
annað sem betur má fara, er bent á ritstjóra Árbókar Reykjavíkur Pál Hannesson,
verkefnisstjóra gagnamála, Þróunarsviði. S. 5632085. Netfang: pallh@rhus.rvk.is
Páll H. Hannesson
ritstjóri Árbókar Reykjavíkur
Jón Bjömsson
frkvstj Þróunar- og fjölskyldusviðs
Árbók Reykjavíkur 1999
11