Vestfirðir - 12.04.2018, Blaðsíða 8

Vestfirðir - 12.04.2018, Blaðsíða 8
8 12. apríl 2018 ef stjórnmálamenn á Íslandi hefðu tekið besta kostinn, þegar þeir áttu þess kost, hefði Guðjón Arnar Kristjánsson orðið sjávarútvegsráðherra Íslands. Hann hafði yfirburða þekkingu á fiskveiðum og ástandi fiskimiðanna við landið, var sjálfmenntaður fiski- fræðingur, fylgdist með sjávarútvegs- málum annarra þjóð og mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir. Hann gerði sér grein fyrir mikilvægi sjáv- arútvegs fyrir strandbyggðir Íslands og sá fyrir hættuna af samþjöppun aflaheimilda á örfáar stórútgerðir og varaði við henni. En þessi kostur var ekki tekinn og í stól sjávarútvegsráð- herra hafa oft setið lítt hæfir einstaklingar, lög- fræðingur, dýralæknir, endurskoð- andi og nú síðast íslenskufræðingur. Guðjón Arnar var mikill nátt- úruunnandi, en ekki öfgasinni eins og margir nú til dags, sem ekki ljá máls á að leggja vegi um kjarrlendi, stunda arðbært fiskeldi í fjörðum og flóum né virkja vatnsföll til hagsbóta fyrir landsmenn. Guðjón vildi nýta möguleika fólksins í landinu til betra mannlífs. Hann var landsbyggðamaður og Vestfirðingur og varaði við embætt- ismannakerfinu, sem að því er virðist hefur nú enn frekar treyst völd sín í stjórn landsins. Guðjón var alþingis- maður í tíu ár og lagði fram mörg athyglisverð mál. Hann vildi t.d. gera langtímaáætlun um jarðgangagerð á Íslandi þannig að ein göng tækju ávallt við af þeim sem væri lokið og virðist þessi regla nú hafa náð fótfestu. Guðjón var félagslyndur maður, vinamargur og vinsæll. Hans þræð- ir lágu víða, jafnt til sjávar og sveita. Þetta sýndi sig best í undirbúningi kosninga, þegar hann þeyttist á milli landsvæða til að boða „fagnaðarer- indið“, þ.e. hvetja fólk til liðs við stefnu sína og síns flokks. Það var gaman að ferðast með honum, hann var glaður á góðri stund og mikill söngmaður og oft átti hann til að heimta harmóniku- eða gítarundirspil, því nú ætlaði hann að syngja „Fyrir sunnan Fríkirkjuna“, sem var eitt af uppáhaldslögum hans. Guðjón var þéttur á velli og þéttur í lund og þótti gott að borða þjóð- legan og hollan mat. Það var oft sem hann hvatti samstarfsfólk sitt í Frjáls- lynda flokknum til að fylgja sér á Sæ- greifann, en þar ætlaði hann að fá sér siginn fisk, mörflot og selspik. Grétar Mar vinur hans lét sér þó nægja tvo sviðahausa. Það er margs að minnast úr Frjálslynda flokknum, oft var gam- an en ekki alltaf. Guðjón vildi að öll dýrin í skóginum væru vinir, en það gekk reyndar ekki eftir og flokkurinn liðaðist í sundur. Vinur minn Guðjón Arnar Krist- jánsson, Addi, var hugsjónamaður, einlægur og sannur. Hann lét sig varða marga þá sem stóðu höllum fæti í lífinu og hjálpaði þeim af öll- um mætti. Hann var tilfinningavera en með harðan skráp. Hann átti ekki marga óvini, ef nokkra. Ég kveð Adda vin minn með söknuði og þakka hon- um margar góðar stundir. Ástvinum hans votta ég samúð. Hann var litli bróðir okk- ar fimm systra, sem voru allar fæddar á undan hon- um. Alltaf man ég hvað pabbi varð glaður þegar hann fæddist, loksins fékk hann son eftir allar stelpurnar. Og við fengum oft að heyra það að við ættum að vera góðar við þennan eina bróður okkar. Svo fengum við reyndar annan bróð ur átta árum seinna. En Addi var samt númer eitt. Hann var kraftmikill strákur og uppátækjasamur svo okkur systrum þótti stundum nóg um, en honum fyrirgafst allt samt sem áður. Og þessi kraftur fylgdi honum alla ævi. Á gleðistundum var hann hrókur alls fagnaðar. Hann var ekki bara maður orðsins, þó hann ætti gott með að tjá sig bæði í ræðu og riti. Hann var mað- ur framkvæmda, vildi láta verkin tala. Hann elskaði sjóinn sem lengst af var hans vinnustaður og hann varð aflasæll skipstjóri um áratuga skeið. Oft undraðist ég það hve vel hann þekkti sjóinn. Þekking hans á hafinu, á straumum, veðurfari og fiskigöngum var með ólíkindum, miklu meiri en hægt er afla sér með lestri fræðibóka. Hann lét líka til sín taka á vettvangi félagsmála, var m.a. formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins í mörg ár. Hann hafði ákveðnar skoðanir á fiskveiðistjórnunarkerfinu og vann að þeim hugsjónum sínum með oddi og egg bæði í fé lagsmálum og stjórnmálum. Við sátum um tíma saman á Al- þingi, kjörtímabilið 1991-1995, en ekki fyrir sömu stjórnmálasamtök. Það kom þó ekki að sök, því við vorum sammála í mörgum mál- um. Og þó við værum ekki sam- mála, þá varpaði það engum skugga á samskipti okkar. Á blómaskeiði lífsins þegar allir eru uppteknir við að sjá um fjölskyldu, vinna, ferð- ast og hvað- eina vorum við ekki í reglulegu sambandi. En eftir að ég flutti í Reykhólasveitina ræktuðum við sambandið enn betur en áður. Hann var náttúrubarn, og undi sér vel í faðmi sveitarinnar. Hann eignaðist jarðarpart í Þernuvík í Ísafjarðardjúpi og þar vildi hann helst dvelja sem mest. Það lá því beint við að koma við hjá mér í Reykhólasveitinni þegar hann ferð- aðist milli landshluta. Þá var mikið spjallað um heima og geima, lands- málin og málefni Vestfjarða, sem okkur báðum voru alltaf hugleikin. Addi var gull af manni, hann mátti ekkert aumt sjá, ef hann gat eitthvað liðsinnt einhverjum þá gerði hann það. Ég minnist þess að þegar einn sonur minn og eiginkona hans eignuðust veikt barn og þurftu að dvelja langdvölum í Reykjavík, þá lánaði hann þeim bílinn sinn í marga mánuði, án nokkurs endur- gjalds. Þannig var hann. Nú er hann horfinn, sá fyrsti úr stórum systkinahópi. Hann greindist með blöðruhálskrabbamein fyrir rúmu ári og hann fellur frá í þeim mánuði sem Krabbameinsfélagið hefur helgað varnarbaráttu fyrir þeirri tegund krabbameins. Ég þakka honum fyrir allar heimsóknirnar og ánægjustundirn- ar í lífinu og mun sakna þeirra sárt. Ég votta eiginkonu hans Barböru, börnum hans og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Með honum er genginn góður og heiðarlegur mað- ur sem mikill missir er að. Hvíl þú í friði elsku bróðir minn. Þegar ég áttaði mig á því síð- astliðið haust að sennilega myndi faðir minn ekki ná að vinna bug á sínum meinum, þá sótti að mér mikill tómleiki og kvíði fyrir því sem virtist vera að verða að veruleika. Fyrir mér var ég ekki bara að missa föður minn heldur líka mikinn kennara á lífsins leið sem oft er þyrnum stráð. Þegar ég fór að þvælast með föð- ur mínum sem krakki um 10- 12 ára aldur, til dæmis um Jökulfirði og strandir á hraðbát sem hann og frændi hans Tryggvi áttu saman, voru oft strákar Tryggva með og voru þetta oft miklar ævintýraferð- ir. Þvælst var víða, veitt og skotið í matinn og aðeins tekið með að drekka og salt og pipar. Strandirnar eru fullar af mat, við þurfum ekkert meira með, sagði fað- ir minn. Í þess- um ferðum fékk maður að skjóta af riffli og leggja net og vera eins frjáls og hægt var. Samt var manni kennt það að veiða aðeins það sem maður ætlaði að hafa til matar. Þarna var manni innrætt það að bera virðingu fyrir náttúrunni. Það var því kærkomið þegar ákveðið var að reisa sumarhús í Norðurfirði á Ströndum og var fað- ir minn mjög áhugasamur um þá framkvæmd og hjálpaði mikið til með þá framkvæmd. Ég sagði við föður minn þegar sumarhúsið fauk að hluta hvort við ættum að endur- byggja kofann. Drengur minn, við gefumst ekki upp fyrir Kára heldur byggjum bara sterkara hús úr alvöru rekavið sagði pabbi, og það var gert og sá faðir minn um að smíða alla glugga í endurbyggt hús þannig að núna hefur kofinn sál. Oft hringdi faðir minn í mig til að afla frétta af fiskigengd og hvernig aflabrögð væru því við eigum jú saman út- gerðarfélag sem átti smábáta. Faðir minn spurði stundum hvort ég væri að fara á handfæri því hann vildi koma með, sagðist þurfa að hlaða batteríin. Einn mánuður á handfærum er mér minnisstæður þegar við feðgar vorum búnir að vera að fiska vel norður af Hornbjargi, að einn dag gerðist það að við gleymdum okkur alveg og fylltum bátinn það vel að vél bátsins fylltist af sjó. Það hefði ver- ið gaman að vera með upptökuvél af því þegar við urðum að setja 600 kíló af fiski í lúkarinn til að komast að vélinni, það var bras en í gang fór vélin og við komumst heim ánægðir en þreyttir. Þau lífsgildi sem faðir minn kenndi mér og að maður ætti að koma fram við aðra eins og mað ur vildi að komið yrði fram við mann eru gulls ígildi og hafa reynst mér vel. Faðir minn stóð alltaf með mér hvort sem vel eða illa gekk í lífsins baráttu. Það að hafa hann hjá mér þegar ég missti minn besta vin og fé- laga hans í sjó- slysi var ómetanlegt og mikill styrkur fyrir mig og mína fjölskyldu. Faðir okkar reyndist okk- ur bræðrum sem klettur þegar móð- ir okkar lést 1999 og umvafði okkur hlýju og ást. Faðir minn var stór- menni í mínum huga en nú skilur leiðir og lífsins göngu með þér lýk- ur hér með, en í mínum huga ert þú alltaf hjá mér. Hvíldu í friði, minn ástkæri faðir. Ég votta Barböru, eiginkonu föður míns, innilega samúð og enn fremur systkinum föður míns. Guðjón Arn- ar Krist- j á n s s o n fæddist á Ísafirði 5. júlí 1944. Hann lést 17. mars 2018. Foreldrar hans voru Kristján Sigmundur Guðjónsson smiður, f. 17. nóvember 1911, d. 22. desember 1989, og kona hans Jóhanna Jakobsdóttir húsmóð- ir, f. 16. október 1913, d. 9. desember 1999. Systkini: Jóna Valgerður, Þrúð- ur, Fjóla, Laufey, Freyja, Matthildur, Jakob og Anna Karen. Guðjón Arnar giftist Björgu Hauksdóttur, f. 24. jan- úar 1941, d. 25. nóvember 1999. Þau skildu. Hinn 31. mars 1989 giftist hann Maríönnu Barböru Kristjánsson, f. 7. október 1960. Foreldrar henn- ar eru Theofil Kordek og kona hans Stanislawa Kordek. Dóttir Guðjóns og Ástu Ingimars- dóttur er Guðrún Ásta, f. 1963. Dóttir Guðjóns og Ingigerðar Frið- riks- dóttur er Ingibjörg Guðrún, f. 1966. Synir Guð- jóns og Bjargar eru Krist- ján Andri, f. 1967, Kolbeinn Már, f. 1971, og Arnar Bergur, f. 1979. Börn Guðjóns og Marí önnu (kjörbörn, börn Marí önnu) eru Margrét María, f. 1979, og Jerzy Brjánn, f. 1981. Guðjón á sautján barnabörn og fimm barna- barnabörn. Guðjón stundaði stýri- mannanám á Ísafirði 1964- 1965 og tók fiskimannapróf frá Stýrimanna- skólanum í Reykjavík 1966. Hann var há seti, matsveinn og vélstjóri frá 1959, stýrimaður 1965 og skipstjóri 1967- 1997. Hann var formaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Bylgjunnar 1975-1984 og forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 1983- 1999. Guðjón sat í Verðlagsráði sjávarút- vegsins, Starfsgreinaráði sjávarútvegs- ins, stjórn Fiskveiðasjóðs, skólanefnd Stýrimannaskólans, í stjórn Fiskifélags Íslands og stjórn Slysavarnaskóla sjó- manna. Þá var hann varafiskimála- stjóri og sat í stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands 1979- 1999 og stjórnarskrárnefnd 2005- 2007. Guðjón var varaþingmaður Vest- firðinga október 1991, desember 1991 til febrúar 1992, desember 1992 til mars 1993, apríl-maí 1993, marsapríl og október-nóvember 1994, júní 1995 (Sjálfstæðisflokkurinn). Hann var al- þingismaður Vestfirðinga 1999-2003 og alþingismaður Norðvesturkjör- dæmis 2003-2009 fyrir Frjálslynda flokkinn. Guðjón var formaður Frjáls- lynda flokksins 2003-2010 og formað- ur þingflokks Frjálslynda flokksins 1999-2004. Útför Guðjóns fór fram frá Hall- grímskirkju 5. apríl síðastliðinn að viðstöddu miklu fjölmenni. ----------- Guðjón Arnar Kristjánsson var lýðveldisbarn. Hann var með allra fyrstu Íslendingum sem fæddust eftir lýðveldisstofnunina á Þingvöllum. Ný- fengið sjálfstæði og fullveldi landsins mótuðu hann eins og fleiri af þeirri kynslóð. Guðjón Arnar leit á það sem hlutverk sitt og skyldu að vinna að framförum til lands og sjávar og horfa til heildarhagsmuna. Hin sjálfstæða þjóð var að sækja fram og vann að bættum lífskjörum með stórstígum hætti. Sjósóknin var lykillinn að efna- hagslegum framförum og hún byggð- ist á áræðni, dugnaði og útsjónarsemi sjómanna og skipstjórnenda. Guðjón Arnar var á þeim vettvangi fremstur meðal jafningja um áratugaskeið. Alinn upp í þjóðfélagi sem lifði af gæðum lands og sjávar og með ríka samfélagslega ábyrgð var það fyrir- sjáanlegt að Guðjón Arnar beitti sér einkum að sjávarútvegs- og byggða- málum við störf sín í stjórnmálum. Á Alþingi beitti hann sér ákveðið fyrir nauðsynlegum breytingum á sjávaútvegsmálum og lét valdamikla kvótahafa ekki segja sér fyrir verkum. Guðjón Arnar lagði í málflutningi sín- um margt gott til enda þekkti hann mál betur en flestir aðrir og hafði, þegar hann vildi svo við hafa, lag á að miðla málum og vinna að farsælli lausn deilumála. Við Guðjón áttum samleið í mörgum málum og samstarf okkar gekk vel um þau. Alþingiskosn- ingarnar 2007 voru eftirminnilegar fyrir margra hluta sakir. Á hátindi hagsveiflunnar reyndist þrátt fyrir allt vera mikill hljómgrunnur fyrir róttækum breytingum í sjávarútvegs- málum, nokkurs konar almannavæð- ingar auðlindarinnar. Það gerðu sér ekki allir grein fyrir þessum þjóðfé- lagsstraumum. Frjálslynda flokknum var ekki spáð góðu gengi en svo fór að annað kom á daginn og það sem meira var að tveir þingmenn náðu kjöri í Norðvesturkjördæmi. Mátti Guðjón Arnar Kristjánsson vel við una í sínu eigin kjördæmi. Síðasta þingmál sem við fluttum saman var þingsályktun um Dýrafjarðargöng. Var lagt til að jarðgöngin yrðu boðin strax út og vegagerð um Dynjandisheiði hæfist samhliða og yrði öllu verkinu lokið árið 2012. Tillöguflutningurinn hélt málinu á lofti og á síðasta ári hófust framkvæmdir. Guðjón Arnar get- ur verið sáttur við dagsverkið. Ég vil þakka honum fyrir samfylgdina og sendi aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur. Kristinn H. Gunnarsson Guðjón Arnar Kristjánsson Kristján andri Guðjónsson Jóna Valgerður Kristjánsdóttir Magnús reynir Guðmundsson

x

Vestfirðir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vestfirðir
https://timarit.is/publication/1082

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.