Feykir - 15.02.2023, Page 6
Rannsókn Lögreglustjórans á
Norðurlandi eystra á skotárás á
Blönduósi þann 21. ágúst
seinasta sumars er lokið og
kemur fram í tilkynningu frá
embættinu að rannsóknin hafi
leitt í ljós að árásarmaðurinn fór
inn um ólæstar dyr á heimili
árásarþola á Blönduósi og gekk
um vopnaður afsagaðri
haglabyssu, með sjö haglaskot
meðferðis.
Í tilkynningu lögreglunnar,
sem birt var á Facebooksíðu
embættisins, segir að árásar-
maðurinn hafi séð að gestir
voru á heimilinu, farið út úr
húsinu og húsráðandi haldið á
eftir honum. „Utandyra kom til
orðaskipta og átaka sem
enduðu með því að
árásarmaðurinn skaut hús-
ráðanda í kvið og særði
alvarlega. Árásarmaðurinn fór
þá aftur inn í húsið og skaut
eiginkonu húsráðanda í höfuð
þar sem hún stóð í stofu og lést
hún samstundis.
Rannsókn hefur leitt í ljós
að húsráðandi náði tökum á
árásarmanninum þar sem hann
var að hlaða vopnið inni í
húsinu. Sonur húsráðanda kom
til aðstoðar og náði byssunni af
árásarmanninum. Kom til
mikilla átaka á milli sonarins
og árásarmannsins en í ljós
kom að árásarmaðurinn var
með veiðihníf í vasa. Átökin
enduðu á þann veg að
árásarmaðurinn lét lífið.
Réttarkrufning hefur leitt í ljós
að dánarorsök var köfnun
vegna þrýstings á háls og brjóst.
Staðreynt hefur verið að
sonurinn hringdi fyrsta símtal
til neyðarlínu og óskaði eftir
aðstoð lögreglu vegna
byssumanns inni í húsinu kl.
05.27. Lögregla á bakvakt í
umdæminu var ræst út sjö og
hálfri mínútu síðar. Lögregla
var komin á vettvang kl. 05.53
eða 26 mínútum frá fyrstu
aðstoðarbeiðni.
Rannsókn hefur ekki leitt í
ljós að eitthvert eitt ákveðið
atvik hafi orðið til þess að
árásarmaðurinn mætti
vopnaður á heimili árásarþola.
Hann var einn að verki,
allsgáður og hafði átt vinsamleg
og virk samskipti við árásarþola
fyrir árásina.
Tilkynnt var um ferðir
árásarmannsins við heimili
árásarþola og nágrenni þann
27.07.2022 þar sem hann hafði
verið með haglabyssu í fórum
sínum. Árásarmaðurinn af-
henti lögreglu þau skotvopn
sem voru skráð á hann og
leitaði aðstoðar heilbrigðis-
kerfis. Rannsókn hefur leitt í
ljós að hann var kominn aftur á
Blönduós 12.08.2022. Við
rannsókn á skotárásinni kom í
ljós að árásarmaðurinn hafði
tvisvar sinnum verið í garði við
hús árásarþola í júlí og tekið
upp myndbönd inn um glugga
á húsinu á síma sinn.
Rannsóknin á skotvopninu
hefur leitt í ljós að haglabyssan
var skráð í eigu fyrirtækis sem
seldi skotvopn og varð gjald-
þrota árið 2008. Þrjár
haglabyssur voru enn skráðar á
fyrirtækið; byssan sem
árásarmaðurinn notaði, byssa
sem var í fórum óviðkomandi
einstaklings og þriðja byssan
Maveric M-88 haglabyssa sem
er ófundin.“
Málið var afhent embætti
héraðssaksóknara til ákvörð-
unar í gær og segir ennfremur í
tilkynningu lögreglunnar að
lögreglustjórinn á Norðurlandi
eystra veiti ekki frekari
upplýsingar um málið.
Blönduós
Rannsókn lokið á skotárás á Blöndu-
ósi og málið sent til héraðssaksóknara
Tilnefningar til Viðurkenningar
Hagþenkis voru kynntar
miðvikudaginn 8. febrúar í
Borgarbókasafni Reykjavíkur í
Grófinni, af formanni Hag-
þenkis, Gunnari Þór Bjarnasyni.
Hjalti Pálsson, Byggðasöguritari
á Sauðárkróki, er í hópi tíu
útvalinna að þessu sinni.
Einu sinni áður hefur eitt
bindi Byggðasögunnar verið
tilnefnt og segir Hjalti að
hann hafi ekkert átt von á
þessu núna. Hins vegar er
verið að tilnefna allt verkið að
þessu sinni en tilnefningar
séu reyndar miðaðar við
bækur sem komu út á síðasta
ári en síðasta bindi Byggða-
sögunnar kom út 2021. „Þau
kusu samt sem áður að gera
þetta svona og þá bara allt
verkið,“ útskýrir Hjalti. „Þetta
er auðvitað viðurkenning á
því sem við erum að gera hér í
Skagafirði. Svo verður það
bara að koma í ljós hver
niðurstaðan verður. Það eru
fleiri góðir í þessu og með
góðar bækur. Það er bara einn
sem fær verðlaun,“ segir
Hjalti og bætir við: „Þetta er
mikil viðurkenning á því sem
við erum að gera. Þetta hefur
verið mikið þolinmæðisverk.“
Á heimasíðu Hagþenkis eru
tilnefndir höfundar og rit
kynnt til leiks. Þau eru:
Anna María Bogadóttir.
Jarðsetning. Angústúra.
Persónulegt og vekjandi rit
um manngerð rými sem
hvetur til yfirvegunar um
uppbyggingu og niðurbrot.
Ásdís Ólafsdóttir og Ólafur
Kvaran.
Abstrakt geómetría á Íslandi
1950–1960. Veröld.
Vandað og fallegt rit um
byltingaráratug í íslenskri
myndlist. Ítarleg umfjöllun
um tímabilið með myndum
af einstökum verkum lista-
manna.
Ástríður Stefánsdóttir,
Guðrún V. Stefánsdóttir og
Kristín Björnsdóttir (ritstj.).
Aðstæðubundið sjálfræði. Líf
og aðstæður fólks með
þroskahömlun. Háskóla-
útgáfan.
Hagnýtt fræðirit um þann
einfalda en oft hunsaða
sannleik að allir þjóð-
félagsþegnar eigi að njóta
grundvallarmannréttinda.
Tímamótaverk.
Daníel Bergmann. Fálkinn.
Anda.
Falleg og vönduð bók sem
gefur góða innsýn í
lifnaðarhætti fálkans og náið
samband hans við íslensku
rjúpuna, prýdd einstæðum
ljósmyndum.
Helgi Þorláksson.
Á sögustöðum. Bessastaðir,
Skálholt, Oddi, Reykholt,
Hólar, Þingvellir. Vaka-
Helgafell.
Mikilvæg bók sem teflir
niðurstöðum nýlegra rann-
sókna fram gegn hefð-
bundinni sýn á sögustaði.
Hjalti Pálsson. Byggðasaga
Skagafjarðar. I.¬–X. bindi.
Sögufélag Skagfirðinga.
Yfirgripsmikið fjölbindaverk,
skrifað af þekkingu og stutt
margvíslegum heimildum
ásamt fjölda ljósmynda.
Kristín Svava Tómasdóttir.
Farsótt. Hundrað ár í
Þingholtsstræti 25. Sögufélag.
Saga Farsóttarhússins myndar
ramma utan um óvæntar
frásagnir og sjónarhorn sem
skerpt er á með vönduðu
myndefni.
Ragnar Stefánsson. Hvenær
kemur sá stóri? Að spá fyrir
um jarðskjálfta. Skrudda.
Vandað fræðirit um
jarðhræringar á Íslandi stutt
viðamiklum mæligögnum og
frábærum skýringarmyndum
og kortum.
Stefán Ólafsson. Baráttan
um bjargirnar. Stjórnmál og
stéttabarátta í mótun íslensks
samfélags. Háskólaútgáfan.
Víðtæk og vel skrifuð
þjóðfélagsfræðileg greining á
þróun lífskjara og
samfélagsgerðar á Íslandi.
Þorsteinn Gunnarsson.
Nesstofa við Seltjörn. Saga
hússins, endurreisn og
byggingarlist. Þjóðminjasafn
Íslands.
Ítarlegt yfirlitsrit þar sem
lesendur fá glögga innsýn í
aldarfar og atburði í kaupbæti
með sögu Nesstofu fyrr og nú.
Ritin verða kynnt af
höfundum í Borgarbóka-
safninu í Grófinni laugar-
daginn 25. febrúar kl. 13-15
en Viðurkenning Hagþenkis
verður veitt við hátíðlega
athöfn um miðjan mars og
felst hún í sérstöku viður-
kenningarskjali og 1.250.000
kr. verðlaunafé.
Viðurkenningarráð Hag-
þenkis er skipað fimm félags-
mönnum til tveggja ára í senn
og í því eru: Ársæll Már
Arnarson, Halldóra Kristins-
dóttir, Sigurður Sveinn
Snorrason, Sússana Margrét
Gestsdóttir og Svanhildur
Óskarsdóttir. Verkefnastjóri
er Friðbjörg Ingimarsdóttir
framkvæmdastýra Hag-
þenkis.
Hagþenkir er félag
höfunda fræðirita og kennslu-
gagna en markmið þess er að
gæta hagsmuna og réttar
félagsmanna og bæta skilyrði
til samninga og útgáfu
fræðirita og kennslugagna og
skylds efnis sem félagsmenn
vinna að. /PF
Viðurkenningar Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2022
Byggðasaga Skagafjarðar tilnefnd
Hjalti Pálsson, 3. frá hægri, í góðum hópi tilnefndra til Viðurkenningar Hagþenkis
2022. MYND AF HAGTHENKIR.IS.
6 07/2023