Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar - 01.11.2021, Qupperneq 8
Í fátækrahverfum í Kampala, höfuðborg Úganda,
vinnur Hjálparstarf kirkjunnar með UYDEL
(Ugandan Youth Development Link) að vald-
eflingarverkefni í þágu barna og ungmenna á
aldrinum 13–24 ára.
UYDEL eru virt samtök í Úganda sem hafa áratuga
reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækra-
hverfunum og eru leiðandi í málsvarastarfi fyrir
börn og unglinga.
UYDEL aðstoðar unglingana sem ljúka ársnámi í
smiðjum samtakanna við að komast á starfs-
nemasamning hjá fyrirtækjum í Kampala og í
framhaldinu að fá þar vinnu.
Einn þáttur í náminu hjá UYDEL er verslunarfræði
en mörg þeirra sem ekki fá starf hjá fyrirtæki eftir
námið opna eigin búðarbás og selja til dæmis flíkur
sem þau hafa saumað eða prjónað eða reka við-
gerðarþjónustu.
UYDEL leggur sérstaka áherslu á að ná til stúlkna,
ungra kvenna og einstaklinga með fötlun en ár
hvert útskrifast fleiri en 500 ungmenni úr þremur
smiðjum samtakanna.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á starfið í
smiðjunum en með útsjónarsemi hefir starfsfólki
UYDEL tekist að veita fulla þjónustu um leið og
varúðar hefur verið gætt.
Hadijah Nagawa er 19 ára gömul
stúlka sem býr með mömmu sinni og
sjö yngri systkinum í einu af fátækra-
hverfunum í Kampala. Hún varð að
hætta námi eftir grunnskóla þar sem
skólagjöldin í framhaldsskólanum
reyndust of mikil fjárhagsleg byrði
fyrir mömmu hennar.
Hadijah átti erfitt með að finna vinnu
og hennar beið því fátt annað en að
giftast og eignast börn. Vinkona
hennar sem sjálf stundaði verknám í
smiðju UYDEL benti Hadijah hins
vegar á að tala við félagsráðgjafa þar. Í
framhaldinu var henni svo boðið að
koma í smiðjuna og velja sér þar iðn-
grein til að sérhæfa sig í, auk þess sem
hún lærði verslunarfræði og fékk
fræðslu um kynheilbrigði og rétt sinn
til heilbrigðisþjónustu.
Hadijah valdi að læra vélprjón og að
loknu ársnámi í smiðjunni fékk hún
prjónavél í útskriftargjöf. Nú hefur
hún komið sér upp sölubás þar sem
hún býður fólki að prjóna á það flík
eftir máli. Með vinnu sinni er hún
ekki aðeins fær um að sjá fyrir helstu
nauðsynjum fyrir sig, mömmu sína og
yngri systkin heldur nær hún að leggja
til hliðar og safna fyrir því að stækka
básinn sinn.
KRAKKARNIR Í KAMPALA FÁ
TÆKIFÆRI TIL AÐ LIFA MEÐ REISN
Markmiðið er að unga fólkið öðlist verkkunnáttu
sem eykur atvinnumöguleika þess.
Einnig að unglingarnir taki þátt í uppbyggilegum
tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfs-
myndina og að þeir séu upplýstir um kynheilbrigði
og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu.
Með fræðslu og valdeflingu má koma í veg fyrir að
barnungar stúlkur verði þungaðar, hefta útbreiðslu
HIV/alnæmis og kynsjúkdóma ásamt því að vinna
gegn kynbundnu ofbeldi.
SAGAN HENNAR
HADIJAH NAGAWA
Hér læra stelpurnar að baka nokkurs konar kleinur en eftir ársnám, t.d. í að þjóna, baka og elda einfalda
rétti, fá mörg þeirra sem koma í smiðjurnar vinnu á hóteli eða á veitingahúsi.
Anna segir að íþróttaiðkun í smiðjunum hafi margvísleg jákvæð áhrif á unglingana. Krakkarnir þurfi að
einbeita sér, gleymi erfiðum aðstæðum um stund og losi þannig um streitu. Á íþróttaæfingum gefist líka
tækifæri til að tala um neikvæðar afleiðingar fíkniefnaneyslu og um kynheilbrigði.
Vorið 2019 sýndi Anna Kawuma forstöðukona hjá UYDEL Bjarna Gíslasyni framkvæmdastjóra
Hjálparstarfs kirkjunnar aðstæður í smiðjunum og í fátækrahverfunum þar sem unglingarnir
búa við skelfilegar aðstæður.
8 – Margt smátt ...