Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar - 01.11.2021, Page 10

Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar - 01.11.2021, Page 10
JANE LÉST ÚR ALNÆMI ÁRIÐ 2019 EN BÖRNIN HENNAR SPJARA SIG NÚ VEL Hjálparstarf kirkjunnar og grasrótarsamtökin RACOBAO hafa aðstoðað HIV-smitaða, alnæmissjúka og munaðarlaus börn í héruðunum Rakai og Lyantonde í Úganda frá árinu 2007. Skjólstæðingar verkefnisins eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein en líka HIV-smitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við örbirgð. Árið 2018 sagði fólkið í þorpsráðinu í Rakai-héraði að Jane, 42 ára gömul ekkja og fjögurra barna móðir, væri sú sem helst þyrfti þar á aðstoð að halda. Húsakofi hennar og barnanna var þá að hruni kominn og hún mjög lasburða vegna alnæmis. Enga átti fjölskyldan innanstokksmuni og enginn til að sjá henni farborða nema þá helst 15 ára unglingspilturinn. Hjálparstarf kirkjunnar og RACOBAO réðu því verktaka sem reisti fjölskyldunni múrsteinshús, 4000 lítra vatnstank, kamar og eldaskála á landskika hennar. Jane var orðin mjög lasburða um það leyti sem húsið var að verða tilbúið og um vor 2019 hjálpaði starfsfólk RACOBAO henni á næsta sjúkrahús þar sem hún fékk lyfjameðferð. Jane fékk að snúa aftur heim og hún var vongóð um að ná heilsu. Viku seinna lést hún hins vegar heima í kofaskriflinu á örþunnri tágarmottu. Alnæmið hafði betur og börn Jane stóðu ein eftir, 18, 15, 12 og 10 ára gömul. Hjálparstarf kirkjunnar og RACOBAO sá börnunum fyrir geitum, verkfærum og útsæði til grænmetisræktunar til þess að tryggja þeim fæðu og til þess að þau hefðu möguleika á að afla sér tekna þannig að yngri systurnar tvær gætu haldið áfram í skóla. Nú tveimur árum seinna eru börnin komin á betri stað í lífinu og þau eldri geta séð þeim yngri farborða. „Áður en við fengum hjálp var lífið bara mjög erfitt en núna getum við séð fyrir okkur sjálf. Við eigum landskika þar sem við ræktum banana, baunir, maís og kassavarót sem við borðum en við eigum líka nóg eftir til að selja á markaðinum,“ sagði Allen, elst fjögurra systkina og sem nú er tvítug að aldri. Hér standa systkinin fjögur í hriplekum kofa fjölskyldunnar viku eftir andlát Jane vorið 2019. Börnin fengu rúm, dýnur, teppi og moskítónet þegar þau fluttu inn í nýja húsið. Systurnar þrjár fyrir utan húsið í nóvember 2021. Ef grannt er gáð sést að önnur yngri systirin er í sama bol og sú elsta var í á mynd sem tekin var um vor 2019. Jane náði aldrei að flytja í múrsteinshúsið en það gerðu börnin hennar hins vegar. 10 – Margt smátt ...

x

Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Margt smátt : fréttabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar
https://timarit.is/publication/1939

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.