Margt smátt - 01.08.2024, Síða 11
11
Takele Melesse og eiginkona hans Tiruset bjuggu ásamt þremur börnum sínum, þeim
Yitayish sem er tvítug, dótturinni Rediet sem er sex ára og Tamirat 11 ára gutta, í Adami
Tulu, litlum bæ í Oromia fylki, 168 kílómetrum suður frá Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu.
Fjölskyldan lifði einföldu lífi og hafði nautgriparækt sem lífsviðurværi en höfðu sem aukagetu
tekjur af bjór og víni sem Tiruset bruggaði og seldi. En þeirra einfalda og hamingjuríka líf breyttist
eina örlagaríka nótt þegar kveikt var í húsinu þeirra á meðan þau sváfu.
„Þetta var martröð. Allir öskruðu af hræðslu og börnin grétu
skelfingu lostin. Dýrin okkar voru líka inni. Það er erfitt að
rifja þetta upp – og erfitt til að tala um“, segir Takele spurður
um atburði hinnar örlagaríku nætur fyrir nokkrum árum
síðan. Hann bætir við að börnin hafi aldrei náð sér að fullu
eftir atburðina. Sonur hans Tamerat vaknar ennþá um
nætur grátandi og kallar eftir hjálp.
Enginn veit til þessa dags hver framdi ódæðið en á stóru
svæði í Eþíópíu, þar á meðal á því svæði sem var heimili
þeirra, hefur geysað miskunnarlaust stríð þar sem engin
skýr víglína er dregin. Ættflokkaerjur í bland við stríð heilla
landsvæða og ríkishersins hafa víða í Eþíópíu, og þar á
meðal á starfssvæðum Hjálparstarfsins, oft gert daglegt líf
almennra borgara svo gott sem óbærilegt.
Sárnar mest að sjá börnin þjást
Það má líkja því við kraftaverk að Takele og fjölskylda hans
hafi lifað árásina af, en eftir að hafa misst heimili sitt, bústofn
og aðrar eigur, voru þau nauðbeygð til að flýja til Debre
Berhane, borgar miðsvæðis í Eþíópíu í Amhara fylki um 120
kílómetra norðvestur af höfuðborginni Addis Ababa. Þar
er sæmilega friðsælt en fjölskyldan kom þangað allslaus
að kalla. Lengi eftir komuna þangað þurfti fjölskyldan að
reiða sig á matar- og fatagjafir frá vandalausum. Takele
hefur reynt allt sem í hans valdi stendur til að fá vinnu.
Allar hans tilraunir hafa reynst árangurslausar og því hafa þau
alfarið þurft að treysta á neyðaraðstoð til að draga fram lífið.
„Ég reyndi að finna vinnu til að framfleyta fjölskyldunni
og ekki síst til að borga leigu. Það hefur reynst afar erfitt
þar sem leiguverð hækkar stöðugt vegna þess hversu
margir í sömu stöðu og við hafa komið til bæjarins. Við
höfum ítrekað misst okkar húsnæði þar sem við höfum
ekki getað mætt hækkandi leiguverði. Undanfarin
misseri hafa á hverjum tíma rúmlega 30.000 manns verið
skráðir flóttamenn í borginni. Eina sem ég hafði efni á var
kofi í úthverfi þar sem við höfum engað aðgang að vatni,
salerni eða öðrum nauðsynjum,“ segir Takele.
„Mér sárnar þó mest að börnin mín þjást og komast ekki
í skóla eða til læknis vegna minnar stöðu,“ bætir hann við
og tiltekur að kaup á nauðsynlegum skólagögnum hafi
einfaldlega þurft að víkja þar sem leiga og matarkaup
gangi fyrir. Draumur fjölskyldunnar til lengri tíma litið
er að fá aðstoð við að stofna lítið fyrirtæki sem gæfi
nægilega mikið af sér til að lifa áhyggjulausu lífi.
„Ég gæti þá séð fyrir okkur og konan mín gæti byrjað
aftur að búa til drykki og selja þá. Þannig getum við raðað
saman brotunum í lífi okkar og verið áhyggjulaus,“ segir
Takele að lokum.
Takele og Tiruset þurftu að flýja heimili sitt ásamt börnunum þremur; dætrunum Yitayish sem er tvítug
og Rediet sem er sex ára auk Tamirat, ellefu ára gömlum gutta.