Lesbók Morgunblaðsins - 24.11.1984, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 24.11.1984, Blaðsíða 11
fjöllin ægt Matthíasi í bernsku: „Oftlega hvarf ég ang- urvær eða grátandi heim, en gat ekki sagt, hvað að mér gengi. Orsökin var, þótt ég þyrði ekki að segja það, beygur minn við kvöldmyrkrið eða — fjöllin; þau hræddist ég lengi, ef ég þurfti að fara einsamall eittj hvað til fjalls, þaðan sem ný og fáránleg fjöll sáust.“ Þessar ógnþrungnu endurminningar urðu eins og fjar- lægur bakgrunnur þeirrar háfjallatignar og þeirra öræfatöfra, sem heillað höfðu Matthías sumarið áður en hann samdi Útilegumennina, en hann hafði þá ferðazt yfir þvert ísland sem túlkur tveggja kvekara. Hann skrifar Steingrími af því 27. sept. 1871 á þessa leið: „Við höfum átt dýrðlegt sumar, og var hin bezta skemmtun að ríða um land vort í heiðbjörtu blíðviðri sumarsæl- unnar og dufla við landvættirnar í fellum, fjalldölum, fossum, hólum, gljúfrum, grásteinum, giljum, hellum, heiðum, hraundröngum og hvitum jöklum, gömlum, ginnhelgum, geislafáðum." FÁTT UM ÍSLENZKAR FYRIRMYNDIR Eftir sumarferðirnar er Matthías því hugfanginn af styrk og stórfengleik óspilltrar öræfanáttúru sem and- stæðu doðadaufra og lágkúrulegra byggðarlaga — og bjarma fortíðardáða ber yfir hversdagsskímu samtím- ans. Jarðvegurinn var undirbúinn fyrir útilegumanna- leikinn, sem látinn var gerast hálfri þriðju öld aftur í tímanum: Þú ein bauðst mér trú og tryggð, tröllum helga fjallabyggð; dugur, þrek og dirfska mín drjúgum óx við brjóstin þín. Niðri í sveitum kúrir köld kveifarskapar horuð öld, og frjálsra manna haugum hjá hunda-þúfum sefur á. Þetta jólaleyfis-skyndiverk Matthíasar skólapilts er merkur áfangi í sögu íslenzkrar leikritunar. Þar var fátt á undan gengið og næsta fátæklegt. Elzta frum- samda leikritið íslenzka, Sperðill Snorra prests og rímnaskálds Björnssonar á Húsafelli, er að líkindum samið því sem næst öld fyrr en Útilegumennirnir, vafa- laust vegna kynna Snorra af skólapiltagleði í Skálholti (svonefndu herranæturhaldi). í Sperðli eru aðalpersón- urnar staðfestulausir menn eins og hér, þó annars kon- ar útlagar þjóðfélagsins, sem sé flökkumenn, og þar er uppflosnaður háskólaborgari, sem liggur ekki á mála- kunnáttu sinni fremur en stúdentarnir í Útilegumönn- unum (einkum í elztu myndunum). En Sperðill var gerð- ur í skop- og ádeiluskyni, óvíst, hvort leikinn hefur verið (þótt líklegt sé og þá sennilega úti), og vafalitið hefur Matthías ekkert til hans þekkt. Hið eina, sem prentað hafði verið af þessu tagi frumsamið, voru leik- rit séra Geirs Vídalíns, síðar biskups, og Sigurðar sýslu- manns Péturssonar, sem leikin höfðu verið við skóla- gleði í Reykjavík tæpum þremur aldarfjórðungum áður en Útilegumennirnir voru samdir, eða á síðasta tug 18. aldar — oj$ svo samtal eitt og leikritsmynd eftir Magnús Grímsson. — En allar voru leiksmíðar þessar bæði að innviðum og umfangi lítils háttar hjá leikriti Matthías- ar. Það var fjölbreytilegra, auðugra, bæði að persónum, efni og leiksviðum. Hér eru í fyrsta sinn bæði inni- og útisvið — og þeim rudd brautin allt til öræfa, þar sem íslenzkar leikbókmenntir áttu síðar eftir að finna sér stað í reisn sinni til mestrar tignar. Og Útilegumenn- irnir voru leiksviðshæfastir, mesti sjónleikur, sem þá hafði verið gerður á íslenzku, enda kom fyrst fram með þeim hérlendis viðhlítandi leiksviðsbúnaður. Þeir eru einnig elzta íslenzkt leikrit, sem enn er lifandi bók- menntir og lifandi leikhússefni. Ljóst er af því, sem að framan segir, að íslenzk leik- ritagerð er vaxin upp í skjóli skólapiltagleði, sem var henni enn athvarf um hríð. En áður höfðu piltar aflað leikrita hjá utanskólamönnum, séra Geir og Sigurði sýslumanni. Nú rís upp leikritaskáld úr þeirra eigin hópi, og í kjölfar hans sigldu ýmsir skólasveinar (svo Úr sýningu Þjóðleikhússins 1952: Bessi Bjarnason sem Grendur smali, Valdemar Helgason sem Jón sterki og Haraldur Björnsson sem Sigurður bóndi í Dal. sem Valdimar Briem, Kristján Jónsson, Jón Ólafsson og þó einkum Indriði Einarsson). „Vart bílæti að fá“ Matthías breytti leik sínum oft og allmikið, þótt frumkjarninn stæði lítt skertur, fátt væri fellt niður; en ýmsu var hnikað til og nokkru aukið við. Er leikritið var prentað 1864, var það þegar öðruvísi í sniðum en verið hafði á frumsýningunni tveimur árum áður, ekki var aðeins endursamið atriðið eftir Sigurð málara, sem fyrr getur, heldur voru nú m.a. þættirnir fimm, sem upphaf- lega voru fjórir. Síðan hélzt þáttafjöldinn samur, þótt röðin breyttist enn og fjölgað væri sviðskiptum. Þriðja afbrigðið var fyrst leikið í janúar 1873, er presta- og læknastúdentar stóðu fyrir „sýnileikjum" í Glasgow (stórhýsi við Vesturgötu 5A, sem brann 1903). í Þjóðólfi segir, að Sigurður málari hafi þá gert ný leiktjöld að Útilegumönnunum. „Kvað skáldið hafa enn breytt þeim að mun frá því, sem var.“ „Hefur jafnan verið mestur ákafinn í þann leikinn, þó að öll 7 fyrstu kvöldin héti vart neitt bílæti að fá eftir kl. 1 % samdægurs." „Hvert sæti k<j§tar 3 mörk; fyrir börn og standandi menn 2 mörk.“ Pjórðu og síðustu mynd sína mun leikurinn hafa fengið nær 20 árum seinna, er Matthías skrifar frá Akureyri sumarið 1892: „Prentsmiðjan hér er ónýt og forleggjari enginn til. Nýja Útilegumenn, nokkra fyrir- lestra, nýtt hefti af kveðlingum og Brand, Vesturfarar^ o.fl. hef ég allt í skúffunni, en fæ ekkert út gefið.“ Leikurinn var ekki prentaður aftur fyrr en 1898 („önnur prentun, breytt og löguð"), þá með aðalheitinu Skugga- Sveinn, en svo hafði hann lengi verið nefndur manna á meðal. „Með Glímuskjálfta Og Berserksgang í KÖSTUNUM“ Tvímælalaust er það rétt, að Matthías er og verður merkastur sem ljóðskáld og þýðandi. Einnig er það Jón Aðils í hlutverki Skugga-Sreins í sýningu Þjóðleikhúss- ins 1952. Þarna er hann með hinn hefðbundna atgeir, sem < Sigurjón befur nú gert breytingu á. \ ! i mála sannast, að hann skorti margt til þess að geta orðið mikils háttar leikritaskáld; skipulagsgáfu og sam- < kvæmni, sjón á hið einstaka og smáa, hóf á mælsku sinni og þolinmæði til yfirlegunatni. Það er til að mynda ósköp auðgert að fetta fingur út í sitt hvað I varðandi byggingu, efnisatriði, persónugerðir og stíl Skugga-Sveins — að ég nú ekki tali um þá, sem leita í j honum þess, sem þar átti aldrei að vera, djúpsettrar speki eða háfleygs skáldskapar. En hvað svo sem lær- • dómsmenn á bókmenntir eða fagurfræði kunna að segja, stendur sú staðreynd óhögguð, að hvorki hafa agnúar Skugga-Sveins né hrakspár manna orðið honum að fjörlesti. Og er það ekki ofmælt, að höfundi hans hafi Jóii Sigurbjörnsson í hlutverki Skugga-Sveins í uppfærslu Þjóðleikhússins 1961. „Ég bjó til eða sullaði eða skrúfaði saman leikriti í jóla- fríinu. Það heitir Útilegu- mennirnir og er í 4 þáttum með ljóðmælarusli hér og þar. Mér leiddist þessi danska „komindía", sem griðkonur hérna segja, og tók mig því til, og þó þetta rit mitt í raun og veru sé ómerkilegt, gjörði það þó hvínandi lukku; ég var æpt- ur fram á scenuna, og klapp- aði pöpullinn yfir mér, svo ég varð áttavilltur. Matthlas Jochumsson I bréfí til Steingrims Thorsteinssonar 17. marz 1862. verið varnað þess að vera leikskáld? Skugga-Sveinn er þó að komast á tíðræðisaldurinn, jafnkeikur sem í fyrstu. Sjálfur segir Matthías einmitt í skemmtilegri og skynsamlegri grein um Skjaldvöru tröllkonu og Skugga-Svein: „En hverjir leikir lifa lengst (að öðru jöfnu)? Það mundu vera þeir leikir, sem fjörugastir eru, ekki öfgaminnstir, ekki hughægir um of og ekki um of strangir við aumingja „heiminn", heldur andríkir allt að tryllingi og með glímuskjálfta og berserksgang í köstunum, en allt samið og tekið með þeirri náttúrulist, sem verður líf og virkileikur. Það eitt er góð list, sem lætur menn, sem rétt mál eða mynd skilja, heyra sjálfs sins hjarta slá; hvað sem öfgum líður.“ „Við alþýðuleiki er eina ráðið að lofa alþýðu að ráða, en ekki konstdóm- urum, sýna þá samvizkusamlega — og láta þá svo vesj^ ast upp, þegar þeir kussar launa ekki lengur eldið.“ Sízt verður sagt með sanni, að Útilegumennirnir hafi átt við vaneldi að búa hjá íslendingum. Þjóðin hefur tekið slíku ástfóstri við þetta fyrsta þjóðsögukennda leikrit sitt, að orðið hefur eftirlætisgoð hennar, eins konar þjóðleikur íslendinga. Þar brutust fram fyrstu fjörtök nýs skálds, sem átti tilfinningalíf sitt óbælt, bjó yfir ódoðnuðum áhrifum frá samvitund sinni við ís- lenzka háfjalladýrð — og samdi leikinn í nánu sam- starfi við leiksviðs- og leiklistarmanninn og í lifandi sambandi við sýningarflokkinn, en bar ekki á torg sam- anbarinn, skrifborðsframleiddan iðnvarning. í hrjúfum einfaldleik og ójafnvægiskenndum átökum leiksins LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 24. NÓVEMBER 1984 11

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.