Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.1991, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 26.01.1991, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 26. JANÚAR 1991 L sköpin. í ævisögu sinni, sem kom út árið 1953, segir hún kaldhæðnislega frá því að þannig hafi hún misst meydóm sinn. Frida varð upp frá því bundin við rúm eða hjóla- stól og það er með þessum mikla persónu- harmleik sem listferill hennar hefst. Fyrir slysið hafði hún sótt teiknitíma í fáeina mánuði og það er á þeirri reynslu sem fer- ill hennar hefst. Frida var sjálflærður mynd- listarmaður sem hafði þá gæfu til að bera að *hún gat bætt sér upp vankunnáttu og menntunarleysi í myndlist með fijóu ímynd- unarafli og sterkum sköpunarkrafti. Helstu áhrifavaldar i list Fridu voru mex- íkósk alþýðulist frá 19. öld og evrópsku málararnir Bosch og Brueghel. Sjálfskrufning Slysið og afleiðingar þess gáfu Fridu til- efni til að mála. Sársauka sinn. Á sama tíma hófst hrörnun líkama hennar. Upp frá því fann Frida fyrir stöðugum sársauka í baki og hægra fæti og gekk undir um 35 upp- skurði á rúmum þijátíu árum. Segja má að listin hafi nærst á þjáningu hennar: upp- skurðum og kvölum sem gerðu það að verk- um að hún varð háð deyfilyfjum og síðar áfengi, löngum sjúkrahúsdvölum og ekki síst vitneskjunni um að það var óhugsandi að hún gæti nokkurn tíma lifað heilbrigðu og eðlilegu lífi. Frida málaði fyrstu sjálfsmyndina rúm- liggjandi nokkrum mánuðum eftir slysið og varð upp frá því helsta viðfangsefnið í mynd- um sínum. Hún málaði tugi sjálfsmynda sem eru litlar, raunsæar og vandvirknisíega unn- ar, líkt og handmálaðar ljósmyndir. Andlit sitt málaði hún af mikilli ástríðu, líkt og um endurtekna trúarlega athöfn væri að ræða, alveg þar til hún lést árið 1954, 47 ára gömul. Hún fékk vini sína til að taka af sér ljósmyndir vegna þess að hún gat ekki gert það sjálf og ljósmyndirnar eru í raun eins og sjálfsmyndir hennar. Þannig fær hún ljósmyndavélina til að sjá hana, eins og hún sér sjálfa sig. Eins og hún lætur okkur sjá það sem hún sér, þegar hún málar. Útlit hennar var afar sérstakt, hár hennar var svart og sítt og hún skreytti það gjarnan að hætti mexíkóskra kvenna með blómum og borðum. í verkum hennar bar hárið táknrænan boðskap. Jafnvel þar sýndi hún þjáningu sína með því að strekkja hár sitt svo fast aftur að áhorfandinn skynjar strax sársaukann. (Sjá mynd nr. 4.) Augnabrúnir hennar voru samvaxnar og minntu á fljúgandi leðurblöku og á efri vör hennar óx léttur hýjungur. Hún klæddist íburðarmiklum og litríkum mexíkóskum þjóðbúningum, síðum og efnismiklum pils- um til að fela fötlun sína. Hún bar glæsi- lega og áberandi skartgripi marga hringi á öllum fingrum. Hún fékk alla þá athygli sem hún virtist svo augljósiega biðja um. Þegar hún heimsótti New York voru börnin á göt- unni vön að elta hana og kalla: Halló, hvar er hringleikahúsið? Frida notar málverk sitt til sjálfskönnun- ar þar sem hún málar sársauka sinn og þjáningu á öllum stigum í ýmsum blæbrigð- um. Stundum andstæðum, frá grófu og nöktu afdráttarleysi yfir í djúpa ljóðræna mildi, sem minnir á stund milli stríða þegar sársaukinn hættir að vera nístandi eða æpandi. Þegar Fridu tekst best upp breytir hún þjáningu sinni í kraftmikinn óð til lífsins. í sterkustu myndunum beitir hún eins konar sálfræðilegum skurðlækningum þar sem hún sundurlimar líkama sinn, stað- setur hjartað fyrir utan og dregur æðakerf- ið umhverfis hann líkt og limgerði. Rivera Árið 1927 gerðist Frida félagi í kommún- istaflokki Mexíkó og þar kynntist hún Diego Rivera (1886-1957) einum frægasta mynd- listarmanni Mexíkó sem hún hafði lengi dáð. Þau giftust árið 1929. Hann var einn atkvæðamesti listamaðurinn í hinni miklu byltingu sem átti sér stað í 20. aldar mynd- list í Mexíkó og sá sem átti stærstan þátt í að skapa hið nýja mexíkóska veggmálverk sem endurspeglaði sjálfsímynd mexíkósku þjóðarinnar. Rivera var mikill heimsmaður sem dvaldi langdvölum í Evrópu, bjó í Madrid og í París þar sem hann kynntist helstu framúrstefnulistamönnum þeirra tíma, meðal annars kúbistunum. Þegar heim kom fór hann að sækja myndefni sitt í líf indíána, frúmbyggja Mexíkó, öll þjóðin fylgdist með stormasömu hjónabandi þeirra eða hjónaböndum þar sem þau giftust hvort öðru tvisvar. Eftir skilnað þeirra árið 1940, sem aðeins stóð í eitt ár, málar Frida sjálfa sig. Hún situr á stól með drengjakoll og skæri í hönd- um en þykkt og svart hár hennar liggur í flyksum á henni og umhverfis hana. Þegar Frida og eiginmaður hennar, listmálarinn Diego Rivera. Frida málar rúmliggjandi á sjúkrahúsi árið 1950. þau giftast á ný verður hárið aftur svart og mikið. Lífið Er Draumur Þegar páfi súrrealista, André Breton, kom til Mexíkó og kynntist Fridu og verkum hennar, gáf hann út þá yfirlýsingu að hún væri drottning súrrealistanna og list hennar væri „sem silkiiindi utan um sprengju". En Frida sór af sér öll tengsl við þá stefnu og sagðist ekki mála drauma sína, aðeins eigin raunveruleika. „Mér finnst,“ skrifar hún í bréfi, „súrrealisminn vera úrkynjuð bylting á borgaralegri list, ekki sú list sem_ fólkið vonast til að fá frá listamanninum. Ég trúi því að listin geti breytt þjóðfélaginu og að málarinn eigi að vera samfélaginu að gagni. Hann á að taka þátt í stéttabaráttunni með málverkið að vopni.“ Þó Frida væri í list sinni ekki fyllilega samkvæm þessari yfirlýsingu málar hún sinn innhverfa einkaheim þannig að hann 'hættir að vera einkaheimur og öðlast al- menna skírskotun. Hún skapaði list sem átti erindi til annarra þó það færist fyrir að flytja þann pólitíska boðskap sem hún og félagar hennar ætluðust til, í þvi bylting- arandrúmslofti sem þeir lifðu og hrærðust í. í myndini „Brotna súlan" opnar Frida sýn inn í líkama sinn og sködduð mænan blasir við í líki skörðóttrar og sundurbrotinnar marmarasúlu_ sem reynt hefur verið að skeyta samaii. „Frida er eini listamaðurinn í sögunni sem opnar brjótshol sitt til að afhjúpa hinn líffræðilega sannleika tilfinninga sinna,“ sagði Diego Rivera, eiginmaður Fridu. Svo virðist sem Frida hafi skynjað slysið eins og væri hún stödd á landamærum lífs og dauða og hafi jafnvel litið á það sem sjálfa endurfæðinguna. Því til stuðnings má benda á að hún málaði mynd sem hún nefndi „Endurfæðingin". Þar horfir hún nið- ur i herbergi, líkt og af stalli, á sjálfa sig fæða barn sem ber andlit hennar. Yfir höfði Fridu er breitt hvítt klæði, líkt og um líkklæði sé að ræða. Það er fyrst á fimmta áratugnum sem' Frida hlýtur viðurkenningu fyrir list sína. Hún tekur þátt í stórri sýningu á sjálfsmynd- um mexíkóskra málara frá 1600-1900 í Listasafninu í Mexíkóborg (Palacio de Bell- Sjálfsmynd Fridu, 1940, olía. Takið eftir þyrnihálsfestinni. as Artes) 1947. Árið 1953 skipuleggur Gallerí í Mexíkóborg umfangsmikla sýningu á verkum hennar og er hún borin inn á sýninguna rúmliggjandi. Fjórum mánuðum síðar fær Frida drep í fæturna og er annar fóturinn tekinn af henni. Þrátt fyrir það var ekki hægt að bjarga lífi hennar og lést hún í svefni 13. júní árið 1954. Aska hennar er geymd í fornri indíána- krukku á heimili hennar og Diego í fæðing- arborg hennar Coyoacan. Eftir dauða henn- ar ákvað Rivera að þar skyldi standa Safn Fridu Kahlo. Þar þurfti engu að breyta, Frida hafði þegar gert heimilið að helgidómi yfir litríkt líf þessara mikilhæfu listamanna, sem börðust fyrir list sinni og hamingju í einkalífi. Rivera kom fyrir ófullgerðri andlitsmynd af Stalín á trönunum í vinnustofu hennar við hlið hjólastólsins. Myndir Fridu og per- sónulegir munir fylla safnið. Á síðustu mynd sína hafði hún krotað óstyrkri hendi. Viva la vida. Lifi lífið. Höfundur er listfræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.