Morgunblaðið - 02.01.2004, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 02.01.2004, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. JANÚAR 2004 21 þegar Hannes Hafstein horfði út um gluggann sinn í hinu nýja stjórnarráði vissi hann ekki aðeins, rétt eins og við nú, að margt var ógert. Við honum blasti, hvert sem litið varð um landið, að það var nánast allt ógert. Samt ljómaði hann í sál og sinni þennan febr- úarmorgun árið 1904. Af hverju? Af því að hann skynjaði að loksins var fengin forsendan fyrir fram- förum í því landi, sem svo lengi hafði staðið í stað. Og hver var hún forsendan sú? Frelsið. Frelsið var aflgjafinn sem svo lengi hafði vant- að. Daufar vonir höfðu vissulega blundað með þjóðinni og hún átt drauma og þrár, en frumkvæð- isrétturinn og framkvæmdaskyldan hvíldu ekki á réttum herðum fyrr en með heimastjórninni. Eignir þjóðarinnar voru ekki miklar og aflið virtist ekki beysið en það dró ekki móð úr fyrsta ráðherranum sem vissi í hjarta sínu að nú voru vatnaskil. Þetta skynjaði gamli skáldmæringurinn fyrir norðan líka, þar sem hann sat í Sigurhæðum. Úr bréfum hans til Hannesar Hafsteins má lesa væntingar hans – jafnvel sigurvissu, nú þegar þau lögðust á eitt, forsjónin, frelsið og hinn stórhuga skarpgreindi skáldbróðir hans, sem falið hafði verið að hlaupa fyrsta spottann í langhlaupi hennar úr örbirgð til betra lífs. Forskot annarra þjóða á Íslend- inga mældist ekki í metrum, heldur í áratugum eða öldum, en það gilti einu, því nú var Ísland komið af stað og hljóp loks með kyndil sinn á eigin forsendum. Hannes mat hvatningarbréf sr. Matthíasar mikils. Hann var ekki orðinn ráðherra Íslands er hann svarar einu bréfanna meðal annars með þessum orðum. „Við þurfum trú á mátt og megin, á manndóm, framtíð, starfsins guð, þurfum að hleypa hratt á veginn, hætta við óláns víl og suð, þurfum að minnast margra nauða, svo móður svelli drótt af því, þurfum að gleyma gömlum dauða, og glæsta framtíð seilast í.“ Forystuhæfileikar Hannesar Hafsteins, óbil- andi kjarkur hans og bjartsýni, sefjandi sig- urvissa gagnvart hvers kyns erfiðleikum var orkugjafi þjóðarinnar í upphafi nýrrar aldar. En meira að segja slíkir eiginleikar hefðu dugað skammt ef viðspyrnan, sem frelsið gaf, hefði ekki fengist. Þess er okkur hollt að minnast á þessum tímamótum. Því baráttunni um frelsið er ekki lokið og lýkur aldrei, þótt hún hafi breyst. Og nú er vandinn við að varðveita það og efla flóknari en nokkru sinni fyrr. Því nú er ekki lengur við fjarlægan, óbilgjarnan, erlendan andstæðing að eiga sem sameinar þjóðina til átaka. Nú snýr baráttan inn á við. Nú er við okkur sjálf að eiga og það er snúnara. Við þurf- um sjálf að gæta þess að sá aflvaki og þróttur sem í frelsi manna býr fái að njóta sín. En frels- ið verður gagnslítið, ef það er aðeins fárra en ekki fjöldans. Ef við kunnum ekki með það að fara, misnotum það eða misbeitum, þá þrengir smám saman að því, uns svo er komið að það skiptir engu, hvort rót þess er nær eða fjær, í Kvosinni eða Kaupmannahöfn. Þá værum við komin aftur á byrjunarreit. Góðir Íslendingar. Með sama hætti og fyrir nær hundrað árum hefur aukið frelsi til framtaks og athafna blásið miklum krafti í allt þjóðlífið nú um alllangt skeið. Sem betur fer hefur almennur hagur manna styrkst á sama tíma, sem aldrei fyrr. Það er frumskilyrði þess að sæmileg sátt megi ríkja í þjóðfélaginu að út af þessari vegferð verði alls ekki brugðið. Sáttin sjálf er svo aftur forsenda þess að viðvarandi verðmætaaukning sé í land- inu. Nú standa yfir mestu framkvæmdir Ís- landssögunnar. Þær fengust ekki fram án átaka og deilna. Við skulum segja sem betur fer. Það væri einkennilegur doði yfir þessari þjóð, ef slík stórvirki hefðu ekki kallað á heitar umræður, rök og gagnrök. Öruggt er að við hinar miklu framkvæmdir er farið eins varlega gagnvart landinu og náttúru þess og fært er, meðal ann- ars vegna þess, hve umdeild framkvæmdin var. Þeir sem töldu það hafa úrslitaþýðingu fyrir þjóðarhag að ráðast í verkið fengu sitt fram að lokum. En hinir, sem voru öndverðrar skoð- unar, börðust ekki til einskis fyrir sínum mál- stað. Þessar deilur eru nú komnar á sinn stað í sögunni, og þær verða ekki endir allra deilna. Stór mál og smá munu hér eftir sem hingað til kalla á átök. Um það er ekki að fást. Hitt skiptir öllu að okkar fámennu þjóð tekst að leiða mál til lykta og leggjast svo saman á árarnar. Þess vegna hefur okkur miðað svo vel sem verkin sanna, og erum í fremstu röð þjóða á flesta al- menna mælikvarða. Góðir Íslendingar. Við gleðjumst saman yfir því, að skuldir rík- isins fara nú ört minnkandi og þar með vaxta- byrði þess. Þess vegna getum við sameiginlega varið meira fé til eftirsóknarverðra hluta, svo sem menntunar og heilbrigðisþjónustu án þess að þurfa að hækka skatta. Því hefur reyndar verið lofað að þetta kjörtímabil verði eitt mesta skattalækkunartímabilið. Við það verður auð- vitað staðið. Það þýðir ekki að dregið verði úr þeirri þjónustu sem við erum sammála um að veita. Það þýðir hins vegar að stærri hluti þess hagvaxtar, sem fyrirsjáanlegur er, á að renna beint til fólksins í landinu án millilendingar í ríkissjóði. Því er með öðrum orðum trúað að fólk fari ekki endilega verr með fjármuni sína en þeir forystumenn sem það kýs á fjögurra ára fresti til að sinna löggjafarstörfum fyrir sína hönd. Í mínum huga er enginn vafi á að það traust er á gildum rökum reist. Aldarminning heimastjórnar og hlutur fyrsta ráðherrans hefur verið mér hugleikinn á þessari samverustund með þjóðinni. Af annars konar tilefni – en vegna aldarminningar líka, orti Hannes Hafstein kvæði og þykir mér síðasta er- indi þess hljóma þannig að viðeigandi væri að tala til hans sjálfs á þessari stundu: „Þú, sem fyrr með ást og orku kunnir efla mentir þessa klakalands, fljetti nú það mál, sem mest þú unnir, minning þinni lítinn heiðurskrans. Biðjum þess, að íslenskt mál og mentir megi hljóta þroska, rík og sterk. Göngum allir fram sem braut þú bentir! Blómgist æ þitt drengilega verk.“ Góðir Íslendingar. Ég hef nú í þrettánda sinn fengið að tala til ykkar í árslok. Á því verður nú breyting. Í því felast meiri tímamót fyrir mig en ykkur. Ég þakka samfylgdina á árinu sem er að líða og vona að nýja árið verði okkur öllum blessunar- og huggunarríkt. Gleðilegt ár.“ ðherra ta og efla frelsið flóknari en nokkru sinni fyrr ilvægast er, að hlúa að sjálfu lífinu? Það er mikil blessun foreldrum að eignast barn og ekki er öllum það gefið. Lífið er gjöf og mikilvægast alls. „Blessun fylgir barni hverju“ var almælt á fyrri tíð. En hvaða sögu segja að með- altali níuhundruð fóstureyðingar á ári af félagslegum ástæðum? – hjá sjöundu ríkustu þjóð veraldar! Það er á tuttugu ára bili sama og allir íbúar Kópavogs. Víst eru til góðar og gildar ástæður, ótal góðar og gildar félagslegar ástæður, lækn- isfræðilegar, og margvísleg neyð. Ég er ekki að dæma þær mæður sem hafa þurft að axla þá örðugu ákvörðun, en við megum ekki láta eins og þetta komi okkur ekki við. Við verðum að gefa gaum að þeirri staðreynd að þetta eru hrikalegar tölur, þúsundir ein- staklinga sem við höfum ekki haft rúm fyrir í velsæld íslensks samfélags. Það er harmsefni. Einhver móðuharðindi hafa byrgt okkur sýn gagnvart því sem máli skiptir! Á sl. ári vöktu konur athygli á því hvernig börn eru í auknum mæli misnotuð í auglýsingaskyni. Bent var á hvernig vafasöm tákn og skilaboð eru notuð í auglýsingum og á ýmsum barnafatnaði. Æ verða meir áberandi auglýsingar sem tæla sakleysingjann inn í viðjar kyntáknsins og neysluþrælkunarinnar. Þarna eru á ferðinni ginningar sem barnið hefur litlar forsendur til að vinna úr og standast gegn. Yfir og allt um kring eru táknmyndir og ímyndir sem innræta ómótaðri sál að hlutir og tæki og réttu merkin séu nauðsynleg til að gera mann aðlaðandi og eftirsóknarverðan í augum annarra, jafnvel áð- ur en barnið hefur hugmynd um eðli þess sem sóst er eftir þá lærist atferlið og tungutakið. Klámfengið látæði og æ grófara ofbeldi á myndböndum og fjölmiðlum hefur áhrif á ómótaða sál. Minnumst þess líka að það er al- vörumál þegar blygðunarkennd barns er of- boðið og mörk hins sæmilega verða óljós, al- vörumál vegna þess að blygðunarkenndin er ein sterkasta vörn sjálfsvirðingar og mann- helgi. Verndum bernskuna! Þörf er þjóðarvakn- ingar hvað varðar viðhorf til barna. Að leyfa þeim að vera börn. Að sinna börnunum betur. Að stuðla að því að barnið fái að vaxa og þroskast í kyrrð og næði. Ekkert foreldri megnar að vera barni sínu allt, og engum er fært að uppfylla allar þarfir þess né verja það fyrir öllum háska. „Heimsins grjót er hart og sárt.“ Barnið lærir að skilja lífið og heiminn umfram allt með aðstoð tilfinninga sinna og reynslu. Þess vegna þarf það á nánum per- sónutengslum að halda, umhyggju og aga, ástúð og styrk, mildi og festu. Það á kröfu til að hamlað sé gegn hinum gegndarlausa flaumi áreitanna, ofurspennu afþreyingarinnar, og ginningum auglýsinganna. Bernskan er tími þar sem maður á rétt á að vera smár og óviti og á ekki að þurfa að axla áhyggjur hinna fullorðnu. „Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn, ályktaði eins og barn …“ sagði postulinn í óðn- um um kærleikann. Þegar tíminn fullnast þá ljúkast upp dyrnar að leyndardómum lífsins í takti við eigin þroska barnsins. Látum það vera keppikefli okkar á þessu nýja ári að snúa baki við önnum og ærustu, gefa sjálfum okkur og hvert öðru meiri tíma umhyggju. Munum að lífið er dýrmætast alls, „lífgjöfin er besta jólagjöfin“ sagði móðirin, sem minnt var óþyrmilega á hvað er mik- ilvægast í lífinu. Ef við gætum eflt þá auðlegð sem er fólgin í því að eiga tíma fyrir það sem máli skiptir, umhyggju um börnin, náungann, lífið. Ef við gætum sem einstaklingar og sam- félag beint kröftunum að umhugsun um lífs- gæði og siðgæði. Ef við gætum mótað þær fé- lagslegu aðstæður, siðferði, fjölskyldustefnu og vinnuumhverfi sem hlynnir að heimilinu og uppeldishlutverki þess, styður við að foreldrar standi við skuldbindingar sínar gagnvart líf- inu, gerir barnafjölskyldum kleift að sinna börnum sínum, þar sem þroski barnsins er í fyrirrúmi, félagslegur, andlegur, líkamlegur þroski. Um jól voru kirkjur þéttsetnar um land allt. Guði sé lof fyrir allt sem fólk leggur á sig til að koma jólaboðskapnum, helgi og hátíð til skila. Þéttsetnar kirkjur á aðfangadagskvöld er tákn þess að kirkja og kristni gegna enn mik- ilvægu hlutverki í þjóðlífinu. „Klukkur lands- ins“ sem Ríkisútvarpið flytur okkur á nýárs- dagsmorgni minnir okkur á þau heilögu vébönd helgidómanna sem umlykja landið allt til sjávar og sveita og signa líf og land birtu fagnaðarerindisins. Þó má sjá hér ýmis dæmi þess hvernig andlaus efnishyggjan og yf- irborðsmennskan leiðir til öryggisleysis og snertifælni gagnvart trú, og óeðlilegra varna- viðbragða þegar trúin birtist sem sýnilegt afl í lífi fólks. Hið kristna samfélag á Íslandi, þjóðkirkjan og önnur kristin trúfélög og söfnuðir, þurfa að snúa bökum saman í sókn fyrir hinn kristna málstað, að treysta hinar kristnu rætur, gildi og sjálfsmynd á okkar miklu alvöru- og ör- lagatímum. Margt bendir til þess að í Evrópu munu átök komandi ára í auknum mæli snúast um sess trúar í þjóðlífi og í hinu opinbera rými. Óttinn við múslima fær franska ríkið til að banna með lögum slæður þeirra – og þá um leið trúartákn gyðinga og kristinna. Þetta eru að mínu mati kolröng viðbrögð, viðbrögð ótt- ans, tilraun til að reisa múra og byrgja glugga, fremur en að stuðla að gagnrýnu um- burðarlyndi, og heilbrigðri iðkun og tjáningu trúarlífs, heilbrigðri og opinskárri umræðu og betri menntun. Reyndar munu Frakkar nú hafa lögleitt trúarbragðafræðslu og kristinfræði í skóla- kerfinu, í fyrsta sinn í heila öld. Það er eft- irbreytnivert. Hér á Vesturlöndum, ekki síst á Íslandi, hefur kristnifræði og trúarbragða- fræðslu verið æ meir þokað út úr skólakerf- inu. Hið göfuga markmið er hlutleysi og um- burðarlyndi, en afleiðingin er iðulega hið gagnstæða. Það er nefnilega ekkert andlegt eða trúarlegt tómarúm til. „Þú hófst mína sál yfir hégóma og tál“ segir Davíð skáld frá Fagraskógi um móður sína. Og þjóðskáldið Matthías minntist móð- ur sinnar, fátækrar almúgakonu: „Enginn kenndi mér eins og þú hið eilífa’ og stóra, traust og trú, né gaf mér svo guðlegar mynd- ir.“ Guði sé lof að við getum mörg sagt hið sama um okkar mæður, já og feður og ömm- ur og afa. Þeir eru margir foreldrarnir sem leggja sig fram um að miðla börnum sínum þeim auði sem aldrei fyrnist, trú og bæn. Guð launi það og blessi þau og gefi góðan ávöxt. Það er nefnilega ekki á valdi nokkurs manns að gefa lífi sínu merkingu sem ber uppi og stenst „stormana, helið og hjúpinn“. Það staðfestir reynsla kynslóðanna að sá sem hefur ekki lært að kveða að stafrófi trú- arinnar, né þekkja grundvallarmynstur sagn- anna um „upphaf og endinn, Guð og mann og lífsins og dauðans djúpin“, verður ólæs og orðvana og áttavilltur gagnvart mótlæti, áföllum og auðnubrigðum sem óhjákvæmi- lega fylgja öllu lífi. Það er einmitt grundvall- aratriði kristinnar trúar og siðar að við þurf- um ekki að standa ein og bera okkur sjálf. Hönd Guðs leiðir, englar hans vaka yfir, samfélag kirkju hans á himni og jörðu um- vefur og ber á örmum sínum. Kvöldbæn barnsins, bænaversin, sálmarnir, sögurnar um Jesú, iðkun og athöfn sem greiðir helginni og birtunni veg að barnshjartanu, er og verður öflug forvörn og farvegur bless- unar. Afl hins illa er staðreynd, máttur myrkurs- ins, og syndin er lævís og situr um sálirnar. Hið illa verður ekki sigrað með valdi einu saman. Þetta skynjum við í ljósinu sem skín af barnsins augum. Ef takast á að yfirbuga hið illa í heiminum, afl hefndanna, ofbeldisins, fýsnar og græðgi, þarf meir en öflugri varna- kerfi, múra og vopn, það þarf trú á hið góða og sigur þess, og það þarf samstillt afl góð- vildar og umhyggju til að reka út óttann og ummynda valdasýki og sjálfselsku, laða á veg sannra dyggða. Til að friður Guðs verði á jörðu þarf þau sem Guð hefur velþóknun á: þau fátæku í anda, sorgbitnu, hógværu, mis- kunnsömu, hjartahreinu, friðflytjendur, þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu. Þetta eru þau sem munu erfa jörðina í því ríki Guðs sem Kristur Jesús boðar. Í þessu er vonin fólgin um nýjan og betri heim. Við verðum að „snúa við“, samviska okkar að vakna, minnug þess að líf allra heimsins barna er dýrmætast alls. Og við birtuna sem skín af barnsins augum mun „veslings kalda jörðin“ hlýna og „sumar færast nær“ og lífið fagna. Gleðilegt ár í frels- arans Jesú nafni. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.“ nssonar r hvað varðar viðhorf til barna n

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.