Lesbók Morgunblaðsins - 12.10.2002, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 12.10.2002, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. OKTÓBER 2002 5 Bandaríkjamenn sem vilja bara henda bombu á Arafat. Ég er hræddur við að vera lokaður inni í slíkum þrengslum, en það er ekki þar með sagt að ég hafi svar við því hvernig á að reka fyrirtækið Jörð – ég hef ekki hundsvit á því. Sú innilokunarkennd sem Sigurður lýsir á þó ekki einungis við um þjóðernið, hann segist heldur aldrei hafa fundið sig almennilega í list- heiminum. „Listheimurinn er auðvitað mjög fjölbreyttur, í honum er elskulegt fólk og allt það. Í þessum listheimi eru þó mjög mörg hólf og þegar maður fer að fara úr einu hólfi í ann- að þá finnur maður fyrir þessari sterku sam- kennd, sem ég hef hreinlega ofnæmi fyrir. Þú veist hvernig þetta er þar sem hinir „góðu“ sem hugsa eins eru saman fyrir innan, og hinir „vondu“ fyrir utan. Innan hvers hólfs er svo gerð þessi krafa um tryggð, þótt það sé aldrei sagt upphátt. Ég verð að viðurkenna að ég hef meðvitað reynt að forðast þetta. Þó má vel vera að mjög margir hafi þörf fyr- ir að vera í einhverjum kreðsum, hvort sem það er þjóðfélag, listastefna eða Rotaryklúbb- ur, kannski er það bara til að halda sönsum. Fólk getur svimað ef það hefur engan strúktúr sem heldur heimi þeirra saman. Sjálfum finnst mér heimurinn fyrir utan strúktúrinn skemmtilegri, ef maður getur labbað í gegnum þessa veggi hólfanna, eins og þeir væru úr lofti. Hins vegar líður mér ágætlega við vinnu mína og er að sjálfsögðu sjálfur inni í listheim- inum þar.“ Sigurður lýsir því yfir að viðhorf hans til lífsins og listarinnar séu rómantísk, þótt það þyki ekki smart. „So be it,“ segir hann bara brosandi. „Ég sé listina sem ferðalag – ég segi kannski ekki alveg „andlegt“ ferðalag – heldur frekar „tilvistarlegt“,“ heldur hann hægt áfram, hlær og veltir orðinu „spiritúalt“ á tungunni í staðinn fyrir fyrir „andlegt“, án þess að finna með því lausn. Kemst brosandi að þeirri niðurstöðu að sem orð sé það líklega orðið of mengað. „En listaverkið sé ég eiginlega sem sönn- unargagn, eða vitnisburð um það hvar maður hafi verið staddur í tilvistinni. Svo heldur mað- ur áfram og listaverkið verður eftir, sem um- merki eða slóð. Þetta á þó aðeins við um þau verk sem eru „alvöru“ verk, því mörg verk okkar listamannanna eru nú ekki listaverk þótt þau líti út sem slík. Það sama á náttúrlega við um vinnu í öllum greinum og stéttum. Við erum samt alltaf að reyna okkur og allir fá út úr því pínulitið kikk eða hamingju ef þeim tekst að gera listaverk – stórt eða lítið, meist- araverk eða ekki meistaraverk – sem titrar og lifir þannig að fólk finni fyrir því. Slíkur við- burður er mjög ánetjandi fyrir þann sem býr verkið til – og einnig fyrir þann sem nýtur þess. Ný reynsla, nýr veruleiki, nýtt vit Ég sækist líka eftir „verugildi“ listaverka, eða „the being“. Ég sækist meira eftir „veru- gildinu“ heldur en möguleikum í merkingu þess, því merkingin er yfirleitt fengin með við- teknum hugsunarhætti. En „verugildið“,“ – Sigurður hikar og spyr hvort „verugildi“ sé yf- irleitt orð, og er við höfum ákveðið að íslenska sé mál sem hægt er að laga að tjáningu með nýsmíðum heldur hann áfram; „verugildið er það sem liggur handan munnlegrar tjáningar. Ég hef sagt og skrifað að tilfinning sé ná- kvæmari en rökhugsun. Það hefur verið gagn- rýnt en sú gagnrýni hefur bara styrkt mína skoðun, vegna þess að menningarheimar okk- ar hafa ekki kortlagt skynjunarheiminn að nokkru leyti. Þótt það hafi verið gert af gúrú- um í gamla daga og nýaldarfólki í dag er það ekki það sama og ég er að tala um.“ Ef horft er á textaverkin sem sýnd verða í i8 er þó ljóst að það sem Sigurður er að lýsa á mikið skylt við „semíótík“ eða táknfræði. Text- arnir sem hann sýnir þar vísa inn í heim sem orðin eru einungis kveikja að. Verk á borð við „Old Stars“ eða Gamlar stjörnur vísa augljós- lega ekki til mannanna að baki orðanna McCartney, Lennon, Harrison og Starr. Þau vísa til þess víðáttumikla heims sem tilheyrði poppbyltingunni, kynlífsbyltingunni, nýjum tíðaranda og síðast en ekki síst persónulegri skörun áhorfandans sjálfs við þennan heim. Verugildið er því sífelldum breytingum háð, allt eftir því hver horfir og upplifir. Sigurður lýsir þessum verkum þannig að textinn sé til staðar en þar sem orðunum er hlaðið ofan á hvert annað, verði þau illlæsileg og nánast eins og kínverskt myndletur. „Þegar ég var ungur maður bjó ég til listaverk þar sem ég reyndi að segja eins mikið og ég gat, en útilokaði um leið möguleikana á því að lesa það. Það sem ég vísa til er allt til staðar, en það er boðið upp á að njóta þess með öðrum hætti heldur en bókstaflega, í gegnum orðskilning- inn.“ Hann dregur fram bók úr pússi sínu þar sem myndröð sýnir hann búa til mót af bók- stöfum úr vatni, sem síðan eru frystir og fluttir á vinnustofuna þar sem þeir bráðna á gólfinu og tvístrast með fótsporum fólks og andar- drætti. „En ef ég held áfram að tala um ferðalagið,“ segir Sigurður og vísar vitanlega um leið til áhorfandans sem lendir á sömu slóð og hann sjálfur og deilir þannig heimi hans, „um þetta rómantíska ferðalag mitt, þá má segja að mað- ur geti í raun ekki verið á stað nema kafa djúpt ofan í hann. Þá á ég ekki við að eina leiðin til að ferðast svona andlega sé fólgin í því að skapa listaverkið. Að mínu mati er sama sköpun fólg- in í því að upplifa verkið. Ég finn engan mun á listamanni og þeim sem nýtur verks, í mínum huga eru þeir eins þegar þeir verða fyrir því sama – á meðan þeir njóta reynslunnar. Annar hefur aðra félagslega stöðu en hinn af því hann býr verkið til, en hinn getur haft hvaða stöðu sem er í samfélaginu. Til þess að geta notið framsækins verks sem neytandi, þarf maður þó að hrista af sér ákveðnar hefðir sem fylgja manni. Það er í rauninni dálítil hreinsun af því að njóta mynd- listar auk þess sem það þarfnast hugrekkis. Listamaðurinn er ekki æðri áhorfandanum, heldur eru þeir samferða í gegnum verkið og sjá heiminn svipuðum augum, út frá þeim stað sem þeir eru staddir á. Verkið er því í mínum huga ný reynsla, nýr veruleiki, nýtt vit.“ Valið á efniviði gamalt og viðkvæmt mál Margir hafa orðið til þess að benda á hvern- ig viðhorf manna til lista breytast eftir því sem lengra líður frá tilurð þeirra og skilningur á forsendum listsköpunarinnar eykst og þær verða hluti af hefðinni. Sjálfum líður Sigurði best þegar hann trúir verki í stað þess að skilja það, enda er það í fullu samræmi við þá skoðun hans að tilfinning sé nákvæmari en rökhugs- un. Til að útskýra hvað hann á við bendir hann á að valið á efniviði sé gamalt og viðkvæmt mál. „Í gamla daga þegar hann Van Gogh var að mála fátæka fólkið, kartöfluæturnar og kloss- ana sína, þá fólst í því róttæk yfirlýsing gegn ríkjandi valdakerfi. Allir hinir máluðu fína fólkið og það sem var fagurt, skilurðu. Van Gogh fann fegurð í ljótleikanum og braut sér leið út úr því hólfi sem honum var ætlað, öllum til mikillar mæðu. En nú er hann auðvitað virt- ur og elskaður fyrir þetta. Valdakerfið er ekki síður til staðar í hinum frjálsa listheimi nútímans – sem er auðvitað ekkert frjáls. Eitt er talið alveg kolrangt og óhæft, annað er álitið mjög gott. Valdakerfið kemur t.d. fram í efnisvali, þótt Ameríkanar séu auðvitað löngu búnir að brjóta þessar regl- ur. Þeir komu með Mikka mús inn í listina sem var mjög fínt, tróðu á listrænum heilagleika og beittu afhelgun. Það sem ég er að gera í listum er því ekkert nýtt í þeim skilningi,“ segir Sig- urður hógvær. Talinu víkur aftur að konfektinu sem hann er með í farteskinu hingað heim að þessu sinni. „Konfektmolarnir mínir eru gerðir alveg eins og molarnir sem konfektgerðarfólkið býr til,“ segir hann. „Ég stældi þá. Forsaga þeirra er sú að ég var staddur fyrir utan heimili mitt í Amsterdam fyrir einu og hálfu ári og var í krísu með myndlistina. Í nágrenninu er kon- fektbúð og þegar ég gekk framhjá búðar- glugganum fór ég að horfa á molana og hugs- aði með mér að þessum hæðum gæti ég aldrei náð sem listamaður. Þessum fullkomnu form- um og þeirri yndislegu nautn sem fólgin er í hverju einstöku formi. Daginn eftir hugsaði ég svo mikið um molana að ég fór og keypti fullt af þeim, hélt svo áfram að kaupa konfekt í öll- um löndum sem ég ferðaðist til. Ég ímyndaði mér molana sem skúlptúra eftir sjálfan mig og svo bjó ég þá til í Kína, bæði stóra og litla. Einn af hverri tegund. Ég get þó ekki staldrað endalaust við í kon- fektinu,“ heldur hann áfram. „Ég er ekki lista- maður af því tagi sem finnur eitthvað upp og er svo í því það sem eftir er. Maður þarf að vera ákveðin manngerð til að þess, en ég er ekki sú manngerð. Samt hefur þetta ekkert með það að gera að ég sé uppáhaldsmann- gerðin mín. En ég nærist aldrei á minni eigin list, nema bara líkamlega að því leyti að ég sel hana og kaupi mér mat. Mér finnst maður þurfa að fara inn í skóginn til að ná sér í efnivið á bálið, maður getur ekki tekið reykinn af bál- inu og notað hann sem efnivið.“ Það er augljóst að Sigurður hefur engan áhuga á að vera í því lífseiga hlutverki sem listamaður, að tærast upp og þjást fyrir sköp- un sína. „Mér finnst þvert á móti að sköpunin eigi að spretta úr gleði,“ segir hann. „Listin getur verið sorgleg og melódísk og allt það, en hún er fólgin í lífi og verður ekki til nema fyrir tilstilli þess sem langar til að lifa. Listin er staðfesting á lífi sem annað lifandi fólk getur fílað. Svo eru auðvitað einhverjir sem eru löngu búnir að upplifa það líf og finnst lista- verkið sem mætir þeim bara gömul lumma, en það er allt í lagi. Það fólk er þá bara statt á öðrum stað í tilvistinni,“ segir Sigurður hlæj- andi. Með allan farangurinn innra með sér Hann segir dvöl sína í Kína hafa haft góð áhrif á sig. „Það er mjög gott að vera í um- hverfi þar sem maður getur ekki notað menn- ingarlegt umhverfi og reynslu til að styðjast við. Maður verður að vera með allan farang- urinn innra með sér til að geta verið til og rétt- lætt sjálfan sig af því allt í kringum mann er svo framandi. Þegar ég var ungur strákur hélt ég að samfélögin myndu þróa meira með sér hæfnina til að skiptast á skoðunum á tilfinn- ingasviðinu, án þess að nota bara skýringar á fyrirbrigðum. Að öll upplifun yrði líkari því sem maður finnur fyrir í tónlist. Mér finnst umfjöllun í nútímasamfélagi á borð við okkar sniðganga þá stóru eiginleika sem búa innra með okkur. Við viljum skilja hlutina eftir við- teknum leiðum í stað þess að njóta þeirra. Ég hélt líka að trúarbrögðin myndu hverfa og í staðinn kæmi iðkun á hinni frómu list,“ segir Sigurður og brosir. Hann viðurkennir þó að listir í dag þjóni að einhverju leyti því hlutverki sem hann gerði sér vonir um. „Nema að því leyti að við lista- mennirnir erum ekki í predikunarhlutverkinu, sem betur fer. „No nonsense“ eða „ekkert- kjaftæði-stefnan“ sem vestræn samfélög hafa fylgt er þó mjög ónákvæm og þjónar ekki líf- inu sem skyldi. Mér finnst athyglisvert að fólk sem eignast peninga erlendis sekkur sér oft á kaf í listir og verður skapandi með þeim hætti. Þetta er mjög göfugt, því þeir sem gera þetta öðlast þannig þekkingu sem gefur lífi þeirra gildi. Þegar ríkur maður er búinn að kaupa sér fjórða sportbílinn þá kemur að því að hann vill njóta þess sem er á andlega sviðinu – læra um það sem felst í listinni. En því miður er mjög lítið um svona hugsun hér á Íslandi, þó tölu- vert sé til af efnuðu fólki. Ég tek eftir því að hámenntað fólk í opinberum stöðum aðhyllist myndlist sem er „kitsch“ og á lágu plani. Koll- egar þeirra í útlöndum leita sér ráða og þekk- ingar á þessu sviði á sama hátt og ef þeir ætla að læra á verðbréfamarkaðinn. Hér sér maður gjafir sem gefnar eru þjóðhöfðingjum og myndir á veggjum heima hjá stjórnmálamönn- um sem eru á lágu plani, án þess að nokkur roðni yfir því. Fólk hér hefur greiðan aðgang að upplýsingum sem það nýtir sér ekki, þótt möguleikarnir til að finna eitthvað sem er gott og manni líkar séu ótæmandi. Íslenska alþýð- an var þó alltaf með myndlist upp á vegg hjá sér í gamla daga, þegar alþýðan erlendis var bara með almanak, þess vegna finnst mér þessi þróun svo öfugsnúin.“ Tíminn er hlaupinn frá okkur Sigurði. Þótt það sjáist ekki á rólegu fasi hans, hefur hann mörgum hnöppum að hneppa nú sem endra- nær; talsetningu á mynd, uppsetningu í gall- eríi auk funda með vinum og vandamönnum. Rifrildi hans við formin er sem betur fer ekki enn til lykta leitt. fbi@mbl.is Sigurður stóð fyrir framan glugga á konfektbúð og hugsaði með sér að þessum hæðum gæti hann aldrei náð sem listamaður. Textaverkið „Old Stars“ eða „Gamlar stjörnur“, þar sem vísað er til víð- áttu þess heims er býr að baki orðanna.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.