Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. desember 2004 | 3 Þ að er erfitt að hefja samtal við Braga Ólafsson um Samkvæmisleiki. Það má satt að segja ekki láta of mikið uppi um innihald bókarinnar. Bragi segist sjálfur hafa verið í vand- ræðum með að skrifa káputextann. Sá texti er stuttur eins og við fyrri skáldsögur hans tvær, Hvíldardaga (1999) og Gæludýrin (2001). Í textanum við Samkvæmisleiki segir að hún fjalli um prentnemann Friðbert sem haldi upp á þrí- tugsafmælið sitt. Þegar hann hafi kvatt síð- ustu gestina reki hann augun í svarta rúskinnsskó fyrir framan dyrnar á stigapall- inum, skó sem hann kannist ekki við að hafa séð áður. Það má upplýsa strax að Friðbert á heima í íbúð Þórbergs og Margrétar á Hringbraut 45, fjórðu hæð til hægri. Afmælisveislan er haldin þar þrettánda júlí og daginn eftir lendir Friðbert í atburðum sem hann hefur litla stjórn á, hann verður, að því er virðist, fórnarlamb tilviljana, ekki ósvipað og hin seinheppna aðalpersóna Gæludýranna, Emil. Margar persónur koma við sögu sem allar tengjast Friðberti og atburðunum sem eiga sér stað um það leyti sem hann verður þrí- tugur, sumir í íbúð Friðberts og aðrir í næsta nágrenni. Í bókinni er flakkað fram og til baka í tíma í mismunandi löngum köfl- um og lesandinn fyllist hægt og hægt grun- semdum um að eitthvað ískyggilegt sé í vændum. Íbúð Þórbergs ögrandi sögusvið Bragi segir að eitt af því fyrsta sem hann hafi ákveðið þegar hann hóf að skrifa bókina hafi verið að hún skyldi gerast í hinni frægu íbúð Þórbergs Þórðarsonar. „Það er á einhvern einkennilegan hátt ögrandi sögusvið, nánast helg íbúð í hugum margra, án þess ég viti hvort ég sé að af- helga hana eða misnota hana í þessari sögu minni. Það er þó eitthvað háskalegt og skrýtið við það að skrifa sögu sem þessa og láta hana gerast að stórum hluta inni í íbúð sem í hugum margra er nánast tákn fyrir fallegt líf eða sakleysi sem tilheyrir liðnum tíma.“ Vafalítið á eftir að leggja einhverja merk- ingu í þessa staðsetningu sögunnar en Bragi vill ekki hjálpa lesendum við það. „Þessi sviðsetning hefur einhverja merk- ingu fyrir mér sem ég get ekki sett fingur á, eins og margt í þessari bók og öðrum sem ég hef skrifað. Í Gæludýrunum var ein sögupersónan að dröslast með frumútgáfu af Moby Dick eftir Herman Melville og það voru ýmsar vísanir í þá bók í sögunni en það var öðrum þræði gert til þess að stríða lesendum, vekja hjá þeim eftirvæntingu. Sjálfur sé ég reyndar ákveðnar tengingar en það er auðvitað ekki mitt hlutverk að skýra frá þeim.“ Það eru fleiri þekkt kennileiti í sögunni, forlagsskrifstofa Bjarts kemur til dæmis við sögu. „Já, ég verð að hafa sterka tengingu við jörðina sem sagan gerist á. Samt eru þessir staðir aldrei nákvæmlega eins í sögunni og í raunveruleikanum, yfirleitt skekki ég mynd- ina af þeim. Ég kom inn í íbúð Þórbergs og Margrétar fyrir mörgum árum og þekki þessar Hringbrautarblokkir ágætlega sem gefur mér svigrúm til að breyta þeim í sög- unni. Ef til vill hefur það líka einhverja merk- ingu fyrir söguna að þetta eru fyrstu blokk- ir sem byggðar voru í Reykjavík.“ Skáldsögurnar þínar gerast allar á svip- uðum slóðum. „Það er rétt. Þetta eru æskuslóðir mínar án þess ég vilji endilega tengja þessar þrjár bækur saman með slíkum hætti. Að vísu fer ég upp á Grettisgötu í Gæludýrunum en þessar sögur eiga heima í Vesturbænum, það hverfi er þeirra líkami.“ Þetta kemur mjög eðlilega Texti Braga skilur eftir þá tilfinningu hjá lesandanum að eitthvað sé látið ósagt. Frá- sagnarhátturinn er hægur – jafnvel svo að það er eins og ekkert sé að gerast – og nán- ast hlutlægur en Bragi leggur ekki áherslu á að grípa framm í fyrir sögunni með út- skýringum eða túlkunum á því sem fram fer. En á meðan textinn sýnir yfirborð hlut- anna þá vakna grunsemdir um það sem und- ir býr, lesandinn fyllist eftirvæntingu. „Mér finnst í rauninni ekki ósvipað að skrifa skáldsögu og leikrit,“ segir Bragi. „Það háir mörgum leikritum að persónur eru stöðugt að útskýra hvað er að gerast í verkinu, forsöguna og jafnvel inntak at- burða. En mér finnst réttara að láta merk- ingu hlutanna, eða merkingarleysi, krauma undir niðri; persónurnar eiga ekki að þurfa að segja áhorfandanum hvers vegna eitt- hvað gerist; það á bara að gerast. Ég held að lesandi skáldsögu þurfi heldur ekki á því að halda að fá útskýringar á at- burðum. Ég vil að lesandinn grafi undir yf- irborðið sem ég sýni. Annars hef ég ekki neina sérstaka aðferð við að skrifa skáldsögu. Þetta kemur mjög eðlilega. Ég var samt lengi að detta niður á rétta tóninn. Ég var búinn að reyna að skrifa prósa um nokkurt skeið þegar ég byrjaði á fyrsta kaflanum í Hvíldardögum fyrir fimm eða sex árum og fannst allt í einu að ég væri að gera eitthvað sem virkaði. Allar til- raunir mínar fram að því til að skrifa skáld- sögur fundust mér hjárænulegar, og fannst ég ekki ráða við annað en styttri texta. Núna hefur þetta eiginlega snúist við; núna ræð ég síður við knappari form.“ Í raun gerist heilmargt Það má sjá ákveðna þróun í þessum þremur bókum sem endurspeglast ágætlega í því að Samkvæmisleikjum hefur verið lýst sem eins konar spennusögu; það hefði aldrei ver- ið sagt um Hvíldardaga. „Alveg örugglega ekki. Ég hef hugsað mikið um þetta því ég hef oft verið vændur um að skrifa atburðalitlar eða tíðindalausar bækur. Sjálfur hef ég aldrei getað samþykkt þá lýsingu en líklega finnst fólki lítið gerast í sögunum vegna þess að atburðarásin er hæg eða seigfljót- andi. Ég veit um fólk sem hreinlega tætti af sér hár sitt og skegg yfir hinum ískyggilegu leiðindum og tíðindaleysi í Hvíldardögum en í þeirri sögu gerist í raun og veru heilmargt. Til dæmis bilar bíll sögupersónunnar sem er nú enginn smá atburður. Og í lok sögunnar ferðast hún alla leið upp í Heiðmörk. Síðan er iðulega margt að gerast í höfði persón- anna eða höfði höfundarins sem skiptir máli fyrir söguna.“ Atburðir sem sagan kallar á sjálf Hvað kveikti hugmyndina að Samkvæm- isleikjum? „Ég var einhvern tímann að kveðja for- eldra mína eftir veislu og hélt að ég væri einn eftir en sá þá skó fyrir framan dyrnar sem mér fannst að enginn vissi hver ætti. Þá kviknaði þessi hugsun hvort einhver væri ennþá inni. Þessi mynd rammar söguna inn, hún hefst á því að Friðbert sér þessa skó og hún end- ar á ákveðnum atburðum sem gætu tengst því að þeir eru þarna úti á stigapallinum. Kannski gerist ekkert meira í þessari bók en þeim fyrri en hún hefur fleiri persónur og ég segi öðruvísi frá, hleyp til og frá í tíma. Ég ákvað ekki að skrifa bók með meiri áherslu á atburði en atburðir þessarar sögu eru þess eðlis að þeir fá mikið vægi í sög- unni, þeir hafa meiri áhrif, allavega á mig. Það vafðist lengi fyrir mér að hafa þessa at- burði í sögunni, þeir eru fremur ógeðfelldir en mér fannst ég verða að skrifa þá út. Þó að það sé asnalegt að segja það þá tók sag- an völdin af mér, hún fór að kalla á hluti sem ég gat ekki neitað henni um.“ Einhvers konar síðmódernisti Óhætt er að segja að Bragi hafi rödd sem sker sig úr í íslenskri skáldsagnagerð. Hann segist hins vegar ekki hafa hugleitt það mikið hvar hann sé niður kominn í því landslagi. „Ég sé engar skýrar línur og finnst ekki vera hægt að setja einhvern merkimiða á ís- lensku skáldsöguna sem slíka. Til allrar hamingju, nú á þessum tímum, er verið að skrifa alls konar skáldsögur. Kannski er ég einna helst einhvers konar síðmódernisti. Þegar ég var að byrja að fást við skáldskap þá hreif módernisminn mig mest og eflaust er ég síðbúin útgáfa af hon- um eða hugsanlega póstmódernisti. Ég hef oft hugsað um það sem Flaubert sagði þegar hann skrifaði Madame Bovary að hann ætlaði að skrifa bók um ekki neitt. Það er skemmtilegt að velta þeim orðum fyrir sér í ljósi þess hvernig bók Madame Bovary er en það hefur lengi vakað fyrir mér að reyna að skrifa bók um alls ekki neitt. Ég veit að margir hafa haft þetta í huga og margir hafa reynt en það sem vakir fyrir mér er að skrifa hreina póesíu, hreinan skáldskap sem er ekki mengaður af hvers- dagslegum hlutum. Þetta er auðvitað af- skaplega háleitt markmið og mér hefur aldrei tekist að ná því. Kannski þó í ein- staka ljóði, kannski í einu eða tveimur ljóð- um sem ég man eftir í svipinn, ljóðum sem má segja að séu bara til fyrir sig og hafa nánast enga vísun í neitt annað. Annars treysti ég á aðra að lýsa því sem ég er að gera. Á meðan skrifa ég bara eins og mér þykir eðlilegt.“ Hugsanlega dæmisaga „Í dag eru miklar kröfur um að skáldsögur hafi samfélagslegt erindi,“ heldur Bragi áfram. „Það vakti ekki fyrir mér að skrifa samfélagsádeilu í Samkvæmisleikjum en eft- ir á að hyggja finnst mér ýmislegt í bókinni vera athugasemdir við það sem er að gerast í íslensku samfélagi og ekki síður íslenskri pólitík. Hún gæti þess vegna verið dæmi- saga um það hvernig stjórnvöld koma stundum aftan að þegnum sínum. En ég vil ekki benda á nein dæmi um þetta. Lesendur finna þau ef þeir vilja.“ Bókin fjallar líka um ofbeldi sem er of- arlega á baugi í umræðu þessa dagana. „Ofbeldi er allt orðið miklu sýnilegra en áður, það er búið að draga það meira fram í dagsljósið til þess að lækna það en um leið fyllir það okkur ótta og verður að sensasjón í fjölmiðlum. En Samkvæmisleikir er ekki spennubók um ofbeldi, mig langaði hins veg- ar til að vekja upp í henni óhugnað, það er ljóðræn fegurð í óhugnaðinum.“ Manni leyfist allt Bragi hefur mikla trú á skáldsögunni. Þegar hann er spurður hvort honum finnist hún vera gott tæki til þess að koma list sinni á framfæri þá segir hann engan vafa leika þar á. „Skáldsagan getur verið hvernig sem er; hún er algerlega opið form, manni leyfist allt, hún getur lýst einu herbergi á fjögur hundruð blaðsíðum eða rekið heila fjöl- skyldusögu á þrjú hundruð og tuttugu blað- síðum.“ Ertu með einhverjar hugmyndir um hlut- verk skáldsagnahöfundarins eða skáldskap- arins yfirleitt? „Rétt eins og við getum ekki verið án kímnigáfu þá held ég við þrífumst ekki án skáldskapar. Án þessara elementa yrði allt svart í kringum okkur, við myndum ekki rata á milli húsa, ekki einu sinni milli her- bergja í eigin húsum. Fyrir mér er skáldskapur nokkurs konar trúarbrögð; að minnsta kosti tel ég mig vera trúaðan mann án þess að vera með mynd af einhverjum guði eða annarri fígúru uppi á veggnum hjá mér. Og ef skáldsagan hefur eitthvert ákveðið hlutverk þá er það það að viðhalda sjálfri sér og þróast, eins og mann- eskjan sjálf er alltaf að rembast við. Og á meðan ég hef tækifæri til að taka þátt í þeirri þróun þá er ég í mínu elementi.“ Morgunblaðið/Einar Falur Hringbraut 45, fjórða hæð til hægri „Það er þó eitthvað háskalegt og skrýtið við það að skrifa sögu sem þessa og láta hana gerast að stórum hluta inni í íbúð sem í hugum margra er nánast tákn fyrir fallegt líf eða sakleysi sem tilheyrir liðnum tíma,“ segir Bragi Ólafsson sem lætur sögu sína gerast í íbúð Þórbergs. Það er ljóðræn fegurð í óhugnaðinum

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.