Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. desember 2004 Þ etta hefur verið gott ár fyrir Hauk Tómasson tónskáld. Það má segja að það hafi byrjað með hvelli, því að þrjú ný verk voru frumflutt á innan við mánuði í ársbyrjun, Skíma, konsert fyrir tvo kontrabassa og hljómsveit (af Sinfón- íuhljómsveit Íslands); Sería fyrir kammersveit (af Kammersveit Reykjavíkur) og nýr strengjakvartett (af strengjakvartettinum Húgó). Í júlí flutti Orkester Norden hljóm- sveitarverkið Ardente í fyrsta sinn, og í nóv- ember frumflutti Hamrahlíðarkórinn nýtt kór- verk Hauks, Fögnuð. Og þá er ótalið það sem mesta athygli vakti á al- þjóðlegan mælikvarða: í júní var tilkynnt að Haukur hlyti Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2004 fyrir óperu sína Fjórði söngur Guðrúnar, og tók hann við verðlaun- unum við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi í nóv- emberbyrjun. Á verkaskrá Hauks er að finna tónsmíð sem ber þá ólíklegu yfirskrift Spring Chicken, lítið tækifærisverk fyrir einleiksklarínett sem Haukur samdi í tilefni fertugsafmælis Guðna Franzsonar. Þótt verkið sé stutt er það að mörgu leyti dæmigert fyrir tónlist Hauks: frísklegt og tært. Enska heitið er kannski vill- andi við fyrstu sýn – þetta er ekki tónsmíð um kjúkling á vori, heldur notar Haukur orðin í yfirfærðri merkingu. Spring Chicken er sá sem er síferskur og lifandi, á íslensku er notuð önnur dýralíking: unglamb. Í rauninni má segja að allar tónsmíðar Hauks séu að ein- hverju leyti Spring Chickens. Tónarnir iða af lífi og orku, litirnir eru skærir og bjartir, og maður fær það á tilfinninguna að þessi tónlist hljóti að eldast óskaplega vel. Það er eitthvað lífrænt við tónlist Hauks, eitthvað sem sam- einar náttúru okkar og menningu, eðlisávísun og rökhugsun, allt rennur þetta saman í einn kvikan og glitrandi farveg. Síðan kynnist maður Hauki, og til að byrja með gengur það ekki alveg upp að jafn hæglát- ur og hógvær maður geti samið þessa tónlist, sem oft er svona upprifin og úthverf. Guð- mundur Andri Thorsson hitti í mark þegar hann lýsti Hauki á þann veg að hann gæti al- veg eins verið bóndi að austan, einn af þessum bændum sem væru meira náttúraðir fyrir grúsk en búskap; hann sagði að Haukur liti út eins og tónskáld sem liti út eins og bóndi sem liti út eins og tónskáld. Það gengur illa í fyrstu að sjá tenginguna milli Hauks og tónlistar- innar sem hann skrifar, en smám saman áttar maður sig á því að tónskáldið og verkin eiga þó nokkuð sameiginlegt. Það er eitt aðal- einkennið á tónlist Hauks, fyrir utan það hvað hún býr yfir mikilli músíkalskri orku, að hún er rökrétt, úthugsuð og nægjusöm. Haukur notar aldrei fleiri tóna, mótív eða rytma en þörf krefur. Hann takmarkar sig frekar þröngt, en kann listina að nota efniviðinn til hins ýtrasta, að skoða hvern tón út frá öllum mögulegum sjónarhornum, í sífellt nýju ljósi. Og Haukur hlýtur að vera nægjusamur, hvernig gæti manninum annars hafa dottið í hug að ætla að lifa af tónsmíðum á Íslandi? Og hann er pælari, hefur gaman af að velta hlut- unum fyrir sér og er stundum seinn til svars af því hann vill helst ekki segja neina vitleysu. Íhugull og nægjusamur, rétt eins og tónlistin sem hann semur. Haukur er kominn af tónlistarfólki – Jónas afi hans var tónskáld og það er Jónas bróðir hans einnig. Því vekur það eiginlega furðu manns að Haukur skyldi ekki hafa fengið köll- unina til að verða tónskáld fyrr en seint á ung- lingsárum. „Ég lærði á píanó þegar ég var lítill en svo hætti ég“, segir Haukur. „Þegar ég kom í menntaskóla sá ég hvað skólafélagarnir voru að fást við. Ég fór í kórinn til Þorgerðar og þar var mikið af tónlistarfólki og smám saman rann upp fyrir mér að tónlist væri það sem ég hefði langmestan áhuga á að fást við. Ég byrjaði að skrifa kannski svona 18 ára, mjög undir áhrifum frá kórtónlistinni sem við vorum að syngja á þeim tíma í Hamrahlíð. Þorkell var með tíma í Tónó sem voru kallaðir tónföndur, og ég fór í þá þegar ég var upp- undir tvítugt. Ég var voðalega feiminn og þorði varla að mæta í þetta, hvað þá að mæta með einhver verk eftir sjálfan mig. En þetta var mjög lærdómsríkt engu að síður. Ég man eftir að Þorkell sýndi okkur Kammerkonsert- inn eftir Ligeti, og ég var alveg bergnuminn. Þá var ég líka farinn að grúska, kaupa mér partítúra og hlusta mikið sjálfur. Ég keypti mér Vorblótið frekar snemma, sem er nú kannski það verk sem hefur haft hvað mest áhrif á mig. En þarna var ég ekkert farinn að hugsa um tónsmíðar sem ævistarf. Mér fannst bara ofsalega gaman að fást við tónlist“. Skömmu eftir að Haukur brautskráðist úr Hamrahlíðinni var stofnuð tónsmíðadeild við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar sótti Hauk- ur tíma hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni og síðar hjá Atla Heimi Sveinssyni. En að loknum tveimur árum þar hélt Haukur út í heim, án þess að ljúka prófi við skólann. „Mér fannst bókasafnið vera heldur slappt og fannst ég ekki vera að nýta tímann nógu vel. Mig langaði í stærra safn þar sem ég gæti kynnt mér allan litteratúrinn“. Haukur hélt því til Kölnar þar sem hann nam tónsmíðar hjá Joachim Blume í tvö og hálft ár. Þaðan fór hann til Amsterdam og lærði hjá Ton de Leuuw við Sweelinck- tónlistarháskólann. „Þar var betri kennsla en de Leuuw var samt ægilega upptekinn, hann var í burtu frá tveimur og uppí sex vikur í einu. Ég var svolítið leitandi ennþá, og eftirá að hyggja hefði ég kannski þurft stabílli kennslu. Ég var örugglega mjög seinþroska miðað við þá sem byrja að læra tónsmíðar á föstum basis í Evrópu á táningsaldri“. Talnatöfrar Þegar Haukur er beðinn um að nefna sérstaka áhrifavalda á námsárum sínum nefnir hann enn einn kennarann til sögunnar. „Eftir Hol- landsdvölina samdi ég fyrstu verkin sem ég er nokkuð sáttur við. Ég held að það hafi verið áhrif frá analýsukúrsi sem ég sótti í Siena á Ítalíu hjá svissnesku tónskáldi, Klaus Huber. Þar var meðal annars verið að stúdera Bartók og Zimmerman, og við skoðuðum sérstaklega notkun Bartóks á tölum. Ég samdi töluvert undir áhrifum frá því, t.d. Eco del passato og oktettinn, þar sem ég nota Fibonacci-röðina, gullinsnið, o.s.frv. Þarna fannst mér ég í fyrsta skipti vita hvað ég var að gera. Áður fannst mér ég bara vera einhver sveimhugi að bíða eftir innblæstrinum“. Tölur, hlutföll, mengi: Haukur fann að þegar hann kom betra skipu- lagi á tónana urðu tónsmíðarnar auðveldari viðfangs. Eins og opnaðist nýr heimur af litum og hljómum, þar sem Haukur dvelur enn og reynir að miðla okkur hinum af töfrunum sem þar er að sjá og heyra. Fibonacci-röðin hefur reynst Hauki traust aðferð við að skipuleggja sig í tónlistinni, þessi 800 ára gamla talnaformúla sem kennd er við ítalska stærðfræðinginn Leonardo Fibonacci, þar sem hver tala er summan af þeim tveimur sem fóru á undan: 1, 2, 3, 5, 8, o.s.frv. Auk þess hefur Haukur þróað sína eigin svokölluðu keðjutækni, þar sem hann leggur af stað með eitt ákveðið, afmarkað safn af tónum, sem hann skiptir smám saman út fyrir aðra tóna sem mynda annað safn þegar upp er staðið. En tónlist Hauks er ekki bara hljómar og tón- araðir, hún er líka rytmi, og kannski má segja að rytminn sé uppistaðan og drifkrafturinn í tónlist Hauks, það sem keyrir tónana áfram og þeytir okkur með úr einum stað í annan. Tón- arnir krauma af rytmískri orku, en stundum koma hægir kaflar inn á milli og þá minna kyrrstæðir hljómarnir helst á ískalda jök- ulbreiðu eða storknað hraun. Eftir ársdvöl á Íslandi fluttist Haukur til Kaliforníu árið 1988, og þar lærði hann hjá Brian Ferneyhough and Roger Reynolds við Kaliforníuháskólann í San Diego. „Í Ameríku var námið einhvernveginn skipulagðara og það var fylgst betur með manni. Það hefði í sjálfu sér kannski verið skynsamlegra að læra fyrst í Bandaríkjunum og síðan í Evrópu. Þótt ég hafi nú ekki skrifað eins og Ferneyhough þá hef ég haft gaman af þykkum vef og margradda tón- list – við vorum að mörgu leyti í svipuðum heimi. Mér finnst ég hafa lært mest af honum af þessum kennurum mínum. En það er sjálf- sagt hægt að rekja einhver áhrif til allra kenn- aranna sem ég hef haft og allra tónlistar- manna sem ég hef hlustað á. Það hefur allt einhver áhrif, en maður er auðvitað aldrei meðvitaður um það“. „Verkin sem ég samdi í Ameríku voru mjög undir áhrifum frá skólanum, ekki síst af því að maður þurfti að „verja“ tónsmíðarnar í tímum og því var kannski meiri áhersla á rökrænu og skipulag en áður. Í þeim byrja ég að nota nýja tækni sem ég hef notað í flestum verkum síðan – tækni við að vinna með tónefni þar sem ég nota mengi af tónum og færi mig smám saman úr einu tónmengi yfir í annað. Ég notaði þessa tækni fyrst í Afsprengi, en á svolítið flókinn hátt. Hún heppnaðist kannski best í Spíral – það var fyrsta verkið þar sem þetta gekk allt alveg upp. Eldri verk eins og t.d. oktettinn eru kyrrstæðari, og efniviðurinn breytist í stökk- um. Í seinni verkum mínum er meira flæði; þótt það geti komið statískir kaflar inn á milli held ég að tónmálið flæði betur, af því að skipt- ingarnar úr einu tónmengi í annað eru jafn- ari“. Haukur er hljóðfæratónskáld. Jafnvel við fyrstu heyrn er greinilegt að tónlist hans á rætur sínar í djúpum skilningi á hljóðfærunum sem hann semur fyrir. Hann gerir sér grein fyrir takmörkum hljóðfæranna en er einnig meðvitaður um þá möguleika sem bjóðast í samleik þeirra og nýstárlegar hljómsamsetn- ingar. „Ég var svo heppinn að fá að vinna mjög náið með skólasystkinum mínum þegar ég var að byrja. Ég man líka að Ton de Leuuw talaði um að ef þú værir til dæmis að semja klarín- ettsóló ættirðu að hugsa um klarínett daginn út og inn, spila á það sjálfur og sofna með það í fanginu. Ég hef ekki sökkt mér vísindalega of- an í fingrasetningar eða þvíumlíkt, hef lítið verið að stúdera í bókum nákvæmlega hvort hin eða þessi trilla lægi vel. En ég hugsa alltaf mjög sterkt í hljóðfærum, og þegar ég fæ hug- myndir eru þær oftast strax bundnar hljóð- færunum“. Útkoman er tónlist sem er fullkomlega rök- rétt, en sem er hvorki „létt“ né einföld. Af hlustandanum krefst hún algjörrar einbeit- ingar, og hæfileikans til að njóta þess hvernig urmull af smáatriðum rennur saman og mynd- ar áhrifamikla heild. Af flytjandanum krefst hún hins vegar fullkominnar nákvæmni, skýr- leika og mikillar leiktækni. Hljóðfæraleikarinn sem æfir partinn sinn í einrúmi, hefur litla hugmynd um hvernig nóturnar eiga eftir að hljóma í samhengi við aðrar, í öðrum takti úr öðrum hljóðfærum. Þegar tónarnir í verkum Hauks renna saman verður til nýr hljómur sem erfitt er að lýsa með orðum. Kamm- ersveitin eða sinfóníuhljómsveitin eru í með- förum Hauks eins og eitt hljóðfæri og Haukur er sjálfur hljóðfærasmiðurinn, sífellt að upp- götva ný blæbrigði og nýja hljóma. „Helmingurinn fer svo í ruslið“ Þegar Haukur er spurður að því hvernig hug- myndirnar að verkum hans þróist viðurkennir hann að ferlið sé mjög óljóst í upphafi. „Ég er kannski með hugmyndir sem ég hef hugsað mér að nota saman í einu verki, og ég byrja á því að skoða þær frá öllum mögulegum sjón- arhornum. Þetta geta verið mis-tónlistarlegar hugmyndir, það getur verið ákveðinn hljómur, ákveðin laglína, einhver formhugmynd, hug- mynd um ákveðin tengsl á milli hljóðfæra, eða einhver dramatísk hugmynd. Ég skoða hvern- ig þetta lítur út á pappír í nótnaskrift, og síðan skrifa ég líka einhverjar hugleiðingar um þetta, prófa þetta á píanóið, læt tölvuna spila til baka, og svona fer ég á milli svæða, skoða þetta á ólíkan hátt og þannig þróast þetta smám saman. Helmingurinn fer svo auðvitað í ruslið“. Í tveimur nýlegum verkum sínum hefur Haukur notað efni úr íslenskum þjóðlögum. Í Stemmu segir hann algjörlega skilið við mengjatæknina sem hefur verið hans helsta tónsmíðatækni í meira en áratug. Í verkinu er allt tónefnið sótt í 15 sekúndna upptöku á ís- lensku þjóðlagi í flutningi Jóns Ásmundssonar frá árinu 1966. „Í Stemmu teygi ég efnið bæði lárétt og lóðrétt. Fiðlurnar spila lagið t.d. svo hægt að þær komast aðeins einu sinni gegnum það, á meðan hins vegar tréblásararnir puða í sveita síns andlits og endurtaka frumin aftur og aftur og enginn getur sagt að þeir vinni ekki fyrir kaupinu sínu“. Langur skuggi er mun mótívískari tónsmíð, tilbrigði í sex þátt- um við „frum úr íslenskum þjóðlögum“. Hauk- ur segir að upprunalegu lögin, sem þó eru aldrei nema gefin í skyn, sé að finna á Rödd- um, geisladiski með hljóðritum úr safni Árna- stofnunar. „Þetta eru langsótt tilbrigði“, segir Haukur, og þaðan kemur líka heiti verksins. Skuggi gömlu laganna er langur og það er ekki alltaf auðvelt að gera sér grein fyrir hvað það er sem varpar honum alla leið til okkar, hér og nú. Í fyrsta þættinum er það örlítið stefjabrot, eiginlega ekki nema fjórir tónar sem heyrast af og til í lágfiðlu og sellói. Öðrum kaflanum væri hægt að lýsa sem tilbrigðum um rytma, uppistaðan er ekki annað en síendurtekin langt-stutt hreyfing sem er komin úr gömlu kvæðalagi. Hvergi kemur naumhyggjan betur í ljós en í fimmta kaflanum; tilbrigði við einn einasta tón, síendurtekinn, sem fæðir af sér aðra, verður smámsaman að áköfum og óþreyjufullum vefi af tónum sem síðan deyja út. Í sumum verkum Hauks – t.d. bæði Löngum skugga og Seríu – speglast heildarformið í smærri einingum verksins. „Í Löngum skugga er fjórði kaflinn víólusóló, og í hverjum kafla er smávíólusóló um miðbikið“, útskýrir Hauk- ur. Svipuð hugmynd liggur að baki Seríu, sem er verk í tólf þáttum þar sem dúó- og tutti- kaflar skiptast á. Tutti-kaflarnir (þar sem allir leika) eru tilbrigði um dúó-þættina, en með eins þáttar „töf“, svo að fjórði þáttur er til- brigði um þann fyrsta, o.s.frv. Áhugi Hauks á forminu sem slíku endurspeglast í öllu tónefn- inu, sama hvers eðlis það er. Oft er engu líkara en að tónhæð, rytmi og áferð séu öll steypt í sama mótið, byggi öll á sömu tölum og mengj- um sem skarast og renna saman á víxl. „Ég er svolítið fyrir að skipuleggja, viðurkennir Haukur. En ég er nú alls ekki eins strangur og mörg tónskáld – ég held bara að íslensk tón- skáld séu frekar ligeglad miðað við tónskáld annarra landa!“ „Ég er heldur ekki neitt brjálæðislega av- ant-garde“, fullyrðir Haukur. „Það eru alltaf einhver element í tónlistinni minni sem hönd á festir – sem þú getur fylgt. Ég er í rauninni bara að reyna að búa til eitthvað fallegt, eitt- hvað sem getur snert mann og skipt mann máli. En þegar fólk er komið inn í verkið von- ast ég til þess að áheyrandinn upplifi eitthvað sem opnast, sem lyftist aðeins upp af jörðinni. Eitthvað sem stendur fyrir ofan hversdags- leikann. Einhvern galdur...“ Og fyrir Hauki er galdurinn, fegurðin, af- leiðing af hinu góða skipulagi hlutanna. Fibo- nacci, gullinsniðið, keðjutæknin, mótívíska úr- vinnslan og rytmíski krafturinn, þetta eru ekki annað en tæki sem hjálpa til við að koma á reglu, allt lýtur sínu lögmáli og allt á sinn rétta stað í heimi tónanna. Sum tónverk hljóma eins og frumskógarnir í Amazon, villt og ótamin, stjórnlaus en um leið heillandi í frumleika sín- um. Tónlist Hauks er meira eins og evrópskur hallargarður: fullkomlega skipulagður, út- Haukur Tómasson tók við Tónlistarverðlaun- um Norðurlandaráðs í nóvember fyrir óperu sína Fjórði söngur Guðrúnar. Í þessu viðtali er fjallað um feril hans, rýnt í einstök verk og helstu einkenni tónlistarinnar, en um þau segir höfundur meðal annars: „Það er eitt- hvað lífrænt við tónlist Hauks, eitthvað sem sameinar náttúru okkar og menningu, eðl- isávísun og rökhugsun, allt rennur þetta sam- an í einn kvikan og glitrandi farveg.“ Eftir Árna Heimi Ingólfsson arniheimir@lhi.is Í hringiðu tóna og lífs Úr Stemmu „Í Stemmu teygi ég efnið bæði lárétt og lóðrétt. Fiðlurnar spila lagið t.d. svo hægt að þær komast aðeins einu sinni gegnum það, á meðan hins vegar tréblásararnir puða í sveita síns andlits og endurtaka frumin aftur og aftur og enginn getur sagt að þeir vinni ekki fyrir kaupinu sínu“.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.