Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 04.12.2004, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. desember 2004 F jörutíu ár eru liðin síðan út var gefin bók Helga Hálfdan- arsonar um Völuspá, en hún er athyglisverðasta rit sem birst hefur um þetta merk- asta kvæði allra Eddukvæða. Bókin heitir því einkennilega nafni Maddaman með kýrhausinn1 en það er sú kynjamynd sem Helgi dregur upp þegar hann líkir handritum Völuspár við brotið skrautker sem límt hefur verið ranglega saman. Í þessu riti setur Helgi fram nýjar og gagntækar skoðanir um form, efnis- skipan og upprunalega gerð þessa elsta bókmenntaverks Íslendinga. Fremst í bók sinni birtir Helgi hinn hefð- bundna texta Völuspár eins og hann hefur verið prentaður eftir hinum fornu handritum ásamt hefð- bundnum skýringum. Síðan birtir hann texta kvæðisins með þeirri skipan sem hann telur uppruna- legasta og eðlilegasta og styðst þar einnig við handritin. Hann gerir glögga grein fyrir skoðunum sínum um uppruna og formgerð kvæðisins og skýrir ýmislegt í textanum á annan veg en aðrir hafa gert. „Völuspá er frægasta kvæði Norðurlanda, og þótt víðar sé leitað“ segir Sigurður Nor- dal í bók sinni um þetta kvæði.2 Þetta eru orð að sönnu. Kvæðið hefur verið þýtt á fjöldamörg tungumál; útgáfur þess skipta hundruðum og meira hefur verið um það skrifað en nokkurt annað norrænt kvæði. Fræðimenn í mörgum löndum hafa öldum saman keppst við að skýra kvæðið, efni þess og tildrög og ekki alltaf orðið á eitt sáttir. Öllum hefur reynst erfitt að átta sig fylli- lega á efni Völuspár og formi, ekki síst vegna þess að röð vísna hefur augljóslega ruglast og kvæðið aflagast á vegferðinni milli kynslóða uns það var að lokum skráð. Sýnt þykir að ruglingurinn hafi þegar verið ærinn á 13. öld, um þær mundir sem Snorri Sturluson setur saman Eddu sína og vitnar í kvæðið. Engan þarf að furða þótt Völuspá hafi brenglast í minni manna og munni áður en ritöld hófst. Kvæðið er langt og marg- slungið og auk þess sett saman úr öðrum eldri kvæðum að því er flestir telja. Erfitt er auðvitað að leggja svo langt kvæði á minnið og einkum er hætta á að röð vísna og vísuorða ruglist. Þegar kvæðið var loks skráð var skaðinn skeður; enginn kunni lengur óbrenglaðan þann texta sem höfund- urinn setti saman í öndverðu. Vísur höfðu truflast, vísuorð farið á flakk, gloppur myndast, og þá er reynt að fylla í eyður. Skrásetjarar höfðu freistast til að auka í kvæðið aðskotaefni, s.s. nafnaþulum dverga vegna þess að uppruni dverga er eitt af minnum kvæðisins. Í uppskriftum hafa skrifarar einnig mislesið eða misskilið ýmis- legt í textanum og með öllum þessum agnú- um komst kvæðið loks á bókfell og að lok- um á húðir hinnar frægu bókar sem kennd er við konunginn. Varla var við öðru að búast en að svona færi. Öllu undarlegra er hve rannsóknir fræðimanna á þessum texta í hartnær tvær aldir höfðu litlu áorkað til að skýra kvæðið og að grafast fyrir um upprunalegt form þess og inntak. Rannsóknir flestra á Völu- spá hafa að mestu leyti verið fólgnar í skýr- ingum á textanum, orðum, myndmáli og hugmyndum í óreiðu kvæðisins eins og hún birtist í Konungsbók, Hauksbók og Snorra- Eddu. „Ritskýringin er að vissu leyti dap- urleg íþrótt. Hún fæst einkanlega við hið torskilda“ segir Nordal í riti sínu (bls. 11- 12). Eftir að hann skrifaði þessi orð hafa fjölmargir fræðimenn samt haldið áfram í hinum dapurlegu hjólförum. Enginn nema Helgi Hálfdanarson hefur farið aðra leið til að efla skilning á Völuspá og ráða gátuna um upprunalega gerð kvæðisins. Ný rannsóknarleið Aðferð Helga er sú að grafast fyrir um ræt- urnar með því að kanna formið og nýta það til leiðbeiningar um efnisskipan. Rannsókn hans tekur mið af ákveðnum formatriðum sem hann telur að gera megi ráð fyrir í uppistöðu kvæðisins og hann getur skil- merkilega um þau (bls. 42–43). Hann hygg- ur sérstaklega að stefjunum þremur sem endurtekin eru óreglulega í kvæðinu og allir fræðimenn hafa auðvitað haft fyrir augum. Helgi tekur fram að á stefin sé að treysta öðru fremur til leiðbeiningar um gerð kvæð- isins í öndverðu. Ljóst er að hann hefur drápuformið að leiðarljósi, enda eru stefin í slíkum kvæðum staðsett með reglulegu millibili til að skipta textanum á skipulegan hátt í bálka. Jafnframt verður að hyggja að efninu í tengslum við endurreisn formsins. Markmið sitt setur Helgi skýrt fram: hann „leitazt við að skipa brotunum saman að nýju eftir hvorumtveggju þeim leiðarmerkjum sem greind verða, efni og formi kvæðisins sjálfs, þannig að samhengi verði svo eðlilegt sem efni hrekkur til innan ramma þeirrar form- festu sem augljós ástæða er til að vænta. […] Fari þá svo um efni og form, að lagfær- ing annars reynist um leið endurbót hins, þá eru þar talsverðar líkur til að í rétta átt hafi verið haldið.“3 Einnig greinir Helgi stílinn og kemst að raun um að í kvæðinu ríkir þrennskonar stíll; þá vitneskju notar hann líka til að rekja saman það sem saman á og finna frumrætur Völuspár í þremur eldri kvæðum sem hvert og eitt hefur sitt stef. Drápuformið var í hávegum haft meðal ís- lenskra skálda á miðöldum og þótti vel hæfa mikilsháttar kveðskap. Lofkvæðin um kappa, konunga og jarla, svo og helgikvæði, voru ýmist kölluð flokkar eða drápur. Á þeim var sá formlegi munur að drápunni var skipt í hluta með stefjum en í flokki rak hver vísan aðra án skiptingar. Andreas Heusler telur að drápuformið hafi einnig verið notað í goðakvæðum og að ortar hafi verið sjálfstæðar goðadrápur4. Margskonar bragarhættir tíðkuðust í drápuforminu; í lofkvæðum hirðskáldanna var dróttkvæður háttur algengastur en „Höfuðlausn“ Egils er þó undir runhendum hætti. Um drápurnar segir Finnur Jónsson í bragfræði sinni að þær hafi oftastnær verið efnisríkari en flokkarnir, en það sem eink- um gerði þær viðhafnarmeiri og greindi þær frá flokkunum var vísnaskiptingin sem gerð var með stefinu.5 Stefið er merkilegt stílbragð og hefur í för með sér mikilvæg tilþrif umfram form flokks. Tilgangur stefsins virðist augljós: Þegar miðlun kvæða byggðist eingöngu á framsögn urðu stefin kærkomin blæbrigði til áminningar og lífguðu upp á kveðskap- inn. Kvæði, sem flutt er í heyranda hljóði, Merkast allra ljóða „Það er með ólíkindum að stofnanir og starfs- menn íslenskra fræða skuli í fjóra áratugi hafa þagað þunnu hljóði um Völuspárkenn- ingar og -skýringar Helga Hálfdanarsonar og látið sem verk hans sé ekki til,“ segir í þessari grein sem fjallar um bók Helga Maddaman með kýrhausinn sem kom fyrst út fyrir fjörutíu árum en var endurútgefin árið 2002. Höfundur telur bókina athyglisverð- asta rit sem birst hefur um Völuspá. Eftir Eystein Þorvaldsson eyth@khi.is Sigurður og Helgi „„Ritskýringin er að vissu leyti dapurleg íþrótt. Hún fæst einkanlega við hið tor- skilda,“ segir Nordal í riti sínu [um Völuspá]. Eft- ir að hann skrifaði þessi orð hafa allmargir fræði- menn samt haldið áfram í hinum dapurlegu hjólförum. Enginn nema Helgi Hálfdanarson hef- ur farið aðra leið til að efla skilning á Völuspá og ráða gátuna um upprunalega gerð kvæðisins.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.