Morgunblaðið - 29.11.2004, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 29.11.2004, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 29. NÓVEMBER 2004 15 DAGLEGT LÍF J ólatrésskemmtanir fyrir börn eru enn órjúfanlegur þáttur í jólahaldinu og virð- ast ætla að halda velli þrátt fyrir gríðarlegar sam- félagsbreytingar á síðustu árum, þar sem framboð á hvers kyns afþreyingu verður sífellt fjölbreyttara. En börn verða alltaf börn og engin jól án þess að fá að berja jólasveininn augum, þó ekki sé nema í stutta stund á jólaball- inu. Að sögn Árna Björnssonar þjóð- háttafræðings er fyrsta örugga heim- ildin um jólatrésskemmtanir hér á landi grein í blaðinu Þjóðólfi frá 28. desember 1876, en þar segir frá jóla- trésskemmtun sem Thorvaldsens- félagið hélt fyrir rúmlega hundrað fá- tæk börn í sjúkrahúsinu í Reykjavík og er greint frá þessari heimild í rit- verki Árna, Saga daganna. Sjúkrahúsið var þá í tvíbýli við skemmtistað í húsi sem kallað var Okakerið og stóð þar sem nú er Her- kastalinn. Af greininni í Þjóðólfi má ráða að jólatré hafa ekki verið algeng hér á landi á þessum tíma því ritstjór- inn sér ástæðu til að útskýra fyr- irbærið fyrir lesendum sínum: „Jólatré eru náttúruleg grenitré, ekki hærri en svo að húsrúm leyfi; eru greinarnar alsettar vaxkertum og allt tréð alsett stássi (jólagjöfum) og sætindum eins og ódáins-eplum og aldinum. Þegar börnin hafa dansað og sungið kring um trén og ljósin taka að fölna er gjöfunum skipt upp í milli þeirra. Jólatré má og búa til úr spýtum og eini, ef vill.“ Jólasaga Faktorshússins Jólatrésskemmtanir fyrir börn urðu eftir þetta algengur siður á veg- um ýmissa fleiri samtaka og jafnvel einstaklinga í Reykjavík og fleiri kaupstöðum. Á Ísafirði var til að mynda farið að halda jólatrés- skemmtanir í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað fyrir aldamótin 1900. Í ritinu Saga Ísafjarðar segir meðal annars um þessar skemmtanir: „Lengi tíðkaðist einnig, að versl- unarstjórarnir í Hæstakaupstað héldu börnum í bænum jólaskemmt- un. Sophus J. Nielsen byrjaði á þess- um sið, og hélt Jón Laxdal honum síð- an áfram, eftir að hann varð verslunarstjóri. Nielsen hélt skemmt- anirnar heima hjá sér, en ekki er ljóst hvenær hann tók þær upp. Jólatrés- skemmtunum hefur hann vafalítið kynnst í Danmörku, og er ekki ósennilegt að hann hafi tekið að halda þær á Ísafirði fljótlega eftir að hann var sjálfur orðinn fjölskyldumaður, en hann kvæntist fyrri konu sinni Maríu Ásgrímsdóttur, árið 1867. Má geta sér þess til að Nielsen hafi haldið fyrstu skemmtanirnar fyrir sín eigin börn, en boðið öðrum börnum í bænum á þær og getur það bent til þess að hann hafi tekið upp þennan skemmtilega sið upp á meðan bærinn var enn lítill og börnin í honum fá. Er þá hugsanlegt, að jólatrésskemmt- anir Nielsens faktors hafi verið þær fyrstu á Íslandi, en fyrsta jólatrés- skemmtun, sem öruggar heimildir greina frá, var haldin í Reykjavík árið 1876. Þó er einnig hugsanlegt að Nielsen hafi ekki byrjað að halda skemmtanirnar fyrr en hann var orð- inn verslunarstjóri í Hæstakaupstað, en það varð hann árið 1884. Ekki vantaði jólasveininn Jón Grímsson var á jólatrés- skemmtunum Nielsens í bernsku og lýsti hann þeim með eftirfarandi orð- um: „Var heilum sæg barna boðið á þessar skemmtanir og þeim veitt af mestu rausn, auk þess sem hvert barn var leyst út með einhverri jóla- gjöf. Var öllum jólagjöfunum raðað á stórt borð og síðan dregið um þær rétt áður en skemmtuninni lauk. Var þetta einskonar happdrætti, en núlla- laust. Ekki vantaði heldur sjálfan jólasveininn. Birtist hann venjulega í miðri veislunni og sást fyrst er hann fór fyrir gluggana með rautt, beng- alskt blys í hendi og gríðarstóra körfu á handlegg sér. Úthlutaði hann síðan hverju barni einhverju sælgæti úr körfunni. Var jólasveinninn alltaf prýðilega útbúinn, alveg eins og jólasveinar eiga að vera. Í Nielsenstíð var það alltaf Þóroddur Einarsson af- greiðslumaður við Tangsverslun, sem lék jólasveininn. Markmið versl- unarstjórans var að gleðja sem flest börn um hver jól, hverra manna sem vóru, og varð því ávallt að endurtaka þessar jólatrésskemmtanir í hvert skipti. Eru þessar jólatrésskemmt- anir mér enn í fersku minni, þó langt sé nú orðið síðan ég var einn í þessum barnahóp.“ Jólasiðurinn endurvakinn Sophus J. Nielsen lést árið 1905, og Jón Laxdal fluttist frá Ísafirði 1910. Eftir það mun Hæstakaupstað- arverslun hafa hætt að halda jólatrés- skemmtanir. Á 2. tug 20. aldar hélt kvenfélagið Ósk jafnan jólatrés- skemmtanir á þrettándanum og var þangað boðið öllum börnum í bænum. Í lok skemmtunarinnar voru þau leyst út með gjöfum, sem versl- anirnar munu hafa gefið. Á jólatrés- skemmtunum Óskar var ávallt jólatré með lifandi ljósum. Af því var mikil eldhætta og voru unglingsstrákar látnir gæta þeirra. Við þetta má svo bæta að Áslaug Jensdóttir, núverandi eigandi Fakt- orshússins, endurvakti gömlu jóla- hefðina í húsinu í desember árið 2002, en þá hélt hún jólatrésskemmtun fyr- ir leikskólabörn á Ísafirði og þótti skemmtunin takast vel. Jólasveinn- inn birtist eins og í lýsingunni hér að framan, sást fyrst er hann fór fyrir gluggana með blys áður en hann kom inn í selskapinn. Áslaug kvaðst hafa fullan hug á að hafa þennan jólasið í heiðri um ókomin ár. „Það þykir svo jólalegt húsið, núna eftir endurbæt- urnar, að það er ekki annað hægt en að halda þessum sið við, ekki síst í ljósi þess að húsið á sér þessa líka fínu jólasögu,“ sagði Áslaug. Jólaball í Faktorshúsi  JÓL | Gamla hefðin endurvakin rúmum hundrað árum eftir fyrstu skemmtunina Jólatrésskemmtun Thorvaldsensfélagsins árið 1876 er sú fyrsta hér á landi sem öruggar heimildir greina frá. Í Faktorshúsinu í Hæstakaupstað á Ísafirði var einnig farið að halda jólatrésskemmtanir fyrir aldamótin 1900. Faktorshúsið í Hæstakaupstað á Ísafirði. Jólasveinn á spjalli við börnin á skemmtun í Faktorshúsinu árið 2002. Jólasveinn sást fyrst fara fyrir glugga með blys. svg@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.