Tíminn - 31.12.1983, Blaðsíða 8

Tíminn - 31.12.1983, Blaðsíða 8
8 LAUGARDAGUR 31. DESEMBER 1983 Útgefandi: Framsóknarflokkurinn. Framkvæmdastjóri: Gísii Sigurðsson. Auglýslngastjóri: Steingrímur Gíslason. Skrifstofustjóri: Ragnar Snorri Magnússon. Afgreiðslustjóri: Sigurður Brynjólfsson. Ritstjórar: Þórarinn Þórarinsson, Elías Snæland Jónsson. Ritstjórnarfulltrúi: Oddur V. Ólafsson. Fréttastjóri: Kristlnn Hallgrímsson. Umsjónarmaður Helgar-Tímans: Atli Magnússon. Blaðamenn: Agnes Bragadóttir, Bjarghildur Stefánsdóttir, Baldur Kristjánsson, Friðrik Indriðason, Guðmundur Sv Hermannsson, Heiður Helgadóttir, Jón Guðni Kristjánsson, Jón Ólafsson, Kristín Leifsdóttir, Samúel Örn Erlingsson (íþróttir), Skafti Jónsson. Útlitsteiknun: Gunnar Trausti Guðbjörnssson. Ljósmyndir: Guðjón Einarsson, Guðjón Róbert Ágústsson, Árni Sæberg. Myndasafn:' Eygló Stefánsdóttir. Prófarkir: Kristín Þorbjarnardóttir, Flosi Kristjánsson, Guðný Jónsdóttir Ritstjórn skrifstofur og auglýsingar: Síðumúla 15, Reykjavik. Simi: 86300. Auglýsingasími 18300. Kvöldsímar: 86387 og 86306. Verð i lausasölu 20.00, en 22.00 um helgar. Áskrift á mánuði kr. 250.00. Setning og umbrot: Tæknideild Tímans. Prentun: Blaðaprent hf. Sjálfstæðisbaráttan á komandi ári ■ Þeir miklu efnahagslegu erfiðleikar, sem þrengja að þjóðinni um þessar mundir, hljóta að rifja það upp, að það er ekki minni vandi að gæta fengins fjár en að afla þess. Vissulega kostaði það íslenzku þjóðina harða baráttu að endurheimta sjálfstæði sitt. Oft voru örðugleikarnir miklir og virtust stundum óyfirstíganlegir. Takmarkinu var samt náð og þess hefur þjóðin ríkulega notið síðustu áratugi. Ef menn kynna sér lífskjörin, sem voru hér fyrir 65 árum, þegar stjórnin varð algerlega innlend, að undanskilinni utanríkisþjónust- unni, geta þeir vel gert sér í hugarlund hve mikið framtak hefur verið leyst úr læðingi við það, að þjóðin fékk fulla stjórn eigin mála, og hve miklu það hefur áorkað. Svo ósambærileg eru lífskjörin nú og þá. Að sönnu hafa víðast orðið miklar breytingar á högum þjóða á þessum tíma, en óvíða eða hvergi eins miklar og hér. Þrátt fyrir miklar framfarir og batnandi lífskjör, er þjóðin síður en svo komin í örugga höfn og sjálfstæði hennar úr allri hættu. íslendingar hafa ótvírætt lifað um efni fram síðustu árin og safnað ískyggilega miklum skuldum. Þegar óvæntir erfiðleikar ganga í garð, ens og aflabresturinn nú, getur skuldabagginn reynzt þjóðinni illbærilegur, ef hún þrengir ekki að sér. Þá er mikil hætta á, að farið verði að leita um of aðstoðar erlendra aðila á einn eða aitnan hátt. Það getur verið freistandi, ef slík aðstoð stendur til boða, annað hvort af hernaðarástæðum eða því, að viss öfl vilja ná undir sig auðlindum landsins. Hér getur verið mikil hætta á ferðum, ef ekki er gætt fullrar varúðar. Hættan getur verið mest, þegar menn eru búnir að lifa um efni fram um skeið, og þurfa að þrengja að sér af einhverjum óvæntum ástæðum. Þá geta gylliboð reynzt freistandi. Menn íhuga þá ekki nægilega afleiðingarnar, þegar búið er að grafa undan hinu efnahagslega sjálfstæði. Þá kemur að skuldadög- unum. Nokkurt dæmi um þetta eru litlu eyríkin á Karíbahafi. Áreiðanlega hefði stjórnendum þeirra ekki dottið í hug að gerast málamyndaþátttakendur í innrás Bandaríkjanna á Grenada, ef þau ættu ekki efnahagslega afkomu sína undir Bandaríkjunum. Islendingar standa nú á þeim vegamótum, að efnahagslegt sjálfstæði þeirra er í augljósri hættu. Tilgangurþeirra efnahagslegu aðgerða, sem nú er verið að framkvæma og þegar hafa náð umtalsverðum árangri, er öðru fremur sá að treysta hið efnahags- lega sjálfstæði. Mistakist þær vegna skilningsleysis og pólitískrar andspyrnu, getur þess orðið skammt að bíða, að pólitískt sjálfstæði þjóðarinnar verði lítið meira en nafnið eitt. Tímar eins og þeir, sem íslendingar búa við nú, krefjast þess, að einstaklingar og stéttir snúi bökum saman og hjálpist að við að sigrast á vandanum. Tímarnir gera ekki aðeins kröfu til þess, að ríkisstjórnin sé ábyrg, heldur stjórnarandstaðan einnig. Þess eru ekki fá dæmi, að öfgafull og óábyrg stjórnarandstaða hafi orðið frelsi þjóðar að falli. Samspil nazista og kommúnista í Weimarlýðveldinu er eftirminnilegt dæmi um það. Sagan geymir óteljandi dæmi um þjóðir, sem hafa brotið af sér hlekki erlendrar yfirdrottnunar og heimt sjálfstæði sitt. En það er hægt að finna eins mörg dæmi eða fleiri um þjóðir, sem hafa vegna aðgæzluleysis, værðar og sundrungar glatað sjálfstæði sínu. Sjálfstæð þjóð verður stöðugt að hafa hugfast, að sjálfstæðisbar- áttunni lýkur aldrei, ef sjálfstæðið á að varðveitast. Það verður aldrei unnið til varanlegrar eignar, heldur þarf þrotlaust starf til að missa það ekki úr höndum sér. í þeirri von, að árið 1984 verði sjálfstæði íslendinga og friðnum í heiminum gott ár, flyturTíminn lesendum sínu beztu nýársóksir. Þ.Þ. skrifað og skrafað ■ Prentfrelsi og skoðana- frelsi eru meðal þeirra horn- steina vestræns lýðræðis sem síst mega missa sín ef það á að standast. Oft er vegið að þessum undirstöðuþáttum, sem allir verja í orði, en því miður ekki ávallt á borði. Tilhneiging til miðstýringar og stofnanaveldis er mikil og varast kjörnir fulltrúar ekki ávallt sem skyldi þegar þeir færa vald og ákvarðanatöku frá einstaklingum yfir til stjórnskipaðra nefnda eða opinberra stofnana. Oftast er þetta af góðum hug gert eða í algjöru hugs- unarleysi og þá ekki skeytt um hvaða afleiðingar ákvarð- anatakan hefur. Snemma á árinu komust einhverjir siðapostular að því að miður smekklegar myndir voru til útleigu hjá myndbandaleigum. Þegar þetta varð opinbert komst málið á það hástig að eirina helst mátti líkja við móður- sýki. Það var eins og fyrri daginn, þeir tala mest um Ólaf kóng sem hvorki hafa heyrt hann eða séð. Mynd- bandaleigur og notkun þessa tækniundurs var fordæmt af fólki sem tönnlaðist á að það hefði aldrei séð myndbanda- tæki á ævinni og gæfi lítið fyrir slíkt. Þetta minnti einum of mik- ið á umræðuna löngu og heimskulegu nokkru áðurum lokuðu sjónvarpskerfin, sem þá voru að komast í tísku. Þeir sem mest höfðu sig í frammi kölluðu lokaða sjón- varpskerfið „vídeó" og stað- hæfðu að í „vídeói" væri ekkert nema hryllilegur hryll- ingur og ruddalegt klám. Inn í þetta var blandað misjafn- lega gáfulegum hugleiðing- um um höfundarrétt og einkarétt útvarps og síma til fjarskipta. Það hefur annars verið hljótt um lokuðu sjónvarps- kerfin undanfarið. Kannski hafa þau lognast út af, eins og sjá mátti fyrir þegar land- inn uppgötvaði myndabanda- tækin. Skömmu fyrir jól voru samþykkt lög á Alþingi um að einstaklingar mættu ekki hafa í fórum sínum mynd- bönd með efni sem skoðunar- menn RÍKISINS hefðu ekki áður lagt blessun sína yfir og í kjölfarið fylgdi reglugerð. Þarna er verið að koma upp skömmtunarskrifstofu fyrir það andlega fóður, sem rafeindatæknin hefur gert fólki mögulegt að njóta. Viðkvæðið er að passa þurfi að krakkar sjái ekki eitthvað sem skömmtunar- stjórnin telji þeim ekki hoilt. Lögin ná aðeins til kvik- mynda og myndbanda. Hefur uppeldisfrömuðum ungra og gamalla aldrei dottið í hug að hægt sé að setja „ósæmilegt" efni á hljómplötur eða snældur? Því ekki að setja lög og skipa eftirlitsráð með þeim miðlum? Til þessa hefur kvikmynda- eftirlitið aðeins fylgst með því sem sýnt er í opinberum kvikmyndahúsum og vald- sviðið náð til þess hve gamlir krakkarnir þurfa að vera til að sjá þetta eða hitt. Kvik- myndir og myndbönd sem skoðuð er í heimahúsum er allt annar handleggur og er í rauninni fráleitt að RÍKIÐ fari að ákveða fyrir hvern og einn hvað hann rná skoða og hvað ekki. Og hver segir að yfirskoðunarmenn RÍKIS- ' INS séu eitthvað færari en Pétur eða Páll til þess að ákvarða hvað hverjum og einum er hollt eða óhollt að sjá eða heyra? Má reyndar undarlegt heita ef hægt er að fyrirfinna fólk sem telur sig þess um- komið að takast skömmtun- arhlutverkið á hendur. Ritskoðun lögleidd Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður skrifar stutta grein í Morgunblaðið um hina nýju ritskoðun. Þar segir: „Þau tíðindi hafa nú gerzt á íslandi, að með lögum frá Alþingi hefur verið ákveðið, að ekki megi sýna, selja eða lcigja kvikmyndir í landinu, nema þær hafi áður verið skoðaðar af starfsmönnum íslepzka ríkisins og fengið vottorð þeirra um að sýna eða dreifa megi myndunum. Gildir þetta um allar kvik- myndir, hvort heldur þær eru á venjulegum kvikmynda- spólum eða svokölluðum myndböndum. Það hefur með öðrum orðum verið lög- leidd fullkomin ritskoðun á kvikmyndum í landinu. Þetta er ótrúlegt, en því miður satt. Lög nr. 33/1983 um bann við ofbeldiskvik- myndum og reglugerð menntamálaráðherra 21. desember 1983, sett með heimild í lögunum, fela þetta í sér. í lögunum er innflytj- endum, framleiðendum, dreifingaraðilum og sýnend- um kvikmynda gert skylt að kveðja skoðunarmenn ríkis- ins til þess að skoða kvik- myndir, áður en þær eru teknar til sýninga. Síðan er sagt, að löggæslumenn skuli hafa eftirlit með því, að að- eins séu sýndar kvikmyndir, sem hlotið hafi opinbert leyft eða slíkt efni selt, eða leigt á myndböndum eða mynd- plötum. Ég hefi ekki kannað, hvort einhver alþingismaður greiddi atkvæði gegn þessari lagasetningu á Alþingi. Ég er næstum viss um að það var enginn. Málið varðar nefni- lega hvorki vísitölu fram- færslukostnaðar, né höndlar það um úthlutun skattpen- inga til vonaratkvæða í kjör- dæminu „heima". Þaðvarðar bara tjáningarfrelsið í land- inu og stjórnarskrárvernd þess. Og hvaða þingmaður hefur áhuga á svoleiðis smániunum? Ef einhver slík- ur er til, bið ég hann að gefa sig fram. Maður veltir því fyrir sér á hvaða leið þjóðin er, -þegar hún þegjandi og hljóðalaust, fyrir tilstyrk þeirra þjóð- kjörnu fulltrúa, sem hún lík- lega verðskuldar, er farin að setja sér reglur af þessu tagi. Niðurstaða þeirra hugleið- inga er dapurleg. Við virð- umst ekki valda því að við-' halda meginreglum um póli- tískt og persónulegt frelsi, sem menn áður börðust fyrir". Frelsis- skerding Það er hárrétt hjá hæsta- réttarlögmanninum að hér er um að ræða freklegan ágang á tjáningarfrelsi og persónu- frelsi einstaklinga. Maður hefði haldið að lög- gjafarsamkundan haft haft nægum hnöppum að hneppa, í afgreiðsluörtröðinni rétt fyrir jólafrí, en að fara að renna lögum um skerðingu persónufrelsisins í gegnum þingið umræðulaust. En svo var þó ekki og nú er hægt að koma á stofn skömmtunar- stjórum til að skoða og gaum- gæfa allan þann óhroða sem þeir hyggja að kvikmyndir og myndbönd til einkanota séu yfirfull af. Verði þeim að góðu. Ávallt eru uppi vandræði vegna höfundarréttar vegna þeirrar margföldunartækni sem nútímatækni býður upp á. En það er önnur Gudda og er enda lögunum um ríkis- skoðun og skömmtun ekki ætlað að fást við það vanda- mál. En rit- og myndstuldur er daglegt brauð meðal okkar. Til dæmis var undirritaður að enda við að taka traustataki grein Jóns Steinars, eins og hún lagði sig og er siðgæðis- þrekið ekki meira en svo, að mér finnst ekkert athugavert við það, fremur en að sjá eigin ritsmíðar á prenti hér og þar án leyfisveitingar. Þar sem Alþingi hefur séð ástæðu til að ganga á persónufrelsi manna með þeim hætti er hér er lýst, er fyllsta ástæða til að fylgjast með störfum skömmtunar- meistaranna þegar þeir fara að sinna lögbundnum störfum sínum, og Veita þeim ekki síður aðhald en þeir ætla öðrum. í stað þess að fara að setja ný lög um frelsisskerðingu hefði löggjafanum verið nær að endurskoða lögin um prentfrelsi, meiðyrði og ákvæði hegningarlaganna um klám og guðlast. Það færi til að mynda betur á því að þjóðkirkjan þyrfti ekki að gefa yfirlýsingar um að hún hafi ekki sömu skoðun á guðlasti og hegningarlögin.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.