Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 6. OKTÓBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Ólaf Pál Jónsson opj@khi.is ! Sífellt er klifað á því að heim- urinn sé að minnka, skreppa saman, jafnvel að verða að einu litlu þorpi. Og það er haft til sannindamerkis um þessa minnkun heimsins að nú fáum við upplýsingar frá öllum heims- hornum inn í stofu til okkar, að við spjöllum hnökralaust við fólk í fjar- lægustu kimum jarðar og að fólk bregði sér í frí til útlanda eins og menn brugðu sér í næsta hrepp hér áður fyrr. En þýðir þetta að heimurinn sé að minnka? Þegar ég var lítill strákur austur á Kirkjubæjarklaustri náði minn heimur frá Skaftá og upp á fjallsbrún, í vestri lágu mörkin við Systrastapa og í austri um Stjórnarsand. Eftir því sem ég stækk- aði færðust mörkin utar og svo stækkaði heimurinn enn meira og náði norður til Akureyrar þar sem ég átti afa og ömmur og til Reykjavíkur þar sem ég átti frænd- fólk og þar sem spariföt voru keypt. Sem lítill strákur á Klaustri hafði ég ósköp takmarkaða hugmynd um að í þessum heimi væri eitthvað annað en það sem fyrir augu bar. Eftir því sem ég stækkaði gerði ég mér smátt og smátt grein fyrir því að heimurinn væri fleira en það sem ég hafði kynni af, bein eða óbein. Og núna veit ég að í þessum heimi er aragrúi hluta sem ég hef enga hugmynd um. Því meira sem ég sé af heiminum, þeim mun gleggri grein geri ég mér fyrir því hversu lítið það horn er sem ég get með nokkrum rétti sagt að ég þekki. Og þess vegna finnst mér heimurinn alltaf vera að stækka. Því betur sem ég hugsa málið, því frá- leitara finnst mér að segja að heimurinn sé að minnka. Sá sem ferðast til fjarlægra staða þar sem menningin er frábrugðin því sem hann á að venjast og lífskjörin með öðrum hætti – ekki endilega verri og ekki endilega betri, en öðruvísi – finnur hversu erfitt það getur verið að nálgast þann veruleika sem hann er þó staddur í. Fólkið er fjarlægt og verður það uns mað- ur hefur náð tökum á tungumálinu sem það talar og kynnst hugarheimi þess. Sá sem ferðast til fjarlægra staða og ber yf- irleitt eitthvert skynbragð á mannlega til- veru, hann sér líka hversu stór heimurinn er og hversu framandi menning getur verið, jafnvel þótt maður sé staddur í henni miðri. Tæknin hefur fært mér blik af fjar- lægum stöðum, en við það hefur sjón- arhorn mitt stækkað frekar en hitt og heimur minn sömuleiðis. Er þetta ekki nokkuð augljóst? En hvers vegna er þessu þá snúið á haus og sagt að heim- urinn sé að minnka? Og hvers vegna er klifað á þessu í sífellu? Meira að segja fræðimenn, sem ráðnir eru við göfugar stofnanir til að hugsa skýrt, japla á þess- ari tuggu eins og einhverjum vísdómi. Tæknin er ekki líkleg til að minnka heiminn því hún dregur ekki úr fram- andleika hins fjarlæga. Hún getur hins vegar hæglega stækkað hann með því að draga saman margbreytileika tilver- unnar. En með því að leggja yfirborðs- lega upplifun að jöfnu við þekkingu, og grunnfærin viðkynni að jöfnu við mann- lega nánd, geta menn ályktað sem svo að tæknin megni að minnka heiminn. En ályktunin er röng vegna þess að það er himinn og haf á milli þess að upplifa eitt- hvað og þekkja það. Það er lítið vit í því að tala um heiminn eins og hann sé fýsibelgur sem gengur sundur eða saman eftir því sem maður hnusar út í loftið eða stillir sér upp í hríð- arbyl fjölmiðlanna. Auðvitað er heim- urinn samur við sig og það er ekki annað en kjánalegt orðalag – þegar best lætur – að segja að hann sé að minnka, eins og maður geti þanið sig út yfir hann með því að sjúga hressilega upp nefið. Þegar verr lætur verður þetta kjánalega orðalag að lífsspeki þess sem gerir eigin fávisku að mælikvarða á gjörvalla tilveruna. Er heimurinn að minnka? Höfundur er heimspekingur. Eftir Önnu Kristínu Jónsdóttur anna.kristin.jonsdottir@gmail.com U mræður um móðurmálið hafa verið háværar undanfarnar vikur. Þar er samt umræðu- efnið ekki alltaf alveg klárt og kvitt. Í aðra röndina hefur talsvert borið á kvörtunum undan því að afgreiðslufólk í brauðbúðum skilji ekki íslensku og ekki heldur þeir sem sinni börnum, sjúkum og gamalmennum. Þarna verðum við mörg hver óþyrmilega vör við það hvernig vinnumarkaðurinn hefur breyst og hverjir gegna þjónustustörfum í landinu. Í hina röndina velta menn fyrir sér nauðsyn þess að þjóðin verði tvítyngd og ensku lyft til jafns við íslenskuna í viðskiptum og stjórnsýslu. Útrásinni sé nauðsynlegt að víkingarnir geti gert sig skiljanlega í útlönd- unum, bankarnir þurfi að geta ráðið til sín er- lent starfsfólk og fjárfestarnir sem hingað skuli laða þurfi að geta lesið lög um íslenskt viðskiptaumhverfi á ensku. Það síðastnefnda hét reyndar tvítyngd stjórnsýsla hjá varafor- manni Samfylkingarinnar í stuttri grein um evru og krónu. Þær hugmyndir vöktu hörð við- brögð. Félagi íslenskra fræða fannst ástæða til að harma þær og í ályktun þess sagði að það væri óbætanlegur skaði ef íslenska væri bara töluð á heimilum en ekki annars staðar í sam- félaginu. Hættan á því að mál týnist eykst þeg- ar dregur úr notkun þess á opinbera sviðinu. Ekki er langt síðan því var slegið upp að það tapaðist tungumál á tveggja vikna fresti í heiminum. Mörgum þykir kannski skipta mestu hvað við segjum hvert við annað inni á heimilinu, en samt er það víst svo að þegar málin hopa úr fyrirtækjum og stofnunum þá verður það smám saman fátæklegra heima. Það er engin ástæða fyrir Íslendinga að halda það að við séum hólpin, bara af því að Rasmus Christian Rask bjargaði okkur frá því að týna tungunni fyrir tvö hundruð árum. Sókn ensk- unnar er ábyggilega síst linari núna en dönsk- unnar á nítjándu öldinni. Sumir hafa jafnvel áhyggjur af því að hugs- anir okkar og tilfinningar verði fábreyttari ef tungumálið tapar fjölbreytni sinni. Það væri ömurlegt ef við hættum að geta fundið til af því að við gætum ekki komið tilfinningum okk- ar í orð. Jafnvel þó við vitum að tárin tali mál dýpstu sælu og sorginnar þungu. Það er alltaf stutt í tilfinningarnar þegar farið er að tala um tungumálið. „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein“ klingir í hug- anum og maður lyftist aðeins en finnst stund- um stutt í belginginn og þjóðrembuna. Auðvit- að er Íslendingum hollt að hafa gott vald á öðru máli en sínu eigin, í samskiptum við út- lendinga dugir hún skammt. Enskan er þá það mál sem gripið er til, hún er fyrsta erlenda tungumálið sem kennt er íslenskum börnum og dynur á okkur linnulaust. Það fer tvennum sögum af því hvort við erum öll eins góð í ensku og við viljum vera láta, en vissulega er hún orðin okkur töm. Það hefur líka heyrst greinilega í tali manna undanfarna dag að um- ræðan snýst um stöðu íslenskunnar gagnvart enskunni. Sumum finnst við kannski slegin þar blindu gagnvart öðrum málum en enskunni. Tungumálin sem töluð eru í heiminum skipta jú þúsundum og fleiri tala kínversku en ensku. Enskan er nú samt orðin okkur mörgum ískyggilega töm, til dæmis mátti heyra for- sætisráðherra grípa til hennar nýlega þegar hann lýsti afstöðu samstarfsflokksins til Evr- ópusambandsins svo að Samfylkingin vildi ganga í það „no matter what“. Fólk heyrist líka æ sjaldnar ragna, bölva og blóta á ís- lensku. Það má kannski deila um það hversu mikil eftirsjá er að ljótum munnsöfnuði en út- lenskt bölv og ragn er nú eitt af því sem mér hefur verið sagt að varast. Tilfinning fyrir því hvaða blótsyrði henti hvaða tilefni lærist nefni- lega ekki svo auðveldlega með nýju máli. Ung stúlka, sem ég kannast við, varð eitt sinn fyrir því í heimsókn hjá foreldrum ensks kærasta síns að reka sig í borðshorn. Stúlkan meiddi sig og sagði upp úr eins manns hljóði „sjæt“. Þetta taldi hún bara vera blótsyrði í mildara lagi, kannski aðeins harðara en svei attan. Það fannst foreldrum kærastans alls ekki. Þeir töluðu við soninn um hvers konar yf- irgengilegur ruddi þessi stúlka ofan af Íslandi væri eiginlega. Sonurinn talaði við stúlkuna og sagði henni að svona orðbragð væri bara ekki við hæfi fyrir framan móður hans. Stúlkan varð miður sín, baðst auðmjúklega afsökunar og slapp með þetta fyrir horn. Hún á enn kær- astann en finnst aldrei neitt sérstaklega þægi- legt að heimsækja tengdaforeldrana. Varaformanninum unga fannst viðbrögðin við greinarstúfnum byggjast á misskilningi. Hann hefði bara átt við að það þyrfti að þýða lög sem varða viðskiptaumhverfið í landinu á ensku, að sjálfsögðu vildi hann hlúa að íslensk- unni áfram. En er þá nokkuð um tvítyngi að ræða? Þetta sýnir kannski einmitt hversu mik- ilvægt það er að orða hugsanirnar svo þær komist til skila. „Sjæt þýðir ekki svei attan“ Morgunblaðið/Eyþór Ágúst Ólafur Ágústsson „Varaformanninum unga fannst viðbrögðin við greinarstúfnum byggjast á misskilningi. Hann hefði bara átt við að það þyrfti að þýða lög sem varða við- skiptaumhverfið í landinu á ensku, að sjálfsögðu vildi hann hlúa að íslenskunni áfram.“ FJÖLMIÐLAR »Ekki er langt síðan því var slegið upp að það tapaðist tungu- mál á tveggja vikna fresti í heiminum. Mörgum þykir kannski skipta mestu hvað við segjum hvert við annað inni á heimilinu, en samt er það víst svo að þegar málin hopa úr fyrirtækjum og stofnunum þá verður það smám saman fátæklegra heima. Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.