Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2007, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2007, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. OKTÓBER 2007 3 Eftir Hafþór Yngvason hafthor.yngvason@reykjavik.is J ohn Lennon hitti naglann á höfuðið þegar hann lýsti Yoko Ono sem fræg- asta óþekkta mynd- listarmanni heims: „…allir þekkja nafn hennar, en enginn veit hvað hún gerir“. Þetta hefur reyndar breyst nokkuð á síðast- liðnum tuttugu árum með vönduðum skrifum og yfirlitssýningum sem hafa gert list hennar góð skil. Whit- ney-safnið í New York reið á vaðið árið 1989 með einkasýningu og frá árinu 2000 hefur stór farandsýning á verkum hennar farið á milli virtra safna víða um Bandaríkin. Margir hér á landi muna eftir yfirlitssýningu Yoko á Kjarvalsstöðum 1991 en það er ein fjölsóttasta listsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. Löngu áður en hún varð fræg sem eiginkona Johns Lennon hafði Yoko Ono skipað sér sess í New York og Tókýó sem einn af djörfustu og frumlegustu listamönnum samtím- ans. Hún er sannkölluð endurreisn- armanneskja, sem hefur unnið í ýms- um miðlum myndlistar auk þess að vera tónlistarmaður og þekktur bar- áttumaður fyrir friði og mannrétt- indum. Eftir hana liggja skúlptúrar og innsetningar, kvikmyndir, hljóð- verk, skjáverk, gjörningar og texta- verk, svo sem fyrirmælaverk og raddsetningar. Yoko Ono steig fram á svið mynd- listar á miklum ólgutímum við upp- haf sjöunda áratugarins. Hún var hluti af nýrri kynslóð listamanna sem storkaði hefðbundnum list- formum og viðteknum hugmyndum um listræna tjáningu. Fjöldi málara, myndhöggvara, dansara, tónlistar- manna, skálda og kvikmyndagerð- armanna tóku höndum saman gegn þeim skorðum sem þeim fannst eldri list hafa reist þeim. Allir listmiðlar urðu vettvangur tilrauna, og mörkin á milli þeirra urðu óljós. Sú skörun listforma sem þetta leiddi af sér er einkennandi fyrir listsköpun Yoko. Menntun hennar í tónlist, ljóðlist og heimspeki var góður undirbúningur og afraksturinn opnaði nýjar leiðir í listrænni tjáningu. Áhrifa verka hennar á list síðustu 40 ár gætir víða, allt frá konseptlist yfir í nýjustu stefnur í kvikmyndagerð. Hún var brautryðjandi í notkun nýrra miðla og efna, svo sem skjáverka og plex- iglers, og hefur allt frá upphafi þanið út mörk listsköpunar sinnar, nú síð- ast til internetsins. Einn af upphafsmönnum Flúxus Yoko Ono fæddist í Tokýó árið 1933, dóttir velstæðra foreldra sem hvöttu hana út á listabrautina. Hún sótti nám í vönduðum og ströngum einka- skóla, þar sem hún lagði stund á klassíska tónlist. Þegar hún var 19 ára var hún fyrsta konan til að fá inn- göngu í heimspekideild hins virta Gakushuin-háskóla í Tokýó. En heimspekinámið olli henni von- brigðum og því hélt hún ári síðar til Bandaríkjanna í nám við annan virt- an skóla, Sarah Lawrence College í New York, þar sem hún lærði bók- menntir og ljóðlist. Ekki leið á löngu þar til hún var komin á kaf í ólgandi listasamfélag New York-borgar. Hún heillaðist af hressilegu andrúmslofti fram- úrstefnunnar og árið 1955 var hún þegar farin að gera tilraunir með nýja tegund textalistar og að skapa „fyrirmælaverk“ sem nú eru vel þekkt. Árið 1960 komst Yoko í kynni við George Maciunas, helsta leiðtoga framúrstefnulistamanna sem brátt sameinuðust undir merkjum Flúxus. Þótt rætur Flúxus væru í New York voru áhrif hópsins víðtæk, meðal annars hér á landi. Yoko var einn af upphafsmönnum Flúxus-hreyfing- arinnar og átti sinn þátt í að treysta hana í sessi, meðal annars með því að gera þakíbúð sína í SoHo í New York að vettvangi tilrauna í nútímatónlist veturinn 1960-61. Sýning sem hún hélt í galleríi Maciunas síðla árs 1961 hafði líka sín áhrif. Um leið var hún virkur þátttakandi í listalífi heima- lands síns og sýndi í einu af gall- eríum Tókýó-borgar. Að hefja hið veigalitla til metorða En hvað einkennir svo myndlist Yoko Ono? Flúxus-hreyfingunni hef- ur stundum verið lýst sem bræðingi af Dada, Bauhaus og Zen, og víst er að þessi lýsing á vel við um þá af- hjúpandi glettni sem mörg fyrri verka Yoko bera með sér. Gjörn- ingar hennar hafa oft einkennst af því sem Macunias nefndi „nýhæku- leikhús“ og stundum hefur verið kallað hið „zeníska fjölleikahús“. Frægir gjörningar hennar með John Lennon frá 1969, Bed-Ins for Peace, eru mjög í þessum anda, og eins hið kunna verk Cut Piece frá 1964 sem fær áhorfandann til þátttöku með því að bjóða honum að klippa búta af klæðum listamannsins og hafa með sér heim af sýningunni. Í innsetning- unni Ceiling Painting frá 1966 var áhorfandanum boðið að klifra upp í hvítan stiga og virða þar fyrir sér orðið „JÁ“ sem ritað var með örsmáu letri á loft salarins. Árið 1964 gaf Yoko út safn „fyr- irmælaverka“ í bókinni Grapefruit og miðlaði þar einföldum leiðbein- ingum til lesenda. Í einu verkanna, sem nefnist Ljóshús, má lesa: „Ljóshúsið er tálsýn, byggt úr hreinu ljósi. Sláðu upp strendingum á ákveðnum tíma dags, við ákveðna kvöldbirtu sem streymir gegnum strendingana, og ljóshúsið birtist í miðju vallarins eins og táknmynd, nema hvað þessi táknmynd býður þér inngöngu ef þú vilt. Svo kann að fara að ljóshúsið birtist ekki daglega, alveg eins og sólin skín ekki daglega.“ Þessi fallega tálsýn er um margt lýsandi fyrir það „efnisafnám“ lista- verksins sem er einkennandi fyrir list Yoko Ono allt frá upphafi, og fyr- ir þá skörpu sjón sem hún beinir að hinu óáþreifanlega í náttúrunni. Í verkinu Wind Piece frá 1962 var áhorfandinn til að mynda beðinn um að rýma fyrir þröngum gangi þar sem vindurinn fengi óhindrað að leika um, og í Light Piece átti að fylla poka af því ljósi sem þar kæmist fyr- ir og nota hann síðan sem ljósaperu. Yoko hefur sjálf lýst því manna best hversu litlu máli efnisleg tilvera listaverksins skipti hana á þessum fyrstu árum ferils hennar, í sam- anburði við hugtakið eða hugmynd- ina sem listamaðurinn kynnir til sög- unnar: „Það sem listamaðurinn hefur fram að færa er „hugmynd“, líkt og steini sé hent út í vatn til að gára það. Hugmynd er loft- ið eða sólin. Hver sem er getur notað hana, drukkið hana í sig eftir stærð og vexti…“ Í þessu viðhorfi felst ákveðin auð- mýkt. Í því mikla endurmati sem átti sér stað á 7. áratugnum sneru lista- menn frá þeim hátíðlegu viðhorfum sem svo oft hafa einkennt stefnur og strauma listasögunnar. Þeir sneru baki við dýrum efnum og færðu verk sín af háum stöplum niður á gólf og útí hversdagslegt rými áhorfandans. Gagnrýnandinn og sýningarstjórinn Peter Frank komst vel að orði þegar hann sagði: „Ásamt félögum sínum í Flúxus-hreyfingunni hefur Yoko hafið hið veigalitla til metorða og kennt okkur að meta töfra hins venjulega, um leið og við íhugum hversdagsleika þess sem virðist djúpstætt.“ Að hugsa okkur frið Þegar Yoko var boðið að reisa frið- arsúlu í Viðey kaus hún ekki að stað- setja hana á hæð, né heldur vildi hún stóran turn úr gleri og stáli. Hún vildi hreinan ljósgeisla og fyrir stað- setningu valdi hún lágan grasblett í skjóli við Sjónarhól. Hugmyndin að baki friðarsúlunni, sem verður afhjúpuð næstkomandi þriðjudag, er sótt í fyrirmæli að Ljóshúsi sem Yoko skrifaði fyrir 42 árum og eru birt hér að ofan. Verkið tekur á sig mynd „óskabrunns“, en uppúr honum rís ljósgeisli, sem verð- ur til úr fjölmörgum ljósum. Sex ljós- anna lýsa þvert yfir lágan pall, sem umlykur brunninn, og er síðan beint uppávið með speglum. Ljóssúlan birtist á hverju ári á fæðingardegi Lennons 9. október og hverfur á dánardægri hans 8. desember. Síðan er hún tendruð á gamlárskvöld og fyrstu viku vors. Eins og Yoko sagði í fyrirmælum sínum árið 1965: „Svo kann að fara að ljóshúsið birtist ekki daglega, alveg eins og sólin skín ekki daglega.“ Styrkur, skerpa og tær- leiki ljóssúlunnar í Viðey mun stöð- ugt breytast með skyggni, veðri og vindum. Orðin „Imagine Peace“ eru rist í óskabrunninn á 24 tungumálum. Þau eru í rauninni úr fyrirmælaverki sem Yoko gerði á sjöunda áratugnum. Það má taka orðin sem hrein fyr- irmæli – ímyndaðu þér frið (eins og réttu mér spýtu) – en eins og lista- verk Yoko yfirleitt þá gefa orðin líka í skyn óvænta uppgötvun eða furðu: hugsa sér frið. Að hugsa sér! Getum við ímyndað okkur friðsælan heim? Hvað ef við gengjum útfrá friði sem möguleika, myndum við líta framtíð- ina öðrum augum? Myndum við leita nýrra leiða í alþjóðlegum sam- skiptum? Allt sem Yoko biður okkur að gera er að hugsa okkur frið. Þetta er hugmynd, eða ímynd, sem lista- maðurinn kastar fram, „líkt og steini sé hent út í vatn til að gára það“. Hið einfalda er ekki endilega auðvelt Hinn róttæki einfaldleiki verka Yoko Ono er vísvitandi og tengist hug- myndum Zen-búddisma. Árið 1966 skrifaði hún að list geti veitt okkur hvíld frá flækjum hversdagslífsins. List getur beint manninum á veg fullkominnar hugarslökunar og þannig skerpt skynjunina. Þegar við snúum aftur að flækjum heimsins skiljum við þær á annan hátt. Gott dæmi er einkar einfalt verk sem Yoko skapaði 1966 þegar kalda stríð- ið stóð sem hæst. Verkið heitir Play it by Trust – Tefldu af trausti – og er einfaldlega alhvítt skákborð með al- hvítum taflmönnum. Með því að gera andstæðar fylkingar eins er ekki hægt að greina á milli þeirra. Ono hefur sjálf sagt að hvíta taflborðið sé einskonar lífsástand. „Lífið er ekki svarthvítt, maður veit ekki hvað er manns eigið og hvað er annarra.“ Ímyndið ykkur að tefla á slíku tafl- borði, að reyna að muna hvaða tafl- menn tilheyra hvorum og að sann- færa andstæðinginn um það. Til að geta haldið leiknum áfram verður barátta skákmannanna að breytast í samstarf. Skilaboðin eru einföld en það sem fær verkið til að ganga upp er að það gefur áhorfandanum til- finningu fyrir hversu margslunginn veruleiki okkar er og hvað við þurf- um að leggja á okkur í sameiningu til að ná árangri. Það sem er einfalt er ekki endilega auðvelt. Töfrar hins venjulega Óskatré Eitt af nýrri verkum Yoko. Sýningargestum er boðið að skrifa óskir sínar á spjöld og hengja þau síðan á tré í sýningarsalnum. Þessum óskum verður komið fyrir í tímahylki við friðarsúluna. Þriðjudaginn 9. október verður Friðarsúla Yoko Ono afhjúpuð í Viðey en það er afmælisdagur bít- ilsins og fyrrverandi eiginmanns hennar, Johns Lennon. Hér er fjallað um list Ono sem Lennon sagði einu sinni að allir þekktu en enginn vissi hvað gerði. Höfundur er forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur. Síðasta þorskastríðið Átti breski flotinn einhver svör við togvíraklippum Landhelgisgæslunnar? Mögnuð og spennandi bók um hatrömm átök, bæði á hafi úti og í landi. holar@simnet.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.