Akranes - 01.09.1945, Blaðsíða 13

Akranes - 01.09.1945, Blaðsíða 13
AKRANES 109 Hollustuliættir iii. Til athugunar um fatnað. Aðalnauðsynjar vorar, þ. e. a. s. þær, sem vér alls ekki get- um án verið, eru taldar þrjár, föt og fæði og húsnæði. Að fötin eru talin fyrst stafar sennilega af því, að það lætur bezt í eyrum, en ekki af því, að eitt sé þar öðru fremra. En í meðvitund alls almennings eru þau þó, að því er virðist, sett skör lægra en hitt tvennt. Menn leggja áherzlu á og reyna af fremsta megni að hafa húsakynni ekki eingöngu falleg og endingargóð, heldur líka þægileg og heilsusamleg. Og allir vita, að áhugi er nú fyrir því, að hafa fæðuna bæði næga og holla. En það er ekki hægt að segja þetta sama almennt um fatnað, enda þótt miklar umbætur hafi orðið þar að sumu leyti. í janúarblað „Akraness“ 1943 ritaði ég grein um fatnað. Eg benti þar á hlutverk hans og gildi og notagildi einstakra fata- efna. Mun ég ekki endurtaka það hér, en læt nægja að vísa til þeirrar greinar. Það, sem ég vil vekja athygli á, í þessu stutta máli, eru ýmsir gallar á fatnaði og óhollusta í því sam- bandi. Það er þá fyrst, að margir klæða sig of lítið, þegar kalt er í veðri, einkum kvenfólk. Tízkan ræður miklu um klæða- burð, en brjóti hún í bág við hollustu og þægindi, þá á hún ekki rétt á sér. Aftur á móti ber að sjálfsögðu að virða góðan og heilbrigðan fegurðarsmekk. Það er víst, að hér á íslandi hentar ekki sá klæðnaður að vetrarlagi, eða yfirleitt þegar kalt er í veðri, sem heppilegur og góður þykir suður í lönd- um, í hlýju loftslagi og heitu veðri. Einfaldir silkisokkar, sem eru eini klæðnaðurinn upp fyrir hné, eru kaldir 1 íslenzku loftslagi. Auk þess sem þessi kaldi klæðnaður er varhuga- verður, almennt á litið, þá koma afleiðingarnar líka oftast greinilega í ljós á fótunum sjálfum. Það kemur nokkurs kon- ar langvinn kuldabólga í fótleggina. Þeir verða bláleitir og þrútnir um ökla og upp eftir og gildna meira og minna. Þetta er ekki sjaldgæft fyrirbrigði og miklu hvimleiðara en að þurfa að ganga í hlýjum sokkum. Það má líka klæða sig of mikið. Það er að vísu ekki algengt um fullorðna, en sumir venja börn sín á of mikinn klæðnað, þegar hlýtt er í veðri eða inni í hlýjum herbergjum. Það er ekki hollt og heppilegt, því að líkaminn þarf að venjast breyt- ingum á loftslaginu. Húðin þarf að venjast því, að svara á- hrifum hita og kulda. Þeir, sem eru alltaf dúðaðir, fá ekki þjálfað mótstöðuafl sitt gegn veðurbreytingum og það er ekki síður óhollt börnum en fullorðnum. Það er nauðsyn, að fá hæfilega og skynsamlega herðingu. í þessu sambandi skal á það minnt, að þegar verið er úti í sólskini, t. d. að taka sólbað, þarf að verja augun og höfuð- kúpuna fyrir sterkum sólaráhrifum. Annars geta menn feng- ið illt í augun og sólsting, sem kallað er. Það á þá að nota dökk gleraugu og klút eða hettu yfir höfuðið. Hún má vera þunn, en á helzt að vera hvít, því að hvíti liturinn hrindir sólargeislunum frá sér. Þess var áður getið, í fyrri grein minni, að léreft er mjög þéttur vefnaður með litlu af loftholum. Þegar útgufunin vex frá líkamanum, og einkum ef maður svitnar, þá fyllist léreft- ið af rakanum og verður fljótt gegnvott. Svipað er að segja um ofna baðmullardúka. Þessir dúkar verða kaldir og hindra útgufunina. Þessi efni eru því ekki hæfileg í föt, sem eiga að vera næst kroppnum. Til þess eru ullarföt bezt fallin, en séu baðmullarföt notuð, eiga þau að vera prjónuð eða hekluð, en ekki ofin, því að þá eru þau lausari í sér. Lífstykkin hafa löngum verið nefnd sem dæmi um óhentug og skaðleg föt. Þau eru nú að leggjast niður í sinni gömlu mynd, er þrengdi sem mest að mittinu. Skaðsemi þeirra er 1 því fólgin, að þau þrýsta á rifjahylkið neðst og líffærin í hol- inu, einkum lifrina og magann. Þau hindra því eðlilega önd- un og trufla blóðrás og eðlilegt starf þeirra líffæra, sem þau þvinga. Enn fremur veikla þau vöðvana í hryggnum og boln- um yfirleitt. Það eru vöðvarnir, sem eiga að halda hryggnum og bolnum beinum og stæltum, en ekki nokkurs konar spelk- ur, sem lífstykkin eru. í þessu sambandi má nefna þröng föt og bönd, sem herða að líkamanum. Þröngir hattar herða að höfðinu, þröngir skyrtukragar, ermalíningar og sokkabönd herða að hálsi, úlfliðum og fótleggjum. Þessi þrengsli trufla blóðrásina og valda óþægindum og sokkaböndin stuðla að æðahnútum á fótunum. En þau eru að leggjast niður, í sinni gömlu mynd, sem betur fer. Síðast en ekki sízt má minnast á skófatnaðinn. Gúmmískór og -stígvél eru nú mikið notuð. Þau eru alveg loftþétt og vatnsheld og eru því ágæt til hlífðar, en þau hindra þá líka útgufun frá líkamanum og valda raka og þar með kulda á fót- um. Slíkan skófatnað á því að nota sem stytzt í einu að unnt er, en hafa gisnari og léttari skó þess á milli. í öðru lagi getur lagið á skófatnaði verið óheppilegt og er það oft. Skórnir eiga að vera sniðnir eftir eðlilegu lagi fótanna og þá styðja þeir að þeim, án þess að þrengja að. Þetta virðist sjálfsögð krafa, en oft er á móti henni brotið. Lagið á. stígvélum er oft óhent- ugt, einkum eru þeir of mjóir í tána. Tærnar þrýstast þa sam- an, frá hlið til hliðar, og leiðir af þessu fyrst og fremst lík- þorn og annan sársauka, en auk þess getur það stutt að alvar- legri skekkju á stóru tánum. Þær ýtast að hinum tánum, og það kemur fram hnútur á liðamótum stórutár og ristarbeins. Þessi kvilli getur orðið svo alvarlegur, að koma þurfi til læknisaðgerðar. Hælarnir á stígvélum miða að því, að verja vætu, því að ilin lyftist upp frá jörðu. Þeir eru til þæginda, ef þeir eru mátulega háir, þ. e. 2 til 2% cm. eða allt að 1 þuml. Ef hæl- arnir eru mjög háir, er gengið á tánum, eða réttara sagt á táberginu, og þrýstist fóturinn þá fram í skóinn. Það er hvorki hollt né þægilegt, en er gjört í fegurðarskyni eins og svo mörg önnur óholl atriði í klæðaburði. í næstu grein verður svo hafið máls á neyzluvörum og mataræði. Ámi Árnason. „Allt er í heiminum hverfult“. Haustið 1942 var fyrst sett á fót prentsmiðja á Akranesi. Prentverk Akraness h.f. Voru þessir aðaleigendur: Vilhjálmur Svan Jóhannsson, sem jafnframt var prentsmiðjustjóri. Arn- Ijótur Guðmundsson, Þorgeir Jósefsson og Ól. B. Björnsson. Þegar hafin var útgáfa blaðsins Akranes í apríl 1942, fannst okkur það nokkurs virði í því sambandi, að hafa prent- smiðju á staðnum. Þá duldist okkur heldur ekki aðrar menn- ingarlegar ástæður fyrir þessari nauðsyn hins unga bæjar. Því miður stóð þessi „dýrð“ ekki lengi, því að nú er prent- smiðjan horfin. Þó ekki hafi þetta staðið lengi, mun margur sakna prentsmiðjunnar, því það er eins um þetta eins og flest nútíma þægindi, að enginn telur sig geta án þeirra verið, er einu sinni reynir. Þó prentverk starfaði ekki lengi á Akranesi að þessu sinni, var þar ýmislegt prentað auk blaðsins Akranes og tíma- ritsins Verðandi, sem hvorttveggja er gefið þar út. — í því sambandi má sérstaklega nefna hina fornfrægu Flateyj- arbók, sem nú í fyrsta sinn var prentuð á íslandi. Prentverk Akraness h.f. hafði á að skipa ágætum fagmönn- um, sem sjá má af mörgu því, er prentverkið lét frá sér fara. Prentsmiðjan hefur nú verið flutt til Reykjavíkur, og hef- ur komið sér fyrir á Hörpugötu 14, suður við Skerjafjörð. — Er þetta fyrsta tölublað sem þar er prentað, og verður prent- að þar áfram, þar til ný prentsmiðja verður reist á Akranesi, sem vonandi verður tímanlega á næsta ári. Óskandi er að það verði ekki til skammrar dvalar, heldur svo lengi sem Akur- nesingar byggja þennan bæ, og þeir unna og meta nokkra menningu og framfarir á öllum sviðum.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.