Bændablaðið - 12.10.2004, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 12.10.2004, Blaðsíða 24
24 Þriðjudagur 12. október 2004 “Borgarbúar kunna kannski ekki skil á fóðurformúlum og hinum ýmsu tegundum heybindivéla en allir vita að bændur eru á kúpunni og það er stórmörkuðunum að kenna. Það eru orð að sönnu að stórmarkaðir - sem nú virðast allsráðandi í smásöluversluninni -virðast hafa ómæld tækifæri til að þrengja að birgjum sínum (matvælaframleiðendum). En nú er kannski að verða breyting á. Eftir að hafa barið sér á brjóst árum saman og lýst hneykslun sinni í heyranda hljóði eru nokkrir útsjónarsamir bændur farnir að læra að nota kerfið sjálfum sér til hagsbóta.” Þannig hljóðar upphaf fréttaskýringar frá BBC sem Bændablaðið leyfði sér að þýða. Án efa þekkja íslenskir bændur það sem starfsbræður þeirra á Bretalandi hafa að segja - en gefum BBC orðið: Fastir í keðjunni Að því er best verður séð er breski matvörumarkaðurinn bændum afar óhagstæður. Yfir 90% almennra borgara skipta að mestu eða eingöngu við stórmarkaði; því eru slíkar verslanir allsráðandi á markaði, ekki bara hvað varðar rétti til að stinga í örbylgjuofninn, heldur á þetta einnig við um grunnmatvöru eins og ost og egg. "Af þessu leiðir að samningsstaða þeirra verður afar sterk," segir Stuart Thomson, fulltrúi samtaka bænda og matvælaframleiðenda, sem starfa í tengslum við stjórnvöld í því markmiði að auka samkeppnishæfni bresks landbúnaðar. "Framleiðendur og neytendur eru tengdir sterkri keðju," segir hann, en bændur eru veikasti hlekkurinn. Með því að einblína á verðið hafa stórmarkaðir stuðlað að því að ýta staðbundnum framleiðendum út af markaðnum - þannig hefur landbúnaðarframleiðsla í Bretlandi minnkað undanfarinn áratug, þótt heildarneysla matvæla hafi aukist um nærri 50%. Hvar er kjötið sem var á beininu? Bændur segja einnig að stórmarkaðir beiti valdi sínu oft af tillitsleysi. "Matvæli eru of ódýr - við ættum að eyða í þau meiri peningum", segir John Alliston - Konunglega landbúnaðarháskólanum "Aldrei á ævi minni hef ég þurft að kljást við aðrar eins nánasir," segir bóndi í Dorset sem kýs að halda nafni sínu leyndu."Þeir líta á bændur sem fórnarlömb, ekki viðskiptaðila." En hvað sem öllum ýkjum líður hafa bændur raunverulega ástæðu til að kvarta. Sölukeðjurnar sem kaupa afurðir þeirra eru grunsamlega flóknar í uppbyggingu. Af hverju pundi sem fæst fyrir vöruna í smásölu er hlutur bænda að meðaltali 34 pens - hlutdeild þeirra hefur lækkað um 28% síðan síðla á níunda áratugnum - og í sannleika sagt er allt annað en auðvelt að fá gefið upp hvað orðið hefur að 66 pensunum sem eftir standa. Þingnefnd sem skilaði skýrslu um verðlag á mjólk fyrr á þessu ári gat með engu móti komist að því hvað varð um 18 pens af heildarverðinu 50 pens á lítra. Í skýrslunni var þess krafist að mjólkurbúin gerðu bændum nákvæma grein fyrir því hvers vegna þau virðast þurfa að taka til sín svo væna sneið af smásöluverðinu. Að grípa eplin þar sem þau gefast Í reynd er sennilega farið að þrengja að alls staðar í sölukeðjunni En bændur líta ekki svo á: "Ef ekki liggur ljóst fyrir hvernig viðskiptavinurinn reiknar dæmið, færðu á tilfinninguna að hann sé að hlunnfara þig með einhverju móti," segir bóndi í Yorkshire. Stórmarkaðirnir fá mínus fyrir að vera duttlungafullir og tækifærissinnaðir í vali sínu á viðskiptaaðilum (birgjum). Kannski eru þessi viðhorf samt ósanngjörn. Stórmarkaðir halda því fram að þeir auðsýni birgjum sínum eins mikla tryggð og hægt sé að ætlast til í venjulegum viðskiptasamböndum. En þegar kemur að reikningsskilum fýkur öll tilfinningasemi út í veður og vind. Þannig sýndi nýleg könnun að meira en helmingur eplanna sem bjóðast í verslunum kemur erlendis frá, þegar árstíð bresku eplanna stendur sem hæst - alla leið frá Suður-Afríku, Brasilíu og Nýja-Sjálandi. Fátt til ráða Hingað til hafa bændur gjarna brugðist við með fjölbreyttari framleiðslu; þeir hafa markaðssett nýjar afurðir sem fela í sér hærri virðisauka eða selt eftir óhefðbundnum leiðum á landbúnaðarmörkuðum. "Þessar leiðir bjóða upp á möguleika," segir talsmaður bænda. "En þær eru engin allsherjarlausn. Vissulega bjóðast tækifæri en bændur sem fara út í fjölbreyttari framleiðslu, minnka á endanum markað sinn." Sumar smásöluverslanir, t.d. stórmarkaðurinn Waitrose, hlusta gjarna á hugmyndir af þessu tagi. En þar sem Waitrose kærir sig ekki um að eiga viðskipti við bændur í stórum stíl er sjaldnast mikill akkur í sölusamningum á þeim vettvangi. Sameinaðir stöndum vér En nú er að koma upp aðferð sem vekur meiri vonir. Breskir bændur hafa verið einstaklega tregir til að stofna samvinnufélög og önnur samtök framleiðenda. Í Svíþjóð gegnir öðru máli. Þar er framleiðsla samvinnufélaga meira en tvöfalt hærri en í öllum landbúnaði utan slíkra samtaka; í Bretlandi er hliðstæð tala aðeins þriðjungur af landbúnaðarframleiðslu í heild. Í Bretlandi hafa heldur ekki þróast fyrirtæki undir stjórn framleiðenda eins og annars staðar hafa sprottið upp og haslað sér völl á alþjóðlegum matvælamarkaði , eins og t.d. hollenski mjólkurrisinn Campina eða Ocean Spray, bandaríska fyrirtækið sem er ráðandi á markaði fyrir trönuber. "Hópar framleiðenda hafa lengi starfað á þeim hluta markaðarins sem ekki er niðurgreiddur, t.d. í ferskvöru," segir Stuart Thompson frá samtökum matvælaframleiðenda. "En nú eru þeir líka farnir að þoka sér inn á niðurgreidda geirann." "Bændur selja æ færri stórum smásölukeðjum," segir hann, "og því er eðlilegt að þeir bindist samtökum." Mjólk manngæskunnar Slík samtök eru í örustum vexti innan mjólkurframleiðslunnar þar sem samskipti bænda og stórmarkaða eru hvað stirðust. "Ef við ætlum að taka framtíðina í okkar hendur, er nauðsynlegt að stytta keðjuna frá framleiðanda til neytanda," segir Rob Knight, talsmaður breskra mjólkurframleiðenda í bændablaðinu Farming Today. Í ágúst urðu Samtök breskra mjólkurframleiðenda, sem 3.250 bændur eiga aðild að, þriðji stærsti söluaðili mjólkur með því að festa kaup á vinnslukerfi smásöluverslana innan samvinnuhreyfingarinnar. Smásöluverslanir hafa tekið hugmyndinni vel. Í maí undirritaði Asda, sem ekki hefur verið þekkt að sérstakri manngæsku gagnvart bændum, samning sem gildir um allt Bretland varðandi kaup á mjólk frá Arla, stærsta mjólkurframleiðslufyrirtæki í landinu. Þótt Arla sé ekki sjálft samvinnufélag verslar það við samvinnufyrirtækin og leggur sig fram um gott samstarf við bændur; og það sem meira máli skiptir, þessi viðskipti eru gegnsæ hvað varðar allt ferli verðmyndunar. Að slíta keðjuna Sumir eru svo bjartsýnir að gera sér vonir um að samtök framleiðenda verði til þess að bændur taki ákvarðanir um verð í stað þess að vera þolendur verðlagningar. Þetta telur hins vegar Rob Knight, talsmaður Samtaka breskra mjólkurframleiðenda, helst til hátt stefnt. Hann fullyrðir hins vegar að viðskipti af þessu tagi hafi margvíslegan ávinning í för með sér. Í fyrsta lagi gera þau milliliðinn óþarfan - sem gæti orðið til þess að mjólkurbændur kæmu höndum yfir 18 pensin á lítra, sem enginn áður fann. "Ef við ætlum að taka framtíðina í okkar hendur er nauðsynlegt að stytta keðjuna frá framleiðanda til neytanda" segir hann. Í öðru lagi boðar þessi breyting nýja og skynsamlegri viðskiptahætti í landbúnaði. "Smásöluverslanir styðja framleiðendur sem standa saman," segir hann. "En það verður líka að vinna traust þeirra með því að taka á sig skuldbindingar og uppfylla þær." Samt er ekki að vænta byltingar í viðskiptum með breskar landbúnaðarvörur fyrr en neytendur bregða út af vana sínum. "Það liggur ljóst fyrir að matvæli eru of ódýr," segir John Alliston, deildarforseti í Konunglega landbúnaðarháskólanum. "Við ættum að eyða í þau meiri peningum." Samt er engan veginn víst að sú verði raunin. Markaðskönnunarfyrirtækið Mintel hefur sýnt fram á í rannsókn sinni að 40% neytenda vildu gjarna kaupa fleiri vörur sem upprunnar eru á þeirra svæði - en eldra fólk er áberandi innan þessa hóps. Yngri neytendur hins vegar kæra sig yfirleitt kollótta um uppruna vörunnar sem þeir kaupa. "Það er afar ólíklegt", segir Mintel, "að yngra fólkið sé tilbúið að fórna þeim möguleika að kaupa tiltekna framleiðslu allt árið". Einu matvælaviðskiptin sem blómstra eru í tilbúnum réttum og annarri skyndivöru en einmitt á því sviði er staða breskra bænda veikust. Bændur halda betur á spilunum núna en stórverslanirnar eru enn með öll trompin á hendi. Þessi texti var saminn og fluttur af starfsmanni BBC. Stórmarkaðir líta á bændur sem fórnarlömb - ekki viðskiptaðila Auglýsingadeild Bændablaðsins hefur fengið nýtt netfang Nýja netfangið er augl@bondi.is

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.