Morgunblaðið - 18.11.2013, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 18.11.2013, Blaðsíða 27
MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 18. NÓVEMBER 2013 hjá Vinnueftirlitinu á Akranesi í apríl 1993. Störf landsbyggðar- fulltrúa urðu flest til á árunum 1989-1993 og gegndi Súsanna þessu starfi á Akranesi frá upp- hafi og hafði gegnt því samfellt í tuttugu ár þegar hún lést. Hún var ein af sjö landsbyggð- arfulltrúum sem haldið hafa hóp- inn þrátt fyrir að vera dreifðar um landið. Fljótlega komst á sú venja að hittast einu sinni á ári í Reykjavík til að sækja okkur fræðslu og endurmenntun. Þenn- an tíma notuðum við einnig til að kynnast betur og gera eitthvað saman, ótengt vinnunni. Fara út að borða, spila, sprella eða bara spjalla. Alltaf voru þetta ánægju- stundir og tilhlökkun að hittast þar sem þess á milli var einungis um samskipti gegnum síma eða tölvu að ræða. Strax skapaðist mjög góður samhugur og vin- skapur í hópnum sem haldist hef- ur allar götur síðan. Súsanna ávann sér fljótt virð- ingu okkar og traust og við minn- umst hennar með eftirfarandi orðum: Hljóðlát, hjálpsöm, dugn- aðarforkur, til í allt, hress og kát, jákvæð, bóngóð, ósérhlífin og með góða nærveru. Við minnumst þess ótrúlega krafts sem hún hafði í veikindum sínum, andlegs styrks og æðruleysis. Hennar verður sárt saknað. Við sendum eftirlifandi eigin- manni Súsönnu og börnum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Elísabet, Margrét, Sigrún Daða, Sigrún A., Sólveig og Sveinbjörg, landsbyggðarfulltrúar hjá Vinnueftirlitinu. Það er í raun undarlegt hve dauðinn kemur manni á óvart þegar hann kveður dyra, jafnvel þótt viðkomandi hafi um alllangt skeið háð baráttu við illvígan sjúkdóm. Það átti við um vinkonu og samstarfsfélaga okkar, Sú- sönnu, sem við minnumst í dag. Þá baráttu háði hún af slíkri hug- prýði, að hún er í hugum okkar sigurvegari þeirrar orustu, þótt fallið hafi. Og minningar streyma fram: Við minnumst barns og ung- lings, sem af áhuga var þátttak- andi í starfi KFUM og K á Akra- nesi, en gerðist síðan leiðtogi og stjórnarmaður. Hún var ekki ein- staklingur þeirrar gerðar að hún veigraði sér við verkefnum. Af miklum fúsleika tók hún að sér svo margþætta þjónustu að undr- un og aðdáun sætti. Og tæki hún að sér eitthvert verkefni, hvort sem það var barnastarf, mat- reiðsla á ALFA-námskeiði, ferm- ingarskeytasala, undirbúningur „Jóla í skókassa“, umsjón fjár- mála eða eitthvað annað, gátum við verið viss um að hún sinnti því verkefni til loka. Það var eðli hennar og hluti af þeirri ábyrgð- arkennd sem Guð hafði gefið henni. Við minnumst stúlku sem fann ástina sína og fékk að sjá drauma sína um heimili og börn rætast. Heimili sem grundvallað var á kærleika Guðs og fúsleik til þjón- ustu hvenær sem var. Alls þessa fengum við að njóta um langt árabil. Því er það, að þegar hennar nýtur ekki lengur við, er stærra skarð höggvið í vinahópinn en lík- legt er að við gerum okkur grein fyrir á þessari stundu. Klettur sem aldrei brást er skyndilega horfinn. Komið er að kveðjustund. Sér- hver kveðjustund er margþætt. Felur í sér bæði söknuð, þakklæti og von. Um leið og við kveðjum góðan vin með fátækum orðum fyllir hryggðin hjartað, því við vildum svo sannarlega hafa notið sam- vista við hana lengur. Þakklæti á hún svo sannarlega skilið fyrir alla veru sína hér, fús- leik og kærleika. En framar öllu gleður það hug- ann, að vita að hún átti þá von, sem nú hefur orðið að fullvissu. Þá von trúarinnar sem hún fékk að taka við sem unglingur og mót- aði allt hennar líf. Og nú hefur hún fengið að ganga inn til fagn- aðar þess Drottins, sem hún setti traust sitt á. Það er gott að eiga þessa von í sorginni, þessa fullvissu á kveðju- stundinni. Mætti þessi fullvissa blessa og styrkja fjölskyldu hennar og ást- vini. Blessuð sé minning Súsönnu Steinþórsdóttur. Sigurbjörg og Jóhannes. Ég hitti Súsönnu í fyrsta skipti í sumarbúðunum Ölveri í maí 1993 þegar ég kom þangað í vinnuflokk. Hún var lágvaxin og grönn, fíngerð og falleg og leit alltaf út fyrir að vera yngri en hún var. Hún hafði alltaf gaman af því að vera fín og smart, átti marga fallega kjóla og fallegar peysur sem hún prjónaði sjálf. Okkur varð fljótt vel til vina og þegar ég flutti á Akranes um haustið var gott að vita að ég var ætíð aufúsugestur á heimili Jóns og Súsönnu. Á þessum 20 árum hefur vináttan aðeins eflst og aldrei borið skugga á. Okkur Súsönnu gekk vel að vinna saman að hinum ýmsu verkefnum. Við ræddum málin, hún gerði og ég þóttist hjálpa til. Þannig var það t.d. um kaffisöl- urnar í Ölveri mörg undanfarin ár, nokkrar mæðgnahelgar, skeytasölu KFUM o.fl. Tvisvar unnum við saman í eldhúsinu í Öl- veri. Hún var ráðskona og ég var bakari, hún hjálpaði mér að baka, ég hjálpaði henni að elda. Á milli sleiktum við sólina og prjónuðum og spjölluðum. Oft var Súsanna fengin til að elda fyrir hópa, stóra sem smáa. Eftir eitt námskeiðið þar sem fólk var sífellt að biðja um uppskriftir að réttunum, gaf hún út ritið „Súsanna’s livretter alfa 2006“ með öllum uppskriftunum sem hún hafði notað á því námskeiði. Súsanna hafði mjög gaman af því að elda, baka, prjóna og sauma út. Hún var dugleg að prófa nýjar uppskriftir og óþreytandi að gefa góð ráð ef eftir því var leitað. Síðustu fimmtán árin höfum við verið saman í sumaklúbbnum Símalandi á Akranesi með 8 öðr- um góðum konum. Sá hópur hef- ur farið í þónokkrar sumarbú- staðaferðir og eina ógleymanlega utanlandsferð. Við vorum líka saman í öðrum saumaklúbbi sem samanstendur af konum sem tengjast Ölveri. Nú er stórt skarð höggvið í báða þessa hópa og hennar verður sárt saknað. Það er varla hægt að tala um Súsönnu án þess að nefna Jón. Þau voru mjög samhent hjón og ástin og virðingin á milli þeirra var aðdáunarverð. Samband Sú- sönnu og barna hennar var einnig mjög náið og kærleiksríkt. Hún var börnum sínum ekki aðeins góð og skilningsrík móðir heldur einnig félagi þeirra og studdi þau alla tíð mjög vel í leik og starfi. Börnin æfðu öll badminton og dæturnar gera það enn. Eftir að synir mínir fóru að æfa badmin- ton hafa leiðir okkar einnig legið saman þar. Súsanna var mér ákaflega dýr- mæt og góð vinkona og ég er þakklát fyrir að hafa átt hana að. Þó að sjúkdómurinn hafi herjað á hana í rúm tvö ár, var hún alltaf bjartsýn og sagðist ætla að lifa til elliáranna. Við göntuðumst með það hvað við yrðum skemmtileg- ar í ellinni og hvað við myndum njóta þess að hafa nægan tíma til alls. En nú er tíminn liðinn. Það var mjög erfitt að fylgjast með veikindum hennar síðustu tvær vikurnar. Fyrri vikuna var vonin um heimför sterk en síðari vikuna vissum við hvert stefndi. Það sem huggar nú er okkar sameiginlega fullvissa um að hún er komin til Föður okkar á himnum og þar líð- ur henni vel. Kæra fjölskylda, Guð styrki ykkur í sorginni og blessi minn- ingu Súsönnu Steinþórsdóttur. Kristín Halldórsdóttir. ✝ Sigríður Sig-urðardóttir fæddist í Reykjavík 6. október 1924. Hún lést á bækl- unardeid Landspít- ala í Fossvogi 9. nóvember 2013. Foreldrar henn- ar voru Súsanna Guðjónsdóttir, f. 11. febrúar 1891, d. 31. janúar 1986 og Sig- urður Þórðarson, f. 18. október 1892, d. 10. janúar 1985. Alsystur Sigríðar voru Margrét Sigurð- ardóttir, f. 28. janúar 1923, d. 8. mars 1980 og Guðlaug Erla Sig- urðardóttir, f. 12. maí 1928, d. 22. ágúst 1991. Hálfbræður sam- feðra: Jónmundur Sigurvin Sig- urðsson, f. 18. september 1917, d. 1932, Albert Sigurðsson, f. 24. ágúst 1916, d. 1. febrúar 2007, Björgólfur Sigurðsson, f. 31. ágúst 1915, d. 22. mars 1972. Hinn 26.12. 1944 giftist Sigríð- ur Odd Kristian Thom, f. í Nor- egi 9.9. 1918, d. 21.1. 1985. Börn Sigríðar og Odds eru 1) Súsanna Erla, f. 13.9. 1945, maki var Haf- steinn Tómasson, þau skildu. Synir þeirra eru Oddur, f. 22.9. 1965, maki María Auður, f. 28.4. 1970, Ólafur, f. 14.4. 1970, sam- býliskona Gyða Þórisdóttir, f. 6.10. 1972, Hafsteinn, f. 18.9. 1973. 2) Aníta Fríða, f. 25.8. 1949, maki Karl Björnsson, f. 29.2. 1948, d. 21.4. 2002. Börn þeirra eru Kristján Snær, f. 3.11. 1968, maki Guðrún Friðbjörg, f. 3.3. 1970, Sigríður Hvönn, f. 24.2. 1970, Björn, f. 29.5. 1974, sambýliskona Ás- laug Ingvarsdóttir, f. 14.2. 1981. 3) Sig- ríður Gréta, f. 28.5. 1952, maki Auðunn Valdimarsson, f. 6.8. 1946, d. 4.4. 2013. Börn þeirra eru Þuríður Linda, f. 1.7. 1974, sambýlis- maður Þormóður Skorri Stein- grímsson, f. 5.4. 1974, Valdimar Jón, f. 23.6. 1976, sambýliskona Julia Doppler, f. 6.5. 1980, Sæ- unn, f. 13.3. 1984, sambýlismaður Róbert Óli Skúlason, f. 27.1. 1982. Langömmubörnin eru 17. 1976 flutti Sigríður ásamt Gunnari S. Kristjánssyni, f. 6.12. 1935, d. 11.4. 1984, til Tálkna- fjarðar, þar sem þau bjuggu fram til ársins 1984 er Gunnar lést. Sigríður ólst upp í Reykjavík hjá móður sinni ásamt tveimur systrum. Hún tók gagnfræðapróf frá Ingimarsskóla og vann ýmis störf ásamt húsmóðurstörfum. Síðustu mánuðina bjó hún á Hrafnistu í Hafnarfirði. Útför Sigríðar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 18. nóvember 2013, og hefst at- höfnin kl. 13. Komið er að því að kveðja elskulega móður okkar, sem varð 89 ára 6. október síðastliðinn. Á tímamótum sem þessum rifjast upp margar minningar, og dvelur hugur okkar þá aðallega við æsk- una í Stórholtinu, þar sem foreldr- ar okkar bjuggu með okkur 4 systkinin ásamt ömmu og Erlu systur mömmu. Mamma að sýsla eitthvað í eldhúsinu umlandi eitt- hvað notalegt, og við vissum ekki hvort hún væri að syngja eða tala við sjálfa sig. Það var ótrúlegt hvað hún gat stjanað við okkur systkinin, þrátt fyrir þrengslin sem við bjuggum við. Hún kveikti á eldavélahellunum til að reyna að hita upp eldhúsið, hún bjó til vatnskakó handa okkur á morgn- ana og jafnvel þegar vont var veð- ur reyndi hún að koma bíldrusl- unni, sem pabbi átti, í gang til að skutla okkur upp í Austurbæjar- skóla. Oft var glatt á hjalla, mikið spilað Rommý og Vist, og ekki má gleyma þegar öll fjölskyldan sett- ist við útvarpstækið og hlustaði á framhaldsleikritin. Við systurnar minnumst mikils gestagangs á heimilinu og alltaf var pláss fyrir næturgesti utan af landi, þótt íbúðin væri bara 3 her- bergi. Mamma tók áföllum yfir- leitt með æðruleysi eins og þegar bróðir okkar Richard Rúnar lést af slysförum í Togo í Afríku og var jarðsettur þar. Seinna á lífsleið- inni flytur mamma aftur í Stór- holtið og var notalegt að koma til hennar á gamla æskuheimilið okk- ar. Var það orðinn vani að þeir sem komu því við úr fjölskyldum okkar systranna hittust í hádeg- inu á föstudögum heima hjá mömmu og reiddi hún þá fram hinar ýmsu kræsingar. En með aldrinum versnaði heilsan og í fyrravetur var hún svo lánsöm að fá vistun hjá Hrafnistu í Hafnar- firði. Var hún farin að hlakka til að komast hinumegin eins og sagt er, því hún var sannfærð um að þar biðu hennar margir ástvinir. Í dag fylgjum við móður okkar til grafar og kveðjum hana með söknuði og þakklæti. Súsanna, Aníta og Gréta. Elsku amma Sigga. Það eru margar og góðar minn- ingar sem koma upp þegar ég hugsa til þín. Fyrst er að nefna föstudagshádegin í Stórholtinu, en þar komum við saman afkom- endurnir og fjölskyldumeðlimir á hverjum föstudegi í hartnær 20 ár. Við fengum okkur brauð, salat og kaffi og mikið var spjallað og hleg- ið. Oft var tvísetið við borðið inni í stofu og þá var gott að fá sér sæti í ruggustólnum, lesa Moggann og taka þátt í umræðunum. Amma Sigga stóð alltaf með karlpeningn- um og maður gat bara alltaf spurt: „Er það ekki, amma?“ og alltaf var svarið: „Jú, jú,“ enda hafði hún oft sterkar skoðanir á hlutunum þannig að það þýddi ekkert að ræða málið meira. Kalli minn, ný- fæddur, var snemma byrjaður að heimsækja þig í hádeginu og þér fannst svo gaman að fá hann og spurðir hann, hvort hann fengi bara ekkert að borða og hvurslags ómynd þetta væri. Einnig á ég góðar minningar frá Tálknafirði þegar ég kom í heimsókn til ykkar Gunnars á sumrin. Þar var margt hægt að gera sem barn og frjálsræðið mik- ið. Ég man sérstaklega eftir nátt- úrupottinum sem var gamall bátur og notaður af almenningi til að baða sig í. Ég lék mér líka mikið við Kubb, hundinn ykkar og vor- um við stundum jafn óþekkir, en þú gast alltaf litið fram hjá því þó ég væri stundum erfiður og há- vær. Þú horfðir mikið á sjónvarp og þá sérstaklega ef þar voru menn á skautum. Ég grínaðist oft með það þegar ég hringdi í þig hvort ég væri nokkuð að trufla þig við skautana. Það eru líka margar minningarnar sem við getum rifj- að upp og hlegið að. Við áttum góð- ar stundir þegar við fórum til Austurríkis í tilefni af 80 ára af- mælinu þínu og ég ýtti þér á undan mér í hjólastólnum upp hinar ýmsu brekkur og á meðan hlógu dætur þínar og þú í stólnum. Elsku amma. Takk fyrir allar góðu minningarnar. Björn Karlsson. Elsku amma Sigga. Nú er kom- ið að kveðjustund okkar, þeirri síð- ustu. Þegar hugurinn leitar til baka kemur upp sú stóra mynd sem amma Sigga var í lífi mínu og hversu mikils virði hún var mér. Amma er ekki nógu stórt orð yfir það hvað amma var fyrir mér og mínum. Uppalandi, bakhjarl, trún- aðarvinur, félagi og amma, þetta er aðeins hluti af þeim hlutverkum sem hún gegndi í mínu lífi. Að eiga ömmu sem sinnti öllum þessum hlutverkum er ekki einsdæmi en er ómetanlegt fyrir okkur. Líf okkar hefur verið bundið órjúfan- legum böndum allt frá fæðingu og nú til kveðjustundar. Fyrstu árin var ég í pössun hjá ömmu, þar ól amma mig upp ásamt börnum á meðan foreldrar unnu. Móðir mín segir oft, að hún hafi fengið mig lánaðan milli þess sem ég var hjá ömmu. Gamlar rjómatertur, asíur, sitjandi í þvottabala eru minning- ar sem skjótast upp á yfirborðið þegar ég rifja upp stundirnar í Bólstaðarhlíðinni. Þegar ég var á þrettanda ári kom amma til mín í Keldulandið og spurði hvort ég vildi flytja til sín á Tálknafjörð, þar sem þau Gunnar höfðu hafið búskap. Ég man vel eftir samræð- um okkar og hef oft velt fyrir mér hvað það var sem fékk mig til þess að flytjast til ömmu og yfirgefa fjölskylduna og lífið sem ég átti og á stað sem ég þekkti ekki. Líklega var það traust og væntumþykja sem varð til þess að haustið eftir flutti ég til ömmu. Tíminn sem við áttum þarna var frábær og mikil upplifun fyrir dreng af malbikinu. Næstu ár var ég hjá ömmu á sumrin þangað til ég flutti til Reykjavíkur í skóla. Ekki leið á löngu þangað til við vorum farin að búa saman aftur í Stórholtinu eftir fráfall Gunnars. Við skemmt- um okkur konunglega á þessum tíma og skipti þá engu máli hvort það var við litla matarborðið við spjall eða þegar drengurinn kom heim af skemmtunum seint um nætur og þurfti að segja ömmu frá svaðilförum næturinnar. Aldrei orð, bara bros og þrátt fyrir syfju var hlustað af athygli. Þegar ég eignaðist fjölskyldu varð amma stór þáttur í lífi barna minna. Fyrst Anna Gréta þar sem engin dagmóðir var nógu góð fyrir barnabarnið, það gekk ekkert hjá þeim að eiga við stelpuna. Anna Gréta átti alltaf, líkt og ég, skjól hjá ömmu. Sama má segja um Ríkharð Atla son minn, sem varð fastagestur hjá langömmu. Í raun passaði hún öll mín börn, sem eru fimm, til lengri eða skemmri tíma. Rétt áður en amma fór í aðgerðina fór ég upp á spítala til þess að heyra í henni, þrátt fyrir viðvör- unarorð var ég viss um að amma vaknaði eins og hin skiptin, en ekki í þetta skiptið. Alltaf gat ég skroppið til hennar og rætt um dægurmál eða mín einkamál. Við vorum ekki alltaf sammála en allt- af kvöddumst við með faðmlagi og kossi. Nú þegar sest er niður og skrif- uð hinsta kveðja til ömmu Siggu fyllist hjartað af söknuði en um leið hamingju og þakklæti fyrir allt það sem hún hefur verið mér og fjölskyldunni allri í gegnum tíð- ina. Minningarnar munu hlýja um ókomna tíð og mun amma aldrei gleymast. Við drúpum höfði og þökkum ömmu Siggu allt það sem hún var okkur. Oddur, María Auður og börn. Ég man ömmu Siggu með mikl- um hlýhug. Ég fór oft sem krakki til hennar í pössun. Alltaf hafði hún eitthvað skemmtilegt planað fyrir okkur. Á föstudögum fórum við iðulega út á vídeóleigu og sóttum okkur mynd sem ég mátti velja, og nammið var ótakmarkað. Ég þorði ekki að vera dónaleg og heimta of mikið en hún sagði stundum: „Sæunn mín, þú mátt alveg velja þér meira nammi.“ Svo komu laugardagarnir og það var skemmtilegast. Áður en ég lagði af stað að heiman á föstu- dögum var mér sagt að ég væri að fara í leikhús, og ætti að hafa með mér fín föt. Því ömmu fannst að maður ætti nú að fara fínn í leik- hús. Hún fór með mig á ýmis verk, barnaleikrit, söngleiki og meira að segja fullorðinsleikrit. Ég man fallegu náttkjólana hennar, ég man þegar við fórum niður í fjöru með kók og Malta- súkkulaði. Ég man hvað mér fannst gaman að fara með henni í Kringluna. Ég man þegar við fór- um með blóm á leiðin hjá lang- ömmu og Erlu frænku og hvað allt var friðsælt. Elsku amma, nú ertu farin til þeirra og allra hinna og ég veit að þau eru glöð að sjá þig. Hvíldu í friði og takk fyrir allar skemmti- legu stundirnar sem við áttum saman. Sæunn. Þegar ég sést hér niður við tölv- una og byrja að skrifa kveiki ég á laginu Rose Garden með Lynn Anderson og minningarnar koma flæðandi, minningar sem voru löngu gleymdar. Ástæðan fyrir því að þetta lag kveikir á svona mörgum minningum er að það var á einni af kántríplötunum sem ég og amma hlustuðum svo mikið á. Við settumst niður, kveiktum á plötuspilaranum og fengum okkur kaffi, svart og með tveimur gervi- sykurmolum, og spiluðum rommí og já, ég var sex ára! Enn þann dag í dag þegar ég fæ mér kaffi þá fæ ég mér það svart, því langamma kenndi mér það. Fyrsta minning mín af ömmu Siggu er þegar mamma og pabbi tóku mig frá henni þar sem ég eyddi dögunum yfirleitt og létu mig til dagmömmu. Þegar ég kom heim frá dagmömmunni hélt ég því grátandi fram við mömmu og pabba að hún væri hrikalega vond við mig. Amma hringdi akkúrat á þessari stundu og heyrði grátinn í mér og hélt því fram að þetta gengi ekki svona, ég yrði nú að vera bara hjá henni. Það fór síðan svo að ég fór ekki aftur til dag- mömmunnar og eyddi bara dög- unum með ömmu. Mig minnir nú að dagmamman hafi ekkert verið svo slæm, ég vildi bara vera hjá ömmu. Dögunum hjá ömmu var eytt í ýmislegt, eins og göngutúra um Klambratúnið þar sem ég fékk að leika lausum hala og síðan voru ófáir dagarnir sem við amma sát- um við borðstofuborðið og spiluð- um bingó. Sá sem vann bingóið fékk verðlaun, mér fannst þessi verðlaun vera toppurinn. Það var hefð hjá okkur að draga alltaf eitt spjald á dag þar sem á stóðu skila- boð frá Guði. Ég tók þessi skilaboð mjög bókstaflega og hagaði síðan deginum mínum út frá því. Ekki má gleyma bíómyndunum sem við horfðum á ítrekað og má þar helst nefna Oklahoma og Sleepless in Seattle, ég kann þær enn þann dag í dag utan að. Það hefði ef- laust, svona eftir á að hyggja, ver- ið eðlilegra fyrir átta ára stelpu að horfa á teiknimyndir en ég og amma vorum bara svo veikar fyrir fallegum ástarsögum. Amma kenndi mér rommí og hún vann mig alltaf! Mikið var ég nú orðin pirruð á því að vera sítap- andi en þetta var amma Sigga í hnotskurn. Hún leyfði manni ekki að komast upp með neitt rugl, enda á ég það henni mikið að þakka hvernig manneskja ég er í dag. Þegar ég hef mætt mótlæti í lífinu þá er það ömmu að þakka hvernig ég hef komist yfir það og að ég hafi komist yfir það yfir höf- uð. Ég man þegar ég lenti í minni fyrstu ástarsorg að sú fyrsta sem ég hringdi í var amma Sigga. Ég hringdi í ömmu mína og labbaði til hennar úr miðbænum grenjandi í takt við regnið sem fylgdi göng- unni. Ég settist á rúmstokkinn og amma náði að hugga mig með sín- um undraverða hætti þó að ég sjái það núna eftir á að þetta var hræðilega kjánalegt allt saman. Alltaf þegar ég þurfti á ein- hverjum að halda þá var amma til staðar. Amma var svo miklu meira en amma fyrir mér. Hún var besti vinur minn. Amma mín. Mikið mun ég nú sakna þess að fá afmæliskortin með fallegu ljóðunum. En ég vona að kjúklingastaðurinn í Suðurveri sé þar sem þú ert á þessari stundu. Og amma, gerðu nú vel við þig og fáðu þér tvo bita. Anna Gréta Oddsdóttir. Sigríður Sigurðardóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.