Bændablaðið - 14.08.2014, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 14.08.2014, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 14. ágúst 2014 Heilsuefni úr greniberki Mikið er af resveratróli í grenitegundum sem ræktaðar eru á Íslandi Líftækni notast við lífverur eða hluta þeirra til að framleiða afurðir eða til að hraða eða breyta náttúrlegum ferlum. Tæknin snýst um að hagnýta þekkingu í líffræði og lífefnafræði til framleiðslu meðal annars í matvælaiðnað og til framleiðslu á fæðubótarefnum, snyrti- og heilsuvörum. Hannes Þór Hafsteinsson garðyrkju- og náttúrufræðingur og nemi í matvælafræði við Háskóla Íslands vinnur að meistaraverkefni á sviði líftækni sem felst í að skoða hvort mögulegt og fýsilegt sé að framleiða andoxunarefnið resveratról úr íslenskum greniberki. Náttúrlegt fjölfenól Resveratról er náttúrulegt fjölfenól sem finnst í ýmsum plöntum, meðal annars í fræjum og skinni vínberja, rótum japanssúru og í litlu magni í bláberjum. Fjölfenól eru andoxunarefni sem gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr oxun í frumum. Margar jurtir framleiða resveratról ef þær sýkjast af völdum baktería eða sveppa. Efnið er enn nánast eingöngu framleitt úr rótum japanssúru. Finnst greni hér á landi Hannes segir tiltölulega stutt síðan menn komust að því að resveratról er að finna í greni-, lerki- og furutrjám. „Eins og gefur að skilja er helst að finna efni í sýktum plöntum. Meðan sýkingar voru algengar í vínviðarplöntum var hlutfall efnisins um 30 milligrömm í hverjum lítra af rauðvíni en í dag fer það sjaldan yfir 3 til 4 milligrömm. Úr einu kílói af þurrkaðri rót japanssúru fást um 187 milligrömm af resveratróli en úr einu kílói af þurrkuðum greniberki má fá allt að 460 milligrömm. Grenitegundir sem gefa mest magn af efninu eru einmitt þær sem helst eru ræktaðar á Íslandi eins og til dæmis sitkagreni. Efnið finnst aðallega í innri berki trjánna og bestu trén til framleiðslu resveratróls eru óheilbrigð tré sem ekki henta til timburframleiðslu. Vinnsla resveratróls þarf því ekki að skarast við viðarframleiðslu úr íslenskum skógum.“ Talsvert vantar upp á að áhrif resveratróls á heilsu manna séu nægilega rannsökuð að sögn Hannesar. „Ekki hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að efnið veiti vörn gegn sjúkdómum en vísbendingar í þá átt hafa fengist á rannsóknarstofum og með tilraunum á dýrum. Ýmislegt bendir til að efnið hamli öldrun, styrki hjarta og blóðrásarkerfið, vinni gegn krabbameini, auki frjósemi karla, verndi húðina, vinni gegn heilarýrnun og veiti vörn gegn sykursýki og offitu. Ekki er en búið að gera klínískar tilraunir á mönnum og því hvorki hægt að segja neitt um skammtímaáhrif né langtímaáhrif efnisins á fólk.“ Resveratról í rauðvíni „Resveratról var fyrst einangrað árið 1939 en efnið vakti litla athygli í fyrstu og ekki fyrr en árið 1992 þegar talið var að resveratról í rauðvíni hefði hjartabætandi áhrif. Rannsóknir hafa sýnt að rauðvínsdrykkja verndar hjartað betur samanborið við aðra áfenga drykki og er það tengt fjölfenólum í vínberjum og þá aðallega resveratróli. Hvítvín hefur til dæmis ekki þessi áhrif en í hvítvíni er ekki notuð vínberjaskinn en þau eru sá hluti vínberjanna sem inniheldur mest af resveratróli,“ segir Hannes. Notað í fæðubótaefni og heilsufæði Í iðnaði er resveratról notað í fæðubótarefni og heilsufæði, í húð- og snyrtivörur, gæludýravörur og í fyllingu tímans gæti það nýst í lyfjaiðnaði. Í verkefninu mun Hannes mæla resveratról innihald í berki nokkurra grenitegunda hér á landi. „Ég mun mæla bæði heilbrigð og sýkt tré á öllum árstímum og í öllum landshlutum. Resveratról er unnið úr greniberki þannig að börkurinn er fyrst hreinsaður og þurrkaður. Vinnsluferlið getur verið mismunandi og fer hreinleiki efnisins eftir því og resveratról sem selt er til iðnaðar hefur hreinleika frá 2% og upp í 99%. Til að fá 99% hreinleika er beitt flóknu vinnsluferli sem er í 36 þrepum. Markmiðið er að framleiða einkaleyfishæfa vöru en ég hef fengið til liðs við mig tvo menn, annar er viðskiptafræðingur og hinn er verkfræðingur og munum við meta hagkvæmni hugsanlegrar framleiðslu á resveratróli hér á landi. Innflutningsverð á kílói af hágæða resveratróli frá Bandaríkjunum er um 200.000 krónur og því eftir talsverðu að slægjast,“ segir Hannes Þór Hafsteinsson. /VH Börkur á sitkagreni. Grenilundur Höfðaskógi. Hannes Þór Hafsteinsson, nemi í matvælafræði við Háskóla Íslands, vinnur að meistaraverkefni á sviði líftækni sem felst í að skoða hvort mögulegt og fýsilegt sé að framleiða andoxunarefni úr íslenskum greniberki. Íslensk hönnun Stóllinn Skata Gróska í hönnun á sér talsverða sögu hér á landi og er stóllinn Skata gott dæmi um slíkt. Stóllinn, sem eins og nafnið gefur til kynna líkist fisknum skötu í laginu, var hannaður af Halldóri Hjálmarssyni húsgagnaarkitekt árið 1959. Örn Þór Halldórsson, sonur hönnuðarins, hóf nýlega framleiðslu á stólunum aftur eftir að hún hafði legið niðri í nokkur ár. „Skata var upphaflega framleidd frá 1959 til 1973 en þá lagðist framleiðslan af. Því miður mun mótið hafa glatast.“ Stólinn gekk í endurnýjun lífdaga þegar Sólóhúsgögn hófu smíði hans aftur árið 2007 í samstarfi við Örn, sem nú hefur alfarið tekið yfir framleiðslu og sölu á stólunum. Framleiddir í bílskúr Örn segir að Skata sé elsti íslenski stóllinn sem enn sé í framleiðslu. „Það má segja að ferlið sé komið í hring því í dag framleiði ég stólana í sama bílskúr í Vesturbænum og við svipaðar aðstæður og pabbi gamli. Þetta hefur gengið svolítið brösuglega til að byrja með og verður að viðurkennast að fyrstu stólarnir voru hreinlega gallaðir. En vonandi reynist það bara fall til fararheillar. Formbeygðir stólar kunna að virðast einfaldir en svo er ekki því það tók hönnuði og verkfræðinga mörg ár að þróa aðferð til að gera formbeygðan stól með góðu móti. Fyrstu slíku stólarnir litu dagsins ljós í Bandaríkjunum á fimmta áratugnum og svo má ekki gleyma Maurnum, sem hannaður var 1953 og er í raun fyrirmynd Skötunnar,“ segir Örn. Hann segir í raun aðdáunarvert að Íslendingar hafi byrjað framleiðslu á slíkum stólum örfáum árum eftir að þeir litu fyrst dagsins ljós. „Þetta segir ýmislegt um þá verkþekkingu sem við höfðum, enda var íslenskur húsgagnaiðnaður blómlegur á þessum tíma. Bara það að búa til mótið fyrir stólinn krafðist mikillar útsjónarsemi en þar naut pabbi dyggrar aðstoðar bróður síns, Harðar Hjálmarssonar, sem var mikill völundur og listamaður.“ Einstakar festingar Þó að Skatan sverji sig mjög í ætt við Maurinn eftir Arne Jacobsen fól hún í sér byltingarkennda nýjung. „Festingin á fótum við skelina á sér sennilega enga hliðstæðu frá þeim tíma. Engin skrúfa er í festingum og engar hlífar til að hylja þær. Einungis er ein festing úr mjúku gúmmíi sem minnir á egg.“ Langar að búa eitthvað til með höndunum Ákvörðun um að hefja framleiðslu á stólunum aftur er persónuleg, margbrotin og kannski dálítið klikk að sögn Arnar. „Mér hefur alltaf fundist grátlegt að ekkert af húsgögnum föður míns væru enn í framleiðslu. Sama má reyndar segja um húsgögn margra annarra íslenskra hönnuða frá þessum tíma, sem sannarlega var gullaldarár. Að sama skapi brennur í mér sú löngun að búa eitthvað til með höndunum enda afkomandi margra kynslóða handverksmanna. Ég álpaðist til að læra arkitektúr og brann að lokum inni og sat níu klukkutíma á dag fyrir framan tölvuskjá. Draumurinn er sá að geta staðið uppréttur í vinnunni og kallað mig húsgagnasmið eða að minnsta kosti eitthvað annað en skrifstofublók. Stóri draumurinn er náttúrulega sá að sígild íslensk hönnun verði með tímanum jafnsjálfsögð á íslenskum heimilum og sígild dönsk hönnun er Danmörku. Verði sá draumur að veruleika getur fjöldi manns starfað með stolti við þessa fornu og gefandi iðngrein hér á landi og byggt framtíðina á grunni góðrar fortíðar,“ segir Örn. Lærði hönnun í Kaupmannahöfn Halldór Hjálmarsson, 1927-2010, lærði húsgagnasmíði hjá föður sínum Hjálmari Þorsteinssyni, sem rak trésmíðaverkstæði í Reykjavík um áraraðir. Halldór nam húsgagnahönnun við list- iðnaðarskólann í Kaupmannahöfn frá 1953 til 1956 og stofnaði síðan fyrirtæki sem framleiddi meðal annars Skötu og annan stól sem kallaður var Þórshamar og verður brátt fáanlegur að nýju. Þekktasta verk hans sem enn stendur er væntanlega kaffihúsið Mokka við Skólavörðustíg. Fyrst um sinn verður Skötustóllinn einungis fáanlegur „beint frá býli“, eða í bílskúrnum hjá Erni. /VH Örn Þór Halldórsson með skötustóla sem hann framleiðir. Skata raðast vel.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.