Skólavarðan - 01.05.2006, Blaðsíða 3

Skólavarðan - 01.05.2006, Blaðsíða 3
3 FORMANNSPISTILL SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 6. ÁRG. 2006 Aðalheiður Steingrímsdóttir Norrænu kennarasamtökin (NLS) eru samstarfsvettvangur um það bil 600 þúsund kennara og skólastjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum frá öllum Norðurlöndunum. Eitt af meginmarkmiðum NLS er að efla fagmennsku og gæði í kennslu og skólastarfi og styrkja samfélagslega stöðu kennarastéttarinnar. Í gegnum NLS hafa íslenskir kennarar og samtök þeirra beinan aðgang að faglegri og menntapólitískri umræðu í Evrópu en þar eru m.a. neðangreind atriði mjög áberandi nú um stundir. Laun og ráðningakjör Breytingar á samnings- og starfsumhverfi kennarastéttarinnar, s.s. fjölgun einkarekinna skóla, samkeppni og valfrelsi um skóla, áhrif grenndarsamfélags á innra starf skóla. Fleiri vinnuveitendur en ríki og sveitarfélög; stofnanansamningar og einstaklingslaun í stað miðstýrðra samninga. Umræðan snýst um hvernig kennarar og samtök þeirra geti nýtt sér þessar breytingar í sókn til betri launa og öflugri samfélagslegrar stöðu í ljósi þarfa samfélags, atvinnulífs og einstaklinga fyrir menntun allt lífið. Samstarf skólastiga Samstarf kennara milli skólastiga til að efla einhug og samstöðu. Mikilvægi allra skólastiga fyrir menntun og þroska einstaklinga. Innsýn kennara á einu skólastigi í starf, starfsaðferðir og viðhorf á öðrum skólastigum. Kennarar starfi saman óháð skólastigum og líti á starf sitt sem hlekk í einni heild. Umræðan snýst um hvernig kennarar og samtök þeirra geti unnið að meiri heildarsýn yfir skólastigin, m.a. vegna áherslunnar á gæði og mælanlegan árangur á einstökum skólastigum. Að kennarar og samtök þeirra taki þátt í að skapa samstöðu um þau grundvallaratriði sem skipta höfuðmáli fyrir þroska hvers og eins í ljósi áherslunnar um menntun allt lífið. Brottfall Réttur allra barna til leikskólagöngu, gjaldfrjáls leikskóli til að jafna mismunandi félags- og efnahagslega stöðu heimila, mikilvægi leikskólans sem fyrsta skólastigs í námi barna. Brottfall í grunn- og framhaldsskólum sem er mest meðal nemenda af erlendum uppruna en eykst líka meðal annarra nemenda og ekki eingöngu vegna félagslegra aðstæðna. Í hnotskurn er brottfallið bæði lýðræðis- og samfélagsvandi. Kröfur samfélags og vinnumarkaðar um lengri menntun, ábyrgð skóla á að skila frá sér nemendum með tilskilda þekkingu og færni. Umræður um gæði í skólastarfi og kröfur um mælanlega þekkingu sem geri kennurum erfitt um vik að sinna samtímis menntun og þroska nemendahópsins og einstaklingsþörfum nemenda. Niðurskurður í fjárveitingum til skóla. Meira vinnuálag meðal kennara. Samkeppni fjölmargra um tíma og athygli nemenda. Skólinn verði bæði að vera spennandi og krefjandi. Þetta er vandasamt verkefni sem gerir miklar kröfur til kennara og samtaka þeirra. Umræðan snýst um þátt skóla í að minnka brottfall og stefnu og aðgerðir stjórnvalda í þeim efnum. Svipaðar breytingar einkenna starfsumhverfi íslenskra kennara. Framhaldsskólinn er kominn inn í dreifstýrt samningsumhverfi og líklegt má telja að fleiri félög kennarasamtakanna muni taka þessa tegund samningagerðar til skoðunar á næstunni. Kjarasamningar snúast samt ekki um einhverja tískustrauma í samningagerð heldur að bæta kjör kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda. Samfélagið gerir kröfu um góða menntun barna og ungmenna og að íslenskir skólar standi í fremstu röð. Til að skólar geti staðið undir þessum kröfum þarf að meta kennarastarfið að verðleikum og menntakerfið að fá nægt fé. Umræðan um samstarf milli skólastiga er brýn. Breytingar á kennaramenntun og vinna að heildarendurskoðun á lögum, námi og námskipan leik-, grunn- og framhaldsskóla mun efla samstarfið ef vel tekst til með samkomulag KÍ og menntamálaráðherra. Íslenskir kennarar, náms- og starfsráðgjafar og skólastjórnendur starfa í einum samtökum og hafa því einstaklega góða aðstöðu til að efla samstarf sín á milli. Í desember 2004 gengu tæplega 81% drengja og um 80% stúlkna á aldrinum 1 – 5 ára í leikskóla á Íslandi. Mikill þungi hefur færst í umræðuna um gjaldfrjálsan leikskóla í tengslum við komandi sveitarstjórnakosningar. Vonandi fara þar saman orð og efndir. Í ráðstefnuriti um brottfall úr námi á Norðurlöndum (2002) kemur fram að almennt megi skipta nemendum sem flosna úr námi á Íslandi í tvo hópa; þá sem hætta námi til að fara út á vinnumarkaðinn og þá sem finna ekki nám við hæfi eða eru ekki ánægðir með aðstæður sínar. Í ritinu kemur einnig fram að um 65% íslenskra nemenda ljúka lokaprófi út framhaldsskóla en 75-80% í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Í norrænu ríkjunum hætta um 5% nemenda námi eftir grunnskóla og um 15-30% hefja nám í framhaldsskóla án þess að ljúka því. Íslenskir skólar eiga í erfiðleikum með að sinna þeim breiða nemendahópi sem þar stundar nám. Fjölmennur hópur nemenda verður hornreka og hluti hans lendir utangarðs í samfélaginu. Þess vegna er brottfall úr námi bæði lýðræðis- og samfélagsvandi. Hér er verk að vinna fyrir stjórnvöld í samvinnu við skóla, kennarasamtökin og heimilin í landinu. Aðalheiður Steingrímsdóttir Skólar og starfsumhverfi kennara - sömu málefni rædd á Íslandi og öðrum Norðurlöndum

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.