Skólavarðan - 01.05.2006, Blaðsíða 29

Skólavarðan - 01.05.2006, Blaðsíða 29
SKÓLAVARÐAN 4.TBL. 6. ÁRG. 2006 29 Ef eitthvað amar að eða illt er skapið ekki skaltu af hólmi hopa heldur fá þér kaffisopa. (Höf. óþekktur) Lífið er nám og nám er lífið. Fyrir tæpum tveimur árum þótti mér tími til kominn að hella upp á fræðakönnuna í höfðinu og settist á skólabekk framhaldsdeildar Kennaraháskóla Íslands. Skemmst er frá því að segja að kaffið hefur verið sterkt og bragðgott. Í náminu hef ég kynnst margfróðu fólki sem hefur miðlað hugmyndum og hugdettum að vinna úr. Því miður verður að segjast sem er að aðeins brotabrot nær inn fyrir þykkan skrápinn og námssálin reynist oft krumpuð við hlið framandi hugtaka og ólesinna bókastafla. Starfskenning Hafdís Guðjónsdóttir og Hafþór Guðjóns- son eru tveir þeirra kennara sem gáfu mér fræðamola með kaffinu. Þau kynntu til sögu hugtakið starfskenning (eða fagleg starfskenning). Í sem fæstum orðum og á einfaldan máta má segja að starfskenning kennara sé persónuleg kenning hans um starf sitt, þ.e. á hvaða fræðilegum og siðferðilegum grunni gjörðir hans eru reistar. Eins mætti segja að starfskenning væri persónulegar hugmyndir um námskrá. Um starfskenningu og kennararannsóknir má lesa í grein eftir Hafdísi: „Kennarar ígrunda og rannsaka eigið starf“, sem birtist í Tímariti um menntarannsóknir árið 2004. Í sama riti er að finna grein Hafdísar Ingvarsdóttur „Mótun starfskenninga ís- lenskra framhaldsskólakennara“.1 Síðan þau Hafdís og Hafþór kynntu mér hug- takið hefur það af og til herjað á hugann: Hver er kenning þín um leikskólastarfið, Ási? Af hverju gerir þú þetta? Væri ekki viturlegra að gera eitthvað annað? Stærstu gátur starfsins blasa við! Hafdís Guðjónsdóttir segir í áðurnefndri grein: „Meðvituð fagleg starfskenning þróast í gegnum kerfisbundna og víðtæka gagnrýna ígrundun og samræður fag- manna.“ Það er nú oftast betra að vera með meðvitund í starfinu, en höfum við ekki verið löt við kerfisbundna ígrundun sannfæringar okkar um starfið, hvað þá samræður þar að lútandi við samstarfsfólk? Hugsað upphátt Hugmyndir mínar um leikskólastarf eru síbreytilegar en sí og æ rekst ég á sama grunnstefið: Leikskólastarf snýst um að hámarka möguleika hvers barns til gæfulegrar þátttöku í því samfélagi sem það býr við. Þessi orð eru klárlega gáfuleg, enda ekki ný sannindi á ferðinni - þetta vitum við öll og erum trúlega sammála. Hins vegar er vert að hafa í huga að hvert okkar hefur einstaka sýn á það hvernig við hámörkum möguleikana og hvað er gæfulegt. Þar kemur til kasta faglegrar starfskenningar leikskólakennarans. Íslenskt samfélag Til þess að komast til botns í því hvað geti verið gæfuleg þátttaka í samfélagi verður að greina megineinkenni samfélagsins. Íslenskt samfélag er í huga undirritaðs meðal annars: • Samskiptasamfélag. Samskipti verða sífellt meiri og flóknari og birtast í fleiri myndum en áður. Ekki verður séð að hægist á þeirri þróun og því má segja að hverskyns færni í samskiptum og læsi á boðskipti sé afar mikilsverð kunnátta. • Áreita- og hraðasamfélag. Fyrir utan þann fjölda fólks sem börn umgangast dags daglega dynja áreiti auglýsinga, fjölmiðla og skemmtana á íslenskri æsku. Hér skal tekið af heilum hug undir smiðshögg Ásdísar Ólafsdóttur um fjöldauppeldi sem birtist í febrúar í Skólavörðunni. Til viðbótar má geta hraðans og neyslunnar. „Fyrr“ er yfirleitt talið betra, til dæmis um nám og allan þroska og æ fleira telst til nauðþurfta. Gerðar eru kröfur til mjög ungra barna um tilfinningalegt sjálfstæði, sjálfstæði sem þau eru ekki fær um í mörgum tilvika. • Kyrrsetuþjóðfélag. Hreyfingarleysi hrjáir marga Íslendinga og veldur heilsufarsvanda. • Möguleikaþjóðfélag. Íslenskt samfélag er auðugt og býður upp á óþrjótandi tækifæri til að finna lífi sínu farveg, hvort sem um skemmtun eða starf er að ræða. • Náms- og tæknisamfélag. Nám hefur aldrei verið eins mikilvægt ungum þegnum landsins. Sérhæfing þjóð- félagins krefst þess að lært sé til flestra hluta og kröfur um menntun aukast. Undirstöðuþekking á tækni, svo sem tölvufærni, er orðin nauðsynleg grunnleikni í tæknivæddu samfélagi. Hér hafa verið nefnd fimm aðaleinkenni samfélagsins sem leikskólabörn eru þátttakendur í. Þetta kann að virka nokkuð neikvæð mynd af því góða samfélagi sem við eigum, en munum að hér er dregin upp persónuleg mynd. Hornsteinar starfskenningar Ígrundun samfélagsins hefur skapað fag- vitundinni starfsgrundvöll og nú spyr hún: Hvað skal gert? Hverjar eru leiðirnar til þess að hámarka möguleika barnanna? Fyrir það fyrsta má geta þess að sömu leiðir henta ekki öllum börnum, en greiningin hefur verið mér röksemd fyrir ákveðnum áhersluþáttum í starfinu sem ég kalla hér orðnám, hreyfingu, athvarf og leik. • Orðnám er mikilvægasta málræktin. Það að skilja hvert annað er þýðingarmest í samskiptum og því verður best náð með því að kynna börnum orð. Því les ég sem mest fyrir börnin, segi þeim sögur og ekki hvað síst tala við þau og bregð á leik með tungumálið. • Hreyfing er afar mikilvæg útrás fyrir sál og líkama. Útrás fyrir orku sem annars færi óæskilegri leiðir út úr líkamanum. Hreyfingin er mikilvæg forvörn, en börnin þurfa að venjast því að hreyfa sig og taka á. Ég tel gönguferðir eitthvað það gáfulegasta sem hægt er að gera í hópastarfstíma og útivera á hverjum degi er nauðsyn. Ég kýs því minni áherslu á borðvinnu. • Leikskólinn á að búa börnum athvarf frá áreitum og hraða þjóðfélagsins. Í leikskólanum á að vernda æskuna fyrir óraunhæfum kröfum um árangur og sjálfstæði um leið og vináttu, gleði og leik er hampað sem andsvari. Mikilvægt er að kenna börnum að ígrunda skilaboð þjóðfélagsins, til dæmis um hvað teljist rétt fyrir drengi og stúlkur. • Leikurinn er besta leiðin til að skapa börnunum athvarf frá kröfum og áreitum. Í leiknum er barnið frjálst og þar æfir það sig í samskiptum. Æskan þarfnast leiksins og hann má ekki einungis verða að tæki eða leið til þess að kenna börnum eitthvað – heldur leikur leiksins vegna og möguleikanna sem hann veitir börnum að vinna úr eigin tilfinningum og áreitum. Ég get Leikskólakennarinn og lífsgátan - óður til náms SMIÐSHÖGGIÐ „Hverjar eru leiðirnar til þess að hámarka möguleika barnanna?“ spyr Ásmundur Örnólfsson.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.