Skólavarðan - 01.12.2011, Blaðsíða 26

Skólavarðan - 01.12.2011, Blaðsíða 26
26 Skólavarðan 3.tbl. 2011ÞunglYnDi „Ég hef skrifað tíu bækur alls, bæði fyrir fullorðna og ungt fólk, en ekkert sem ég hef sent frá mér stendur hjarta mínu eins nærri og Upp á líf og dauða,” segir Jónína aðspurð um nýju bókina. „Það eru um tíu ár síðan ég ákvað að skrifa um þunglyndi fyrir krakka í efstu bekkjum grunnskóla. Mér fannst einfaldlega nauðsyn að til væri bók um þetta efni fyrir þennan aldurshóp. Unglingsárin eru svo tilfinningaþrungið og sveiflukennt aldursskeið, hamingjutopparnir iðulega svimandi háir og öldudalirnir hræðilega djúpir og dimmir. Allt er í efsta stigi. Oft virka vandamálin því óyfirstíganleg og erfitt getur verið að trúa því þegar fullorðna fólkið fullvissar mann um að erfiðleikarnir taki enda.“ Þunglyndi á léttum nótum? „Það reyndist heilmikill vandi að finna þessu viðkvæma umfjöllunarefni réttan farveg,“ viðurkennir Jónína. „Þetta er línudans og auðvelt að misstíga sig. Þess vegna gaf ég mér góðan tíma og prófaði ýmsar leiðir. Í fyrravetur datt mér svo í hug að hafa þetta spennubók í léttum dúr og þar með gekk dæmið upp. Ég veit að það hljómar kannski mótsagnakennt að skáldsaga um þunglyndi og sjálfsvígshættu geti verið á léttum nótum. Ef marka má þær viðtökur sem bókin hefur fengið og þá meðal annars ritdóma í blöðum hefur þetta þó lukkast ágætlega og það gleður mig óumræðilega. Það er jú til lítils að skrifa unglingabók sem krakkar vilja ekki lesa og ég held að spennan og húmorinn séu lykilatriði í því sambandi. En inn í textann flétta ég svo fróðleik sem ég vona að sitji eftir að lestri loknum. Til þess var leikurinn einmitt gerður, að opna augu ungs fólks fyrir einkennum þunglyndis og vonandi kveikja umræður í skólum og vinahópum. Kannski væri t.d. hægt að nota bókina sem umræðugrundvöll í lífsleikni.“ Hver samdi ljóðið? Geturðu lýst söguþræðinum í stuttu máli. „Já, aðalpersónur sögunnar eru þrjár – tvíburarnir Hrönn og Hákon og Líney, vinkona þeirra,“ segir Jónína. „Þau eru öll að hefja nám í framhaldsskóla og eftir að fimm bekkjarfélagar Hrannar vinna verkefni heima hjá henni finnur hún blað með dapurlegu ljóði sem einhver krakkanna hefur skilið eftir, annaðhvort vísvitandi eða óvart. Og hún telur augljóst að sá sem skrifaði ljóðið eigi mjög erfitt og langi jafnvel ekki til að lifa lengur. Hrönn ákveður að leita uppi höfund ljóðsins, með aðstoð bróður síns og vinkonu, og koma honum til hjálpar. Þetta er hins vegar hægara sagt en gert þar sem þau eru nýbyrjuð í skólanum og þekkja krakkana fimm aðeins lauslega. Þremenningarnir grípa því til þess ráðs að kynna sér einkenni þunglyndis á netinu. Síðan ganga þau skipulega til verks við að kynnast krökkunum betur, þ.e. taka einn krakka fyrir á hverjum degi. Þannig vonast þau til að fá á hreint hvaða bekkjarfélaga líður svona óskaplega illa. En allt verður þetta að ganga hratt fyrir sig því ef marka má tóninn í ljóðinu gæti verið skammur tími til stefnu.“ Unglingabók um viðkvæmt efni Texti: keg Mynd: Úr safni viðmælanda Unglingsárin eru svo tilfi nningaþrungið og sveifl ukennt aldursskeið, hamingju- topparnir iðulega svimandi háir og öldudalirnir hræðilega djúpir og dimmir. Nýverið kom út skáldsaga fyrir unglinga sem fjallar um þunglyndi og sjálfsvígshættu. Bókin nefnist Upp á líf og dauða og er eftir Jónínu Leósdóttur. Þetta er fimmta unglingabók Jónínu en hún segir nýju söguna hafa verið lengi í vinnslu, enda efnið afar viðkvæmt og vandmeðfarið. Jónína Leósdóttir

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.