Skólavarðan - 01.12.2011, Blaðsíða 30

Skólavarðan - 01.12.2011, Blaðsíða 30
30 Skólavarðan 3.tbl. 2011 fyrir hann að komast suður á fundi frá Siglufirði. „Meðan Flugfélag Norðurlands var og hét gat ég flogið héðan til Akureyrar og þaðan suður. Ég gat flogið með Vængjum, síðar Arnarflugi, beint suður og svo gat ég keyrt á Sauðárkrók og flogið þaðan með Flugfélagi Íslands suður. Ekki var laust við að margir félagar mínir á landsbyggðinni öfunduðu mig af öllum þessum ferðamöguleikum. Annars var þetta oft ansi erfitt á þessum árum. Snjómokstur á vegum var lítill og tækin léleg auk þess sem reglur um ruðningsdaga hentuðu oft illa. Þetta kom sér oft illa hér innan svæðisins. Einu sinni vorum við fjórir héðan á fræðsluráðsfundi í Varmahlíð í Skagafirði og sá fimmti í hópnum með okkur var bæjarstjórinn. Við vorum á tveimur bílum og urðum á heimleið að ganga af bílunum neðst í Mánárskriðunum vegna skafla á um 200 metra kafla. Þangað vorum við sóttir af lögreglunni á Siglufirði.“ Heldur miklar fjarvistir skólastjórans Að mati Péturs veigra landsbyggðarmenn sér oft við að taka þátt í félagsstörfum á landsvísu vegna ferðalaganna. „Ég naut þess nú kannski að vera í stjórnunarstöðu og því með minni kennsluskyldu. Auðvitað var þetta oft og tíðum helgarvinna syðra. Kannski farið á föstudegi og verið laugardag og fram á sunnudag.“ Svo kom í ljós að mörgum þótti fjarvera Péturs frá skólastjórastarfinu heldur mikil vegna félagsstarfanna. „Já, það kom í ljós að sumum þóttu fjarvistir skólastjórans heldur miklar og að skólinn liði fyrir það. Ég get ekki fullyrt hver undirrótin var að þessu. Sumum af „gömlu“ kennurum barnaskólans var frá stofnun Grunnskólans illa við að stjórnendur nýja grunnskólans væru úr gagnfræðaskólanum. Einn þessara kennara var skólanefndarformaður og þetta var svolítið öfugsnúið að einn af kennurum mínum var þannig yfirmaður minn.“ Pétur varð síðar félagslegur skoðunarmaður reikninga hjá Kennarasambandinu og hann var líka í slíku starfi fyrir Félag skólastjórnenda. Þegar grunnskólinn fór til sveitarfélaganna benti Pétur bæjaryfirvöldum á Siglufirði á það álit Kennarasambandsins, að allar líkur væru á að það fjármagn sem ríkið ætlaði að láta fylgja með grunnskólunum væri of lítið. Hann sagði að menn hefðu ekki viljað trúa því þótt annað hefði svo komið í ljós. Slæm útkoma úr samræmdum prófum Í kjölfar flutningsins hætti Pétur sem skólastjóri vorið 1996. „Ástæðan þess var sú að lágar einkunnir voru í samræmdum prófum úr skólanum og svo var fjarvera skólastjórans vegna félagsstarfa talin af hinu illa hjá sumum. Bæjaryfirvöld ákváðu því að gerð yrði úttekt á skólanum hér. Ég ætla ekki að fjölyrða um niðurstöðurnar en fram kom í skýrslunni að nemendur sögðu að þeim liði vel í skólanum. Það þótti mér vænt um að heyra. Það var góður vinur minn, Guðmundur Ásmundsson fyrrverandi skólastjóri á Laugabakka, sem gerði þess úttekt. Ég var nú ekki rekinn, en mér var bent á að best væri að ég gæfi stöðuna eftir. Ég hélt áfram að kenna á unglingastiginu og fékk svo vinnu í sérverkefnum á bæjarskrifstofunni. Ég hélt mínu striki og hélt sambandi við skólafólk á landsvísu og kjördæmisvísu. Svo æxluðust mál þannig að Jónína Magnúsdóttir, sem var skólafulltrúi í hálfu starfi hér, varð aðstoðarskjólastjóri og mér var boðið skólafulltrúastarfið sem ég þáði. Sem skólafulltrúi kom ég að því að stofna félag sem heitir Grunnur og er félag deildarstjóra á skóla- og fræðsluskrifstofum, nokkurs konar samráðsvettvangur þeirra sem störfuðu við þetta. Þetta var skemmtilegur og góður félagsskapur. Við héldum flesta fundina í Reykjavík en þó man ég eftir fundi á Húsavík. Við fengum til okkar fyrirlesara á fundina og svo vann fólk í starfshópum. Þarna var verið að móta starfið eftir að sveitarfélögin tóku yfir grunnskólana.“ Lítur sáttur yfir farinn veg Pétur starfaði sem skólafulltrúi Siglufjarðar til 31. maí 2005 en þá var það starf lagt niður. Hann er á sjötugasta aldursári og segist hafa haft mikla ánægju af störfunum að félagsmálunum, ekki síst starfinu með kennurum á Norðvesturlandi og minnist tveggja daga haustþinga í kjördæminu sem hafi verið fróðleg og góð þing. „Þangað komu ýmsir aðilar svo sem námstjórar og starfsmenn Námsgagnastofnunar og fræddu okkur og tóku þátt í umræðum. Þar var stífasta vinna sem skilaði sér vel. Félagslegi þátturinn var alltaf sterkur og starfið á landsvísu í Kennarasambandinu undirbúið. Við tilnefndum til dæmis félaga okkar Eirík Jónsson á Blönduósi sem varaformann sambandsins og hann var síðan í fylkingarbrjósti Kennarsambandsins. Ég var þingforseti á mörgum slíkum þingum og naut þar aðstoðar vinar míns Björns Björnssonar á Sauðárkróki auk margra annarra ágætis félaga í kennarastétt.“ Pétur lítur sáttur yfir farinn veg og segist hafa eignast marga og góða vini í gegnum félagsstörf sín fyrir kennara og þakkar þeim fyrir samstarfið. Þegar grunnskólinn fór til sveitarfélaganna benti Pétur bæjaryfirvöldum á Siglufirði á það álit Kennarasambandsins að allar líkur væru á að það fjármagn sem ríkið ætlaði að láta fylgja með grunnskólunum væri of lítið. fólkið

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.