Fréttablaðið - 08.09.2022, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 08.09.2022, Blaðsíða 12
Á laugardaginn var birtist frétt í Fréttablaðinu með fyrirsögninni „Mikil lækkun lyfjaverðs á milli ára“ en í fréttinni kom fram í könnun Veritabus að lyfjaverð hefði lækkað mikið á milli ára hjá þeim fjórum lyf- sölum sem bjóði netverslun og var vitnað í sambærilega könnun ASÍ frá því í nóvember 2021. Sérstaklega var tekið fram að verð í Lyfju hefði lækkað um 15% að raunvirði og dugði það sem tilefni fyrir framkvæmdastjóra Lyfju til að hampa árangrinum. Ekki viljum við hjá Lyfjaveri hins vegar leyfa stóra aðilanum á markaðnum, Lyfju, að beina athyglinni frá þeirri staðreynd að Lyfjaver er með lægsta verðið samkvæmt könnuninni. Frá sjónarhóli litla aðilans á markaðnum skýtur það skökku við að stóri aðilinn, sem að auki er með markaðsráðandi stöðu, og er eins konar klukkubúð lyfjaverslananna, skuli hreykja sér af stöðu sem stafar helst af þeirri samkeppni sem lág- vöruverðsapótek og Netapótek Lyfjavers hefur veitt þeim. Neyt- endur þurfa að spyrja sig að því af hverju Lyfja, sem ráðandi aðili á markaðnum, hafi verið svona dýr þangað til samkeppnin jókst með netverslunum. Álagningin hjá Lyfju er enn í dag mun hærri en hjá Lyfja- veri eins og sjá má af verðsaman- burði. Lækkunin hjá Lyfju núna stafar aðeins af því að þar var mikið svigrúm til lækkunar vegna þess að álagningin var mjög há fyrir. Lyfjaver hefur með netapóteki sínu stuðlað að verðlækkun um land allt. Mjög lítið er um að viðskiptavin- ir greiði heimsendingargjald þar sem sendingin er frí ef pantaðir eru tveir lyfseðlar. Á höfuðborgarsvæðinu aka bílstjórar Lyfjavers sendingum heim til viðskiptavina og dreifum við allt frá Völlunum í Hafnarfirði til Kjalar- ness. Pósturinn sér svo um sendingar um land allt, auk þess að hægt er að nálgast pantanir sem ekki innihalda lyf á afhendingarstöðum Dropp um land allt. Ég hvet neytendur til að fylgjast einfaldlega vel með hver býður lægsta verðið. Það er gott fyrir neytendur að aukin samkeppni okkar hafi loks orðið til þess að Lyfja lækki álagn- ingu sína. En að það sé sérstakt til- efni til fagnaðar hjá Lyfju hljómar vægast sagt undarlega. Ég held að neytendur átti sig á því að klukku- búðir eru almennt dýrari en lág- vöruverðsverslanir, enda er lengri afgreiðslutími hjá þeim. Það á auð- vitað við um Lyfju líka. Við hin sem komum almennt vel út úr verðkönn- unum á milli ára hljótum því að vilja rétta okkar hlut og benda á að lág- vöruverðsapótekin eru komin til að vera, og Lyfja er ekki eitt af þeim. n Lækkun lyfjaverðs er samkeppni lágvöruverðsapóteka að þakka Ég hvet neytendur til að fylgjast einfaldlega vel með hver býður lægsta verðið. Hákon Steinsson framkvæmdastjóri Lyfjavers Skipulagsauglýsing Aðalskipulag Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst tillaga að eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu: Breyting á Aðalskipulagi Tálknafjarðarhrepps 2006-2018 Norður Botn Breytingin varðar landnotkun svæða í landi Norður-Botns þ.e. iðnaðarsvæði I3 og I11, efnistökusvæði E3 og E6 ásamt þjóðvegi nr. 63, Bíldudalsvegur. Markmið aðal- skipulagsbreytingarinnar er að auka framleiðslugetu fiskeldisstöðvarinnar í Norður-Botni og skýra hvar fram- leiðsla skuli staðsett. Samhliða breytingu aðalskipulagsins er unnin tillaga að breytingu deiliskipulags seiðaeldis- stöðvar í landi Norður-Botns. Breyting á deiliskipulag fyrir Norðurbotn Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst tillaga að eftirfarandi breytingu á deiliskipulagi fyrir Norður Botn. Skipulagssvæðið er stækkað til norðurs út fyrir stór- straumsfjöru. Byggingarmagn á byggingarreit I, Norður- Botn fer úr 8.000 m² í 40.000 m², hámarks ársframleiðsla fer úr 200 tonnum í 2200 tonn. Byggingarmagn á byggingarreit II, Keldeyri fer úr 8.000 m² í 5.000 m², ársframleiðsla er óbreytt 200 tonn. Tillögurnar verða til sýnis á skrifstofu Tálknafjarðarhrepps að Strandgötu 38 frá og með fimmtudeginum 16. sept- ember til 28. október 2022. Þær verða einnig til sýnis á heimasíðu Tálknafjarðarhrepps, www.talknafjordur.is. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við til 28. október 2022. Skila skal athugasemdum á skrifstofu Tálknafjarðarhrepps, Strandgötu 38, 460 Tálknafirði. Skipulagsfulltrúi Tálknafjarðarhrepps Óskar Örn Gunnarsson Eftir tveggja ára hlé var komið að því að reima á sig hlaupaskóna þegar Reykjavíkurmaraþon Íslands- banka var haldið í 37. skipti þann 20. ágúst síðastliðinn. Stemningin var að vanda einstök þegar hlaup- arar lögðu af stað úr Lækjargötunni þrátt fyrir að vindar blésu. Íslandsbanki hefur verið stuðn- ingsaðili hlaupsins í 26 ár og ég var stolt þegar ég horfði á alla þessa þátttakendur þeysast um borgina og ekki síður ánægð með stuðning og hvatningu íbúa. Hvatning Vest- urbæinga og Seltirninga er órjúfan- legur þáttur í þessu ævintýri þegar íbúar storma út á götur til að hvetja hlaupara sem fara fram hjá. Ég veit að íbúar í öðrum hverfum láta sitt ekki eftir liggja en ég hef aldrei náð að hlaupa lengra en þennan Vestur- bæjarhring. Fyrir utan að vera stórt lýðheilsu- verkefni þar sem þúsundir taka þátt eftir oft ströng undirbúningstímabil er þetta líka stærsta góðgerðarsöfn- un landsins. Þegar Hlaupastyrkur var settur á laggirnar árið 2006 er mér minnisstætt hversu þunglama- leg söfnunin var í upphafi þar sem við þurftum nánast að véla í gegn hvert einasta áheit og berjast fyrir hverri krónu. Það hefur þó aldeilis breyst á skömmum tíma og á þess- um 16 árum hafa nú safnast um 1,3 milljarðar króna til góðra málefna. Söfnunin hefur verið okkur í Íslandsbanka mikið kappsmál enda vitum við að mörg góðgerðarfélög reiða sig á þetta áheitafé. Í ár skráðu sig 280 góðgerðarfélög og hjá mörg- um þeirra er þetta þeirra eina leið til að safna fjármunum í starfsemi sína. Á bak við hvert einasta félag er fallegt hlutverk og fjármunirnir koma því að mjög góðum notum. Eftir tveggja ára hlé á Reykja- víkurmaraþoni Íslandsbanka vegna heimsfaraldurs var einstaklega ljúft að hlaupa og taka þátt í þessum degi aftur. Þessi dagur er mikil- vægur fyrir samfélagið og hefur áhrif víða. En það þarf mörg hand- tök til að svona viðburður verði til og langar mig að þakka öllum sem komu að deginum. Íþróttabanda- lagi Reykjavíkur fyrir skipulagið og þeim óteljandi sjálf boðaliðum sem lögðu hönd á plóg. Öllum þeim duglegu þátttakendum sem gera þetta að veruleika og hverju einasta klappi, f lauti og fimmum á hliðar- línunni sem búa til alla stemning- una. Næst hlaupum við 19. ágúst 2023, í 38. sinn. n Að hlaupi loknu Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka Næst hlaupum við 19. ágúst 2023, í 38. sinn. Það voru sorgleg tíðindi fyrir fólkið í landinu þegar fréttist að menn- ingar- og viðskiptaráðherra hefði skipað í stöðu þjóðminjavarðar. Skipanin var án auglýsingar og hafa einu „rök“ ráðherra fyrir henni verið þau að heimild hafi verið til þess samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og að sú sem skipuð var sé hæf til starfsins. Ráðherra hefur sagt í viðtölum að til þess að tryggja faglegt mat, endurnýjun og gagnsæi í opin- berri stjórnsýslu þurfi að auglýsa í opinber embætti. Ráðherra sér hins vegar ekkert athugavert við þá hugmynd í ljósi eigin yfirlýsinga að „taka safnstjóra úr einu höfuðsafni yfir í það næsta“, eins hún orðaði það í viðtali við Kjarnann. Hvernig það tryggir faglegt mat, endurnýjun eða gagnsæi er ósagt látið af hennar hálfu. Félag íslenskra safna og safn- manna, Íslandsdeild ICOM, starfs- mannafélag Þjóðminjasafnsins og félög sagnfræðinga, þjóðfræðinga og fornleifafræðinga hafa sent frá sér yfirlýsingar vegna málsins og harmað gjörninginn. Nýbúin að ræna félagsmenn þessara félaga og annarra tækifæri til að sækja um embættið ætlar ráðherra að hitta þessa gagnrýnendur sína og spyrja einlæglega: Hvað er hægt að gera betur? Eru einhver ný tækifæri í stöðunni? Eða með öðrum orðum, ráðherra vill að fólk sætti sig við stuldinn og geri bara gott úr þessu. Ráðherra hefur hingað til haldið því fram að honum sé þetta lagalega heimilt. En er það svo einfalt? Fram að þessu er það ósagt hjá ráðherra hvernig skipanin samrýmist nýlega samþykktum siðareglum ráðherra. Í reglunum segir meðal annars að ráðherra eigi að sinna starfi sínu af sanngirni, huga að hagsmunum almennings og gæta jafnræðis og hlutleysis. Með skipan sinni í emb- ætti þjóðminjavarðar blasir það við að ráðherra hefur þverbrotið þessi ákvæði með því að auglýsa ekki starfið. Þó svo að ráðherra beri ábyrgð á skipaninni er hún ekki alveg ein í að undirbyggja valdníðsluna. Að baki hennar stendur ráðuneytið. Í siða- reglunum er að finna sérstaka grein um ráðherra og starfslið hans. Þar segir að ráðherra eigi að leita fag- legs mats starfsmanna ráðuneytis- ins áður en ákvarðanir eru teknar um einstök mál og virðist ráðherra hafa gert það. Í viðtali í morgun- útvarpinu 31. ágúst á RÚV segir ráð- herra eftirfarandi: „Við fórum í það að skoða reynslu stjórnenda vítt um völlinn og þess vegna komumst við að þessari niðurstöðu.“ Þessi „við“ sem ráðherra nefnir ímynda ég mér að sé fólk innan ráðuneytisins. Nú spyr maður sig: Af hverju fóru þau í það að leita að einstaklingi í stöðu þjóðminjavarðar? Hvaða hópur af fólki var þetta sem var í leitinni? Hversu lengi stóð þessi leit yfir? Hvaða heimild hafa þau til að taka það upp hjá sjálfum sér að leita? Hver var þessi „völlur“ sem leitað var á? Hvaða viðmið notaði leitarhópurinn til að meta þá sem komu til greina – og hverjir komu til greina? Voru tekin viðtöl við þá sem þau fundu og þurftu þeir ein- staklingar sem komu til greina að lýsa sýn sinni á embættið og verk- efnin fram undan? Í siðareglunum segir að ráðherra eigi ekki að synja um aðgang að upplýsingum sem varða almannahag, og að ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins eigi að gera upplýsingar aðgengilegar. Á þeim forsendum væri gagnlegt að fá opinberlega skýr og nákvæm svör við ofantöldum spurningum frá þessum aðilum og er hér með óskað eftir þeim. Fáum kom það til hugar að ráð- herra myndi ganga fram með þeim hætti sem hún hefur gert og hunsa sanngirni, jafnræði og hlutleysi gagnvart fólkinu í landinu, sem og alla varnagla sem lög og reglur hafa sett gegn geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna við veitingu embætta. Embætti þjóðminja- varðar er eign íslensku þjóðarinnar og það skiptir hana þar með máli hvernig því embætti er ráðstafað. Að ráðherra skuli kasta eign sinni á embættið og skipa í það með þeim hætti sem gert var er andlýðræðis- legt, sannarlega misbeiting valds og brot á því trausti sem fólk hefur sýnt ráðherra og starfsliði hennar hingað til fyrir því umboði að ráða í starf þjóðminjavarðar. n Við eigum embætti þjóðminjavarðar Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor við Háskóla Íslands Embætti þjóðminja- varðar er eign íslensku þjóðarinnar og það skiptir hana þar með máli hvernig því embætti er ráðstafað. 12 Skoðun 8. september 2022 FIMMTUDAGURFRÉTTABLAÐIÐ

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.