Helgarpósturinn - 31.01.1985, Blaðsíða 6

Helgarpósturinn - 31.01.1985, Blaðsíða 6
INNLEND YFIRSYN „Mannleg viðbrögð ákærðra manna,“ segir ríkissaksóknari um yfirlýsingu RÚV-manna. Ríkissaksóknari spyr ekki ad lýðrædinu „Ákæra ríkissaksóknara er grimmileg að- för að samtökum íslenskra launamanna," segir í yfirlýsingu stjórnar starfsmannafé- laga útvarps og sjónvarps sem kynnt var á blaðamannafundi síðastliðinn mánudag. í gær lýsti svo bandalagsráðstefna BSRB yfir furðu sinni á þeirri ákvörðun saksóknara að höfða sakamál á hendur íslensku launafólki fyrir það eitt að taka þátt í lýðræðislegri kjarabaráttu. Þórður Björnsson ríkissaksóknari gaf í einu lagi út ákæru annars vegar á hendur forsvarsmönnum þeirra ólöglegu útvarps- stöðva sem sendu út í verkfallinu í október fyrir brot á útvarpslögum og fjarskiptalögum sem innihalda sérákvæði um refsingu, og hins vegar á hendur forystumönnum starfs- mannafélaga útvarps og sjónvarps fyrir að hafa gerst brotlegir við sjálf hegningarlögin frá 1940 með því að „hafa með ólöglegum hætti valdið verulegri truflun á rekstri Ríkis- útvarpsins" er þeir gengu út af vinnustöðum sínum 1. október sl. þar sem þeir höfðu ekki fengið greidd laun eins og frægt er orðið. Margt vekur furðu við þessa málsmeðferð alla. Fyrir það fyrsta lét embætti ríkissak- sóknara birta þessar ákærur í fjölmiðlum 12. janúar en að sögn stjórnarmanna starfs- mannafélaganna hefur þeim ekki enn borist ákæran í hendur. Ennfremur er furðulegt að þessi tvö mál skuli sett fram i einu lagi þó þau séu eðli sínu samkvæmt fjarska óskyld. Að vísu lét Þórður Björnsson hafa eftir sér í fréttaviðtali sjónvarps að þar hafi tilviljun ein ráðið þar sem þau hafi bæði borið upp á sama tíma í afgreiðslu og því verið hagræð- ingaratriði að hafa þennan háttinn á. Það þarf ekki skarpan skilning og rökvísa álykt- unargáfu til að sjá að við undirbúning ákæruútgáfunnar og meðferð hennar alla hefur meira en tiiviljun ráðið að málin urðu samferða í gegnum hendur ríkissaksóknara. „Starfsmenn Ríkisútvarpsins eru bornir mun þyngri sökum en eigendur hinna ólög- legu útvarpsstöðva. Hinir síðarnefndu eru ákærðir fyrir sérrefsilagabrot sem oftast varðar sektum en starfsmenn Rikisútvarps- ins eru ákærðir fyrir hegningarlagabrot sem varðar refsivist," segir í yfirlýsingu star's- mannafélaganna. Hér er um að ræða fyi ri málsgrein 176. gr. hegningarlaganna sem segir: „Ef maður veldur með ólögmætum verknaði verulegri truflun á rekstri al- mennra samgöngutækja, opinberum póst-, síma- eða útvarpsrekstri eða rekstri stöðva eða virkjana, sem almenningur fær frá vatn, gas, hita eða aðrar nauðsynjar, þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“ Þessi lagagrein hefur staðið óhögguð frá því hegningarlögin voru endurbætt og gefin út sem nýr bálkur fyrir meira en fjörutíu ár- um þó svo að á þeim tíma hafi orðið gjörbylt- ing hvað varðar vinnuréttarstöðu opinberra starfsmanna. Þá hefur fáum til hugar komið að starfsmenn við póst-, síma- eða útvarps- rekstur ættu eftir að öðlast verkfallsrétt og aðra stöðu venjulegra launþegasamtaka. I skýringum löggjafans á þessu lagaákvæði og ætlun þingmanna með því segir í greinar- gerð frá þessum tíma: „Hér er ekki höfð fyrir augum sú almanna-hætta að lífi manna eða eignum sé hætta búin af truflunum þeim er greinin fjallar um. Hinsvegar myndi stöðvun eða truflun slíkra tækja eða stofnana sem hér um getur hafa í för með sér ýmis óþæg- indi fyrir almenning. Til ólögmæts verknað- ar myndi teljast ólögmætt verkfall." I samtali við Helgarpóstinn segir Þórður Björnsson ríkissaksóknari að verkfall, ólög- mætt eður ei, komi þessari ákæru ekkert við. Hún byggi aðeins á þeirri stöðvun sem varð á útsendingum útvarps og sjónvarps frá mánudegi til miðvikudagskvölds, þ.e. til þess tíma er boðað verkfall BSRB hófst. „Þetta var ólögleg skyndistöðvun sem hefur ekkert með verkfall að gera,“ sagði hann. Aðspurður um það ádeiluatriði starfs- manna Ríkisútvarpsins að þeim hafi ekki borist ákæran í hendur enn, þó hálfur mán- uður væri liðinn frá því að hún var gefin út og birt í fjölmiðlum, sagði Þórður: „Sakadómur birtir ákærur en ekki ríkis- saksóknaraembættið. Þetta er bara einhver misskilningur." Það væri því ekki við hans embætti að sakast um þetta efni og almennt eftir Ómar Friðriksson sagði Þórður að hin hörðu viðbrögð útvarps- starfsmanna kæmu ekkert við sig. „Mér stendur algerlega á sama um þetta. Þetta eru bara mannleg viðbrögð manna sem sæta ákæru og ég kippi mér ekkert upp við slíkt." Ævar Kjartansson, varadagskrárstjóri út- varps sem situr í stjórn starfsmannafélagsins, segir HP að starfsmenn hafi einfaldlega litið svo á, er þeir gengu út 1. okt., að á þeim hafi verið brotinn réttur með því að greiða þeim ekki laun. „Höfum við brotið lög sýnir það aðeins að þarna stangast á gamalt laga- ákvæði og hefðbundnar aðferðir í verkfalls- baráttu." í yfirlýsingu sinni bendir stjórn starfs- mannafélaganna á að nokkrum sinnum hafi sambærileg lokun útvarps átt sér stað í kjara- baráttu án þess að þá hafi verið haft í hótun- um um fangelsisvist. HP hefur það eftir virt- um lögfræðingi að það sé hefð fyrir því um langa hríð í sögu verkfallsátaka, að þó þær aðgerðir hafi á einhvern hátt snortið greinar hegningarlaganna þá séu slík mál venjulega svæfð í meðferð lögreglu eða ákæruvalds. Nú sé hins vegar brugðist hart við þvert ofan í allar hefðir. „Margt bendir til að hér sé um pólitíska aðgerð að ræða,“ segja starfsmenn RÚV. í blöðum er gefið í skyn að pólitískir valdsmenn hafi beitt dómskerfinu fyrir sig í þessari grimmilegu aðför. Ástæða er til að minna á, að þó svo að ríkissaksóknari hafi áður heyrt undir dómsvaldið í landinu hefur réttarþróunin nú skipað það embætti undir framkvæmdavaldsgeirann. Nú er hann því á sama valdsviði og fjármálaráðherra lands- ins; handhafi ákæruvalds ríkisins gegn starfsmönnum sínum. „Þetta var lýðræðisleg ákvörðun," segja starfsmenn RUV. Ríkissaksóknari spyr ekki að lýðræðinu. Hann krefst því refsingar yfir ákærðu og þyki sakadómara verknaðurinn varða við refsilagagreinina er aðeins eftir að vita hvort hann finni þeim eitthvað til máls- bóta, því ella blasir allt að 3 ára fangelsi við þeim útvarpsstarfsmönnum sem lögðu niður vinnu vegna þess að þeir fengu ekki launin sín greidd. ERLEND YFIRSYN Milljónir eiga líf sitt undir matgjöfum frá fjarlægum löndum. Ostjórn og óáran leggjast á eitt í Eþíópíu Foringjar í Eþíópíuher steyptu keisara- stjórn Haile Selassie af stóli fyrir áratug og hafa síðan ráðið landinu. Undanfari upp- reisnarinnar í hernum var hungursneyð, sem talið er að orðið hafi að bana fjórðungi millj- óna bændafólks í héruðunum Erítreu, Tigre og Wollo. Herforingjarnir kenndu keisaran- um og stjórn hans um að valda miklu um mannfellinn með litlum og lélegum við- brögðum til að bæta úr matarskorti af völd- um uppskerubrests. Eftir tíu ára herforingjastjórn, lengst af undir hugmyndafræðilegum merkjum marx-lenínisma af sovéskri gerð, er skollin á í Eþíópíu mun magnaðri hungursneyð en sú sem varð undanfari að falli keisarastjórnar- innar. Enn hrynur fólk ákafast niður í norð- urhéruðunum þremur sem áður voru nefnd, en hungurs er farið að gæta mun víðar um landið. Stjórnin í Addis Ababa hefur látið það boð út ganga, að berist ekki nægar matgjafir erlendis frá næstu tvö árin, vofi hungurdauði yfir sex til sjö milljónum manna af 42 millj- óna þjóð. Byltingarstjórn herforingjanna útrýmdi stétt landsdrottna, sem áður hirtu háa land- skuld af leiguliðum, en hlutur eþíópískra bænda batnaði ekki að heldur. Kaupmenn- irnir, sem sáu sjálfseignarbændum fyrir korni og áburði og keyptu af þeim búsafurð- ir, urðu einnig að víkja fyrir miðstýrðri ríkis- stofnun. Eins og aðrar herforingjastjórnir í Afríkulöndum byggir sú í Eþíópíu vald sitt á því að sjá borgarbúum fyrir mat á kostnað sveitafólksins. Bændum er greitt svo lágt verð fyrir afurðir sínar, að þeim er enginn akkur í að framleiða umfram brýnustu þarfir eigin fjölskyldu. I frjósömum héruðum Eþí- ópíu er því ekkert aflögu til að bæta úr skort- inum á þurrkasvæðunum. Þar á ofan er tiltækum fjármunum varið til alls annars frekar en að bæta búskaparhætti. Áhrif þurrkanna undanfarin ár magnast við það að jarðvegi hnignar vegna eyðingar skóga til eldiviðar og ofbeitar á hrjóstrugu landi. Kæruleysi herforingjastjórnarinnar í Addis Ababa um afdrif sveitafólksins kom berlega í ljós á síðasta ári. Eftir að hungursneyðin var skollin á í norðurhéruðunum, létu stjórnvöld hjálparstarf sitja á hakanum, en lögðu allt kapp á að efna til sem viðhafnarmestra há- tíðarhalda á tíu ára afmæli valdatöku herfor- ingjanna. í Addis Ababa var reist þinghöll fyrir tvo milijarða króna og enn hærri fjár- hæð varið til að standa straum af skrautsýn- ingum, veisluhöldum og byltingarminnis- merkjum í borgunum. I höfnum Eþíópíu voru skip hlaðin gjafakorni erlendis frá til hungursvæðanna látin bíða losunar lang- tímum saman, af því að farmar byggingar- efnis og veislufanga vegna byltingarafmæl- isins höfðu forgang. Undirofursti að nafni Mengistu Haile Mariam hefur lengst af ráðið herforingja- stjórninni í Eþíópíu. Völd sín tryggði hann með þvi að skjóta helstu keppinauta sína á fundi í dergue, en svo nefndist byltingar- stjórnin. Síðan hefur Mengistu reitt sig á hernaðarráðunauta frá Sovétríkjunum, ör- yggismálaráðgjafa frá Austur-Þýskalandi og herþjálfara frá Kúbu. Allt kapp hefur verið lagt á að efla herinn. Talið er að sovésk hern- aðaraðstoð við stjórn Mengistu nemi sem svarar hálfum þriðja milljarði Bandaríkja- dollara. Hann heldur nú úti her sem telur þrjár vélaherdeildir og 21 fótgönguliðsher- deild. Verkefni hersins hefur ekki aðeins verið að treysta völd Mengistu og félaga hans, heldur sér í lagi að halda í skefjum sjálfstæðishreyf- ingum í tveim héruðum, sem nú eru bæði hart leikin af hungursneyðinni. í Erítreu, strandhéraðinu út að Rauðahafi, hafa sjálf- stæðishreyfingar haldið uppi hernaði gegn her stjórnarinnar í Addis Ababa í aldarfjórð- ung. Talið er að á þriðja hundrað þúsund manns hafi fallið í átökunum fram til þessa. Erítreumenn eru klofnir í þrjár fylkingar, sem átt hafa í átökum innbyrðis auk þess að berjast við Eþíópíuher. Þjóðfrelsisfylking Tigre heldur því fram að skæruliðar sínir ráði 85 hundraðshlutum héraðsins sem liggur landmegin að Erí- treu vestanverðri. Erlendir fréttamenn, sem þar hafa verið á ferð síðan þeim opnaðist leið í kjölfar starfsemi alþjóðlegra hjálparstofn- ana í matgjafarstöðvum, staðfesta að stjórn- arherinn ráði einungis akvegum og borgum sem þeir tengja. Áform stjórnarinnar í Addis Ababa, um að flytja hálfa aðra milljón manna brott frá hall- ærishéruðunum Tigre og Wollo til frjósamari héraða suðvestur í landi, eru að margra áliti fyrst og fremst pólitískt herbragð, sem miðar eftir Magnús Torfa Ólafsson að því að svipta skæruliðana í Tigre skjóli af vinveittu landsfólki. Síðan brottflutningarnir hófust hefur þess gætt að nauðstatt fólk hverfur brott úr búðum við matgjafarstöðvar hjálparstofnana til þorpa sinna til að komast undan nauðungarflutningi á fjarlægar slóðir, þótt við það aukist hættan á að það svelti til bana. Sömuleiðis hefur aukist um allan helming straumur flóttafólks frá Tigre og Erítreu vestur til Súdans. Eþíópíustjórn hefur reynt eftir föngum að hindra að matgjafir erlendis frá berist fólki á yfirráðasvæðum sjálfstæðishreyfinganna í Erítreu og Tigre. Varð af því milliríkjamál fyrir skemmstu. Ástralskt skip með gjafa- korn var kyrrsett í höfn á valdi Eþíópíuhers, þegar í ljós kom að hluti af farminum átti að fara til yfirráðasvæðis Erítreumanna. Mót- mæli Ástralíustjórn þessu atferli harðlega. Hungursvæðið í austanverðri Afríku er síð- ur en svo bundið við Eþíópíu. Það nær einnig til Tsjad, sunnanverðs Súdans og hluta af Somalíu og Kenya. Auk Eþíópíu ríkir innan- landsófriður bæði í Tsjad og Suður-Súdan. Hörmungar af völdum hallæris og vopnavið- skipta fara því saman. Breyttir loftstraumar sem valda úrkomu- bresti eru frumorsök hallærisástands í Afr- íkulöndum sunnan Sahara, en afleitt stjórn- arfar í lönóunum sem í hlut eiga gerir illt verra. Sveitirnar eru arðrændar í þágu borg- anna, þar sem herforingjastjórnirnar sitja og vilja hafa borgarlýðinn góðan. Áf þessu hlýst að ekkert er gert, þótt þekk- ing sé fyrir hendi, til að kenna bændum breytta búskaparhætti, venja þá af að níða enn frekar land sem er að ganga úr sér vegna veðurfarsbreytinga. Alþjóðastofnanir hafa lengi vitað hvað er að á hörmungasvæðunum í Afríku og að mikið mætti gera til að afstýra þar hallæri í stað þess að verja öllum kröftum til að fást við afleiðingar þess, hungursneyð og drep- sóttir sem henni fylgja. En lítið fæst að gert. Flestum þessara landa ráða herforingja- stjórnir, sem einatt leitast við að tryggja völd sín með vopnum og fé erlendis frá, en láta sig litlu skipta hag landsfólksins. 6 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.