Helgarpósturinn - 01.08.1985, Blaðsíða 4

Helgarpósturinn - 01.08.1985, Blaðsíða 4
SJÓNARSPIL Á SJÓNVARPINU? Hinrik fékk að velja sér stöðu. Ingi- björg ætlar að bóka mótmæli í móli Elínborgar. Er þegar búið að ókveða að Ingvi Hrafn verði fréttastjóri? ■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■■ eftir Egil Helgason myndir Jim Smart og fleiri ■■■■■■■■■i Það er aldrei logn á Rlkisútvarpinu, svo mikið er víst. Ef það eru ekki lands- menn sem láta rigna óvægnum skömmum yfir heimilisvinina út- varp og sjónvarp, er jafnvíst að þar eru einhverjar nræring- ar innan dyra; mannaráðningar, mannskaðar eða önnur stórpólitísk mál. Þetta hefur ekki breyst I tíð hins nýja útvarpsstjóra, nema síður sé. Markús Örn Antons- son vinnur nú ósleitilega að því að treysta tök sín á Ríkisútvarpinu, vafalítið minnugur þess að snemma á næsta ári verður áratuga einokun þess úr sögunni. Sumum þykir valda- tafl útvarpsstjóra I hæsta máta eðlilegt — starfshætti stofn- unarinnar verði að laga að nýjum tím- um og harðnandi samkeppni. Aðrir eru þess fullvissir að þetta sé ekki annað en pólitískt brölt íhaldsmanna og verður um og ó þeg- ar þeir sjá fórnar- lömbin, oft hina hæfustu starfsmenn, hlaðast upp við veg- arkantinn. I vor stóð styrinn um Ævar Kjartansson, varadagskrárstjóra hjá útvarpinu og formann starfs- mannafélags þess. Nú eru það miklar skipulagsbreytingar í yfir- mannahaldi hjá sjónvarpinu, sem kunngerðar voru fyrir skömmu. Útvarpsstjóri hefur ákveðið að leggja niður báðar dagskrárdeildir sjónvarpsins, nefnilega frétta- og fræðsludeild og lista- og skemmti- deild. I stað þeirra verða stofnaðar þrjár nýjar deildir; fréttadeild, deild innlendrar dagskrárgerðar og innkaupa- og markaðsdeild. Það er reyndar harla ólíklegt að upp komi gagnrýni á þessar breyt- ingar sem slíkar; til dæmis þykir sjónvarpsmönnum alveg sjálfsagt að fréttastofan sé sjálfstæð eining Markús örn Antonsson; pólitfskt brölt eða eðlileg hagræðing? Ingibjörg Hafstað; óeðlileg máls- meðferð. innan stofnunarinnar og sjái um fréttaútsendingar og gerð frétta- tengdra þátta. Verksvið deildanna tveggja sem nú eru lagðar niður var tvíþætt, hvort tveggja innkaup á erlendum þáttum og framleiðsla innlends efnis. Árangurinn hefur vissulega verið umdeildur, sér- staklega hvað lýtur að lista- og skemmtideild, og því geta senni- lega flestir tekið undir með út- varpsstjóra að þetta sé „nauð- synjamál með tilliti til breyttra skilyrða og aukins umfangs." Hinrik fékk að velja sér stöðu Samt gerast þessar skipulags- breytingar langt í frá hávaðalaust. Samtímis og fjölmiðlum var til- kynnt um breytingarnar var nefni- lega einnig skýrt frá því að Hinrik Bjarnason, sem verið hefur for- stjóri lista- og skemmtideildar, hefði verið ráðinn deildarstjóri hinnar nýju innkaupa- og mark- aðsdeildar. Staðan var sumsé ekki auglýst laus til umsóknar eins og venja er, heldur mun Hinriki hafa verið boðið að velja á milli stöðu yfirmanns deildar innlendrar dag- skrárgerðar og deildarstjórastöðu í innkaupa- og markaðsdeildinni. Hinrik þurfti víst ekki lengi að velkjast í vafa um hvora stöðuna hann ætti að velja — þeirri síðari fylgja ferðalög og setur á ráðstefn- um og kvikmyndahátíðum erlend- is, en þeirri fyrri líklega hark og þras um þá smápeninga sem sjón- varpið hefur úr að spila til inn- lendrar dagskrárgerðar. Elfnborg Stefánsdóttir; sagði upp samdægurs. Ingvi Hrafn Jónsson; er þegar búið að ráða (fréttastjórastöðuna? Því fór fjarri að allir yrðu jafn- kátir með þessa málsmeðferð. Sannleikurinn er nefnilega sá að Elínborg Stefánsdóttir dag- skrárfulltrúi hefur borið hitann og þungann af innkaupum á erlendu skemmtiefni síðustu tíu árin. Hún hefur próf frá háskóla, mikla og góða reynslu í þessu starfi og auk- inheldur persónuleg sambönd við söluaðila og sjónvarpsstöðvar er- lendis. Það hefði sumsé verið erfitt íyrir útvarpsstjóra að ganga fram- hjá Elínborgu ef staðan hefði verið auglýst til umsóknar og hún sótt um. En Hinrik er maður hægri afl- anna og var á sínum tíma komið í sína gömlu stöðu við harðan leik. Til þess að slíkt endurtæki sig ekki var honum sumsé boðið að velja sér stöðu eftir hentugleikum, eins og áður var greint frá. Þarna taldi Elínborg Stefánsdóttir að hefði verið ómaklega framhjá sér geng- ið; hún sagði upp störfum sam- dægurs og er ekki væntanleg aft- ur, því hún mun eiga inni sumarfrí sem nemur þriggja mánaða upp- sagnarfresti. Dagskrárfulltrúa- staða Elínborgar hefur nú verið auglýst laus til umsóknar. Annað sem stingur í augu er að allar þessar breytingar eiga sér stað meðan útvarpsráð er í sumar- fríi. Það kemur svo saman aftur níunda ágúst og vafalaust hafa þá ýmsir eitthvað við skipulagsbreyt- ingar Markúsar Arnar að athuga. Ingibjörg Hafstað, fulltrúi Kvennalistans, sagði í samtali við Helgarpóstinn að þarna væri um að ræða þrjár nýjar stöður hjá Hinrik Bjarnason; valdi innkaupa- stjórastöðuna. Guöjón Einarsson; fréttamenn eru honum hliðhollir. sjónvarpinu sem allar hefði lögum samkvæmt átt að auglýsa. Ingi- björg segist ætla að láta bóka mót- mæli við þessari málsmeðferð á útvarpsráðsfundinum. Ingvi Hrafn — kandídat Markúsar? Hinar stöðurnar tvær, yfir- mannsstöður á fréttadeild og deild innlendrar dagskrárgerðar, hafa hins vegar verið auglýstar til um- sóknar og rennur fresturinn út sjötta ágúst. Sá orðrómur hefur gerst æði þrálátur upp á síðkastið að löngu sé búið að ákveða hver hljóti hnossið á fréttadeildinni þegar Emil Björnsson lætur þar loks af störfum í haust. Það er gamalkunnugt en jafnframt um- deilt andlit úr röðum sjónvarps- manna sem er nefnt til sögunnar sem tilvonandi ritstjóri sjónvarps- frétta — enginn annar en Ingi Hrafn Jónsson, fyrrum þing- fréttamaður og nú lausráðinn dag- skrárgerðarmaður við stofnunina. Ingvi Hrafn er gamall blaðamaður af Mogganum, sjálfstæðismaður og ekki síst góðkunningi Markús- ar Arnar. Ráðning hans myndi því aldeilis treysta tök útvarpsstjóra og hægri manna á fréttastofunni. Það er náttúrlega of snemmt að fullyrða að það sé hreint sjónarspil hjá útvarpsstjóra að auglýsa frétta- stjórastöðuna. Á fréttastofunni eru margir hæfir menn sem vel koma til álita; Guðjón Einarsson frétta- maður er í leyfi fram að áramót- um, en hann gegndi stöðu vara- fréttastjóra í áraraðir. Fréttamenn sjónvarps munu vera þess fýsandi að Guðjón sæki um, en hann kvað vera á báðum áttum. En vissulega yrði erfitt að ganga framhjá manni með jafnmikla reynslu og hann hefur. Fleiri eru nefndir til; Helgi H. Helgason, sem upp á síðkastið hefur hlaupið í skarðið fyrir Emil Björnsson; Sigrún Stefánsdóttir sem reyndar mun ætla að halda utan í haust; og þá má ekki gleyma öðrum ágætum fréttamönnum — Ögmundi Jónassyni, Páli Magnússyni, Einari Sigurðs- syni og svo framvegis. Sækja allir fréttamenn um? Þegar Helgarpósturinn spurðist fregna á fréttastofu sjónvarpsins var þeim sögusögnum hvorki neit- að né játað að nær allir frétta- menn stofnunarinnar ætluðu að sækja um téða stöðu, hvort sem þeir ágirntust hana eður ei. Og hvers vegna skyldu þeir ætla að þvælast þannig hver fyrir öðrum? Jú, það væri þá í mótmælaskyni við fyrirhugaða ráðningu Ingva Hrafns, sem sagður er njóta lítillar hylli á fréttastofunni. Þar á bæ voru menn þó ekki almennt búnir að gera upp hug sinn, enda margir fjarverandi vegna sumarleyfa. Útvarpsráð þarf auðvitað að gefa umsögn um mannaráðningar hjá Ríkisútvarpinu, þótt það hafi gerst að útvarpsstjóri gengi í ber- högg við álit þess. Vinstri helming- ur þess mun án efa beita sér gegn Ingva Hrafni, komi nafn hans upp úr einu umslaginu, og þá ráðast málalyktir af því hvort fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar verða á eitt sáttir. Engin slagsmál um „Ijónagryfjuna" Á útvarpsráðsfundi verður líka fjallað um þriðju toppstöðuna á sjónvarpinu — stöðu yfirmanns í deild innlendrar dagskrárgerðar. Það er spurning hvort mönnum þyki hún jafngirnileg og hinar tvær á tíma þegar fjársvelt ríkis- sjónvarp þarf að standa í kapp- hlaupi við einkaaðila um hylli landsmanna. Ég er hræddur um að þessi staða verði hálfgerð ljóna- gryfja, sagði einn viðmælenda Helgarpóstsins á sjónvarpinu. Enn sem komið er eru líka fáir orðaðir við þessa stöðu — helst Tage Ammendrup, einn elsti og al- reyndasti starfsmaður sjónvarps- ins. Það ríkir sumsé óvissa á sjón- varpinu, nú þegar styttist óðum í að samkeppnin umtalaða bresti á. Hjá sjónvarpinu viðurkenna menn að stofnunin sé rekin á algjöru lág- marki þessa dagana — eins og sjónvarpsnotendur hafa sjálfsagt tekið eftir. Eins og kemur fram hér að ofan er óvíst hvernig tekst til með ráðningar yfirmanna, og svo má ekki heldur gleyma því að óvíst er að nokkur lausn fáist á málum tæknimanna sem nú reyt- ast hægt og bítandi af sjónvarpinu. 4 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.