Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1930, Blaðsíða 92
Þrjú bréf
frá Sigurði Guðmundssyni málara til Jóns Sigurðssonar forseta1).
1.
Reykjavík 9. Október 1863.
Háttvirti, góði vin!
Eg þakka yður kærlega fyrir bréfið og Lögbergsgaunguna. Tregt
gengur mér að safna saman upplýsíngum um Þíngvöll, en þó hefi
eg fengið talsvert síðan seinast, sem mér þykir þó mikilsvert, þó það
sé ekki beinlínis um það forna þíng, þá má margt byggja á því, og
eins ver það misskilníng. Hér er um að gjöra að fá sem flest vitni
að öllum sögnum, til þess að komast hjá Iygasögnum, enda er þá
síður orsök til að rengja sagnirnar. Eg sé, að ekki eru tiltök að
gjöra nokkuð verulegt í þessu máli fyr en menn hafa safnað öllum
þeim sögnum og sönnunum, er menn vita að hægt er að fá með
góðu móti. Því verð eg enn sem komið er að rengja sagnirnar og
veit eg ekki, hver segir réttast, því sumstaðar eru 2 á móti 2 eða 1 á
móti 2, eða bræðrum ber ekki saman, en þó er það fátt sérlega
áríðandi, sem mestur ágreiníngur er um. Eg hefi orðið svo hepp-
inn að ná í eitt gamalt kort af Þíngvelli; samt er það eins og það
er nú frá 18. öld (líklega snemma). Þetta kort er ekki vel yfirgrips-
mikið, en samt sannar það ljóslega margar minar ályktanir, og skýrir
fullvel margt, sem áður var óljóst, en hrindir gjörsamlega mörgum
sögnum, sem mér hafa verið sagðar. Þar á sést lag Þíngvalla-staðar
og kirkjunnar, sem er krosskirkja, gjör af timbri, þar er sýnd lögréttan
með klukkunni, og þarna sést lag á þrenns konar tjöldum og eins
hlaðnar búðir, etc. Eg hefi og orðið var við, að annað kort hefir
verið til, en það er til allrar óhamingju líklega glatað, eða að minsta
kosti finst það hvergi, og áttu það þó reglumenn. Skyldi nokkuð
vera að græða á Alþíngisbókunum viðvíkjandi Þíngvelli, nema það
1) Sbr. Bréfaviðskifti Jóns Sigurðssonar forseta og Sigurðar Guðmunds-
sonar málara 1861—1874 í Árb. Fornleifafél. 1929, bls. 34, o. s. frv.