Akranes - 01.09.1945, Blaðsíða 12

Akranes - 01.09.1945, Blaðsíða 12
108 AKRANES Saga Eyrarbakka og höfundur hennar Ef ég ætti að telja þá menn, er ég met mest, þá er það víst, að þar yrði Vigfús Guðmundsson framarlega í flokki. Eg mun hafa verið rétt um fermingu, er ég las eftir hann langan greinaflokk í blaði einu, er faðir minn hélt, og þótti mér mik- ið til koma, hve þar var skýrt hugsað og skipulega fram sett. En því get ég þessa, að þá sá ég fyrst nafn Vigfúsar, og svo vöktu þessar greinar mikla athygli, að þeirra var getið bæði í bundnu máli og óbundnu. Síðan þann tíma mun ég hafa lát- ið fátt það ólesið, er fyrir augun bar og nafn þessa manns var við tengt. Það var líka ávallt þess vert að lesa það, og oft hef ég hlotið að dást að því. Heilindi og einurð, sannleiksást og rökfesta, hófsemi og ósérplægni eru þeir eiginleikar, sem verk Vigfúsar hafa jafnan borið vott um. Þau hafa, eins og verkin jafnan gera, lýst manninum sjálfum. Því svona er hon- um háttað, þessum yfirlætislausa, vitra og óvenjulega trausta heiðursmanni. Það var sannarlega ekki út í bláinn að á sjö- tíu-og-fimm ára afmæli hans sendi honum einn af kunningj- um hans þessa kveðju: Fróns um byggð ég fáa hef fundið þína líka. Betur mundi um ísland ef ætti það marga slíka. Það er efalaust, að V. G. er einn hinna merkustu og mætustu manna, sem nú eru uppi hér á landi. Hann er nú kominn hátt á áttræðisaldur og hefur skilað bæði miklu dagsverki og góðu. Og enn sést hvorugt þverra, eljan né starfsþrekið. Mörg eru þau mál, sem V. G. hefur léð ótrauðan stuðning sinn, en á eitt vildi ég minnast sérstaklega, sökum þess, hve vel mér finnst það lýsa manninum. Á ég hér við baráttu hans fyrir tilteknu vegarstæði austur yfir Hellisheiði. Tillögur hans í því máli eru byggðar á hálfrar aldar eigin athugunum — og V. G. er bæði athugull maður og minnugur — en hafa ekki fallið heim við það, sem reikningslærðir verkfræðingar og ennþá reikningsgleggri flokksmálamenn hafa viljað vera láta. En að frásögnum hans og niðurstöðum hafi verið hnekkt, er mér ekki kunnugt um. Þær hafa blátt áfram verið vettugi virtar og við þeim þagað. En þó að þetta hafi gengið þannig í fjöldamörg ár, jafnvel áratugi, er V. G. enn í dag óþreyt- andi að færa fram rökin fyrir sínu sjónarmiði. Ekki get ég um það dæmt af eigin þekkingu, hvorir þama hafa rétt fyrir sér, en svo er mér kunnug greind Vigfúsar og athygli, að með sjálfum mér efa ég ekki, að hann sé hér sannleikans megin og hljóti því að sigra að lokum, jafnt fyrir því, þótt vegurinn verði aldrei lagður á þeim leiðum, er hann hefur bent á. Sjálfur veit hann vitanlega fyrir löngu, að ekki verð- ur tekið tillit til þess, er hann hefur lagt til málsins. En hann er sér þess meðvitandi, að hann er að benda á hið rétta, og hann er svo heill, að þá skiptir hitt ekki máli. Liðsemd við sannleikann er æðsta boðorðið. „Fylg því rétta, flyt sem bein- ast fram þíns hjarta sannleiksmál.“ Það eru slíkir menn, sem eru prýði hverrar þjóðar. Og aldrei er það að efa, að þeir eru kvistir, sem vaxið hafa á traustum stofni. Enginn les vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum. Enda þótt V. G. hafi komizt í rithöfundatöluna og skipi þar sess sinn með sóma, þá hafa þó ekki ritstörfin verið ævistarf hans, nema þá í hjáverkum. Það er ekki fyrr en á allra síð- ustu tímum, að hann hefur getað helgað þeim meginið af tíma sínum. Þau hafa verið honum ígripastarf (án efa að langmestu ólaunað) eins og þau hafa nálega alla tíð verið hartnær öllum okkar beztu rithöfundum. Hið fyrsta, sem út kom af hinum stærri ritum hans, var Saga Oddastað- a r, er hann gaf út sjálfur 1931 — hefur líklega ekki átt kost á forleggjara. Sú bók er stórfróðleg, en efninu þjappað svo saman, að það lýtir stílinn og gerir bókina þurra til lesturs. Næst kom Ævi Hallgríms Péturssonar, oger engum um það kunnara en mér, að ekki vann hann í ábata- skyni, þegar hann ritaði hana. Síðan hafa komið eftir hann önnur rit, en miklu mest þeirra er Saga Eyrarbakka, sem nú er að byrja að koma út. Það hefti, sem komið er af þessu riti, er hátt á fjórða hundr- að blaðsíður í stóru áttblöðungsbroti, auk geysimargra myndablaða. Er það þó talið aðeins fyrra hefti fyrra bindis. Gæti því svo farið, að öll yrði bókin nær þúsund bls., og þannig langstærst þeirra staðasagna, sem enn hefur verið ráðizt í að gefa út. Er það óhemju-fróðleikur, sem hér er sam- an dreginn, enda hefst frásögnin á landnámsöld. Lýst er landslagi og getið örnefna, sagt frá landspjöllum og mann- virkjum, jarðir taldar, gæði þeirra og ábúendur, sagt frá verzlun og kaupmönnum, og vitanlega svo ótalmörgu öðru. Ættir manna eru raktar og margt sagt frá nafnkunnu fólki, sumu af því næsta sögulegum persónum, fyrr og síðar. Má ætla, að ýmsum þyki þær frásagnir ekki ófróðlegar, t. d. að fá nú sæmilega full skil á því, sem vitað er með sanni (og það er ekki svo lítið) um hina nafntoguðu Stokkseyrar-Dísu (Þórdísi Markúsdóttur) og hennar mál öll, enda eru þar mergjaðar frásagnir. Var og Þórdís „hvorki af smámennum komin né hafði lítilsmetna ættingja kringum sig.“ En rysjótt var ævi hennar. „Er augljóst, að sr. Jón Halldórsson fer með rétt mál um Þórdísi, að hún væri hartnær komin undir bann- færingu. Og jafn-augljóst er það, að allt umtal um fordæðu- skap hennar, galdur, uppvakning og aðra slíka illkvittni, er ekkert annað en ómerkilegt þjóðsagnarugl og marklausar getsakir. Það var einungis höfðingja-arfleifð, stórlyndi henn- ar, ráðríki, vanhirða og þvermóðska, ásamt kirkjurækni á lágu stigi, sem réð athöfnum hennar.“ Svo er að skilja sem rannsóknir þær, sem hér er sérstak- lega byggt á, séu einkum verk Þórðar Jónssonar frá Stokks- eyri. En hver sem gerði þær, eru þær lofsverðar, því þær munu leiða margan mann til réttara skilnings á sögu merkr- ar konu og mikilfenglegrar, sem hingað til hefur að mestu átt heima í þjóðsögunum. Sú mun verða almenn ósk þeirra, er þessa bók lesa, að hin- um aldraða fræðimanni megi enn um skeið endast starfsþrek til þess að sinna þeim mörgu verkum, sem hann hefur lagt undirstöðu að, en á að svo komnu ólokið við. í formála getur hann þess, að breytt hafi verið stafsetn- ingu á ritinu. Meinlaust mun mega kalla slíkt, en mikinn skort á smekkvísi þarf til þess að miðlungsmenn knésetji slíkan mann sem Vigfús Guðmundsson. Þetta var líka þarf- leysa. Og ekki get ég annað sagt, en að mér finnst það vera hálf-kindarlegar tilraunir, sem misjafnlega lærðir menn eru stundum að gera til þess að lauma inn hjá almenningi þeirri skoðun — algerlega staðlausri — að allar bækur íslenzkar þurfi að vera með sömu stafsetningu, og þá þeirri, sem stjórn- arvöldum þóknaðist á sínum tíma að fyrirskipa í barnaskól- um. Hún er vitaskuld engu betri en ýms önnur stafsetning — eða hvað ætli þeir Jón Þorkelsson og Guðbrandur Vigfús- son hefðu sagt um það mál? Þó mun enginn maður fyrr né síðar hafa þekkt lögmál íslenzkrar tungu betur út í yztu æs- ar en einmitt Jón Þorkelsson. Hvar ætli það þekkist líka að allir skrifandi menn leggi sig undir ok einnar og sömu staf- setningar? Ekki neinstaðar á Norðurlöndum, ekki heldur með enskumælandi þjóðum. Og geri sig enginn svo einfaldan að ætla, að þessi skólastafsetning og hennar afkáraskapur hald- ist um alla ævi. Hún fer óefað sömu leiðina og ýmsar systur hennar hafa farið, hvað sem þá tekur við. Sn. J.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.