Málfríður - 15.10.2014, Blaðsíða 22

Málfríður - 15.10.2014, Blaðsíða 22
Eflaust hafa margir tungumálakennarar heyrt um sum- arnámskeið Félags dönskukennara. Síðastliðið sumar var eitt slíkt haldið á Schæffergården í Gentofte eins og venjan er. Þau Sigurlaug Rúnarsdóttir og Reynir Þór Eggertsson, dönskukennarar úr Menntaskólanum í Kópavogi, voru skipuleggjendur námskeiðsins að þessu sinni. Morðgáta í kennslustofunni Mánudaginn 11. ágúst hófst formleg dagskrá. Fyrsti dagskrárliður var blanda af hópefli og nýjum sjónar- hornum í bókmenntakennslu. Allt í einu, og öllum að óvörum, var mættur inn á mitt gólf ungur danskur lög- reglumaður í fullum skrúða sem skipaði okkur í hópa. Nú skyldu íslenskir dönskukennarar aðstoða við lausn morðmáls. Hver hópur fékk afhenta tösku með öllum þeim gögnum sem rannsóknarlögreglufólk þarf á að halda. Fljótlega fór nú fólk að gruna að líklega væri lögreglumaðurinn ekki alveg ekta. Það gat varla verið að danska rannsóknarlögreglan væri svo illa skipuð að hún yrði að leita aðstoðar viðvaninga við lausn morð- mála. Enda pakkaði lögreglumaðurinn ungi fljótlega saman og við tók vinnustofa í hópum þar sem leitað var nýrra leiða til að láta nemendur vinna með glæpa- sögur, eins og t.d. að leysa morðgátur; sem sé problem based learning. Skapandi skrif Eftir hádegi var mættur rithöfundurinn Glenn Ringtved sem hefur skrifað fjölda barna- og unglingabóka. Sú bók hans sem hér var gerð að meginumfjöllunarefni samdi hann í samstarfi við Sanne Munk Jensen. Bókin heitir Dig og mig ved daggry, hlaut Barnabókaverðlaun Menningarmálaráðuneytis Danmerkur 2014 og var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Politiken sem og Lesendaverðlauna Berlingske þetta ár. Umfjöllunarefni bókarinnar er sjálfsmorð ungmenna og spunnust töluverðar umræður um hvort rétt væri að fjalla um svo viðkvæmt málefni í skólastofunni og þá með hvaða hætti. Glenn Ringtved sagði frá hinum ýmsu aðferðum við að skrifa bækur sem svo sannarlega vakti áhuga viðstaddra: Powerwriting, þ.e. að skrifa og skrifa án þess að gefa innihaldinu of mikinn gaum í takmarkaðan tíma og einnig að byrja á að skrifa upp- haf og endi og fylla síðan inn í, nú eða að skrifa bara út frá gefnu orði, titli eða persónu, allt saman aðferðir sem vel má aðlaga kennslustofunni í framhaldsskól- anum. Til stendur að gera mynd eftir Dig og mig ved daggry og skoða má auglýsingatrailer fyrir bókina á YouTube. Eftir að Glenn Ringtved hafði kvatt hélt hópurinn í hinar nýju höfuðstöðvar Danmarks Radio, DR-Byen, en þar var kynnisferð undir heitinu Bag kulissen i DR-byen. Rafmiðlar í kennslu Þriðjudagsmorguninn var helgaður rafbókum og notkun þeirra í kennslu en það voru Hildur Guðrún Hauksdóttir og Jóhanna Hinriksdóttir sem höfðu fram- sögu og greindu frá reynslu sinni í MK á sviði rafbóka. Mjög mikill verðmunur er á verði danskra rafbóka og hefðbundinna bóka, og eru því rafbækur góður kostur fyrir nemendur. Í framhaldinu spunnust umræður um bókmenntakennslu í dönsku á framhaldsskólastigi því margir skólar hafa hætt að láta nemendur lesa skáld- sögur og þess í stað eru m.a. lesnar smásögur. Ástæðan er sú að mjög margir nemendur ráða illa við heila skáld- sögu og láta sér því nægja að lesa útdrætti á netinu. 22 MÁLFRÍÐUR Auður Leifsdóttir, dönskukennari við Kvennaskólann í Reykjavík. Sumarnámskeið: Bókmenntakennsla og þróun tölvumiðla Í garði Konunglega bókasafnsins.

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.