Lögmannablaðið - 01.10.2003, Blaðsíða 23

Lögmannablaðið - 01.10.2003, Blaðsíða 23
23 Af Merði lögmanni Mikil sæla er það nú stundum að vera alls óskyldur ráðamönnum þjóðarinnar. Að ekki sé minnst á það að hafa ekki málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti. Hváru tveggja sýndist Merði að fylgdi fátt annað en armæða og leiðindi við að vera sífellt á milli tanna á hælbítum og öfundsýkingum. Alveg var Mörður að örmagnast á öllum kaffistofuumræðunum um skipan í ýmis embætti, sérstaklega þetta nýjasta hjá Arnarhólnum. Að ekki sé minnst á alla meinbægnina sem nú tröllríður þjóðfélaginu í garð framkvæmdamanna og þeirra öðlingsmanna sem skaffað hafa okkur bensínið. Merði virtist það nánast vera þannig að ekki nokkur maður mætti rísa upp úr meðalmennskunni og öngla saman nokkrum aurum án þess að alls kyns stofnanir og rannsóknarembætti væru komnar með nef sitt ofan í þeirra kopp. Löggan að skoða skútur, skatturinn að frílista sig á Jómfrúreyjum og Samkeppnisstofnun að lesa um príseringuna á bensíni og dragandi glannalegar ályktanir af prakkaralegu spjalli olíugreifanna. Nei, Mörður leyfði sér að efast um að þjóðin væri sælli með tilvistina þegar svo væri komið að enginn þyrði að skara fram úr og allt verður orðið kollhúfu- legt miðjumoð. Um hvað á þá að tala? Þetta regluverk allt saman er alveg að drekkja gleði manna og ánægju af því að raka saman fé, safna í handraðann, auðgast. Þessir sem ná að öngla einhverju saman hlaupa nú orðið með það í felur í útlöndum. Af er það sem áður var þegar fullt af köllum í ungdæmi Marðar báru viðurnefnið „ríki“; Alli ríki, Einar ríki og Einar flugríki (til aðgreiningar frá hinum Einarinum) og svo þorðu menn að byggja grand! Thor Jensen og Einar í Hnitbjörgum svona til dæmis. Þá þorðu menn og dugðu. Ekki það að Mörður eigi svo mikið undir sér eða búi svo flott. Kemst svosem bærilega af með þokkalega innheimtu, stöku refsimál og forsjármál og þegar saltið fer að minnka í grautnum má alltaf kvabba um nokkur eignalaus þrotabú niðri í héraðsdómi. Íbúðin í Hlíðunum með rósótta teppinu og betrekkinu dugar líka fínt. Það er kannski engin ástæða til að hafa of miklar áhyggjur af velgengni annarra eða vanda þeirra. Þeir hafa örugglega dýrari lögmenn og fínni í tauinu heldur en Mörð til að liðsinna sér gegn ásókn allra þessara rannsakara og meiðyrðinga. Svo geta þeir líka alltaf þegar allt um þrýtur stokkið í skjól pólitíkusanna, vina sinna, flokksfélaganna eða vandamanna sinna. Má ég þá frekari biðja um víxilinnheimtuna, þægilegt sautjándakaflamál – sælir eru ættlausir og auðlausir hugsaði Mörður og leit glottandi til himins. L Ö G M A N N A B L A Ð I Ð

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.