Tíminn - 04.03.1944, Blaðsíða 2

Tíminn - 04.03.1944, Blaðsíða 2
98 TÍMllVIV, laugardaginn 4. marz 1944 25. blað ^ímtnn Luufiardaguv 4. marz Skiptíng stórjarða Þau dæmi eru mörg, aö ungir menn hafi orðið að hrekjast úr sveitunum vegna þess, að þeir hafa hvergi fengið jarðnæði til að hefja búrekstur. Þegar þeir hafa fest ráð sitt, hefir þess ekki verið neinn kostur að stofna heimili í sveitinni og þá hefir ekki verið annað að gera en hrekjast til kaupstaðanna. í hverri einustu sveit landsins mun mega finna þessi dæmi og þau nokkuð mörg víðast. Svipuð dæmi er enn víða að finna í sveitum landsins. Þar eru ungir menn, margir nýgiftir, sem vilja vera í sveitinni, en vantar jarðnæði til þess að hefja eigin búrekstur. Margt af þessum mönnum hefir eignast nokkurt fé seinustu árin og vill gjarnan verja því til að koma fótum undir heimili í sveitinni. Þessu fólki þarf að hjálpa. Það þarf að skapa því aðstöðu til að mynda nýbýli, þar sem skilyrðin eru bezt á hverjum stað. Annars neyðist þetta fólk til að fara úr sveitinni eða verð- ur að mynda nýbýli, þar sem skilyrðin eru ónóg og óhæg, eins og stundum hefir átt sér stað undanfarið. Þetta er undirrót þeirrar kröfu, að þegar sé hafizt handa um skiptingu opinberra stór- jarða, sem eru meira og minna vanyrktar, og ungu fólki þannig gefinn kostur á að festa ráð sitt í sveitinni. Hér í blaðinu var nýlega skýrt frá áliti Steingríms Steinþórs- sonar og Pálma Einarssonar, þar sem nefndar voru nokkrar slíkar jarðir. Margar fleiri jarð- ir, sem svipað væri ástatt um, má þó vafalaust nefna. Þessar jarðir eru vanyrktar nú og þáð bendir flest til þess, að þannig verði í framtíðinni, ef sama tilhögun verður um notkun þeirra og hingað til. Þær eru flestar ætlaðar embættis- mönnum, er oftast dvelja skamma stund á hverjum stað, festa því ekki yndi við búrekst- urinn og hafa heldur ekki að- stöðu til þess, ef þeir rækja vel embættisköllun sína. Margir koma líka félitlir frá námi og geta ekki ráðist í dýrar fram- kvæmdir, fólkshald er erfitt o. s. frv. Til eru vitanlega fáein- ar undantekningar, þar sem þessi tilhögun hefir gefizt vel, en reynslan sýnir, að þær verða aldrei hin almenna regla. Embættismannslausu héruðin, sem hafa upp á stórar embætt- isjarðir að bjóða, sýna það bezt, að embættismenn eru hættir að telja það hlunnindi að fá stór- ar bújarðir til umráða. Það er meira að segja líklegt, að hugs- unin um erfiðan búrekstur fæli þá í burtu og sveitunum sé þannig minnstur greiði gerður með þessari tilhögun. í stað stóru embættisjarðanna eiga að koma embættisbústaðir með nokkurri grasnyt. Það fyrir- komulag hentar áreiðanlega miklu betur þeim breytingum, sem orðnar eru á viðhorfi og að- stöðu embættismannanna en embættisjarða fyrirkomulagið. Afturhaldssemi, sem byggist á röngum forsendum, má ekki verða því til fyrirstöðu, að haf- izt sé handa um skiptingu stór- jarða, sem eru vansetnar, og ungu fólki þannig forðað frá að fara nauðugt úr sveitunum. Jafnhliða því, að unnið er að skiptingu slíkra jarða, þarf að vinna að því, að ríkið eignist fleiri stórjarðir, þar sem slík skipting getur komið til greina. Það verður ekki minnst svo á þetta mál, að ekki sé vakin athygli á þeirri varhugaverðu þróun, að ýmsir stórbraskarar í kaupstöðunum hafa undanfarið keypt ýmsar helztu góðjarðir landsins og virðast ætla að nota þær til sumarskemmtunar fyrir sig og sitt fó}k, líkt og aðals- fólk gerir annars staðar. Þessu þarf að gefa vakandi augu og setja ráðstafanir, sem hindra braskaralýðinn í því að vanyrkja beztu jarðirnar og draga úr heil- brigðum og sjálfstæðum bænda- búskap. Þ. Þ. J ó n Magnússon, fil, kand.s Nordahl Grieg — vdet er de beste som dor« í nóvembermánuði síðastliðn- um hófust geigvænlegar árásir á höfuðborg Þýzkalands, og upp frá því áttu Berlínarbúar um langt skeið fárra nótta næði. Brezki loftherinn réðst á borg- ina og með honum flugsveitir ýmissa þjóða, sem lúta valdi Þjóðverja, en hafa her erlendis, og meðal þeirra voru allmargir norskir flugmenn. Norski rit- höfundurinn Nordahl Grieg fór í árásarferðina,'sem gerð var að kvöldi 2. desember. Hann var í norskri flugvél og fór sem fréttamaður, að fengnu leyfi yfirmanns norska flughersins. Grieg mun hafa haft í hyggju að semja bók um lofthernaðinn, hafði sjálfur haft náin kynni af sprengjuárásum Þjóðverja á norska bæi og síðar á London og vildi nú sjá með eigin aug- um, hvernig flugmennirnir, sem árásirnar gera, bregðast við. Þessa nótt týndust 40 flugvélar bandamanna yfir Berlín, og ein þeirra var norska flugvélin, sem flutti Grieg. Lengi vel vissu menn ekki, hvort hann væri lífs eða liðinn, en í febrúarbyrjun var það til- kynnt í London, að áreiðanlegar fregnir hefðu borizt um lát hans. Norðmenn höfðu misst vinsælasta skáld sitt. II. Nordahl Grieg var fæddur í Bergen árið 1902, sonur skóla- stjóra þar í bænum, frænda tónskáldsins Edvards Grieg. Hann varð stúdent árið 1920, gerðist þá farmaður og fór með skipi suður fyrir Afríku og alla leið til Ástralíu. Ferð þessi varð honum efni í ljóðabókina „Rundt Kap det gode háb“ og skáldsöguna „Skibet gár vid- ere“, sem kom út nokkru síðaj\ Bækur þesar hlutu góða dóma og ágætar viðtökur almennings. Nordahl Grieg dvaldist síðan eitt ár við háskólann í Oxford, var um skeið fréttaritari og skrifaði leikritið „En ung manns kjærlighet" á ferð til Grikk- lands. Hann lauk málfræði- prófi við háskólann í Oslo 1925, vann síðan fyrir blaðið „Tidens Tegn“ í Oslo, gerðist fréttamað- ur þess erlendis og fór þá til Kína 1926—1927 meðan borg- arastyrjöldin geisaði þar. í Kína varð hann sjónarvottur að gíf- urlegum átökum og ósigri þess málstaðar, sem átti samúð hans, og þá varð til leikritið „Barra- bas“, hinn sigrandi Barraba's, en það var sýnt í Oslo 1927. Tveimur árum síðar kom út ljóðabókin „Norge i váre hjer- ter“, Ijóð um norska náttúru- fegurð og norskt þjóðlíf, sem al- menningur tók tveimur hönd- um. Árið 1932 fór Nordahl Grieg aftur til Oxford, sökkti sér nið- ur í enskan skáldskap og ritaði greinar um ýmis ensk skáld, m. a. Keats, Shelley, Byron og Rupert Brooke. Greinar þessar- ar komu út í bók, sem nefnist „De unge döde“. Árið eftir fór hann til Moskvu og dvaldist tvö ár í Ráðstjórnarríkjunum. Árið, sem hann kom heim þaðan, var leikrit hans „Vár ære og vár magt“ sýnt í Bergen og vakti í senn óhemju bræði og hrifningu. Þar er ráðizt allharkalega á norska skipaeigendur og aðra stríðsgróðamenn í fyrri heims- styrjöldinni, en leikurinn gerist þá og er í rauninni og fyrst og fremst beint gegn stríði og öll- um þeim skelfingum, sem því eru samfara. En Bergen er mik- ill útgerðarbær og tók upp þykkjuna fyrir skipaeigendur. Leikrit þetta var síðan sýnt víða á Norðurlöndum og vakti alls staðar mikla athygli. í því gætir NORDAHL GRIEG áhrifa frá rússneskri leiksviðs- tækni, en hana hafði Grieg kynnt sér austur í Moskvu. Nokkru síðar kom leikritið „Men imorgen —“ og loks | „Nederlaget", síðasta og ef til vill bezt gerða leikrit hans, er fór sigurför um Norðurlönd. Efni þess er sótt í sögu Parísar- kommúnunnar svo kölluðu 1871. Þegar styrjöldin skall á, var Grieg að semja leikrit um norska þjóðskáldið Wergeland, en hann var arftaki hans í ættjarðar- og | hvatningarljóðum, og í skáld- skap Wergelands sótti hann nafnið á síðustu skáldsögu sinni |„Ung má verden endnu være“. Sú bók er ekki góð skáldsaga, ■ blaðamaðurinn og gagnrýnand- inn ber skáldið einatt ofurliði, en hún er hvöss ádeila á þau þjóðfélagsöfl, sem traðka á mannréttindum og nærast á styrjöldum. Þar er greint frá vélabrögðum vopnasmiða og ' stóriðjuhölda í fyrri heimsstyrj- 1 öldinni, ágengni fasismans, | hildarleiknum á Spáni og frið- unarstefnu lýðræðisríkjanna í Evrópu, öllum þessum skollaleik árásarstefnu annars vegar og uppgjöf hins vegar, sem náði hámarki í Múnchen 1938. Eins og aðrir glöggskyggnir menn á þessum árum hafði Nordahl Grieg þegar snemma séð hvert stefndi og ekki dregið af sér í baráttunni gegn styrjöld og þeirri þjóðfélagsskipun, sem veldur fasisma og stríði. Hann stofnaði róttækt tímarit „Veien frem“ árið 1936 og hélt þvi jafn- an fram þar, að hver sjáandi maður yrði að neyta allra hæfi- leika sinna og orku til þess að sporna við þeim eyðingaöflum, sem geisuðu í heiminum. III. ’ Þegar Þjóðverjar réðust inn í Noreg, var Nordahl Grieg stadd- ur í Oslo. Hann brá skjótt við og gaf sig fram til herþjónustu, og var þá ásamt öðrum falið það hlutverk að koma gullforða Noregs úr greipum fjandmann- anna og á öruggan stað. Þetta tókst eins og kunnugt er. Nokkr- um vikum eftir innrásina orti Grieg kvæðið „17. maí,“ hið fyrsta af styrjaldarkvæðum hans, sem gerðu hann ástsælan með þjóð sinni og lifa munu um aldur og ævi með Norðmönnum. Hann kom tíl Englands áður en vörn var þrotin í Noregi og ætlaði þangað aftur til þess að taka þátt í baráttunni, en þá bárust fregnir um, að banda- menn hefðu flutt lið sitt frá Noregi. Það átti ekki fyrir hon- um að liggja, að stíga aftur fæti á fósturjörð sína. Nordahl Grieg varð síðan höf- uðsmaður í norska hernum í Skotlandi, stríðsfréttaritari bæði með flugsveitum Norðmanna og flota og flutti fjölda erinda og kvæða í norska útvarpið frá London. Um allan Noreg var hlýtt á kvæði hans, og þegar Þjóðverjar hirtu útvarpstæki landsmanna, var þeim dreift í leyniblöðunum. Hann var rödd norsku þjóðarinnar, túlkaði hat- ur hennar og fyrirlitningu á fjandmönnunum, en framar öllu öðru ættjarðarást hennar og bjargfasta trú á frelsi, réttlæti og bræðralag. í kvæðinu „17. maí“, sem Magnús Ásgeirsson hefir þýtt, kemst hann svo að orði: „Sú fullvissa er fædd í oss öllum, að frelsið sé líf hvers manns, jafn einfalt og eðlisbundið sem andardráttur hans.“ Þetta er grunntónninn í skáld- skap hans og það, „að virða hvert líf, sem grær“. IV. Nordahl Grieg lét sig snemma varða félagsmál. Hann kynntist .ungur kjörum norskra sjó- :manna og lét sér annt um þá, |en eftir því sem sjóndeildar- hringur hans víkkaði með auknum þroska og kynnum af mörgum og ólíkum þjóðum, urðu áhugamál hans æ fleiri og runnu að lokum í einn farveg í baráttunni fyrir friði og mann- réttindum gegn öflum niður- rifs og mannfyrirlitningar. í Kína varð hann sjónarvottur að heimssögulegum átökum, þar sem Barrabas sigraði, en við dvölina þar varð heimalandið honum hjartfólgnara en áður. Síðan laust hvert reiðarslagið af öðru þann málstað, sem honum var hjartans mál. Með hverju árinu, sem leið, færðist hámark vitfirringarinnar nær, og við honum blasti ósigur þess, sem hann trúði á, og þar með ósigur hans sjálfs. En skaphöfn Griegs var ekki þannig farið, að hann sætti sig við uppgjöf eða leit- aði fróunar í algeru kæruleysi, eins og marga henti á þessum tímum. Hann var alltaf baráttu- maðurinn, misjafnlega þokkað- ur heima fyrir, hataður af sum- um, en dáður af fleiri. Novdahl Grieg Þegar friðland þitt í báli stóð, þögguð voru frjálsra manna Ijóð, þú og frelsið áttuð eina leið. Ættjörð þín í tröllahöndum beið. Vesiur liaf þig nökkvi nokkur bar. Noregs gull í farmi þínum var. „Nú skal höggva,“ var þitt yrkisorð. „Alt for Norge,“ söng við konungsborð. Herhvöt þín var orð hins œðsta manns, enginn munur farandsskálds og hans. Um þau höf, sem norskar siglur ná, Noregs rödd á tungu þinni lá. Þessi rödd var heyrð á hverri gnoð. Hún var nýrrar sóknar örvarboð. Hún var eggjan hvers, er uppi stóð, hinzta kveðjan þeim, er lét sitt blóð, Noregs mál og nafn, — og meira þó, Noregs hjarta í brjósti þínu sló. Eins og sómdi frjálsum, frœknum dreng fórstu vel með Noregs hjartastreng. Á þeim fána, er yfir honum skín, ekki er nokkur blettur vegna þín. Heimur sá, er syrgir þig í dag, sér og skilur Noregs hjartalag. Hvar sem liggur leið hins norska manns, lifa kvœði þín á vörum hans. Hvar sem frelsið lög og landsrétt á, Ijóðin þín að hjartarótum ná. Ljóð um fórnir, ást og eld og blóð eru þín og Noregs hetjuljóð. Guðmundur Ingi Kristjánsson. i------------------- -----------------._____________________ ) Fyrir stríðið var hann einn í hópi margra gáfaðra og efni- legra ungra rithöfunda heima í Noregi, en á styrjaldarárun- um tók hann sæti á bekk með öndvegisskáldum Norðmanna. Prófessor Winsnes segir, að hann hafi orðið hjartfólgnari Norð- mönnum en flest önnur skáld þeirra, og menn væntu sér mik- ils af honum, er landið yrði aft- ur frjálst. Hann var viss um lokasigurinn en hafði áhyggjur af því, að hin mörgu ár áþjánar, kúgunar og baráttu hefðu spillt hugarfari landa sinna, dregið það, sem bezt var, niður i sorp- ið, og því segir hann í einu kvteða sinna: „En þegar því helvaldi er hrundið, sem hélt ekki, og fær ekki, grið, vér biðjum þig, ættmold og ástjörð um afl til að þola — frið.“ Viðreisnin var honum hjart- ans mál, ekki aðeins endurbygg- ing hruninna borga og bæja, heldur hreinsun hugarfarsins af hefnigirni og afplánun þeirr- ar sektarvitundaY, sem manns- morðum fylgir, þótt drýgð séu i sjálfsvörn og hjá þeim verði ekki komizt. Það varð að skapa frjálsum hugsunum og fögrum listum svigrúm, en fórna hik- laust því, sem fórna varð, til þess að framtíðin væri tryggð. Eftir sprengjunótt í London yrkir hann: Listina á ekki að leyna með lægingu í fangaham. Hvað stoðar það frelsi í fjötrum, að forðað sé Notre-Dame? Listin á líka kröfu á logandi, blæðandi sárum. Og Lundúna minjaleysi mun ljóma yfir komandi árum.“ En verkefnið eftir stríðið er að græða sárin og hlúa að ný- græðingnum, nýju kynslóðinni, sem tekur við. Nokkrum dögum eftir að Nordahl Grieg kom hingað til lands sumarið 1942 hafði hann orð á því, að sér sýndist íslenzk börn svo ein- staklega blíð og góð hvert við annað, og þetta hefir orðið hon- um svo minnisstætt, að ári síð- ar víkur hann að því sama í kvæði til íslenzks vinar á Þing- völlum, en það er eitt af síðustu kvæðum hans. Honum var svo ríkt í huga allt „líf, sem.grær". Alúðin og umhyggjan um ný- græðinginn var þáttur í eðli þessa þrekmikla og hjartahlýja manns, sem aldrei lét bugast og dugði bezt, þegar mest á reyndi. „Flóra Islands“ Þriðja útgáia í undír- búoingí Á þessu ári eru liðin 20 ár síðan 2. útgáfa af „Flóru ís- lands“ eftir Stefán Stefánsson kom út. Er hún nú uppseld að mestu. Nú hafa erfingjar Stefáns Stefánssonar, skólameistara. sýnt „Hinu íslenzka náttúru- fræðifélagi“ þá rausn, að gefa því útgáfurétt að „Flóru“. Stjórn félagsins hefir því hafið undir- búning þess, að ný útgáfa ,;Flóru“ geti komið út sem fyrst. Hefir stjórnin þegar valið þrjá menn í nefnd, til að annast út- gáfuna, þá Steindór Steindórs- son, menntaskólakennara á Ak- ureyri, Ingólf Davíðsson, magist- er í Reykjavík, og Ingimar Ósk- arsson, grasafræðing á Dalvík. Hin nýja útgáfa á að sjálfsögðu að gefa fullt yfirlit um þá þekk- ingu, sem fengin er á gróðri landsins, eins og hinar fyrri út- gáfur gerðu, hvor á sínum tíma. Nú er það vitanlegt, að ýmsir menn víða um land, þótt ekki séu lærðir grasafræðingar, hafa safnað plöntum og gert gróður- athuganir, jafnvel árum saman. Er þannig í þeirra fórum meiri og minni fróðleikur, sem að góðu gagni getur komið við nýja út- gáfu „Flóru.“ Eru það vinsam- leg tilmæli útgáfunefndarinnar til allra þessara manna, að þeir komi sér í samband við hana og láti henni í té þánn fróðleik, er þeir hafa í höndum, svo sem flórulista, athuganir um vaxtar- staði, blómgunar- og fræþrosk- unartíma plantna og yfirleitt allt, sem aukið getur við efni „Flórunnar." Einnig eru þeir beðnir að senda vandgreindar og sjaldséðar tegundir til athug- unar og staðfestingar fundum sínum. Verða allar slíkar plönt- ur að sjálfsögðu endursendar. Ef einhverjir nýir menn vilja leggja hönd á plóginn í þessu efni, eru þeir ekki síður beðnir að láta af sér vita. Það er ekki að efa, að mörg- um er það áhugamál, að ný út- gáfa af „Flóru íslands" verði sem fullkomnust og samboðin minningu höfundar hennar, og væntir útgáfunefndin stuðnings allra flóru-unnenda hvarvetna af landinu. Biður hún því alla þá, sem eitthvað vilja og geta af mörkum látið, að láta for- mann útgáfunefndarinnar vita, því fyrr því betra. Utanáskrift hans er: Steindór Steindórsson, menntaskólakennari, Munka- þverárstræti 40, Akureyri.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.