Morgunblaðið - 28.01.1976, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 28. JANUAR 1976
11
Dr. Oddur Guðjónsson
sendiherra—sjötugur
Þegar ég í huganum blaða í
myndabók minninganna, verður
mér oft staðnæmzt við mynd dr.
Odds Guðjónssonar, svo skörpum
dráttum er hún dregin og eftir-
minnileg. Því er það, að ég leyfi
mér að stinga niður penna nú, er
hann verður sjötugur, og rekja í
stuttu máli brot af lifshlaupi
hans, enda þótt mér sé manna
ljósast af fjögurra áratuga kynn-
um og vináttu, að hann muni
kunna mér litlar þakkir fyrir, svo
hlédrægur sem hann er að lundar-
fari.
Ætt og uppruna dr. Odds yrði of
langt mál að rekja. Sjálfur held
ég að hann telji sig fyrst og
fremst Reykvíking, enda þótt
hann sé að nokkru ættaður úr
nærsveitum og að öðrum þræði
víðförull heimsborgari. — En
sinni ættmeitlaða svip ber hann
hvert sem hann fer og hvar sem
hann er.
Dr. Oddur Guðnónsson er fædd-
ur 28. janúar árið 1906 að Berg-
stöðum, sem upphaflega var einn
af gömlu torfbæjunum, en síðar
byggður upp úr steini. Bærinn
stóð á horni Skólavörðustigs og
Bergstaðastrætis. Þar bjó í eina
tíð Páll Eyjólfsson, gullsmiður,
sem jafnframt gaf sig að blaða-
mennsku og gaf út nokkur ár blað
sem „Tíminn“ hét. — Bergstaða-
strætið var um þessar mundir ein
fjölmennasta gata bæjarins, en
við hana bjuggu fimm hundruð
manns.
Veturinn 1906 var æði snjó-
þungur, en margt bar þó til tið-
inda. Daginn eftir fæðingu Odds
lézt Kristján konungur IX. Á ár-
inu var fyrsta íslenzka togarafé-
lagið, „Aliance“, stofnað. Skútu-
öldin var að kveðja og togaraöldin
að ganga í garð, daglaunamenn-
irnir stofnuðu „Dagsbrún", horn-
steinn var lagður að húsi Lands-
bókasafnsins, Reykjavíkurbær
keypti Elliðaárnar á 144 þúsund
krónur og Reykjavík var i þann
veginn að fá sinn fyrsta borgar-
stjóra. Timi mikilla framfara fór i
hönd og gott var að vera vaxtar-
broddur í gróandanum. Þessa
naut dr. Oddur og var settur til
mennta. Lauk hann stúdentsprófi
frá Menntaskólanum i Reykjavík
1927 og hélt um haustið til hag-
fræðináms við háskólann i Kiel.
Stundaði hann þar nám árin
1927—1930 og lauk því með
samningu doktorsritgerðar
um greiðslujöfnuð Islands
árið 1930. Ritgerð þessi þótti
svo merkileg á sínu sviði, að hún
var gefin út á vegum Þjóðabanda-
lagsins árið 1933. Að námi loknu
hélt Oddur heim til Islands, því
þar biðu hans ærin störf. Var
hann fljótlega ráðinn skrifstofu-
stjóri Verzlunarráðs Islands. Það
hafði verið stofnað 1917 og var
ætlað að vera heildarsamtök
verzlunarstéttarinnar. Fram til
þessa hafði það ekki eflzt að sama
skapi og i stéttinni hafði fjölgað.
Réð þar vafalaust mestu um
þröngur fjárhagur og takmarkað-
ur skilningur stéttarinnar á gildi
samtakanna. Hér var mikið verk
að vinna og gekk Oddur strax að
því með kappi og forsjá. Atti hann
þar hauk í horni sem Hallgrímur
Benediktsson, þáverandi for-
maður Verzlunarráðsins, var.
Tengdust þeir fljótlega
vináttuböndum sem aldrei
slaknaði á. Trausts og vinsælda
meðal allra ráðsmanna aflaði
hann sér og skjótlega, því að
hann átti hægt með að blanda
geði við flesta menn. Þeir sáu og
von bráðar, að Oddur var raunsær
og ráðhollur maður og lét ekki
stundarbrigðlýsi villa sér sýn.
Auk þess var hann verklundaður
og sjaldan iðjulaus. — Skrifstofu-
stjóri Verzlunarráðsins var hann
árin 1934—1943.
Þess var skammt að bíða að dr.
Oddur væri skipaður í margar
nefndir og ráð, ýmist af hálfu
Verzlunarráðsins eða að óskum
ríkisstjórna. Hann átti á árunum
1943—1960 sæti í öllum ráðum og
nefndum, sem fjölluðu um inn-
flutnings- og gjaldeyrismál, verð-
lagsmál og fjárfestingarmál. Á
þessum árum átti ég oft nána sam-
vinnu við dr. Odd, því að vegna
tilmæla hans var ég oft skipaður
varamaður fyrir hann í nefndum
og ráðum. Þessi störf voru að visu
ekki alltaf sérlega skemmtileg, en
þau gáfu tekjur í aðra hönd, sem
ekki var vanþörf á og víst mátti
margt af þeim læra. Ég vissi og,
að dr. Oddi voru þessi störf ekki
geðfelld, því hann var frjáls-
hyggjumaður, andstæður hafta-
búskap og hafði vantrú á rikisfor-
sjá fyrir sæmilega heilvita fólki.
Þetta var líka vanþakklátt verk,
eins og verða vill, þegar á að deila
takmörkuðum gæðum milli tak-
markalítilla þarfa eða óska. Hann
fór því heldur ekki varhluta af
hnútukasti og illum viðskotum,
en Oddur kippti sér lítið upp við
goluþytinn og nennti sjaldan að
eiga í orðaskaki við þá, sem voru
að myndast við að glefsa til hans.
Sú héld ég líka að raunin hafi
orðið á, að flestir sanngjarnir
menn hafi, er hann lét af þessum
störfum, unnað honum sannmæl-
is, metið að verðleikum vanda-
samt verk, sem hann leysti af
hendi af kostgæfni og alúð. Þegar
innflutningsskrifstofan var lögð
niður 1960 gegndi Oddur í eitt ár
störfum ráðuneytisstjóra í við-
skiptamálaráðuneytinu, i fjar-
veru Þórhalls Asgeirssonar, en
eftir það varð hann ráðunautur
ríkisstjórnarinnar og hafði fyrst í
stað sem aðalverkefni gerð við-
skiptasamninga Islendinga við
löndin í Austur-Evrópu en síðar
bættust við samningar við fjölda
ríkja i Vestur-Evrópu. Mun það
þvi vart orka tvímælis, að dr. Odd-
ur mun vera einna reyndasti við-
skiptasamningamaður Islendinga
fyrr eða síðar. Honum kom þar að
góðu haldi hversu skjótt hann
skynjar kjarna hvers máls, er rök-
fastur í ályktunum og skýr í fram-
setningu og heldur jafnaðargeði
þótt á gefi. Ég held að segja megi
um hann svipað og sagt var um
Arnljót Ólafsson, fyrsta islenzka
þjóðhagfræðinginn, að honum
hafi verið gefin „varfærni og
málamiðlunarhneigð“, og komu
þeir eiginleikar sér vafalaust vel f
utanríkisþjónustunni. Dr. Oddi er
það jafnt gefið að standa af sér
kaldan hafvind sem austannæð-
inginn. Hann hefur sannreynt
það, að þær öldurnar, sem kemba
hæst, brotna stundum fyrst.
Enginn skyldi halda, að þar sem
dr. Oddur hefur valið sér að lifi-
brauði dálítið strembin viðfangs-
efni, þá sé hann öðrum fremur
„alvörugefinn". Því fer viðsfjarri,
því hann hefur sem betur fer
góða kímnigáfu og er gleðimaður
í góðra vina hóp. Og trú mín er, að
hann hafi verið nokkuð sammála
bekkjarbróður sj'num, Bjarna
Guðmundssyni, er hann sagði eitt
sinn í ágætu skólaspjalli: „Alvara
lífsins er ekki einhlít." Og bætti
við: „Það veit hver löggiltur
skjalaþýðandi."
1. janúar 1968 urðu tímamót í
lífi dr. Odds því þá gekk hann
alfarið í íslenzku utanríkisþjón-
ustuna og var skipaður sendi-
herra í Rússlandi. Gegndi hann
því starfi til 1. október 1974.
Þessu viðamikla embætti sinnti
hann af sömu elju og vandvirkni
sem hinum fyrri. Og þótt kalsamt
hafi trúlega stundum verið i Rúss-
íá, þá hygg ég að hann hafi ekki
unað hag sínum þar illa, þvi nóg
var víst oftast að gera.
Allir sem þekkja dr. Odd Guð-
jónsson vita að hann er enginn
málrófsmaður, en fastlyndur er
hann og hefur hiklausa sannfær-
ingu og einurð til þess að halda
henni til streitu. Dr. Oddur hefur
líka hlotið mikla og verðskuldaða
mannheill, enda margur notið
hjálpsemi hans og ógleyminn hef-
ur hann verið á gamla vini og
skólabræður, þegar á hefur reynt.
Ég held, að þrátt fyrir að stund-
um hafi andað köldu í kringum
dr. Odd, hafi hann verið gæfu-
maður. Stærstan þátt í lífsham-
ingju hans eiga kona hans Liese-
lotte, sem hann kynntist á náms-
árunum í Kiel, börnin þrjú, og
tengdabörn og barnabörn. Heima-
kær hefur dr. Oddur jafnan verið
og heimilið honum athvarf frá
önn og erli dagsins.
Nú hefur dr. Oddur dregið sig
úr öldusúgnum og nýtur nú sins
haustfriðar. En samt er það von
min og vissa, að íslenzkir ráða-
menn muni engu að síður eiga
enn eftir að leita hans hollráða.
Kæri góði vinur, við hjónin
sendur þér og fjölskyldu þinni
beztu heillaóskir í tilefni afmælis-
ins.
Birgir Kjaraa
Fjölsótt
ráðstefna
um verk-
menntun
hjá SFI
STJÓRNUNARFÉLAG Islands
gekkst fyrir ráðstefnu um
efnið: „Hvers vegna er verk-
menntun vanmetin?“ dagana
16. og 17. jan. s.l. Tilefni ráð-
stefnunnar voru vaxandi um-
ræðu um ný viðhorf f verk-
menntunarlögum um nýskipan
verkmenntunar. Ráðstefnuna
sóttu u.þ.b. 150 manns og var
hún ein fjölmennasta ráð-
stefna, sem SFÍ hefur gengizt
fyrir. Haldin voru fjölmörg er-
indi og ræður, er varða efnið.
Stefán Ölafur Jónsson
deildarstjóri í menntamála-
ráðuneytinu gerði grein fyrir
því, hvað gert hefur verið i
verkmenntunarmálum og Þór
Sandholt skólastjóri fjallaði um
það, hvers vegna verkmenntun
er vanmetin. Steinar Steinsson
tæknifræðingur ræddi um
þróun verkmenntunar i grann-
löndunum. Óskar Guðmunds-
son frkvstj. skýrði frá aðbúnaði
hins opinbera og Hákon Torfa-
son verkfræðingur fjallaði um
stöðu þessara mála í dag. Guð-
mundur Einarsson verk-
fræðingur gerði grein fyrir til-
lögum iðnfræðslulaganefndar,
sem nýlega skilaði tillögum
sínum til menntamálaráðu-
neytisins og Baldur Guðlaugs-
son lögfræðingur og Óskar
Hallgrímsson bankastjóri
fjölluðu um viðhorf aðila
vinnumarkaðarins. Þá fluttu
eftirtaldir menn örstuttar
ræður um æskilegar breytingar
á sviði verkmenntunarmála:
Dr. Björn Dagbjartsson,
Gunnar Guttormsson, Haukur
Eggertsson, Kristinn Hrólfsson,
Tryggvi Þór Aðalsteinsson,
Þórður Gröndal og Þorsteinn
Gíslason. Ennfremur fjallaði
Kjartan Borg um viðhorf
kennarans.
Vilhjálmur Hjálmarsson
menntamálaráðherra var
gestur ráðstefnunnar og
ávarpaði hann ráðstefnuþátt-
takendur.
A ráðstefnunni störfuðu sjö
umræðuhópar og á grundvelli
niðurstaðna þeirra urðu heil-
miklar umræður.
Sú var tiðin að lesendur Morg-
unblaðsins þekktu mætavel dr.
Odd Guðjónsson. Hann stjórnaði
skrifstofu Verslunarráðs Islands
á árunum fyrir aðra heimsstyrj-
öldina og hélt einatt uppi vörnum
fyrir heilbrigðum verslunarhátt-
um i harðskeyttum greinum hér I
Morgunblaðinu. Síðar var hann
um langtskeiðnæstum sjálfkjör-
inn í hinar ýmsu valdamiku
nefndir, sem settar voru af stjórn-
völdum til að stýra vöruinnflutn-
ingi landsmanna á meðan hafta-
stefna í þeim málum var ráðandi.
Kom þar einkum til óvenjuleg
þekking hans á viðskiptamálum
þjóðarinnar, en undirstöðuna i
því efni lagði hann með doktors-
ritgerð sinni um greiðslujöfnuð
Islendinga, en dr. Oddur mun
fyrstur íslenskra hagfræðinga
hafa kynnt sér rækilega þann
mikilvæga þátt i hagkerfi lands-
manna. Þegar haftastefnan var
búin að ganga sér til húðar lá leið
Odds rakleiðis inn í viðskipta-
ráðuneytið og þaðan í utanrikis-
þjónustuna. Hann hafði reyndar
um áratuga skeið tekið þátt í við-
skiptasamningum stjórnvalda við
ýmis erlend riki, en varð sendi-
herra okkar i Moskvu árið 1968 og
gegndi því starfi fram undir árs-
lok 1974. Og nú er hann orðinn
sjötugur, (f. í Reykjavík 28/1.
1906), hress í anda, en heilsan
hefði kannski mátt vera öllu betri
stundum siðustu misserin.
Dr. Oddur hefir jafnan verið
gerhugull og kannski þess vegna,
eða þrátt fyrir það, óvenju hlýr i
viðmóti, sannorður og traustur.
Hann var meðal hinna fyrstu is-
lensku stúdenta, sem hófu nám í
hagfræði við háskólann i Kiel og
hefir jafnan siðan haft á hendi
forustu þeirra mörgu hagfræð-
inga, og raunar annarra náms-
manna, sem komu heim frá Kiel á
fjórða áratugnum. Eitt árið voru
þessir námsmenn tuttugu og fjór-
ir, sem þótti mikið á þeim árum.
Einhvern veginn er það svo að
böndin frástúdentsárunum verða
einna ljúfust, þótt viðkynningin
við Odd hafi á öllum timum verið
góð og hafi jafnan vakið gleði. Til
Kielar sótti Oddur Lottí, eigin-
konu sína, sem um meir en fjörtíu
ára skeið hefir gert heimili hans,
nú síðast að Flókagötu 55, bjart
og fagurt, og ágætu barnaláni
hafa þau hjón átt að fagna.
Framlag dr. Odds Guðjónssonar
til verslunar og viðskiptamála
þjóðar vorrar jafnast á við það
besta sem gert hefir verið i þeim
efnum, vægast sagt. I dag er til-
efni til að árna honum, og þeim
hjónum, heilla og hamingju á
komandi árum. .... Al ,
Pétur Olafsson.
Góð gjöf til
Siglufjarð-
arkirkju
Siglufjarðarkirkju hefur enn
borizt vegleg gjöf. Við áramóta-
messu i Siglufjarðarkirkju á
gamlaárskvöld voru henni afhent-
ir forkunnarfagrir viðhafnarstól-
ar.
Gefendur voru hjónin Jón
Kjartansson forstjóri fyrrv. bæj-
arstjóri í Siglufirði, og kona hans,
frú Þórný Tómasdóttir. Gjöfin er
til minningar um foreldra Jóns,
Jónínu Tómasdóttur og Kjartan
Jónsson, er bjuggu í Siglufirði
allan sinn búskap. Þann dag, er
gjöfin var afhent, var 100 ára
fæðingarafmæli frú Jóninu, en
hún var fædd í Siglufirði, dóttir
þáverandi prestshjóna þar.
Stólarnir eru skornir út af
kunnum hagleiksmanni í Siglu-
firði, Hirti Armannssyni. Sóknar-
nefnd Siglufjarðarkirkju þakkar
gefendum höfðingsskap þeirra og
ræktarsemi.
(Fréttatilk. frá Sóknarnefnd
Sigluf jarðarkirkju)