Morgunblaðið - 09.11.1983, Síða 12
60
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 9. NÓVEMBER 1983
Bindindi á íslandi
— eftir Rónald
Kristjánsson
Ein erfiðasta barátta, sem
mannkynið hefur háð, er baráttan
við áfengisnautnina, enn hefur
manninum ekki tekizt með allri
sinni nútíma tækni og vizku að út-
rýma með öllu áfengisbölinu.
Varðandi okkur íslendinga, er
ofdrykkjan margra alda gamall
siður. Ef gluggað er í annála, er
ekki farið fögrum orðum um
drykkjuskap embættismanna t.d.
á Alþingi og annarra. Eða á tíð
hinnar dönsku einokunarverzlun-
ar, þar sem segir að hún hafi verið
birg af áfengum drykkjum, en aft-
ur var mikill skortur á ýmsum
nauðsynjavörum.
Þjóðin reikaði um í blindni, og
þurfti að opna augu hennar. Þetta
sá Jón Árnason biskup í Skálholti
(1722-1743). Hann er líklega
fyrsti bannmaður þ.e. hefur bar-
áttu gegn innflutningi áfengra
drykkja til íslands. Tillögur hans
um bann eða takmörkun þessa
ásamt bænaskrá er hann og
nokkrir embættismenn rituðu af
Alþingi hinn 22. júlí 1733 voru
merkis atburðir á þessum tímum,
þar sem djarfaði ekki fyrir bind-
indishreyfingu á Islandi. Danska
stjórnin og einokunarverzlunin
vissu að aðalhagnaðurinn var í
brennivínssölunni, og fengu því
tillögur Jóns biskups engan
hljómgrunn. Fleiri menn gerðu
tilraunir til þess að benda stjórn-
inni á drykkjuskaparpláguna, eins
og Ludwig Harboe, Dines Piper,
Ólafur Stephánsson prestssonur
frá Höskuldarstöðum á Skaga-
strönd og Gísli biskup Magnússon
á Hólum. En án árangurs.
Um aldamótin 1800 var gefin út
tilskipun varðandi áfengismál, er
kom að haldi til frambúðar en það
var bann við brennivínsbrennslu,
sem var reyndar komið á, til að
vernda hina dönsku brennivíns-
kaupmenn fyrir samkeppni.
Eins og margir vita, snertir áf-
engisnotkun ekki eingöngu neyt-
andann, heldur aðstandendur og
aðra. Menn vakna nú við þann
draum, að áfengisbölið er al-
heimsvandamál. Svíinn Per Wies-
elgren hefur bindindisstarfsemi
meðal skólapilta árið 1819. Hið
Ameríska bindindisfélag er stofn-
að í Boston 1826, og er það talið
formóðir allra bindindishreyfinga
í hinum siðmenntaða heimi. fs-
lenzkir stúdentar í Kaupmanna-
höfn (Fjölnismenn) stofna 9. sept-
ember 1843 hófsemdarfélag, sem
4. febrúar ári síðar er breytt í Is-
lenzkt bindindisfélag. Upp úr því
(1854—1872) fer að draga verulega
úr drykkjuskap á íslandi. Árið
1872 lagði danska stjórnin í fyrsta
sinn toll á brennivín til íslands.
Alþingi hafði á þeim tíma ekki
fullan ákvörðunarrétt um fé úr
landssjóði en þangað átti tollurinn
að renna. Og jókst því bindindis-
áhugi manna og bindindisfélög
stofnuð víðsvegar um landið. Á
meðan Danir stóðu fastir á því að
íslendingar hefðu ekki ákvörðun-
arrétt um fé úr landssjóði skuld-
bundu margir sig með undirskrift
að gerast bindindismenn. Fá nú
íslendingar fjárforræði með
stjórnarskránni 1874, dalaði þá
bindindisáhuginn. Salan minnkaði
um rúma 420.000 potta fyrsta árið
(eða úr tæpl. 545.000 pt. í rúml.
122.000 pt.) vegna hækkaðs verðs.
En jókst svo aftur drykkjan. Um
það leyti þegar bindindishreyf-
ingarnar eru að dragast upp, er
stofnuð í Utica í New York-ríki
Hin óháða regla góðtemplara
(1851), síðan varð hún Hin alþjóð-
lega regla góðtemplara (IOGT).
Eru þetta hin einu bindindissam-
tök, sem starfað hafa óslitið frá
stofnun. Má e.t.v. þakka það því að
hún er regla en ekki félag, ásamt
hugsjónastefnu sinni jafnrétti og
bræðralag allra manna.
Góðtemplarareglan kemur
hingað til íslands fyrir tilstuðlan
Norðmannsins Ole Lied, er stofn-
aði stúku á Akureyri þann 10.
janúar 1884 í húsi Friðbjarnar
Steinssonar bóksala. Stofnfélagar
íslandsdeildarinnar voru tólf.
Kom þeim saman um að deildin
(þ.e. stúkan) bæri heitið ísafold
no. 1 og voru hinir fyrstu tíu emb-
ættismenn hennar:
Ole Lied skósmiður, kjörinn
æðsti templar, Simirður Jónsson
daglaunamaður, Asgeir Sigurðs-
son verzlunarmaður, Pétur
Tærgesen er fékkst við smíðar,
Eðvald Jónsson daglaunamaður,
Jörgen Vikingsstad sjómaður, Jón
Jónsson utanbúðarmaður hjá
Gránu-verzlun, Benedikt Jónsson
Hónald Kristjánsson
daglaunamaður, Kristján Krist-
jánsson skósmiður og Friðbjörn
Steinsson bóksali og bæjarfulltrúi
á Akureyri, en hann gegndi emb-
ætti fyrrverandi æðsta templars,
og var þrautseigasti og tryggasti
maður við málstað reglunnar.
Fundir voru á hverjum sunnu-
degi frá kl. 18—20, en oft var álið-
ið, þegar fundi var slitið. IOGT
varð fljótlega öflugasta bindind-
ishreyfingin á íslandi. önnur
bindindisfélög, sem stofnuð hafa
verið, hafa mjög náið samstarf við
IOGT.
Stórstúka íslands var stofnuð á
Jónsmessu árið 1886 í alþingishús-
inu, undir brjóstlíkneski Jóns Sig-
urðssonar, „sannleikurinn mun
gera yður frjálsa". Voru þá félagar
542 talsins, og starfandi stúkur
tíu. Jafnrétti kvenna hefur ávallt
fylgt góðtemplarareglunni og
áreiðanlega átt sinn þátt í því að
kvenfólk nyti almenns kosninga-
réttar, enda gengu fyrstu konurn-
ar í regluna hálfum mánuði eftir
stofnun hennar eða 27. janúar
1884. Þær hétu Ingibjörg Judith
Guðjónsdóttir, eiginkona Sigurðar
Jónssonar daglaunamanns, og
Friðrikka Nielsdóttir, eiginkona
Eðvalds Jónssonar daglauna-
manns. — Ég vil bæta því við, að
fyrsta konan, sem berst í þágu
bindindis hér á landi, var Laura
Pétursdóttir Gudjohnsen (1880),
eiginkona séra Jóns Bjarnasonar
prests á Dvergasteini, síðan höf-
uðprestur íslendinga vestan hafs.
Nú varð að þýða lög og siði yfir
á íslensku og var Jón Pétur Sig-
urðsson fyrstur að leggja til að svo
verði, ásamt því að stúkusöngvar
skyldu þýddir. Sá séra Matthías
Jochumsson um þýðingar. Einhver
þurfti að flytja mál reglunnar á
prenti. Hefur hún blaðaútgáfu á
Akureyri 6. desember 1884. Bar
málgagnið heitið Bindindistíðindi.
Af þvi komu aðeins fimm blöð út,
það síðasta á Oddeyri 27. október
1885.
En í október 1886 samþykkti
stórstúkan tillögu br. Skúla
Thoroddsens að hefja blaðaútgáfu
mánaðarlega. Var komið af stað
mánaðarblaðinu íslenski good
templar. Kom það út í sjö ár eða
til ársloka 1893. Var síðar gerð til-
raun til að endurvekja blaðaútgáf-
una 1897—1903, og kom þá út
mánaðarblaðið Good templar.
1904—1930 var gefi út blaðið
Templar. Og síðasta tilraunin með
blaðinu Sókn 1931. Af því komu út
alls 18 blöð eða til ársins 1935.
Stúkur risu og féllu um land
allt. Það væri of langt mál að orð-
lengja um þær hér. En ég vil þó
bæta því hér við að stúkan Fjall-
konan nr. 3 var stofnuð 17. ágúst
1884 og rann saman við ísafold
1885, og heitir í dag Fjallkonan —
ísafold nr. 1.
En hvað sem því vék, jókst fé-
lagatalan og var það fyrir mestu
og bestu. Marga góða framámenn
hefur reglan átt, er plægðu jarð-
veginn og gróðursettu nýjar stúk-
ur. Má nefna dugnaðarforkinn
Ólafíu Jóhannsdóttur, sem vann
göfugt og óeigingjarnt starf fyrir
regluna bæði hérlendis og erlend-
is. Hún var rómuð á stórstúku-
fundi einum í London fyrir fram-
komu sína. ólafía stofnaði Is-
landsdeild kristilegs alheims bind-
indisfélags í Reykjavík 17. apríl
1895 sem óþarfi er að kynna hér og
hét Hvítabandið.
Ólafur Rósenkranz stofnaði
stúkur eins og Einingin nr. 14,
sem starfar í dag. En aðalmark-
mið hans var að sameina alla
bindindiskrafta á landinu undir
vængi Reglunnar. Stórstúkan
hafnaði þessari áskorun Ólafs á
þingi hennar árið 1893.
Indriði Einarsson hagfræðingur
að mennt jók vegna brennandi
áhuga og eldmóðs félagatöluna I
sinni stórtemplaratíð. Það var og
honum að þakka að stofnaðar voru
50 stúkur. Hann var stórtemplar í
sex ár eða frá 1897—1903.
Sigurður Eiríksson regluboði
frá Eyrarbakka var maður, sem
vann allt í kærleika og var laus við
allan ofstopa og æsing. Stofnaði
hann á 15 ára starfsferli sínum
(1897—1912) 58 undirstúkur og 2
umdæmisstúkur. Árið 1909 (bann-
árið) sagði hann: „Bindindi ein-
staklingsins og bannlög handa
þjóðinni voru fegurstu hugsjónir
mínar. Regla vor þarf að haldast
uppi svo lengi, sem Island byggist,
að minnsta kosti á meðan áfengi
er búið til og drukkið í nágranna-
löndum." Sigurður lést 26. júní
1925.
Árni Gíslason leturgrafari og
stofnandi stúkunnar Díana nr. 30
á Vatnsleysuströnd 1896 ásamt
bindindisfélagi á ísafirði, var
ræðumaður mikill og honum mik-
ið að þakka hve greiðlega gekk að
stofna stúkur árin 1897—1899, eða
þar sem hann hafði ferðast og
flutt ræður.
Ég hef nú aðeins stiklað á stóru
hvað varðar frumkvöðla bindind-
ismála hér á íslandi og um Góð-
templararegluna, sem verður 100
ára á næsta ári, en starfssvið
hennar er mun fjölþættara og yf-
irgripsmeira en ég gat um. Væri
það efni í heila bók, að koma slíku
á framfæri, enda skortir mig bæði
frásagnarhæfileika og þekkingu.
Væri gaman ef Templarar og aðrir
áhugamenn um bindindismál létu
frá sér heyra. Hvet ég eindregið
þá sem vinna að bindindismálum
inn á við eða út á við að gerast
meðlimir í IOGT. Er alltaf rúm
þar fyrir fleiri. Vil ég að lokum
vitna í útvarpserindi Helga Schev-
ings, sem bar nafnið „Ávarp til
æskulýðsins". „Bindindismenn
vilja ryðja nýjar brautir. Þeir
vilja eyða því myrkri, sem Bakkus
hefir vafið um land vort og þjóð.
Málefni þeirra hlýtur að fara sig-
urför um þetta land. Æskumaður!
Hvort kýst þú heldur að fylgja
þeim málum, sem tigna hina rís-
andi sól, eða hinum, er tigna þá,
sem er að hníga niður í myrkrin
og kemur aldrei upp oftar?"
Kónald Krístjánsson er prentnemi
í Keykjarík.
Nokkrar athugasemdir
— eftir Guðstein
ÞengUsson
Mig langar til að biðja Morgun-
blaðið að birta fáeinar athuga-
semdir við langa grein, sem dr.
juris Gunnlaugur Þórðarson skrif-
aði í blaðið og birtist 26. okt. sl.
Þar er vikið að smáklausu, sem
birtist í litlum bæklingi, er bar
heitið Áfengi og áhrif þess á manns-
líkamann. Þar stendur á einum
stað m.a.: „Stöðug notkun áfengis
skemmir og beinlínis eyðileggur
heilafrumur, þar eð áhrif þess eru
sexfalt öflugri á taugafrumur en
aðrar líkamsfrumur."
Það skal tekið fram, að þar sem
er vikið að rannsóknum á áhrifum
áfengis í þessum stutta bæklingi,
byggist það á starfi manna, s.s. dr.
Melvin Kniselys við læknaskóla
Suður-Karólínu í Charleston og
dr. George E. Burch við lækna-
skóla Tulane.
Það eru sexföldu áhrifin á
taugafrumurnar, sem fara fyrir
brjóstið á lögmanninum og þykir
honum að vonum það hlutfall
heldur óhagstætt. En það sem
honum finnst aðallega rýra vís-
indalegt gildi áðurnefndrar niður-
stöðu um áhrif áfengis á hinar
ýmsu frumur líkamans, er að ung-
ur læknir þýddi gagnrýnislaust
fyrir 14 árum skrif úr lítt þekktu
tímariti. Þetta er nú rökfræði í
lagi. Hvernig má það vera að ung-
ur aldur og gagnrýnisleysi þýð-
anda geti gert vísindalega niður-
stöðu ranga? Miklu skynsamlegra
væri að segja, að ranglega sé þýtt.
Eða hvaða máli skiptir það, þótt
hér á íslandi finnist menn, sem
ekki hafa heyrt blaðið nefnt, sem
birtir þessar niðurstöður. Það út
af fyrir sig rýrir ekki vísindalegt
gildi þeirra. Svona röksemda-
færsla sæmir ekki lögfræðingi,
sem er þjálfaður í skipulegri hugs-
un.
Lögmaður skýrir svo frá í grein
sinni, að allir læknar, sem hann
ræddi við um þessi mál, hafi talið
umræddar niðurstöður vafasam-
ar. Ekki veit ég, hvernig allir þess-
ir læknar hafa mótað þá skoðun
sína að niðurstöðurnar séu vafa-
samar. Líklegast þykir mér, að
þeim hafi bara fundist þær ósenni-
legar en ekki hitt að þeir hafi haft
aðrar hliðstæðar rannsoknir í
Guðsteinn Þengilsson
„Greinarhöfundur tek-
ur dæmi um blessunar-
rík áhrif áfengis, en þaö
dæmi er fremur óheppi-
lega valiö. Kannski staf-
ar það af því, aö heppi-
leg dæmi finnast ekki.“
huga, sem afsanni það, sem í
bæklingnum var eftir haft.
Rétt er það hjá greinarhöfundi,
að rannsóknum á áfengisneyslu og
áhrifum hennar hefur geysimikið
fleygt fram á síðustu árum. Niður-
stöður þeirra rannsókna hafa und-
antekningalftið leitt til þess, að æ
svartari skýrslur hafa verið birtar
um áfengið og verkanir þess.
Nærtækasta dæmið fyrir okkur
Islendinga er skýrsla Landlæknis-
embættisins um neyslu áfengis,
tóbaks og annarra vímugjafa. All-
ir sem rita um áfengismál og
neyslu vímuefna þyrftu að kynna
sér hana rækilega.
Greinarhöfundur tekur dæmi
um blessunarrík áhrif áfengis, en
það dæmi er fremur óheppilega
valið. Kannski stafar það af því,
að heppileg dæmi finnast ekki.
Áfengi veldur að vísu útvíkkun á
kransæðum og samkvæmt þessum
rannsóknum á það að tefja eitt-
hvað fyrir stíflumyndun, en áhrif
þess á hjarta- og æðakerfi í heild
eru svo skaðvænleg, að það þurrk-
ar margfaldlega út þann kost.
Annað skrýtið dæmi um blessun
áfengis fyrir mannslíkamann var
birt í Mbl. fyrir nokkru og sagt frá
skýrslu breskra lækna og birtist
hún í Lancet, fræðu læknatímariti
ensku. Þar var sýnt fram á, að
áfengi gæti hamlað eða komið í
veg fyrir myndun gallsteina. Til
þess þarf að vísu að neyta hálfrar
vínflösku á dag ævilangt, því
steinarnir geta farið að myndast
strax og neyslu lýkur.
Rétt er að minna á, að kenning-
in um ofnæmi sem orsök drykkju-
sýki er ekki komin það á legg, að
menn hampi henni sem neinum
sérstökum vísindum. Hún er ekki
annað en fremur vafasöm tilgáta
og ólíklegt að slíkt ofnæmi sé þá
orsök nema í sumum tilvikum.
Ég er greinarhöfundi hjartan-
lega sammála um, að áfengismál
eiga ekki að vera nein fjárplógs-
starfsemi, og ekki má stunda með-
ferð drykkjusjúkra með þeirri
hugsun, að hún sé eins og hver
annar atvinnuvegur, sem eigi að
skila arði, en ekki vil ég skilja
hugsjónir SÁÁ á þann veg. Einnig
fagna ég öllum umræðum um
áfengis- og fikniefnamál. Séu þær
málefnalegar, gera þær mikið
gagn og vekja fleiri til umhugsun-
ar og skilnings.
Cudsteinn Þengilsson er læknir í
Kópavogi.