Morgunblaðið - 07.12.1984, Síða 2
2 B
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 7. DESEMBER 1984
„Þaö ar ako gaman að búa til svona brauöfígúrur. Pat ósamt börnunum.
Morgunblaftið/Árni Sæberg
Litið inn til Patriciu Burk og fylgst með þvíþegar hún býr til skemmti-
legt jólaskraut úr brauði, sem auk þess er afar heilsusamlegt
Hengja má
skrautið út i
giugga eða á
jólatrá. Takiö
eftir litla
brauðhúsinu á
borðinu.
Hún Patricia Burk býr til alls konar skemmtilegar
fígúrur úr brauði, sem hún skreytir til dæmis með
hnetum, rúsínum, kókosmjöli og jafnvel spaghettíi,
sem kemur þá í staðinn fyrir hár, til dæmis á jóla-
sveini. Það góða við brauðskreytingarnar, sem geta
hangið á jólatré, verið kertastjaki eða gluggaskreyting,
er að það er hægt að borða þær. Og enn betra er að
Patricia notar aðeins næringarrík hráefni úr lífrænum
efnum í brauðin og kökurnar sínar. Til dæmis hunang í
stað flórsykurs og ef hún er að baka döðlubrauð, þá
notar hún meira af döðlun-
um og minna af sykri eða
sleppir honum alveg og
auðvitað notar hún heilt
korn í brauðið í staðinn
fyrir hveiti. Pat eins og hún
er kölluð flutti þessar
skemmtilegu og ljúffengu
brauðskreytingar með sér
frá Bandaríkjunum. Þegar
hún bjó í New York fyrir
sex árum vann hún í
bakaríi, þar sem eingöngu voru
framleidd heilsusamleg brauð og voru
þau unnin að mestu í höndunum. Hún
sagði að brauðfígúrurnar hefðu orðið
til af tilviljun þarna í bakaríinu. Hún
hefði að gamni sínu farið að útbúa lítil
dýr úr deigafgöngum og selt í búðinni og
hefðu þau orðið vinsæl. Þau hefðu líka fikrað
sig áfram með kökur úr heilsusamlegum efnum og
prófað þær á viðskiptavinunum, sem þá sögðu álit sitt.
Pat, sem hefur stundað listnám, kom til New York til
að kenna steinprent við The School of Visual Arts. En
eftir að hún fór að vinna í bakaríinu fór áhuginn að
beinast í síauknum mæli að brauðgerðinni og notaði
hún brauðið til myndsköpunar í stað pappírs og lita.
Hún fór semsagt úr myndlist í matarlist, eins og ein-
hver vinur hennar vildi orða það!
Um þetta leyti kynntist Patricia íslenskri stúlku.
Ákváðu þær að fara í Evrópuferð saman, sem byrjaði
og endaði á íslandi. Og síðan hefur Patricia dvalið hér
og á hér einn son.
Nú vinnur hún hjá matsölu Náttúrulækningafélags-
ins og býr til þau brauð og kökur, sem þar er boðið upp
á. Auk þess tekur hún að sér að búa til kökur og brauð
fyrir einstaklinga.
Við fengum að fylgjast með því, þegar Patricia var
að útbúa jólaskreytingar með nokkrum börnum, en
krökkum þykir ógurlega gaman að fá að taka þátt í
brauðgerðinni og skreyta fígururnar svo við tölum ekki
um hve það er unaðslegt að fá að borða þær líka!
... og svo má borða skreytinguna líka ...