Morgunblaðið - 16.12.1997, Blaðsíða 2

Morgunblaðið - 16.12.1997, Blaðsíða 2
2 B ÞRIÐJUDAGUR 16. DESEMBER 1997 BÆKUR MORGUNBLAÐIÐ markaði. Halldór Guðmundsson, útgáfustjóri Máls og menningar, benti raunar á þetta í viðtali við Morgunblaðið síðastliðið sumar. í samband við heiminn Einn flokk bóka verður að vekja athygli á en það eru þýðingarnar. Það er mikið fagnaðarefni hversu mikill kraftur er í þýðingarútgáfu hér. Þýðingar eru ekki aðeins mikil- vægar vegna þess að með þeim fá íslenskir lesendur tækifæri til að kynnast erlendum bókmenntum. Þýðingar setja íslenskar bókmennt- ir og höfunda í samband við heim- inn, þær eru þeim viðmið sem þær geta ekki fengið annars staðar. í gegnum þýðingar komast íslenskar bókmenntir í nauðsynlega samræðu við heimsbókmenntimar. Af sömu ástæðu er auðvitað mikilvægt að leggja áherslu á erlendar þýðingar á íslenskum verkum, en skilningur á því mætti vera meiri á meðal ráðamanna. Það er af mörgum stórviðburðin- um að taka ef litið er yfír þýddar bækur þessa árs. Tveir viðburðir standa þó sennilega upp úr, heims- frumútgáfa á nýjustu skáldsögu tékknesk-franska rithöfundarins, Milans Kundera, Óljós mörk sem Friðrik Rafnsson þýddi og útgáfan á fýrsta bindi þýðingar Péturs Gunn- arssonar á verki Proust, / leit að glötuðum tíma sem minnst var á hér að framan. Báðar eru þessar bækur geysilega mikilvægar fyrir íslenskar bókmenntir; með þýðingu á Proust hefur verið fyllt upp í stóra eyðu í íslensku bókmenntalandslagi og með þýðingu á þessari glænýju bók Kund- era, sem verður að telja meðal fremstu og athyglisverðustu skáld- sagnahöfunda heims síðustu þijátíu ára eða svo, hafa íslenskir bók- menntamenn verið beintengdir við það ólíkindatól sem evrópska skáld- sagan er. Báðar bækumar fyalla um þemu sem hafa verið áberandi í ís- lenskum skáldsögum, bók Proust um sjálfíð eins og áður sagði og bók Kundera um hina draumkenndu frá- sögn sem áður var nefnd, um skörun draums og veruleika, mörkin á milli ólíkra heima, ólíkra einstaklinga. Aðrar þýddar skáldsögur sem vekja sérstaka athygli nú em Frá- sögn af marmráni eftir Gabriel Garc- ía Marquez, Satýrikon eftir Petrón- ius, Minnisblöð úr undirdjúpunum eftir Fjodor Dostojevskíj og Sáiin vaknar eftir Kate Chopin. I flokki þýddra ljóðabókka vekja sérstaka athygli Sígildir Ijóðleikir þýddir af Helga Hálfdanarsyni, hækuþýðingar Óskars Ama Óskarssonar í bókinni Leðurblakan og perutréð, þýðingar Hannesar Péturssonar á Hölderlin, Jóhanns Hjálmarssonar og Matthí- asar Johannessen á 0degárd og Áma Ibsen á ljóðum Williams Carlos Williams. Loksins „samin“ ævisaga Góðar ævisögur genginna skálda og listamanna hefur lengi vantað í íslenska bókmenntaflóru, það er að segja ævisögur sem reyna að taka til gagngerrar endurskoðunar þann mann sem þær fjalla um. En nú hefur verið bætt nokkuð úr þessu með bók Guðjóns Friðrikssonar um Einar Benediktsson skáld. Mér ligg- ur við að segja að loksins sé komin út „samin“ ævisaga í bresk-frönsk- um anda, ævisaga sem reynir að segja sögu tiltekins manns með svolitlum stæl en ekki í gamla stað- reyndatuggustílnum. Guðjón leggur sig fram um að gæða bókina lífi með því að beita brögðum skáld- skaparins í frásögninni. Fyrir vikið er bókin geysilega skemmtileg af- lestrar, hreinlega rígheldur manni við lesturinn. En um leið er hvergi slegið af fræðilegum kröfum. Guð- jón hefur leitað uppi heimildir um Einar sem áður hafa ekki komið upp á yfírborðið. Það væri óskandi að fleiri sæju sér fært að feta þessa braut í ævisagnaritun. Þótt eyðan sem lítil ljóðabókaút- gáfa virðist vera að skapa sé vond og jafnvel háskaleg, má sjá að það hefur verið fyllt upp í slæmar gluf- ur í íslensku bókmenntalandslagi þetta árið einnig. Útkoman er því ánægjuleg þrátt fyrir allt. BÆKUR II c i m s p c k i SAGA HUGSUNAR MINNAR um sjálfan mig og tilveruna eftir Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi. Haraldur Ingófsson sá um útgáfuna. Hið islenska bókmenntafélag - 125 síður. ÞAÐ er vel til fundið að gefa bók Brynjúlfs Jónssonar frá Minna- Núpi (1838-1914), Saga hugsunar minnar, aftur út nú áttatíu og fimm árum eftir að hún birtist fyrst. Hér er á ferðinni ein almerkilegasta bók íslenskrar heimspekisögu sem lýsir glímu sjálfsmenntaðs íslensks al- þýðumanns við sjálfan sig, heiminn og guð almáttugan. Þótt sagan sé stutt - rúmar 70 síður sem skipt- ast í 52 hluta - greinir hún ítarlega frá hugsanakerfi því sem Brynjúlfur mótaði til að svara (a.m.k. til bráða- birgða) sumum dýpstu ráðgátum tilverunnar um frelsi viljans og for- lögin, líkama og sál, efni og anda og Guð og sköpunarverkið. Meginhugmynd hans, sem hann nefnir eindahugmynd, er skyld heim- speki G.W. Leibniz (1646-1716). Báðir lýsa eindum (mónödum) sem frumveruleika, sem hafa einstakl- ingseðli, einkennast af starfsemi eða virkni (en ekki rúmtaki), virknin er eðlislæg og báðir bijóta sífellt heil- ann um innbyrðis tengsl einda en komast að ólíkri niðurstöðu þótt Brynjúlfur ýi að lausn Leibniz á ein- um stað (bls. 46). Að eigin sögn heyrði Brynjúlfur ekki um Leibniz fyrren eftir að hann mótaði sínar eigin hugmyndir og mér virðist ljóst að hann hafí aldrei kynnst hugmynd- um Leibniz vel. Haraldur Ingólfsson heimspekingur, sem sá um þessa útgáfu á Sögu hugsunar minnar, hittir naglann á höfuðið í greinar- góðum inngangi sínum þegar hann skrifar: „Áhrifavaldar Biynjúlfs voru margir en ef sleppt er því sem hann las og hafði áhrif á hann, var hans eigin tilvist og um leið tilvist heimsins sennilega hans mestu áhrifavaldar" (xxxiii). Brynjúlfur hefur greinileg haft sömu áhrifa- valda og René Descartes (1596- 1650) sem skrifar í Orðræðu um aðferð: „Ég lagði því bóknámið á hilluna ... og afréð að leita ekki framar eftir öðrum vísindum en þeim, sem ég fyndi í sjálfum mér eða í hinni miklu bók heimsins". Haraldur birtir ritdóma (frá 1914) og bréf sem tengjast Sögu Glíman við Guð almáttugan hugsunar minnar. Eykur það við gildi þessarar útgáfu. I bréfi frá Guðmundi Finn- bogasyni segir: „Bókin er ein samfelld hugs- anabygging, fléttuð úr svo mörgum þáttum að ómögulegt er að hreyfa við einu án þess að verða að rekja allan vefinn. En til þess er ég ekki fær.“ Auðvelt er að skilja afstöðu Guðmundar. Hugsun Brynjúlfs er svo ein- læg, fersk og kröftug og búningurinn, fram- setningarmátinn, svo óbrotinn og persónulegur að maður vill ekki hrófla við neinu og allra síst reyna að draga hugsun hans saman í fáeinar setningar. En freistandi er að tilgreina sýnishorn úr verkinu. Kaflinn sem ég vel er úr fyrri hluta verksins sem lýsir ævikjörum og hugsunarbaráttu Brynjúlfs en síðari hlutinn er frum- spekilegri og upphafnari. Framþró- unin í Sögu hugsunar minnar er því í samræmi við kenningu Brynj- úlfs en eindirnar þroskast frá hinu jarðbundna til hins andlega og hreina. Kaflinn lýsir samtali Brynj- úlfs og Páls nokkurs sem undraðist hvernig réttlátur Guð gat látið son sinn saklausan líða fyrir syndir mannanna. Brynjúlfur lýsir orð- skiptum þeirra: „Ég fann, að þetta spursmál sló á samskonar streng í minni sálu; var ég því ekki vel fallinn til að sannfæra aðra. En ég sá líka, að Páll mundi ekki hafa gott af að vita þetta: það mundi auka efa- semdirhans og gjöra hann enn ófar- sælli. Ég þóttist í vanda með svar- ið. Umhugsunartími var enginn. En á sömu stundu var mér eins og blásið í bijóst að spyija hann: „Trúir þú þó að Guð sé til?“ „Já,“ sagði hann, „ég er viss um það, ég fínn að hann leiðir mig hvert spor, og stjórnar öllum mínum kjörum mér til góðs í smáu og stóru.“ „Heldurðu þá,“ spurði ég, „að Guð stjórni því, að við erum hér að tala saman á þessari stundu?“ „Já,“ sagði Páll, „hann stjómar því vissulega." „Heldurðu þá líka,“ spurði ég enn, „að það sé Guðs ráðstöfun, að þér voru kennd þessi trúarbrögð?" Hann svaraði eftir nokkra um- hugsun: „Jú, það hefur hlotið að vera hans ráðstöfun." „Er þá ekki ráðlegast fyrir þig,“ spurði ég nú, „að fylgja þeim trúar- brögðum, sem Guð hefir látið kenna þér? Ætli hann hafi ekki látið kenna þér önnur trúarbrögð, ef þér hefði verið það betra? Er ekki meira vert að lifa eftir þeim, heldur en að bijóta heilann í því, að skilja þá leyndardóma sem í þeim eru?“ Það glaðnaði yfir Páli og hann svaraði: „Þetta er rétt. Ég á að fylgja þeim trúarbrögðum sem Guð hefír látið kenna mér. Ég á ekki að hugsa um það annað. Það er aðalatriðið að lifa eftir þeim.“ Hann fór frá mér ánægður. Hon- um var fullnægt, að minnsta kosti í þann svipinn. Og yfír því var ég líka ánægður. Páll minntist ekki á þetta oftar.“ Vafalítið munu margir sjá hér handbragð predikarans frekar en heimspekingsins. Vert er þó að huga að ýmsu. Öfugt við predikar- ann er Brynjúlfur ekki tilbúinn með lærða eða staðlaða ræðu handa efa- semdamanninum, svarið flýgur honum í hug á staðnum og hann virðist nokkuð undrandi sjálfur. Oft talar hann um eigin hugsun eins og afl sem sé að verki í honum sjálf- um og að hugmynd verði að „leggja sig sjálf“ ef hún á að geta fullnægt honum. Athyglisvert er að Brynjúlf- ur leggur eingöngu spurningar fyr- ir Pál og hin sérkennilega rök- semdafærsla (sem einnig er í spurn- arformi) er sett fram eftir að Páll hefur sjálfur lýst vissu sinni um tilvist og handleiðslu Guðs. Rök- semdafærslan dugar á Pál (sem er nokkuð „kenndur") og eyðir ákveð- inni tegund af efasemdum er virð- ast heimspekilegar en eru í reynd ósamkvæmni - undanfærsla, af- sökun fyrir því að þurfa ekki að lifa í samræmi við leyndardóma eigin skoðana. En það er fleira sem orkar tví- mælis hér. Lesandanum bregður vafalítið í brún þegar hann les næstu setningu á eftir hinum slá- andi orðskiptum Brynjúlfs við Pál en hún hljóðar þannig: „En, satt að segja, var sjálfum mér ekki full- nægt með þessari úrlausn. Efa- semdirnar . .. vöknuðu aftur eftir þetta!“ Eftir að hafa hlustað á eig- in rök og glaðst yfir því að þau fullnægðu Páli viðurkennir hann að þau hafi ekki dugað á sjálfan sig. Er hann að segja að þótt slík rök geti dugað á Pétur og Pál dugi þau ekki á sjálfstæðan heimspeking? Hann er augljóslega að segja að á þessu þroskastigi lífs síns leiti á hann róttækari efasemdir en á Pál. En hann er alls ekki að segja að hann sé hafinn yfír slík trúarleg rök; hann lýsir því ítarlega hvernig hann bældi efasemdir með bæn þegar fyrstu heimspekiskrefin leiddu til diabóliskrar hugleiðingar og efasemda sem aftur leiddu til óróleika og geðveiki. Við bænirnar hafí geðveikin að sama skapi farið batnandi (bls. 9). Ein af mörgum áleitnum spurn- ingunum sem vakna við lestur á þessari perlu bókmenntanna er sú hvort það geti talist heimspekilega rétt að bæla niður efasemdir. Vafa- lítið munu margir telja slíkt heim- spekinni ósamboðið. Skyldu þeir einhvern tíma hafa náð að efast svo rækilega að geðveikin væri næsta skref? Skyldu þeir einhvern tíma hafa verið angraðir og skelfdir „meir en frá megi segja“? Róbert H. Haraldsson Ansans deyða Tímarítið Andblær, tímarit um bókmenntir (7. hefti, ritstjórí Hjörvar Pétursson) er nýkomið út. Geir Svansson hefur kynnt sér efni ritsins sem m, a. hefur það á stefnuskrá að gefa óþekkt- um höfundum tækifæri til að spreyta sig. TÍMARITIÐ Andblær sem nú kemur út í sjöunda skipti hefur (alla tíð haft) þá fögru hugsjón, samkvæmt fororði ritstjóra, að veita „efnilegum, óþekkt- um höfundum færi á að spreyta sig í félagsskap eldri og sjóaðri penna í vönduðu tímariti um bókmenntir". Tímaritið á þannig að „fylla upp í ginnungagapið milli blaða og tímarita sem standa óþekktum skáldum til boða og helstu bókmenntatímarita íslenskra“. Burtséð frá því að það er kannski helstil mikil bjartsýni að ætla sér að fylla upp í heilt ginnungagap þá eru þetta hreint ekki slæmar hugsjónir. En, eins og vitað er, þá er „leiðin til vítis . . . vörðuð góðum ásetningi" og af formála ritstjóra má reyndar ráða að ekki sé allt með felldu I henni paradís. Ég má til með að staldra aðeins við þennan sérkennilega leiðara. Ritstjóri byijar á því að leggja útaf tilvitnun í Opinberun Jóhannesar (13:16-18) þar sem sagt er frá merki dýrsins, þ.e. þess í neðra, og tölu hans 666: nefnilega að strika- merkingar á vörum séu þetta mark djöfulsins. Eitt slíkt risastórt strika- merki prýðir einmitt forsíðu og standist kenningin getur það ekki merkt annað en að Andblær hafi selt sína engilhreinu sál, og það sjálfum djöflinum, segir ritstjóri sjálfur! Þessi „blákaldi veruleiki" segir hann, blasir við „í bak og fyr- ir“. En á baki tímaritsins er einmitt eina auglýs- ing tímaritsins, frá Máli og menningu („Þegar auðga skal andann"). Fyrir margt löngu var Mál og menning bendl- uð við Kommúnisma og Rússagull og þótti mörg- um jafnast á við samskipti við þann i neðra. Nú eru þeir hjá M&M löngu orðnir góðir og gegnir kapítalistar en það er sama hvemig þeir snúa sér: Þá eru þeir bara kenndir við sjálfan myrkra- höfðingjann fyrir að bera aur (í öllum merkingum orðsins) á tímarit bókmennta og hugsjóna. Og það af þiggjandanum sjálfum! Vegna þesarar spillingar er ritstjóri skiljanlega uggandi um þá „hefð sem skapast hefur í kring um útgáfu þessa tímarits" og er „afar heillandi". Honum finnst mikilvægt að Andblær „glati aldrei þeim lífsháska sem skáldið talaði um í denn og einkennir and- ann sem svífur hér yfír vötnum". En, tregar hann, það er ef til vill „tómt draumlyndi að vona að Andblær geti bæði sleppt og haldið sakleysi sínu á þennan máta“. Hvað er á seyði í þessum form- ála? Er þetta mea culpa? Sviknar hugsjónir? Eða var ritstjórinn hug- sjónahreini borinn ofurliði og svikinn af stjórninni sinni (sem er „skipuð afar fögru fólki (yst sem innst)“)? Er hann að skjóta á ritstjórn? Eða, er ritstjóri bara óheppinn í orðavali? Hvað sem því líður er óskandi að ritið haldi áfram að koma út og helst, eins og ritstjóri orðar það, á „sem vægstu verði til að sem flestir geti notið lystisemdanna". Já, „lystisemdirnar". Fyrir utan formála er ekki mikið í þessu hefti tímaritsins sem vekur spurningar. Andblærinn sem stafar af þeim ljóð- um, prósaljóðum, örsögum, sögum og sögubrotum er ekkert sérstak- lega ferskur og reyndar varla að það hreyfi vind. Sumt er skólablaðaskáldskapur og ósköp klént en annað sem gæti sómt sér í stærra samhengi stendur varla eitt og sér. Ljóðin Eftirleikur og Ökuljóð eftir Hjörvar Pétursson og Stundum eftir Bergsvein Birgisson vöktu athygli mína. Framlag Jóhamars olli von- brigðum, er ekki neitt neitt. Örn Úlfar Sævars- son á langminnsta framlagið en ekki það sísta: DNA Sæðisfrumur! Berið komandi kynslóð keðju mína. Frágangur og uppsetning Andblæs er ann- ars til fyrirmyndar. Til að standa undir nafni sem bókmenntatímarit þyrfti Andblær að gera meiri kröfur til þeirra sem leggja fram efni. Það kostar að vísu meiri vinnu, fyrir báða að- ila, en sú vinna kæmi eflaust öllum til góða, ritstjórninni sjálfri, höfundum og, ekki síst, les- endum. Hjörvar Pétursson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.