Lögberg - 01.03.1945, Blaðsíða 4

Lögberg - 01.03.1945, Blaðsíða 4
4 LöGBERG, FIMTUDAGINN, 1. MARZ, 1945 t-----------Xbgtierg--------------------- Gefið út hvern fimtudag af THE COLUMBIA PRESS, LIMITED 695 Sargent Ave., Winnipeg, Manitoba Utanáskrlft ritstjórans: BDITOR LÖGBBRG, 695 Sargent Ave., Winnipeg, Man. Editor: EINAR P. JÓNSSON Verð $3.00 um árið — Borgist fyrirfram The “Lögberg” is printed and published by The Columbia Press, Limited, 695 Sargent Avenue Winnipeg, Manitoba PHONE 21 804 4---------------------------------------— Ræða Flutt við setningu 26. ársþings Þjóðræknis- félagsins af forseta þess, Dr. Richard Beck. Háttvirtu gestir og þingmenn! Góðir íslendingar! í>egar vér, menn og konur af íslenzkum stofni, komum árlega saman á þjóðræknisþing vor, ger- um vér það í nafni ræktarseminnar við ætt vora og erfðir, og jafnframt í þeirri sannfæringu, að með því að varðveita og ávaxta sem bezt og sem lengst hið göfugasta og lífrænasta í menningar- arfi vorum, gjöldum vér drengilegast og varan- legast borgaralega þegnskuld vora. I þeim hei!- brigða og þjóðholla anda hafa þjóðræknisþing vor verið háð í heilan aldarfjórðung, og undir sama merki mun starfsemi félags vors fram- vegis unnin, því að enn stendur stefnuskrá þess í fullu gildi, og verðskuldar sem víðtækastan og heilhugastan stuðning íslenzk-ættaðs fólks hér í álfu. Síðastliðið sumar gerðist einnig sá atburður á Islandi, sem á einstæðan hátt dró athygli manna víðsvegar um lönd að merkilegri sögu og menn- ingu hinnar íslenzku þjóðar — endurreisn hins íslenzka lýðveldis. Eðlilega sló sá sögulegi við- burður á næma strengi í brjóstum Islendinga vestan hafs, eins og fagurlega kom fram í veg- legum hátíðahöldum þeirra á mörgum stöðum, í ræðum og kvæðum á þeirri fagnaðarstundu og í hlýjum kveðjuskeytum til ríkisstjórnar ís- lands og ættþjóðarinnar. Eftirminnilegust verða þau miklu tímamót í sögu íslands þó að sjálfsögðu öllum þeim — og þeir skipta tugum þúsunda — sem áttu því láni að fagna að mega taka þátt í hinum ógleyman- legu hátíðahöldum að Þingvöllum 17. jún 1944. Enginn íslendingur, sem nokkuð verulega þekkir til ævi þjóðar sinnar, gat verið viðstaddur að Lögbergi, þegar lýst var að nýju lýðveldi á íslandi, svo að hann fyndi eigi þyt sögunnar yfir höfði sér. Af þeim sjónarhól — helgistað þjóðarinnar — opnaðist útsýn langt og vítt yfir farinn feril hennar. Og margs var að minnast þessa örlagaríku stund að Lögbergi, óskastund hinnar íslenzku þjóðar. Hugurinn hvarflaði að vonum yfir ald- anna djúp, aftur í tímann til þeirra “frumherja frelsis”, sem landið námu, settu þar allsherjar- þing og þjóðveldi á stofn og lögðu með því þjóðfélagsskipulagi grundvöllinn að auðugu menningarlífi, er bæði aflaði þjóðarinnar víð- frægðar, þá er tímar liðu, og varð henni, sem er enn meira um vert, ylgjafi og orkulind öldum saman, þegar svartnætti erlendrar áþjánar og annara hörmunga grúfðí yfir henni/ Hugurinn staðnæmdist einnig vlð þær hrollköldu myndir úr sögu hinnar íslenzku þjóðar á niðurlægingar- tímabili hennar. En með myrkur þeirra og ömurleika í baksýn, varð það ennþá dásam- legra, að þjóðin skyldi hafa lifað, og ekki ein- ungis það, heldur haldið vakandi hjá sér á öll- um öldum harla miklu menningarlífi. Þessi aldalanga en að lokum sigursæla bar- átta hinnar íslenzku þjóðar gegn erlendri húgun og tíðu ofríki náttúruaflanna er færð í fagran og verðugan orðabúning í þessum erindum úr verðlaunaljóðum Huldu skáldkonu í tilefni af lýð veldishátíðinni: “Þú heilaga jörð með sögu, söng og sólstafi frelsis bjarta, Hve örlög þín síðar urðu ströng við ánauðarmyrkvann svarta. Sem djúpsærð hetja þú varðist varg, með vordraumsins ljós í hjarta.” “Og aldir liðu með álög mörg. — En eilíf er frelsisþráin, sem nam okkar land við brim og björg og blessaði skipgengan sjáinn. Hún geymdi sín vé og hof og hörg unz harðstjórn og fals voru dáin.” Jóhannes skáld úr Kötlum tók snjallt í sama streng í verðlaunakvæði sínu, er hann segir: “Þegar svalt við Sökkvabekk sveitin dauðamóða. kvað í myrkri um kross og hlekk kraftaskáldið hljóða. Bak við sára bænarskrá bylti sér hin forna þrá, þar til eldinn sóttu um sjá synir vorsins góða.” Þessvegna varð án efa efst í hugum flestra fagnaðarstundina langþráðu að Lögbergi þakklát minningin um þá alla, sem aldrei sloknaði í brjósti heilög glóð frelsisins og héldu henni lifandi hjá öðrum, minningin um forystumenn- ina djörfu og glæsilegu, sem sagan geymir gullnu letri á spjöldum sínum, og einnig minn- ingin um þúsundirnar mörgu, sem sagan kann eigi lengur að nefna, en engu að síður börðust sinni hraustu frelsisbaráttu og áttu því sinn fulla þátt í endurreisn lýðveldisins. Bjart var um þá alla, karla og konur, í þakklátri minningu þjóðarinnar, þegar aldagamall og hjartfólginn frelsisdraumur hennar rættist að fullu. Þess- vegna voru eftirfarandi ljóðlínur úr lýðveldis- Ijóði Kolbeins Högnasonar talaðar beint út úr hjarta þjóðarinnar: “Vér blessum menn, er lengi þetta þráðu, — sem þorðu slíkt, þó gætu ei annað neitt. Vér blessum þá, sem þessu fyrir spáðu, þó þeirra máli yrði ei tilheyrn veitt. Vér blessum þá, er þunga stríðið háðu — en þoldu pústra, smán og spottið eitt. Vér blessum þá, er þessu marki náðu — er þetta mál til sigurs gátu leitt.” Sem menn og konur af íslenzkum stofni og hluthafar í íslenzkum menningararfi tökum vér heilum huga undir þann þakkaróð, minnug þess, að það er ekki lítils virði, að eiga að ætternis- legum og menningarlegum bakhjalli slíka sögu- lega arfleifð, vilji menn leggja það á sig að til- einka sér hana að einhverju leyti, skilja hana og meta. Hinar fjölmörgu hlýju hátíðarkveðjur og heillaóskir, sem ríkisstjórn Islands og þjóð bár- ust frá útlöndum í tilefni af lýðveldisstofnun- inni, vitnuðu einnig um víðtækan og varanlegan skerf ættþjóðar vorrar til heimsmenningarinnar, og þá sér í lagi á sviði lýðræðislegs þjóðskipu- lags og í heimi bókmentanna. Ágætt dæmi þess er kveðja sú til Islendinga, sem hinn kunni norski fræðimaður, prófessor A. H. Winsnes, sendi þeim, og hófst á þessa leið: “Allur hinn mentaði heimur stendur í þakkar- skuld við íslenzku þjóðina, sendir henni þakkir 17. júní, er Islendingar komu í röð alfrjálsra þjóða. Fyrir þúsund árum var stofnað þjóðfélag á íslandi, sem ól í sér frjóanga þess lýðríkis, sem harðstjórn Þjóðverja, hið svonefnda germanska eða norræna Þýzkaland, leggur í dag fram allan mátt sinn til þess að eyða. Á Islandi þróaðist andleg menning, orðlist og bókmentalegar erfða- venjur svo frjóvgandi og sérstæðar, að íslenzk menning fékk alveg einstæð sérkenni, með svo skapandi afli, að hún varð ómetanleg evrópiskri menningu. Framar öðrum standa norrænar þjóðir í þakk- arskuld við Islendinga, og Norðmenn fremur öðrum frændþjóðum. Island hefir gefið norsku þjóðinni svo mikla andlega næringu, að við naumast getum hugsað okkur Norðmenn sem sjálfstæða þjóð án hinna íslenzku áhrifa. Andreas Munch hafði rétt fyrir sér, er hann í kvæði til Islands, sem nú er nálega 100 ára, talar um “lífsafl fyrir komandi daga”, sem varð- veitt var á Islandi.” Drengilega mælist hinum norska fræðimanni í garð íslenzku þjóðarinnar. Og það eru eigi aðeins frændur vorir Norðmenn, sem hafa sótt andlega næringu í nægtabrunn íslenzkra sögu- og menningarerfða. íslendingar sjálfir hafa þangað sótt á liðnum öldum “lífsafl fyrir kom- andi daga”, og enn er þar að finna andlegan vængjaþrótt og eggjan til dáða. Sýningin úr frelsis- og menningarbaráttu ís- lendinga, sem haldin var í sambandi við lýð- veldishátíðina, og efnt var til beinlínis með því markmiði að draga athygli þjóðarinnar sjálfrar að sögu hennar og arfleifð, náði einnig ágætlega þeim lofsverða tilgangi sínum. Enginn, sem hafði augun sæmilega opin, gat gengið svo um sýning- arherbergin, að hann sæi eigi í skýrara ljósi heldur en áður, hversu óvenjulega merkilegur og einstæður um margt farinn ferill hennar íslenzku þjóðar er í raun og veru, og hversu menningar- og framsóknarviðleitni hennar, löngum við hin kröppustu kjör, er aðdáunar- vert fyrirbrigði í menningarsögu heimsins og börnum íslands hvarvetna stöðug lögeggjan til frjósamra fremdarverka. Ekki var það heldur nein tilviljun eða út í hött, að þeir ágætu og fróðu menn, sem undir- búið höfðu þessa sögulegu sýningu, höfðu valið henni heitið frelsi og menning. Því að eins og þeir lögðu réttilega áherzlu á í formálsorðunum að sýningarskránni og eg hefi annarsstaðar vik- ið að, þá er saga íslands talandi tákn þess, að blóm menningarinnar vex aldrei nema úr jarð- vegi frelsisins. Skin og skuggar skiftast á í sögu hinnar íslenzku þjóðar, fjölskrúðugt menningar- og athafnalíf eða fábreyttara, eftir því hversu mikils frelsis hún naut á hverjum tíma. Sama máli gegnir vitanlega um aðrar þjóðir heims; frelsið er fjöregg menn- ingarinnar. Segja má því með sanni, að lýðveldishátíðin hafi eigi aðeins dregið athygli umheimsins að merkilegri sögu og menningu hinnar íslenzku þjóðar, heldur hafi hátíðin jafnframt' glöggvað skilning þjóðarinnar sjálfrar á menningararfi hennar og hlut- verki. Mætti það einnig verða oss íslendingum í landi hér á- minning um það, að þau sögu- og menningarverðmæti, sem vér höfum að erfðum hlotið frá ætt- jörðinni eiga ennþá “Mátt, er skapar virðing allra þjóða”, eins og Hulda skáldkona orðaði það heppilega í kvæði sínu “Hugsað vestur”, sem ort var til íslend- inga hérna megin hafsins í til- efni af lýðveldishátíðinni, og er hvorttveggja í senn drengileg kveðja og fögur. Sálarrætur vor allra, sem ís- lenzkt blóð rennur í æðum, liggja djúpt í mold og menning- ar-jarðvegi ættjarðar vorrar; þessvegna fórust Jóhannesi úr Kötlum bæði fagurlega og vitur- lega orð um hin nánu tengsl manns við ættlandið er hann seg- ír í fyrnefndu hátíðarkvæði sínu: “ævi vor á jörðu hér brot af þínu bergi er, blik af þínum draumi.” Af ræktarsemi við ætternisleg an uppruna sinn og af hollum trúnaði við menningarerfðir sín- ar hefir fjöldi fólks af íslenzkum stofni í landi hér lagt starfsemi Þjóðræknisfélagsins lið undan- farinn aldarfjórðung; og enn á félagið djúpstæð, og áreiðanlega sumstaðar vaxandi ítök í hugum fjölmargra íslenzkra manna og kvenna víðsvegar um þessa álfu, sem unna og vinna málstað þess og skilja hvert menningarlegt tap það er og ófrjótt til einstaklings- þroska að slitna úr sambandi við uppruna sinn og láta menningar- verðmæti sín fara forgörðum. Með einlægum sögnuði minn- umst vér hinna ágætu félags- syjstkina, sem horfið hafa úr hópnum á árinu út í móðuna miklu. Má þar fyrst telja tvo heiðursfélaga Þjóðræknisfélags- ins, þá dr. B. J. Brandson og dr. H. C. Thordarson, sem afburða- menn voru hvor á sínu sviði og borið höfðu víða hróður þjóð- stofns vors. Aðrir félagsmenn og konur, sem fallið hafa frá á ár- inu, eru þessir, eftir því, sem mér er kunnugt um: Þórður Bjarnason, Selkirk, Ás- björn Eggertson, Winnipeg, Jón Sigfússon Gillis, Brown, Pálína Guðlaug Goodman, Wynyard, Ingibjörg Thordarson, Selkirk, Thorgils Thorgeirsson, ævifélagi, Winnipeg, Björn Sæmundsson Líndal, Winnipeg, Björn Methu- salemsson, Ashern, Málfríður Einarsson, Hensel, N.-D., Sigurð- ur Bjarnason, Winnipeg, Jónas Kristján Jónasson, Winnipeg, Inga Thorlákson, Calgary, Alta, Magnús Snowfield, Seattle, Wash., Sigmundur Laxdal, Blaine, Wash., Bjarni Jones, Minneota, Minn., Thorlákur Thorfinsson, Mountain, N.-Dak., Eiður Johnson, Selkirk, Goð- munda Þorsteinsson, Winnipeg. í þessum hóp voru menn eins og Thorlákur Thorfinnsson, Sig- mundur Laxdal, Jón Sigfússon Gillis, sem verið höfðu árum saman forystumenn þjóðræknis- deildar sinnar og jafnan reiðu- búnir að vinna málstað vorum gagn. Svipuðu máli gegnir um aðra í hópnum, og eftirsjá er að þeim öllum úr fækkandi fylk- ingu eldri kynslóðar vorrar, sem grundvöllinn lagði að félagslegri starfsemi vorri á ýmsum svið- um. Þökkum vér þeim öllum samstarfið í þágu vorra sameigin legu áhugamála og tjáum skyld- mennum þeirra einlæga hlut- tekning vora. Heiðrum svo minn- ingu vorra föllnu samherja með því að rísa á fætur. Útbreiðslumál. í útbreiðslumálunum er það fyrst og ánægjulegast til frásagn- ar, að stofnuð var á árinu (28. maí s. 1.) fjölmenn þjóðræknis- deild í Blaine, Wash. Er það sér- staklega að þakka áhuga og öt- ulli viðleitni séra Alberts E. Kristjánsson, fyrrv. forseta félags vors og umboðsmanni þess á vesturströndinni, ásamt góðum stuðningi annara áhrifamanna og kvenna á þeim slóðum, sem vel- viljaðir eru félagsskap vorum, eins og lýsir sér í embættis- mannavali hinnar nýju deildar: Forseti séra A. E. Kristjánsson; vara-forseti, M. G. Johnson; rit- ari, séra G. P. Johnson; vara- ritari, Mrs. G. P. Johnson; fé- hirðir, Andrew Danielson; vara- féhirðir Sveinn Westford; fjár- málaritari H. S. Helgason, og skjalavörður Gestur Stephans- son. Jafnframt því er eg býð deildina velkomna í félagið og óska henni nytjaríkrar starfsemi og langra lífdaga, vil eg í nafni stjórnarnefndar og félagsfólks í heild sinni þakka innilega öll- um þeim, sem hér hafa drengi- lega að verki verið. Þá hefir verið hafinn nokkur undirbúningur að stofnun þjóð- ræknisdeildar að Lundar, og eru allar líkur til þess, að það megi takast, ef vel er á þeim málum haldið. Allmargir einstaklingar hafa og gengið í félagið á árinu. Sérstakur og einstæður þáttur í útbreiðslustarfinu síðastliðið starfsár var koma dr. Sigurgeirs Sigurðssonar, biskups íslands, en hann heimsótti íslenzkar byggðir beggja megin landamæranna og flutti erindi á samkomum margra deilda félagsins, þó hann gæti eigi, vegna takmarkaðrar ferða- áætlunar sinnar, komið eins víða og hann eða stjórnarnefnd félags ins hefði kosið. En hvar sem hann kom, vann hann þjóðræknismál- um vorum og íslenzkum félags- málum í heild sinni hið mesta gagn, beint og óbeint, laðaði hug manna að íslandi og íslenzkum menningarerfðum og kveikti vafalaust hjá mörgum nýjan á- huga fyrir þeim málum. Forseti félagsins hefir á árinu heimsótt deildir þess í Árborg, Winnipeg, Selkirk, Norður- Dakota og að Giinli, og flutt er- indi á samkomum þeirra, sum- staðar oftar en einu sinni. Síðan hann kom úr íslandsförinni, hef- ir hann einnig, auk ræðunnar á Islendingadeginum að Gimli, flutt yfir 20 ræður og erindi um ferð sína, á íslenzku og ensku, í Manitoba, Norður Dakota, Minnesota, og var tveim þeirra útvarpað. Hann hefir ennfrem- ur ritað greinar um lýðveldis- hátíðina og íslandsferðina bæði á íslenzku, ensku og norsku, að ótöldum blaðagreinum og bréf- legum kveðjum um þjóðræknis- málin sjálf. Sjálfsagt er einnig og meir en verðugt að geta þess í sambandi við útbreiðslumálin, að Þjóð- ræknisfélagið átti sinn drjúga þátt í hinu veglega hátíðahaldi í Winnipeg 16. júní í tilefni af lýðveldisstofnuninni, en formað- ur allsherjarnefndar þeirrar, sem að því hátíðahaldi stóð, og sam- komustjóri var séra Valdimar J. Eylands, vara-forseti félagsins; Guðmann Levy, fjármálaritari félagsins og frú Ingibjörg Jóns- son, vara-ritari þess, áttu einnig sæti í þeirri nefnd, en ritari hennar var frú Hólmfríður Danielson, forseti sambandsdeild arinnar “Icelandic Canadian Club”; einnig var Jón J. Bíld- fell, fyrrv. forseti félagsins og þá- verandi forseti Þjóðræknisdeild- arinnar “Frón” í umræddri alls- herjarnefnd. Margar aðrar deildir félags- ins efndu einnig til sérstakrar fagnaðarhátíðar í tilefni af end- urreisn lýðveldisins eða áttu þátt í slíkum hátíðahöldum á sínum slóðum, enda gat eigi fegurra eða tímabærra þjóðræknisverk á liðnu ári. Islenzkir menn og kon- ur í landi hér munu og almennt hafa verið sér þess sterklega meðvitandi á þeim tímamótum, að sigur stofnþjóðarinnar ís- lenzku væri þeirra sigur; henn- ar sómi þeim sjálfum sæmdar- auki. En deildir félagsins, flestar þeirra að minnsta kosti, hafa verið starfandi með ýmsum öðr- um hætti en að nefndum hátíða- höldum, eins og skýrslur þeirra munu bera.vott, þrátt fyrir mann fækkun á mörgum stöðum og önnur vandkvæði, sem við er að glíma. Islenzkukennslu deildanna verður síðar getið, en sumar þeirra hafa hafist handa um til- breytrii í starfseminni, sem vert er að benda á, öðrum til fróð- leiks og hvatningar. Deildin “Esjan” í Árborg, en forseti henn ar er frú Marja Björnsson, hefir t. d. efnt til vísnasamkeppni, sem vel hefir gefist, bæði verið til skemmtunar á fundum og hefir einnig menningargildi. Sama deild hóf fyrir nokkru útgáfu fjölritaðs byggðablaðs, sem fjall- ar um ýms félagsmál, og er það einnig athyglisverð nýbreytni. Ritstjórn blaðs þessa hefir með höndum Valdi Jóhannesson með aðstoð þeirra frú Herdísar Eiríks son og dr. S. E. Björnsson, vara- fjármálaritari félagsins. Þá hefir sambandsdeild félagsins í Seattle en forseti hennar er Kolbeinn S. Thordarson vara-ræðismaður, tekið sér fyrir hendur það þarfa verk að safna á þeim slóðum efni til Sögu íslendinga í Vestur- heimi. En þrátt fyrir það þó óhætt muni mega segja, að deildirnar hafi yfirleitt haldið furðu vel í borfinu á árinu, þegar litið er á núverandi aðstæður, ber félaginu að hlynna sem mest og best að starfi þeirra á komandi ári og árum, bæði með heimsóknum stjórnarnefndarmann^ eða ann- ara þar til kjörinna fulltrúa, og með hverjum öðrum hætti, sem framhaldsstarfi deildanna má helst að gagni koma. Markviss og sem víðtækust útbreiðslustarf semi er og verður lífæð félags- ins. Frœðslumál. Maklegt er, að þar verði að þessu sinni efst á blaði fræðslu- starfsemi sú í íslenzkri tungu, sögu íslands og bókmenntum, sem “Icelandic Canadian Club” hóf hér í Winnipeg á síðastliðnu hausti, í samráði og samvinnu við Þjóðræknisfélagið, því að þar er bæði um tímabært og mikil- vægt nýmæli að ræða, sem vel hefir gefist og hlotið verðugar undirtektir almennings. Formað- ur nefndar þeirrar, sem stendur að fræðslustarfsemi þessari, og forstöðukona námskeiðsins, er frú Hólmfríður Danielson for- seti “Icelandic Canadian Club”, en auk hennar eru þessir í nefnd- inni: Séra Halldór E. Johnson og W. S. Jónasson, fyrir hönd “Icelandic Canadian Club”, og frú Ingibjörg Jónsson og Vilborg Eyjólfsson kennslukona, af hálfu Þjóðræknisfélagsins. Ýmsir, bæði menn og konur, hafa góðfúslega stutt fræðslustarfsemi þessa með fyrirlestrahöldum um íslenzk efni, en íslenzkukennsluna ann- ast þær frú Hólmfríður og Salome Halldósson kennslukona. Hefir hér verið stigið þarft og sérstaklega þakkarvert spor 1 þjóðræknisstarfsemi vorri. Þá hefir Þjóðræknisfélagið eins og að undanförnu haldið uppi kennslu í íslenzku fyrir börn á Laugardagsskóla sínum, og notið þar sem fyrri hinna ágætustu kennslukrafta. Er frú Ingibjörg Jónsson skólastjóri, en meðkennarar hafa verið frú Gyða Einarsson, Vilborg Eyjólfsson, kennslukona, frú Fred Bjarna- son og ungfrú Vordís Friðfins- son. Hefir aðsókn verið sæmi- leg, eða svipuð og í fyrra, en ætti þó alls vegna að vera stór- um betri, þar sem hér er um að ræða einstætt tækifæri til ís- lenzkunáms og fræðslu ókeypis í tilbót. Ásmundur P. Jóhanns- (Frh. á bls. 5)

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.