Lögberg - 23.07.1953, Blaðsíða 6

Lögberg - 23.07.1953, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 23. JÚLÍ, 1953 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF „Ojá, það var nú mitt mikla ólán, að hún varð ekki mín. En alltaf verður hún þó „vina mín í veröldinni", eins og stendur í vísunni," sagði Erlendur raunalegur á svip. „Gengur ekki hjónabandið ágætlega?" spurði Jón. „Það gengur svona þrautalítið á milli okkar hjómanna. En það er alltaf þessi sami logandi eldur milli Helgu og kerlingar- vargsins, og svo þegar þær rífast sem mest, spyr karlskrjóðurinn, hvort þær ætli nú virkilega að fara að rífast. Þvílíkt andskotans heimilislíf, kunningi. Og aldrei ætla þau að hrökkva upp af þau gbmlu. Ég á víst að fá að lifa við þetta ævina út.“ „Alveg er ég hissa, hvernig þú getur talað um foreldrana þína, Elli,“ sagði Jón alveg undrandi. „Ojá, jæja, karl minn. Ætli þér hefði þótt mikið í þína for- eldra varið, ef þú hefðir ekkert við þau að virða, nema það, að þú komst í heiminn fyrir þeirra gerðir og svo sífellda barsmíð og skammir alla ævina út. Karlinn reiðir upp hramminn ennþá, ef hann verður vitlaus. Hvernig á að láta sér þykja vænt um svo- leiðis skepnur,“ sagði Erlendur. Jón hristi höfuðið. „Svona foreldrar ættu ekki að eiga börn.“ „Það er líka það, sem ég er hissa á, að svona fólki er trúað fyrri börnum. En góðum foreldrum eins og þínum verður ekki auðið nema eins barns. Þessum þó líka foreldrum. En það er svo margt, sem maður skilur ekki. Náðu þarna í flöskuna mína, Tommi. Ég held það sé eitthvað í henni ennþá. Ekki veitir af að hressa sálina.“ Tommi gerði eins og hann var beðinn. Það var svolítill dropi neðan í flöskunni. Erlendur tók við henni og hristi hana til. „Það er rétt bragð. Þú verður með, góða,“ hann rétti hana að Þóru. „Nei, nú smakka ég ekki meira.“ Þeim veitti líka létt að ljúka því, sem eftir var. „Nú syngjum við „Á grundinni tvö ein við gengum,“ sagði Erlendur. „Það á svo vel við.“ Strákarnir komu þeysiríðandi framan eyrarnar og fram í þokubeltinu sást Sigurður koma brokkandi á Rauð. „Þóra,“ kallaði Jói. „Má ég ekki fara upp í Fossagil og sjá hrafnshreiðrið með honum Sigga?“ „Ef þú ferð varlega," svaraði hún. Jón horfði hálfkíminn á reiðmanninn, sem kom framan eyrarnar. „Hann ætlar að sprengja klárinn fyrir þér vinnumaðurinn þinn.“ „Nei, honum er vel lánandi hestur,“ svaraði hún með hálf- gerðum vandræðasvip. „Allir eru þeir svipaðir hver öðrum þeir Ströndungar, hjakka og saga eins og á þóftu á klárnum,“ sagði Erlendur. Hann veifaði flöskunni og kallaði til Sigurðar, þegar hann hélt að hann heyrði til hans: „Komdu af baki Strandaglópur og fáðu þér víntár með okkur eins og hver annar almennilegur maður.“ Sigurður stanzaði hestinn og kallaði til Þóru: „Verður þú með heim?“ „Ég þarf að hugsa um drengina frá Hjalla,“ svaraði hún. „Nú, mér hefur nú sýzt þú hugsa lítið um þá hingað til," sagði hann kaldhæðinn. „Víst hef ég gert það nema þennan síðasta sprett. Ég bíð eftir þeim,“ sagði Þóra stutt. Hvað skyldi honum koma það við, hvort hún hugsaði um þá eða ekki. „Komdu af baki kunningi og seztu hjá okkur, þeir koma bráðum,“ sagði Jón. „Ég skal lofa þér að sitja við hliðina á Þóru, svo þú verðir ánægður." „Ég spilli bara ýkkar fína selskap," sagði Sigurður með sama hæðniskuldanum og áður. Svo sló hann í Rauð og reið í burtu. Erlendur kvað hástöfum og Tommi tók undir. „Hver, sem ekki elskar vín, óð né fagran svanna, verður alla ævi sín, andstyggð góðra manna. „Skamm^rlega látið þið við manntetrið, sem þið þekkið ekkert,“ sagði Jón, en glotti þó að þeim. „Hann þarf að heyra, hvaða álit við höfum á honum,“ sagði Erlendur. „En það er eðlilegt, að honum sárni að sjá okkur sitja svona aldeilis uppi í fanginu á Þóru.“ „Hvað skyldi honum koma það við,“ sagði Jón. „Eða er hann nokkuð farinn að manga til við Þóru? Aha, þú ert bara kafrjóð. Nú er mér nóg boðið. Er hann búinn að biðja þín, þessi rauðkollur? Ég vonast til, að þú lítir ekki á hann.“ „Ég hef áður sagt þér að spara þér alla fyrirhöfn mín vegna,“ sagði hún þurrlega. „Það væri miklu betra fyrir þig, Þóra mín, að lofa okkur Jóni að hafa í seli hjá, en skipta þér af honum. Þú hlýtur að hafa heyrt, að það er betra að vera góðs manns frilla, en gefin illa,“ lagði Erlendur til málanna. Þóra hóf svipuna á loft fyrir framan hann. „Ef þú þegir ekki rækallans dóinn þinn, skal ég lemja þig í snjáldrið,“ sagði hún reið. „Ekki svona uppstökk, góða. Þú veizt, að þetta er eins og hvert annað spakmæli, gullvægur sannleiki. Hann hló hátt og ógeðslega. „Tommi,“ kallaði Jón. „Náðu í flösku úr töskunni, það verður að sætta þau með svolitlum dropa.“ „Nú hafðirðu þær tvær með þér, vinur. Ári ertu alltaf góður. Þú hefðir ekki haft nema eina hefði pabbi þinn verið með í förinni,“ hrópaði Erlendur kátur. „Hamingjunni sé lof, að hann sefur heima, en við erum frjáls og frí fjallborg helgri luktir í.“ Tommi kom með flöskuna og rétti Jóni hana. Hún var stútfull. Nú fór Þóru ekki að lítast á blikuna. „Þú fyrst,“ sagði Jón og fékk Þóru flöskuna eftir að hafa tekið tappann úr. Hún tók við henni báðum höndum. „Vertu nú svo góður, vinur minn, að lofa mér að geyma þessa flösku, þangað til við skiljum. Þið megið alls ekki drekka meira,“ bað hún. „Nei, nú máttu ekki vera ráðrík við njig. Til þess fór ég með L flöskurnar að gleðja mig á þeirra ágæta innihaldi. Þú þarft ekki að kvarta yfir því, að hann drekki þessi ráðsmaður eða vinnu- maður, eða hvað hann verður. Smakkaðu sjálf, og láttu okkur svo fá hana.“ „Helltu því bara ofan í hana,“ kallaði Erlendur, hann var farið að langa í sopa. „Nei, svoleiðis haga ég mér ekki við kvenfólk" „Þú þarft þess ekki, déskptans segulstálið þitt, þær eru ekki tregar við þig,“ drafaði í Erlendi. „Mikið hafði ég gaman af að sjá til ykkar, þegar þið voruð að láta inn ærnar þarna veturinn góða, — já, það er óhætt að nefna hann það. Ansi voruð þið nú lengi að gefa á garðann, ha, ha. Ég segi það hafi verið gaman. En það er hreystiorð, -bara hreystiorð, það var ekki sársaukalaust fyrir mig, einmitt þegar ég var í sárum. Ekki var nú ómögulegt, að hún hefði litið við mér, ef þessi „stóra sól hefði ekki verið á loftinu.“ / „Fjandinn hafi ruglið úr þér, Elli,“ sagði Jón. „Þú færð ekki leka, ef þú heldur þér ekki saman." Þóra henti flöskunni svo langt sem hún kom henni, greip svipuna og reigsaði burtu. „Nei, farðu ekki, Þóra mín!“ kallaði Erlendur. „Ég ætlaði ekki þig að styggja.“ — En hún var komin í söðulinn og sló duglega i Mósa. Hún heyrði hrópin og köllin á eftir sér: „Við náum þér áreiðanlega, áður en þú nærð honum, þessum Strandalubba. Vertu viss, að við þolum ekki svoleiðis skussum að taka frá okkur daladrósirnar okkar. Við komum, þegar við erum búnir að gleðja okkur á flöskunni. Heyrirðu það!“ .Þ’á verða þeir orðnir kurteisir,“ hugsaði hún og keyrði hestinn sporum. Hún sá til Sigurðar út undir Klifinu, og var alveg hissa, hvað hann gat þrælað hestinum áfram. Bara að hún gæti náð honum, þá var henni sama, hvernig hann sæti hestinn og léti hann hluntfast áfram. Þau riðu bara heim, og hún skyldi ekki fara í útreiðartúr, hvorki lambarekstur eða annað. En hann leit aldrei við, áður en hann hvarf út fyrir Klifið. Nú heyrði hún líka að riðið var á eftir sér, og hún reyndi að herða ennþá á hestinum, en það þýddi ekki að ætla sér að hafa Fálka sem eftirbát lengi. „Þú máttir nú vita það, væna mín, að ég næði þér áður en þú kæmist til hans. Það er þó líklega ekki ætlan þín að fara að taka saman við hann — deila við hann, þennan rauðskussa. Þá skaltu svei mér eiga mig á fæti. Heldurðu kannske, að faðmlög hans séu eins hyý og góð og mín — þessa drumbs, sem kreistir börnin, svo þau gráta undan honum. Nei, góða mín, þú varst trúlofuð mér fyrst þegar við vorum krakkar, og þú áttir að vera kærastan mín alla ævina — svona — eins og Elli sagði áðan. — En þér féll það ekki vel. Samt er það satt —“ „Þegiðu! eða ég skal fara heim til þín og klaga þig fyrir Önnu og foreldrum þínum, þegar ég ríð fyrir neðan. Sigurður er mikið betri en þú. Hann drekkur ekki frá sér vitið og hagar sér eins og dóni, eins og þið hafið gert í nótt.“ „Ó, það þýðir ekkert fyrir þig að vera að hóta klögun. Þú varst ekki svo lítilþæg, þegar þú varst krakki, að þú gætir verið að klaga mig — þó kvaldi ég þig oft, satt var það, en það var af því þú vildir aldrei láta undan mér, þrákálfurinn þinn. En varla yrði hann liprari við þig þessi undanvillingur, sem ekki vill gleðja sig með almennilegu fólki.“ „Hann er mkið betri en þið,“ endurtók hún til að stríða honum. „Samt þótti þér leiðinlegt, að hann þáði ekki vínið, og vildi ekki syngja með fram hjá grasakofanum." „Þótti mér leiðinlegt? Nei, langt í frá.“ „Þú slærð nú ekki upp í augun á mér, vinkona. Ég sá, að þú skammaðist þín fyrir þennan úlf, sem þú hefur flutt hingað fram í dalinn,“ sagði hann og hló dátt. Þau hægðu ferðina, meðan þau jöguðust. „Ég skipa þér að skipta þér ekkert af mér eða mínu heimili,“ sagði hún æst. „Jú, það geri ég einmitt. Ég hef ætlað mér að gifta þig góðum manni, því alltaf þykir mér vænt um þig, þó þú sért vargur, manni, sem getur umborið þína stóru lund.“ „Ég skal aldrei fara að þínum ráðum, heldur þvert á móti.“ „Fjandans stórmennskan í þér, hún er alltaf jafn mikil.“ Erlendur hafði barizt um á hestinum og var nú búinn að ná þeim. Tommi hafði týnt ístaðinu frá hnakknum og var því ekki með honum. „Við þig þarf ég að tala, Þóra mín,“ drafaði Erlendur, þegar hann reið fram með hliðinni á Mósa. „Þú átt víst ekkert ósagt við mig,“ svaraði hún vonzkuleg. „Ég vil ekki hlusta á eitt einasta orð, sem þú segir, enda ertu orðinn svo loðmæltur, að það er varla hægt að skilja þig.“ ,/Það er svo margt, sem ég þarf að segja þér. Ég ætlaði ekki að styggja þig áðan, þú ég fleipraði þessu fram úr mér, þig, sem ég elskaði eins og lífið í brjóstinu á mér. En Helgu hef ég aldrei elskað, sjáðu það var bara þetta, hún vildi endilega giftast, — skrökvaði að mér, að hún væri ólétt — að hún væri ekki einsömul sem kallað er. — Sko það var bara hennar slægð —*• eins og þú getur séð, þar sem drengurinn fæddist fyrst á þessu ári.“ „Mér kemur það ekkert við, þó hún gangi með í tvö ár,“ svaraði Þóra, jafn afundin og áður. „Nei auðvitað ekki — en þetta voru eins og hver önnur svik. og ekkert annað. En það get ég sagt þér, að ég hef aldrei sagt nokkrum manni frá þessu, sem ég sá til ykkar Jóns. — Ekki einu sinni henni, sem er þá mín lögleg eiginkona bæði fyrir Guði og mönnum. Nei takk! ekki einu sinni henni, það var af því ég elskaði þig, góða.“ „Það hefði nú líka verið sama og setja það í blöðin,“ gegndi Jón fram í. „Því Helga er með þeim ósköpum fædd, að það rennur allt upp úr henni jafnóðum og hún heyrir það. Ég á við fréttir. Það var nú meira, hvað þú gazt tekið niður fyrir þig,‘ Elli, þegar þú giftist henni.“ „Engan hef ég nú heyrt tala um það nema kerlingarvarginn hana móður mína. En hitt heyri ég og hef heyrt nú upp á síð- kastið um alla sveitina, já, sko hverja lifandi sál tala um það, hvað hann ríki Jón á Nautaflötum tók niður fyrir sig, þegar hann giftist allslausri ungstelpu, dóttur fjárglægraræfils og sjálfsmorð- ingja. Það var þó maður, sem gat valið úr stúlkunum; hann þurfti ekki að óttast hryggbrot eins og við hinir fátæklingarnir," svaraði Erlendur og gaf vini sínum innkvittnislegt hornauga. „Hverng dettur þér í hug að fara með svona svívirðilega lýgi,“ sagði Jón alveg hissa. >yÞetta er engin lýgi. Það vita allir hvers konar maður tengda- faðir þinn var, nema ef þú hefir verið leyndur sannleikanum, sem mér þykir ólíklegt. Spurðu Þóru, spurðu alla hérna í dalnum aðra en konuvesalinginn þinn.“ Þóra reyndi að þagga niðri í honum. En hann hugsaði ekki um neitt annað en kveljá Jón. „Friðrik kaupmaður dó utanlands,“ svaraði Jón næstum með óeðlilegri stillingu. „Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann tala um, að dauði hans hafi verið neitt voveiflegur. Það er víst slúður- skjóðan hún móðir þín, sem ber þetta út , ef þú gerir það ekki sjálfur.“ Þóra sló svipuólinni yfir herðarnar á Erlendi. „Alltaf getur þú verið að koma á stað illindum. Hvað ertu eiginlega að þvaðra um það, sem þér kemur ekkert við.“ En með sjálfri sér fann hún til ánægju yfir því, hvað Jóni myndi svíða undan orðum hans. „Ég veit að vel, að foreldrar þínir lögðu blátt bann við, að nokkur minntist á það á heimilinu vegna Önnu, af því hún var nú þessi dauðans aumingja ræfill. En sannleikurinn er nú þessi, að hann hengdi sig nóttina eftir að konan hans var jörðuð og gekk svo rækilega aftur, að enginn maður getur sofið í kamelsinu síðan. — Nei, það er vitleysa hann skaut sig. Það var faðir hans, sem hengdi sig, það er alveg rétt. Og þetta tekurðu svo inn í gamla heiðarlega ætt, hálfvitlaust drápgirnisdót.“ „Lygari!“ hrópaði Jón. ,jÞessu skaltu fá að kingja með blóði þínu.“ „Skyldi ég ekki fara að láta þig taka mér blóð, fyrir að segja þér sannleikann, sem enginn hefur þorað að segja þér fyrr.“ „Ætlið þið að enda samdrykkjuna með því að fara að rífast?“ spurði Þóra. Henni fór nú ekki að lítast á. Tommi lét ekki sjá sig. Hún var ein með þeim drukknum og reiðum. Eina bótin, að þau voru nú komin að vegamótum fyrir neðan Nautaflatir. „Hann var að hnjóða í Helgu. Annars hefði ég látið hann í friði,“ sagði Erlendur, svo sem eins og sér til afsökunar. „Mér heyrist þér ekki vera svo hlýtt til hennar, að þig taki þáð sárt,“ sagði hún. „Alltaf skaltu snúast á sveifina með honum, en móti mér,“ sagði hann gramur. „Hversu skammarlega sem honum ferst við þig. Þér hefði verið nær að taka mér. Ég ætlaði ekki að bjóða þér nema allt það heiðarlegasta, bezta og blíðasta, sem ég átti til, en hann hafði það eitt í huga að skemmta sér við þig — fram hjá kærustunni, því aldrei nægir honum minna en tvær, þrjár.“ „Hér skiljast leiðir,“ sagði Þóra fegin, hún bjóst við, að Jón færi heim til sín og þrætan væri á enda. „Nei, ég á eftir að þakka honum fyrir ummælin, sem hann hafði um hann tengdaföður minn, áður en við skiljum,“ sagði Jón reiður. Þóra sló í Dreyra, hann hentist út eyrarnar, en greip í tauminn á Fálka og stýrði Mósa heim að Nautaflötum. „Ég skal fylgja þér alla leið inn að rúmstokknum til konunnar, ef þú lætur strákasnann í friði,“ sagði hún. „Fylgja mér! Þar er þér rétt lýst, ráðríkisvargurinn þinn. Þú heldur, að ég láti þig teyma undir mér eins og smákrakka, nei, þér er óhætt að taka af þér skóna, áður en þú veður ofan í mig eða yfir höfuðið á mér. Ég hef hugsað mér að hafa sjálfur taum- haldið bæði nú og endranær." Hann kippti svo harkalega í taum- ana, að hún var nærri dottin úr söðlinum. Fálki tók samstundis til fótanna á eftir Dreyra. Nokkru ofar var stekkurinn frá Nauta- flötum. Þar beið Sigurður undir stekkjarveggnum, en Rauður nagaði eyrarnar. „Þurfti hann endilega að verða sjónar- og heyrn- arvottur að ribbaldaskapnum,“ hugsaði Þóra. Það hefði verið nær íyrir hann að vera farinn að sofa heima í Hvammi, þá hefði hann aldrei vitað neitt, hvernig komið var fyrir þeim drykkju- bræðrunum. Þeir fóru af baki jafnsnemma, félagarnir. Erlendur var hálf óstöðugur á fótunum. Jón óð að honum með steyttan hnefann. „Taktu nú aftur alla lýgina, sem þú varst með eða —“ „Onei takk — það var engin lýgi, heldur heilagur sannleikur. Spurðu Þóru. Spurðu hann þarna, Strandaglópinnn, sem situr undir veggnum. Allir muna það, að Friðrik kaupmaður, sem þú nefndir með svo mikilli virðingu, skaut sig sjálfan eins og hvern annan hund.“ — Þá kom fyrsti löðrungurinn. Svo annar. Þóra reyndi að ganga á milli þeirra og bað þá að hætta þessum leik. En þeir voru ekkert á ’því. Þá kom Sigurður til þeirra, kaldur og stilltur eins og hann var vanur. Hann kippti Erlendi til hliðar, hann hafði svima eftir höggin og hrasaði flatur. „Já, svona er heppilegast fyrir þig að liggja, kunningi,“ sagði Sigurður. Svo bætti hann við kaldhæðinn: ,jÞað væri betra fyrir ykkur, dalabændurna, að kyssast minna, þegar þið heilsizt, en láta ekki kveðjurnar verða svona harð- leiknar. Ekki gerum við það, Strandaglóparnir, sem þú kallar, við erum alltaf jafnkaldir eins og grjótstrýturnar í kringum okkur.“ Hann leit til Þóru, um leið og hann draslaði Erlendi heim undir stekkinn. Hún kannaðist líka við það síðasta, sem hann sagði. Hún reyndi að sansa Jón og tefja fyrir honum, svo hann kæmist ekki til Erlendar. Tommi og strákarnir voru á leiðinni fram eyrarnar. Tommi gæti kannske komið einhverju tauti við hann. Jói sló undir nárann, þegar hann sá, hvað var að gerast hjá stekknum. „Ha, hæ, við skulum flýta okkur. Þeir eru komnir í illt,“ kallaði hann kátur. Tommi stökk af baki og greip í annaii handlegginn á Jóni. „Blessaður farðu nú ekki að fara í illindi við strákasnann. Komdu bara heim. Pabbi þinn fer að vakna, það er orðið svo framorðið.“ „Hvern fjandann eruð þið að hanga í mér? Ég vil bara fá að lemja hann, svo hann geti ekki talað eitt einasta orð, þetta kvik- indi, sem lýgur upp á heiðarlegan mann í gröfinni,“ öskraði hann hamslaus af reiði. Sigurður hafði fært sig til þeirra. Honum var óhætt að yfir- gefa Erlend, hann lá eins og drusla urrandi, hálfruglaður eftir hökkin, undir stekknum. Siggi fór ekki af baki, heldur sneri hestinum heim á leið, þegar hann heyrði ofsann í Jóni og kallaði: „Ég fer og sæki pabba.“ „Stoppaðu strákinn, Þóra,“ skipaði Jón, „ætlarðu að láta hann fara heim og vekja pabba og Önnu. Kallaðu til hans segi ég!“ „Hann er kominn svo langt, að ég get það ekki “ sagði Þóra vandræðalega. ,JÞú gazt það víst, ef þú hefðir viljað það, ótugtin þín. Nú vekur hann önnu.“ „Láttu ekki svona. Hún gefur sér áreiðanlega tíma til að leggja sig út af í dag, ef hún skyldi missa svefn við þetta uppþot,“ svaraði hún kuldalega. „Heldurðu, að hann skáni við það, að þú stríðir honum líka,“ sagði Sigurður lágt, en hún heyrði það samt. „Þú ert fjandans ótugt, Þóra,“ sagði Jón. „Ég hef alltaf álitið þig ærlegan skapvarg, en nú sé ég að þú ert andstyggðar ótugt. Þú hatar Önnu, af því að hún settist í það sæti, sem þú ætlaðir þér sjálfri. Það hefði verið að setja hrafn í svanadyngju. Þú ert ekki þess verð að binda skóþvengi hennar."

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.