Lögberg - 27.08.1953, Blaðsíða 6

Lögberg - 27.08.1953, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 27. ÁGÚST, 1953 Þeir gengu saman heim túnið. Hiaðið var fullt af fólki. Sig- urður lyfti hattinum og bauð góðan daginn. Ekki gat hann farið að heilsa hverjum manni með handabandi, þó presturinn gerði það. Einstaka ungir piltar, sem þekktu hann frá sjónum, komu til hans og heilsuðu honum kunnuglega, og spurðu, hvernig hann hefði það núna. Hann lét vel yfir því. Svo tók hann sér stöðu á hlaðinu syðst af öllu messufólkinu og virti fyrir sér slétturnar í túninu, þangað til gengið var í kirkjuna. Sigurður settist framarlega í kirkjunni við glugga hjá vinnu- manni prestsins. Hann veitti túninu og sléttunum miklu meiri eftirtekt en ræðunni hjá prestinum. Guðsþjónustan fór fram á venjulegan hátt, þangað til presturinn tilkynnti söfnuðinum lýs- ingu í fyrsta sinn. Þá litu allir forviða á prestinn og svo hver til annars. Hvað gat það verið? Enginn mundi eftir neinum hjóna- efnum í sókninni. Svo komu nöfnin: Sigurði Friðrikssyni og Þóru Björnsdóttur til heimilis í Hvammi. Nú varð fólkið fyrir alvöru hissa. Enginn þó eins og Magga gámla, hún leit hræðslulega í kringum sig, alveg eins og hún ætti von á, að allur söfnuðurinn gæfi sér utan undir fyrir vitleysuna að hafa ekki hugmynd um, hvað hafði verið að gerast á hennar eigin heimili. Þegar nafn Þóru var nefnt, heyriðst dálítill dynkur úr innsta bekknum. Lísibet húsfreyja hafði misst sálmabókina ofan á gólfið, svo hverft varð henni við. Svo sneri hún sér til hálfs og sópaði kirkjuna innan með hvössum augum, festi þau loks á tveim ókunnugum mönnum framarlega í kirkjunni. Það kom djúp hrukka milli augnanna. Þetta var víst sá útvaldi, rauðhærður var hann að minnsta kosti. Sigurður horfði á móti með köldum kergjusvip. Hann þóttist vita, að þetta væri þessi mikla húsfreyja í dalbotninum, sem hann hafði heyrt svo oft talað um. Hann þekkti hana af Jóni. Það voru sömu augun og sami svipurinn. Og hann varð að játa, að hún hafði eitthvað mikið fram yfir fjöldann. Hann leit fljótlega undan augnaráði hennar og horfði út um gluggann og hafði þess vegna ekki hugmynd um, að flestir í kirkjunni sneru upp á hálsinn til að geta athugað hann sem bezt. Orgelið gaf söngfólkinu til kynna, að sálmarnir ættu nú meiri heimting á athygli þeirra en þessi nýkomni, lukkulegi maður. Borghildur beygði sig eftir sálmabókinni og rétti Lísibetu hana. Hún tók við henni og andvarpaði þungt eins og hver stórlát móðir, sem verður að sætta sig við ráðríki óstýrilátrar dóttur. Þegar messan var úti, hópuðust karlmehnirnir, sem inni í kórnum sátu, utan um prestinn til að bjóða honum góðar stundir. Þá flýttu þeir sér út úr kirkjunni Sigurður og sessunautur hans. Það var ekki laust við, að Sigurður fyndi til feimni. Þeir reikuðu um garðinn og athuguðu minnisvarðana, sem voru frekar fáir. Stórar járngrindur með járnkrossi innan í var það helzta. Það var leiði foreldra Jakobs hreppstjóra. Skammt þar frá var annar járnkross innan í svörtum trégrindum, þar hvíldu afi hans og amma. Stórt ógrafið svæði var þar hjá auðsjáanlega ætlað ættmennum þeirra. Sums staðar voru blágrýtissteinar með útklöppuðum stöfum og jafnvel heilum nöfnum. Allt þetta aðgætti Sigurður án þess að hafa verulegan áhuga á því. Hann beið þess, að fólksstraumurinn færi heim að bænum, svo að hann kæmist út túnið og heim. I dag hafði hann stigið stórt spor, annað var eftir, svo var allt búið og framtíð hans borgið. „Góðan daginn,“ var sagt rétt hjá honum. Það var Jakob hreppstjóri. Hann heilsaði Sigurði og óskaði honum til hamingju. Sigurður þakkaði og minntist ekki að hafa fundið eins hlýlegt handtak, kannske var það vegna þess, að hann var hér á meðal allra ókunnugra. „Þú gjörir svo vel og kemur inn og drekkur kaffi hjá okkur, tilvonandi nágrönnum þínum. Varla fer Þóra að flytja burt frá Hvammi. En því er hún ekki við kirkju? Vonandi er hún þó ekki orðin feimin við okkur hérna í sókninni,“ bætti hann við bros- andi. Sigurði fannst það líta út, eins og hann hafði hugsað sér hersveit, og stóð Erlendur á Hóli í broddi hennar svipþungur og vígamannlegur með gráan flókahjálm á höfði. Rétt hjá honum stóð gömul kona með harðleg augu og arnarnef. Stóra skotthúfan huldi að mestu leyti hárstrýið, sem orðið var úlfgrátt. Það var Ragnheiður gamla, móðir hans. Óvild og illkvittni skein úr svip þeirra. Samt hugsaði Sigurður sér að þiggja kaffið fyrir kurteisis- sakir og kljúfa þessa óálitlegu fylking með hreppstjóranum. En þá kom maður á móti þeim og bað Jakob hreppstjóra að finna sig suður fyrir bæ, það væri áríðandi mál, sem þar væri verið að ræða um. Jakob kallaði til Sigga, sem var nálægt og sagði honum að fylgja gestunum inn, en fór sjálfur með manninum suður fyrir bæinn. Vinnumaðurinn frá Kárastöðum, kunni lítið betur við sig innan um þetta ókunna fólk en Sigurður. Hann stakk því upp á því, að þeir færu að gæta hestanna og drykkju svo kaffið, þegar þeir kæmu aftur. Sigurður gerði það hiklaust, dauðfeginn að komast burtu. Lísibet húsfreyja gekk hnarreist fram kirkjugólfið án þess að líta til hægri eða vinstri. Hún var þó vön að heilsa brosandi á báðar hendur. Magga gamla bjóst við, að hún myndi gefa sér bendingu að koma og tala við sig.Hún var þó eina manneskjan, sem nokkurs mátti vænta af. En hún gerði það ekki, heldur gekk beina leið til bæjar og inn í stofu. Hún tók af sér sjalið, braut það vandlega saman og nældi silfurprjónunum í pappírsblað og lagði það innan í sjalið, lét það svo ofan í kommóðuskúffu. Svipur hennar var stór og djúp hrukka milli nugnanna. Það leit út fyrir, að fólkið ætlaði ekki að fara að taka mikið tillit til hennar ráða. Þau höfðu þó þótt góð hingað til. Þetta hafði henni ekki dottið í hug, að gæti komið fyrir, að Þóra hlypi svona á sig, og þessi þó maður. Hún andvarpaði þreytulega. Jón kom inn í stofuna svip- mikill og óvenju fljótmæltur, þegar hann spurði: „Hvernig lízt þér á, mamma? Ertu ekki aldeilis forviða á Þóru að ætla sér að taka þennan andstyggilega rauðskinna að sér?“ Lísibet hristi höfuðið. „Ég get bara ekki sagt nokkuð orð yfir þessu háttalagi, og faðir hennar, sem bað mig að líta til með henni. Hann þarf ekki að þakka mér fyrir hana, þegar við hittumst aftur,“ sagði hún. Svo bætti hún við: „Hann er líklega nokkuð fastur fyrir, þessi snáði, það er þráalegur á honum svipurinn.“ Svo fór hún fram í bæjardyrnar, sem voru fullar af fólki. „Hvar er nú stórmennskan í Þóru Björnsdóttur,“ sagði Ragn- heiður gamla á Hóli í öama bili og Lísibet opnaði hurðina. Hún var ekki búin að gleyma því stórlæti, sem Þóra sýndi, þegar hún þáði ekki þá myndarstöðu að verða tengdadóttir hennar. „Þetta þykir henni betra að taka að sér utansveitargepil, öllum óþekktan, og ganga fram hjá myndarpiltum hér í dalnum, sem hefðu verið samboðnari henni. Það sannast þar, að allir vita hverju þeir sleppa, en ekki hvað þeir hreppa.“ Svo sneri hún máli sínu til Lísibetar. „Hvað segir þú, Lísibet? Lízt þér ekki vel á hann, þennan, sem Þóra skjólstæðingur þinn er búin að velja sér. Finnst þér ekki líta út fyrir, að hún sé farin að örvænta?“ „Það er engin ástæða til að láta sér detta í hug, að Þóra örvænti, hún hefði getað valið úr mannsefnum slík dugnaðar- og myndarstúlka. En um þennan mann hef hvorki ég eða aðrir neitt að segja, hann er hér öllum óþekktur. En eitt er víst, að hann er dugnaðarmaður mikill, og það er nú líka eitthvað, sem á við Þóru.“ Svo gekk hún í burtu svipmikil og litverp alla leið inn í hjónahús og lét aftur hurðina. Hún gat ekki verið nálægt öðru fólki, svo þungt var hehni í skapi. „Já, ekki vantar það, að hann hamist við vinnuna,“ sagði Erlendur. „Þvílík hey, sem þar eru nú, hef ég ekki séð fyrr í Hvammi.“ „Hann hefur unnið mikið og vel, síðan hann kom að Hvammi,“ gegndi Jón fram í. „Séra Benidikt lætur prýðilega af honum.“ „Það er þá líklega það eina, sem hann hefur til síns ágætis,“ gall við í Ragnheiði gömlu. „En samt gæti ég hugsað, að Birni heitnum hefði ekki þótt nein upphefð að því að mægjast við hann Lúsa-Brand. Ég veit ekki betur en þessi móðurmynd þessa kauða sé dóttir hans.“ „Hvað er að tala um það, þó einhver auðnuleysingi, sem enginn hefur sýnt miskunn, sé í ætt hans,“ svaraði Jón og var ekki síður hávær en hún. „Slíka fjarstæðu ætti fólk að hætta að minnast á.“ „Það er líka orðinn siðuj, að fólk, sem komið er út af heiðar- legúm ættingjum, tekur að sér sveitarlimi og alls slags vanmeta- skepnur án minnstu umhugsunar," héll hún áfram jafn frek og hávær sem áður. „Skyldi það fólk, sem þegið hefur af sveit eða afkomendur þeirra, vera nokkuð síðri en hinir, sem ekki hafa þurft þess,“ sagði Jón ákafur. „Það álítið þið unga kynslóðin. En við þau eldri llfeum séð það með eigin augum, að vesalmennskan og ræfilsskapurinn gengur í ættir mikið frekar en það, sem heiðarlegt og almenni- legt er,“ svaraði hún og var ekki líkleg að slá undan. „Þetta er ekkert annað en fjarstæða, sem þú heldur fram, Ragnheiður, ef þetta er sannfæring þín, þá ertu heimskari en ég hef álitið þig,“ svaraði hann og gekk snúðugt inn. Magga stóð við kirkjuhornið og horfði ákaflega munaðar- leysislega framan í hverja manneskju, sem gekk fram hjá henni. En það leit út fyrir, að enginn sæi hana, þangað til Anna Frið- riksdóttir kom til hennar og heilsaði brosandi eins og hún var vön. „Mikið getur hún Þóra gert alla forviða með uppátækinu í sér, alveg eins og þegar við settum upp hringana og engum datt það í hug, að við værum trúlofuð. En því kom hún ekki sjálf til kirkjunnar? Hélt hún að við myndum fara að stríða henni? Ekki þó ég. Kannske hefði Jón gert það, hann er svo stríðinn við Þóru. Hvenær settu þau upp hringana?“ runaði hún upp úr sér með barnslegri kæti. „Ég veit ekki til þess, að þau séu með nokkra hringa, nema þeir hafi verið settir upp um leið og hann kvaddi hana. Þó að ég ætti dauð niður að detta, hafði ég ekki hugmynd um þetta frekar en þú eða hver annar, þó ég sé á heimilinu. Og svo lítur fólk til mín með illum augum, eins og ég geti eitthvað gert að því, þó þetta bölvað írafár kæmi yfir þau,“ blaðraði Magga með augun full af tárum. „Nú er ég hissa. Hafðirðu virkilega ekki hugmynd um þetta, Magga? Kyssast þau aldrei eða kalla hvort annað fallegum nöfnum?“ „Ég hef stundum heyrt hann kalla hana góðu sína, það er allt og sumt.“ ,^Ó, hvað hún Þóra getur verið skrítin. Að hún skyldi ekki koma, svo ég gæti hlegið með henni. Segðu henni, að ég hlakki ósköp til veizlunnar, og kyrtillinn skal verða til strauaður. Nei, heyrðu Magga, sagði hún allt í einu og benti fram í garðinn. Er þetta ekki hann, sem pabbi er að tala við, þessi stærri?“ „Jú, það er hann.“ Anna horfði á hann dálitla stund og fitjaði svolítið upp á nefið, eins og hún fyndi slæma lykt. „Heldurðu að Þóru geti þótt vænt um hann?“ spurði hún svo og sneri sér aftur að Möggu. „Hann er bráðduglegur skal ég segja þér, og hún hefur verið svo ánægð yfir því, hvað öll vinna hefur gengið vel, síðan hann kom. Ég er ekki viss um, að Björn heitinn hefði haft á móti því. Það er ekki lítið í það varið að fá duglegan mann til að hugsa um heimilið með sér,“ sagði Magga spekingslega. „Náttúrlega er það nú gott og blessað, hugsa ég. En ég hefði viljað hafa hann laglegan. Þóra er svo myndarleg stúlka, og mér þykir svo vænt um hana. En komdu nú inn með mér, og hresstu þig á kaffisopa, og hættu svo alveg að álíta, að þú sért litin illum augum, þó Þóra sé trúlofuð. Þetta held ég Siggu líkaði, að þau skuli ekki kyssast. Ég skal nú svei mér segja henni eitthvað. Hún vár svo sem að spá í bolla í vor. Ó, hvað ég skal hlæja, þegar ég finn Þóru.“ Þær leiddust inn á hlaðið rétt í því, að Ragnheiður gamla byrjaði á illkvittnisræðu sinni. Magga kippti í handlegginn á Önnu. „Heyrirðu til hennar Ragnheiðar. Þetta datt mér í hug, að svona myndi hljóðið verða í fólkinu hérna. Það verður varlá hún ein, sem svona syngur. Ég þekki nú álitið, sem það hefur á strandadótinu.“ „En að heyra, hvernig hún talar um dauðann manninn,“ sagði Anna og hristi höfuðið. „En Jón lætur hana nú líklega ekki rausa svona lengi án þess að andmæla henni.“ „Ég fer ekki lengra,“ hvískraði Magga gamla. „Ég kæri mig ekki um að mæta henni, þegar hún er í þessum ham. Ég sé líka, að Sigurður bíður eftir mér.“ Hún kyssti Önnu fljótlega. „Vertu blessuð, það er söm þín gerð, elskan. Ég bið að heilsa inn í bæinn.“ Svo hljóp hún undra léttfætt út hlaðið, sárfegin að losna við að mæta þessari hvassyrtu vinkonu sinni. Kokkhúsið var hálffullt af fólki, þegar Anna kom inn. Sigga gamla var að hella á kaffikönnuna, en Borghildur raðaði bolla- pörum á borðið. „Hamingjan góða, hvað hér er hlýtt og notalegt,“ sagði Anna og néri hálfkaldar höndurnar. „Þarna ertu þá, Sigga mín. Nú held ég, að þú þykist vera dálítið spákonubrot. Manstu, hvað þú sagðir yfir bollanum hennar Þóru í vor?“ „Já, ojá, ég sagði, að hún mundi trúlofast og giftast á þessu ári. Hún tók því ekki nærri, en hvað er nú komið á daginn?“ sagði Sigga allhreykin. ,yÞað er þó synd að segja, að það sé lengi að hugsa sig um ektaparið, svona fólk,“ sagði Borghildur og hnykkti til höfðinu kuldalega. „Það er talsverður munur eða þú, Borghildur mín,“ sagði Þórður frá Seli og leit glettnislega til hennar, „sem er búin að svipast eftir mannsefninu í nærri fjörutíu ár, en hefur þó ekki fundið það ennþá.“ „Ójá, við piprum nú bæði, Tóti minn,“ svaraði hún og glotti við. „Eða þið takið saman á endanum út úr leiðindum," skaut Sigga inn í samtalið. „Nei svo heimsk verðum við- ekki,“ sagði Borghildur. „Það þarf einhver að hugsa um piparinn hérna, þegar þið Finnur fallið frá. Ég er að hugsa um að taka það að mér. Kannske Tóti hjálpi mér. Mig er svo oft búið að dreyma fyrir því, að hann verði hérna.“ „Ég skal verða þér hjálplegur,“ sagði Þórður hlæjandi. „Því trúi ég aldrei, að Þórður pipri,“ sagði Anna og hló. „Ég gæti betur trúað því, að hann léti lýsa einhvern sunnudaginn og gerði fólkið eins steinhissa og Þóra. Það er nú náttúrlega ósköp ljótt að láta sér detta í hug að hlægja í kirkjunni, en það var svo skrítið að sjá fólkið. Mamma missti sálmabókina, og Jón varð svo þungur á brúnina, en Sigga hallaði svo mikið á, alveg eins og“ — hún skellihló og gat ekki botnað setninguna. „Alveg eins og forustusauður með þunga klukku,“ bætti Þórður við. „Já, þetta var alveg rétt, Þórður minn. Alltaf ertu jafn bú- mannslegur að hugsa um forustusauð,“ sagði Anna og hélt áfram að hlæja. „Þú lætur alltaf eins og krakkagopi, harðgift konan,“ sagði Sigga. „Það er nú einmitt af því, að ég er gift, að ég er svona kát. Ef ég væri ógift væri ég alltaf að hugsa um, hvort enginn myndi nú vilja mig, og svo yrði ég svona alvarleg og hrukkótt eins og þú, Sigga mín,“ sagði Anna og klappaði Siggu með mjúkum lófunum á hrukkóttar kinnarnar. „Ég segi þér satt, Anna mín,“ sagði Borghildur, „að við Sigga hefðum getað gift okkur margsinnis, ef við hefðum bara viljað leggja út í það að fara að jagast við manninn og stríða við krakkana." „Það er nú alltaf eins, þegar Borghildur fer að tala, þá verð ég alveg orðlaus,“ sagði Anna og settist við borðið. „Ég ætla nú að setjast hérna hjá honum Þórði, hann leggur mér liðsyrði, ef þú heldur áfram. Helzt vildi ég, að þú létir okkur samt fá kaffið fyrst. Það er svo andkalt úti og ég er búin að tala svo lengi við aumingja stráið hana Möggu, hún var svo óánægð yfir því, hvernig fólkið liti á sig.“ ,yÞví komstu ekki með hana inn svo hún gæti hresst sig á kaffi?“ spurði Borghildur. „Hún sneri við á hlaðinu, þá heyrði hún rausið í henni Ragn- heiði á Hóli, og það var hreint ekki fallegt, sem hún söng konan sú. Ef margir tala eins um þessa trúlofun, vorkenni ég Þóru.“ „Það er von, að fólk tali um svona lagað fjandans flan,“ hnussaði í Siggu gömlu. „Ég gæti hugsað, að hún ætti eftir að iðrast eftir fljótfærninni,“ bætti hún við. „Hvað segir þú um þetta, Þórður minn?“ spurði Anna og brosti til Þórðar. „Ég, sem hélt, að þið Þóra væruð að bíða hvort eftir öðru.“ \ „Þar hefurðu reiknað alveg skakkt. Slíkt hefur okkur aldrei dottið í hug.“ Borghildur hellti kaffi í bollana, og gestirnir röðuðu sér kringum borðið. En inni í hjónahúsinu sat Lísibet húsfreyja þögul og óánægð. Jón sonur hennar stóð við gluggann og virti fyrir sér fjallið, eins og hann hefði séð það í fyrsta sinn á þessum degi. Loks sneri hann sér að móður sinni og sagði: „Ég veit hún gerir þetta til að skaprauna okkur. Hún sagði eitthvað á þá leið í lamba- rekstrinum, þegar ég var að stríða henni á stráknum, að varla skyldi ég ráða giftingu sinni.“ — Lísibet tók til máls, áður en hann hafði lokið við það, sem hann ætlaði að segja. „Hafi henni fundizt ég eiga það skilið, að hún hryggði mig, hefur henni tekizt það. Mér hefði tæplega orðið ver við, þó ég hefði frétt látið hennar.“ „Það er nú sitt hvað að vera nýtrúlofaður eða dáinn,“ sagðri Jón og glotti gremjulega. „Sem betur fer á hún eftir að lifa það að sjá mannkosti þessa álitlega eiginmanns, sem hún hefur valið sér.“ Þóra var vel ánægð yfir því að geta losnað við kirkjuferðina. Hún var líka hér um bil sannfærð um það, að lýsingarnar kæmust ekki á, fyrst hún hefði setið heima og það var einmitt það góða, að það drægist sem lengst. Hún lagði sig upp í rúm og sofnaði. Svo fór hún að baka lummur handa kærastanum. Hvað skyldi hann nú segja, þegar hann nú kæmi heim? Líklega yrði hann hálf vonsvikinn yfir því, að ekki var hægt að láta lýsa. Skyldi honum verða boðið inn á Nautaflötum. Eitt var þó áreiðanlegt, að nú var hún að öllu leyti laus við yfirráð Lísibetar. Hún var frjáls og gat hugsað um sitt heimili, án þess að hún og sonur hennar væru sífellt með áhyggjur og umstang fyrir búskap hennar. Hún skyldi reyna að sækja hvorki ráð né annað til þeirra. Jói stakk kollinum inn úr dyrunum og horfði ánægjulega á pönnuna. „Hvaða hátíð er hjá þér, Þóra mín? Því erau að baka rúsínu- lummur?“ Þóra brosti. „Fáðu þér eina, Jói minn. Sérðu nokkuð af messu- fólkinu fara fyrir neðan?“ „Einhverjar hræður voru á ferðinni áðan. Mér sýndist það á reiðlaginu, að það myndu vera einhverjar hrognaætur utan af Strönd,“ svaraði hann tyggjandi. Þóra greip í öxlina á honum og hristi hann, svo hann missti lummupartinn, sem hann átti eftir. „Ég forbanna þér að segja þetta nokkurntíma, þó að ég asnaðist til að segja það í reiði minni. Þú mátt heldur engum segja það.“

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.