Lögberg - 24.09.1953, Page 6

Lögberg - 24.09.1953, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 24. SEPTEMBER, 1953 „Þér stendur víst alveg á sama, þótt svo sé,“ sagði hún. stuttlega. „Nei, þú manst þó líklega eftir lögunum, sem ég setti einu sinni, að við ættum alltaf að vera eins góðir vinir og við vorum þá, hvað gömul sem við yrðum, og búa öll hérna í dalnum í sátt og samlyndi. Ætlar þú að verða fyrst til að brjóta þau?“ „Ég býst við, að Lilja hafi orðið á undan mér,“ sagði hún. „Já, það hefur nú verið einhver fljótfærni, að fara að þjóta til Ameríku, sem hún hefur áreiðanlega iðrazt eftir. En hún er alltaf sama trygglynda systirin fyrir það, sem .sendir mér kveðju i hverju bréfi, sem hún skrifar heim að Seli. Hún er alltaf sama indæla „dalaliljan“.“ „Hér fer ég á bak,“ sagði Þóra ákveðin. Hún þoldi það ekki ennþá, að hann hældi Lilju. „Liggur þér svona mikið á?“ spurði hann. „Myrkrið fer að skella á.“ Hann tók í sveifina, á meðan hún lyfti sér í söðulinn. Hún rétti honum hendina. Hann tók í hana og sleppti henni ekki aftur. „Anna hefur átt von á þér í ^llt sumar. Því hefirðu aldrei komið? Þú hlýtur að sjá, að það er óréttlátt að vera með fýlu við hana. Hún stendur fyrir utan okkar erjur og hefur alltaf gert það. Hún er alltaf sama saklausa barnið og þegar við lékum okkur saman hérna í kringum Selið og fórum í feluleik í stekknum.” „Ég hef ekki haft tíma til þess að koma fram eftir, um slátt- inn,“ sagði hún og reyndi að draga að sér hendina. „Ég sleppi ekki hendinni, nema þú lofir, að koma við núna. Þú þarft ekki að vera að gefa tjaldinu auga. Hann er að sloka í sig kaffið,“ sagði hann og glotti gamla ertnisglottinu, sem hún kannaðist svo vel við. Hún kippti að sér hendinni. „Ég skil ekki svona rósamál," sagði hún stutt. „O, það er engin hætta á, að tíminn geti ekki kennt þér að skilja,“ svaraði hann. Hún gaf Mósa lausan tauminn og veifaði keyrinu í kveðju- skyni. Hann lyfti hattinum, þótt hún sæi það ekki. „Alltaf jafn stórlát og ósveigjanleg,“ tautaði hann og sneri við heim að réttinni. „Hann er ekki feiminn, drengurinn, að ganga á kærleiksgötu með henni nýgiftri píkunni," kallaði Sigurður gamli á Hóli. Hann sat ennþá á réttarveggnum með svipuna í hendinni. „Ég yrði blóðhræddur um stelpuna fyrir honum í sporum nafna míns. Sú getur þó setið á hestbaki, piltar.“ Sigurður í Hvammi var kominn út úr tjaldinu, nógu snemma til að heyra hvað hann sagði. Það voru engin undur, þótt fólk tæki til þess, hvernig Jón hagaði sér gagnvart Þóru, hugsaði hann. Þóra reið í einum spretti út allar eyrarnar, þar sem vegurinn lá heim að Nautaflötum. Þar hægði hún ferðina. Hún var að ráða við sig, hvort hún ætti að fara heim eða ekki. Það var að byrja að bregða birtu. Það var víst viðkunnanlegra að þakka þeim konunum fyrir brúðargjöfina, fyrst hún var búin að ljúka því af að þakka Jóni hana. Það var erfitt að vera í þakkarskuld við nokkra mahneskju. Og svo hafði hún gleymt að þakka Jakobi. Kannske hann hafi ekkert vitað um hana. Sigga gamla sagði, að það væri nú ekki allt rekið framan í hann, sem gert væri á heimil- inu; hún sagði nú líka svo margt, var oft óánægð með alla skapaða hluti, þó henni liði svo vel sem hægt var, að nokkru gamalmenni gæti liðið. Reyndar vissi Þóra það vej, að Lísibet réð yfir öllum á heimilinu nema Jóni. En það var orðið svo vanalegt, að engum datt í hug að tala um það. Um hitt efaðist enginn maður, að hrepp- stjórinn var bezt giftur af öllum bændum í sveitinni. Líklega yrði það sama hlutskiptið, sem Anna hreppti. Hún yrði víst ekki höfð með í öllum ráðum, enda var hún ævinlega ráðalaus. Þó var hún (Og yrði álitin sælasta konan í sveitinni og víðar — kannske í allri veröldinni. Hún kippti í taumana og sló í. „Ekki núna,“ heldur einhverntíma seinna. * RÁÐRÍKI KONUNNAR Strax og réttirnar voru afstaðnar, var farið að hugsa til að slátra. Þóra gekk innan um stekkinn og aðgætti lömbin, merkti þær gimbrar brúski, sem átti að „setja á.“ Sigurður horfði á hana dálitla stund, svo sagði hann: „Það er nú víst vanalegra, að bóndinn geri þetta, en ekki konan. Sýndu mér þær, sem þér þóknast að láta lifa, ég skal merkja þær.“ „Þú getur dregið þær inn í króna,“ sagði hún í skipunarróm. Hann varð að láta sér það lynda, í þetta sinn, en ekki yrði hann ánægður með þetta til lengdar. „Það er víst óhætt að setja vel á, nóg eru heyin,“ sagði hún. Hann játaði því stuttlega. „Mér þykir Magga hafa kaup hjá þér,“ sagði hann, þegar hún merkti gimbur með hennar marki. „Hún fær sjálfsagt fóður fyrir þessar fáu skepnur sínar, eins og vant er. Ekki hefur hún unnið minna en hún er vön í sumar,“ svaraði hún og hélt áfram að merkja lömbin. Enn voru ekki nema 15 útvaldar. Fleiri yrðu þær að verða, sem settar yrðu á þessi góðu og miklu hey. „Hvaða svo sem vinna er þetta, sjóða matinn og þvo úr plöggunum,“ sagði hann kuldalega. „Hún vinnur nóg, svo gömul manneskja,“ svaraði hún og merkti aðrar gimbur með marki Möggu. Það var víst óþarfi fyrir hann að gera sig breiðan. Hún ætlaði að sýna honum, að hún réði. Það varð að hafa það í þetta sinn, hugsaði hann aftur. Eftir sláturtíðina fór Sigurður til sjós. Jói fór ofan eftir með mat handa honum, annan hvorn dag og flutti heim það af aflanum, sem ekki var verzlunarvara. Sigurður spurði alltaf, hvort ekki liði vel heima, hvort nokkur hefði komið og hvort Þóra hefði farið nokkuð út af heimilinu. Hann svaraði því neitandi. Þær voru alltaf í slátrinu. Þegar gæftirnar voru farnar að bregðast, kom hann heim. Þóra tók honum vel. Hún hafði saknað hans af heimilinu. Um kvöldið, þegar Þóra var í fjósinu, spurði hann Möggu gömlu þessarar fráleitu spurningar: hvort Þóra hefði farið nokkuð út af heimilinu, þessa daga, sem hann hafði verið við sjóinn. „Hvað svo sem skyldi hún hafa farið, nema ekki neitt,“ sagði Magga, „það er nú öldin önnur, eða þegar hún reið út á hverjum sunnudegi og fór á hverja skemmtun, sem haldin var í sveitinni, enda var svipurinn á henni öðruvísi en núna. Aldrei hefur það nú verið eins og í sumar, að manneskjan skuli aldrei hafa komið á hestbak. Mér finnst þú ættir nú að taka þig upp og ríða með hana þarna út á ströndina til foreldranna þinna til að sýna hana. Það er víst ekki óvanalegt, að menn geri það o gþað þó konur þeirra séu nú ekki eins myndarlegar og Þóra er.“ „Ætli hún vildi nokkuð eiga við það,“ sagði hann dræmt. Næsta dag spurði Sigurður konu sína, hvort hún myndi hafa nokkra skemmtun af að ríða með sér út að Hvoli. Hann þyrfti endilega út eftir. Honum datt ekki í hug, að hún vildi fara með honum og langaði heldur ekkert til að sýna henni föðurgarð sinn. En Þóra sagði, að alltaf væri þó gaman að koma á hestbak og þá ekki síður að kynnast tengdafólkinu. Daginn eftir riðu þau af stað í fyrsta sinn. Þóra reið Rauð, en lét hann hafa Mósa. Það var eina ráðið, til þess að hann yrði ekki langt á eftir. Veðrið var ákjósanlegt, logn og sólskin. Sigurður talaði um búskapinn, eins og hann var vanur, á leiðinni út dalinn. En þegar þau komu út á ströndina, sagði hann brosandi: „Við megum nú ekki alltaf vera að jagast um ströndina og dalinn, eins og í vor. Hún er náttúrlega ólíkt hrjóstrugri, því verður ekki neitað.“ Það er bezt að láta það vera óumtalað. Þau hafa sína kosti og galla, alveg eins og við sjálf, fósturbörnin þeirra,“ sagði Þóra. Þegar þau nálguðust æskuheimili hans, sagði hann: >rÉg býst nú við, að þér þyki nú heldur fátæklegt hjá karli og kerlingu.“ „Ég er nú svo sem ekki alin upp í neinni höll,“ sagði hún fálega, „en hitt kynni ég betur við, að þú kallaðir ekki foreldra þína svona óvirðulegum nöfnum. Það þekkist ekki hjá okkur í dalnum, nema Ella á Hóli. Hann gefur sínum foreldrum sömu nöfnin, en það eru líka dæmalausar manneskjur." Sigurður þagði. „Hafa þau nokkurntíma þegið af sveit?“ spurði hún nokkru seinna. „Nei, ég býst við, að hún hefði heldur látið okkur svelta, en leita til sveitar,“ sagði hann. Friðrik bóndi stóð úti, þegar þau riðu í hlaðið. „Þarna kemur þú þá aftur, stúlka mín, með fallegu hestana þína,“ sagði hann, þegar þau höfðu heilsað. „Hefurðu fengið bréf frá mér?“ spurði Sigurður. „Já, en ég veit bara ekki, hvernig það gengur,“ svaraði faðir hans dræmt. Hann virti fyrir sér tengdadótturina og hestana hennar með velþóknun. „Þið gangið í bæinn,“ bauð hann, þegar búið var að spretta af hestunum. Tveir rauðir barnskollar gægðust út úr bæjardyrunum og hurfu jafnskjótt aftur. Þau fylgdust með húsbóandanum til baðstofu. Á innstu rúm- unum sátu þær mæðgurnar og litu forvitnislega til dyranna. María hafði kringum sig heilmikla hrúgu af leðurskóm, sem hún hafði verið að „gera“. En móðir hennar var með álíka mikið af sokkaplöggum kringum sig. „Ja, sei, sei,“ sagði húsfreyja, þegar hún sá fyrir víst, hverjir gestirnir voru. „Þarna kemur þú þá með hana, þessa „daladrós," sem þú varst svo fljótur að klófesta. Það var rétt að lofa mér að sjá hana betur. Ég get nú tæplega sagt, að ég muni hvernig hún leit út í vor.“ Þóra heilsaði tengdamóður sinni með kossi. Hún klappaði henni allri að utan og bauð hana velkomna. María sópaði allri skæðaskinnshrúgunni ofan á gólfið og bauð Þóru sæti. Sigurður settist framar 1 borðstofunni. „Hvers slags ósköp ertu búin að gera af skóm,“ sagði Þóra. „Það var nú orðið eitthvað skólítið, fólkið, eftir sláttinn og sláturtíðina. En hér þekkist tæplega, að bryddir séu skór,“ sagði María hlæjandi. „Þið hafið náttúrlega engan tíma til þess,“ sagði Þóra, en láttu mig nú hafa nál, svo ég geti hjálpað þér.“ „Þess þarf ekki, ég er alveg búin.“ Hún tók tvenna skó úr hrúgunni og rétti litlu bræðrunum, sem stóðu berfættir á gólfinu. „Þarna eru skór handa ykkur, og mamma er víst búin að staga í sokkana ykkar. Farið þið svo út í læk og þvoið ykkur um fæturna, þið vitið, hvar sápan er, og þurrka hangir á snúrunni. En gleymið ekki höndunum og andlitinu." Hún tók sokka úr hrúgunni í rúminu, sem móðir hennar sat á, og rétti þeim. Þóra var hissa á því, hvað hún var fljót að finna þá úr þessum fjölda. Drengirnir fóru fram úr baðstofunni. „Það var nú eins og hver önnur heppni, að við náðum í þessa „húð“. Það má heita, að krakkarnir hafi gengið á sínu eigin skinni, síðan á slætti," sagði húsfreyja, án þess að vera neitt þreytt yfir þessari vöntun. Það getur víst allt komizt í vana, hugsaði Þóra. Hún horfði í kringum sig, með næstum sömu forvitnisaugum og mágkonur hennar höfðu gert um sumarið, þegar þær heimsóttu hana. Hún var komið hér í nýtt umhverfi fátæktar og hirðuleysis. Allt bar vott um skort og allsleysi. Ekki nokkur eigulegur hlutur, nema stundaklukkan. Rúmin voru auðsjáanlega fæst með full- komnum sængurfatnaði. Þó hafði hún heyrt sagt, að þetta fólk væri að hafa sig upp efnalega. Hvernig skyldi þá hafa litið út áður? Það var ánægjulegt, að þau höfðu sæmilegar ástæður til að gleðja þetta fólk. Hún skyldi ekki hafa á móti því. Líklega hafði Sigurður eitthvað meðferðis handa móður sinni. Sjálf hafði hún tekið með sér yfirsjal og svuntuefni handa henni. „Bænlega gengur nú búskapurinn,“ tók húsfreyja til máls, eftir stutta þögn. „Góð og mikil hey, góðar heimtingar og nógur fiskur bæði til innleggs og heimilisþarfa. Svona lýsti hreppstjór- inn því við Friðrik um daginn. Það byrjar ekk óáltlega fyrir ykkur.“ Hún réri ánægjulega yfir sokkahrúgunni, meðan hún talaði. Þóra varð fyrir svörunum: „Já, þetta hefur verið svoddan yndis sumar og haust.“ „Ojá, já víst var það. En svo er mér ekki sama hver gengur að heyvinnunni. Mér datt það nú svona í hug, af því ég var búin að heyra, að þú værir dugleg og áhugasöm, að þér myndi kannske líka sæmilega við Sigurð, hvað vinnubrögðin snertir og ekki falla illa að búa með honum. Það er líka óhætt að láta hann fara með peninga; hann kastar því varla út í óþarfann, sem þú átt í liistu- handraðanum." Sigurður kafroðnaði við gullhamra móður sinnar. Þóru brá líka illa við. Hún átti ekki von á því, að það væri hvorki þessari konu eða neinum öðrum kunnugt, hvað kistuhandraðinn hafði að geyma. Gamla konan hélt áfram að rausa: „Mér finnst þú ættir að vera vægur við okkur útslitna garmana, fyrst þú náðir í efnin. Eitthvað vilja nú hin systkinin eignast líka.“ „Þið hafið verið að róa,“ sagði Sigurður við föður sinn. „Ja, við höfum gutlað, hvenær sem friður hefur verið og höfum „reytt“ þó nokkuð — ágætt í gær.“ Sigurður stóð upp og sagðist ætla að líta eftir, hvað þeir ættu í „hjallgarminum.“ Þóra sá, að honum féll illa málæði móður sinnar. Faðir hans fór út með honum. Gamla konan hélt áfram að tala um búskap. Það væri nú allt mikið blómlegra þarna fram í dalnum en hérna. Samt vantaði nú blessaða björgina, sem sjór- mn gæfi; hún væri nú alltaf notadrjúg. Þóra hafði ekki af henni augun. Hún var stór kona og þrek- lega vaxin. Herðarnar voru orðnar kúptar og hendurnar lúalegar. Svipurinn var einbeittur og þráalegur, eins og á flestum börnunum. Hárið var þó það, sem vakti mesta athygli hennar, það var svo mikið, að hún gat setið á því og þykkt að sama skapi. Hún hafði orð á því, að sér þætti hún halda hárinu. „Ég hefði nú gjarnan geta þegið, að það hefði verið ögn minna, þegar ég hafði lítinn tíma til að greiða það. En það hefur nú alltaf vaxið heldur en hinn, með hverjum króga, svo það er ekki von, að það sé farið að þynnast mikið, því ekki er nú sá yngsti nema 5 ára,“ svaraði hún og brosti drýgindalega. Svo bætti hún við: „Þú þarft nú líklega ekki að kvíða því, að börnin æri þig. Mig minnir, að sonur minn segði það nokkrum sinnum, að hann skyldi ekki hlaða niður krökkunum, eins og við. Ég sagði honum nú, bara að þau komi nú ekki óboðin eins og hjá okkur.“ Hún tók alla sokkahrúguna og bar hana eitthvað fram, kom aftur með stóran hrísvönd og sópaði tuskunum af gólfinu. Krakk- arnir smátíndust út. Loks voru þær tvær einar eftir, Þóra og María. Þóra byrjaði samtalið: „Ekki get ég skilið, hvernig nokkur manneskja getur hugsað um annað eins heimili og þetta,“ sagði hún og stundi yfir kjörum tengdamóður sinnar. María hló glaðlega. „Það er nú ekki orðið mikið núna hjá því, sem var fyrir sex til tíu árum. Þá voru erfið kjör, aumingja mömmu.“ „Hún hefur víst verið þrekmikil,“ sagði Þóra. „Já, og kjarkurinn og heilsan að sama skapi. Og mér finnst henai ekkert fara aftur,“ sagði María. Hún tók allt skæðaskinnið og fór með það fram. Þóra var ein inni dágóða stund. Ingigerður litla kom inn allra snöggvast. Þóra ætlaði að taka hana tali, en hún rauk á dyr, án þess að gegna, ákaflega geðvonzkuleg á svip. Þóra fór fram á eftir henni og hugsaði sér að finna eitthvað af fólkinu. Eldhúsið var út úr miðjum göngunum. Það stóð opið og stór pottur hékk í háböndunum. Konan kom út úr einhverjum kofa hinu megin í göngunum með trog í annari hendinni, en ausu í hinni. „Ertu ennþá í slátrum?" spurði Þóra. „Nei, nei, ég er að sjóða kútmaga,“ svaraði konan brosleit. „Við fórum á fætur klukkan 5 í nótt við María, til þess að verka þá. Þær hefðu nú líklega þakkað fyrir það hinar systurnar. En hún hugsaði ekki betur um heimilið, þótt hún væri húsmóðir. En ekki bjóst ég við að fá þig til að bragða á kútmögunum mínum.“ Þær fylgdust að inn í eldhúsið. „Sjáðu nú bara, góða, hvort ekki er matarlegt í pottinum þeim arna,“ ságði gamla konan og færði hverja kútmagakippuna eftir aðra upp úr pottinum. „Þeir hafa hlotið að afla feikna mikið,“ var það eina, sem Þóra gat sagt yfir öllum þessum ósköpum. „Já, það var ágætur afli. Friðrik hefur alltaf verið fengsæll á sjónum. Það er nú líka það eina, sem hefur hjálpað okkur. Annars værum við fyrir löngu komin á sveitina. Því sagði ég, þegar báturinn fór í sjóinn, að nú væri ekki um neitt annað að gera en að fara til hreppsnefndarinnar og biðja hana að útvega annan bát. En hann varð bara að aumingja, stundi og örvænti. Ég hélt bara, að hann ætlaði að verða geðveikur, skal ég segja þér. Sjaldan hefur það nú verið svartara. HVað heldurðu, að Kata geri. Ég tek mig upp og fer út að Múla til Vagns, hann var nú næstur, og sagði honum, að þeir mættu til með að hafa einhver ráð með að útvega Friðriki bát, ef þeir vildu ekki fá alla summuna á hreppinn. En hann var þá ekki ósköp hýr í horn að taka og hélt, að við gætum líklega komizt á sveitina landveg, það þyrfti víst ekki að kaupa handa okkur bát, og hann sagði ýmislegt fleira, sem ég hef ekki gleymt, þó ég verði líklega aldrei sú manneskja að geta borgað honum það, þeim háa herra.“ „Hvernig fórstu þá að?“ spurði Þóra, áköf eins og krakki, sem bíður óþolinmóður eftir sögulokum. „Og Katrín datt ekki af baki. Ég sagði Friðriki mínum ekkert frá því, til hvers ég fór út að Múla, fyrr en löngu seinna að allt var um garð gengið. Nokkru seinna var haldinn hreppsnefndar- fundur á Kárastöðum. Þá bara klæði ég mig í skárstu garmana og geng inn eftir. Ekki gekk ég þó fyrir alla nefndina. Ég bað prests- konuna að skila til hreppstjórans, að mig langaði að tala við hann. Ég var nefnilega búin að heyra talað um hann og hans heimili. Ef hann brygðist, sá ég engin ráð. En hann brást ekki, sá góði maður. Eftir viku var nýr bátur kominn út á víkina. Friðrik var aldeilis hissa, að ég var búin að koma þessu í kring, án þess hann hefði hugmynd um.“ Hún hló ánægjulega. „Þetta er í það eina skipti, sem ég hef leitað á náðir hreppsnefndarinnar, en það voru þung spor, Þóra góð, og ekki hafði ég lyst á kaffinu, sem maddaman vildi láta mig drekka. En bátinn gat hann borgað um haustið með fiski, og þá hitaði ég mér góðan kaffisopa.“ „Þú ert hrein og bein hetja,“ sagði Þóra. Það var ekki laust við, að hún væri dálítið hrifin af tengdamóðurinni. „En nú er þetta allt orðið svo mikið léttara fyrir ykkur. Krakkarnir orðnir svo duglegir að hjálpa ykkur.“

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.