Lögberg - 05.11.1953, Blaðsíða 6

Lögberg - 05.11.1953, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 5. NÓVEMBER, 1953 „Mér finnst þú þurfir ekki að taka þetta svona nærri þér, Sigurður. Fleiri hafa þó líklega séð skepnurnar hérna en Jakob. Og þessum eina gemlingi, sem gekk úr, gaf ég inni.“ „En hvér heldurðu, að hafi komið þessari sögu á gang, annar en stelpubrussan, sem Erlendur fór að bjóða þér eins og í vin- áttuskyni, það hefur hann gert til að frétta af heimilinu, þetta svín. Það vantar ekki, að það sé nógu kompánlegt við þig, býður þér í veizlur og —“ „Hættu þessu rausi,“ greip hún fram í. „Ég frétti sögu utan af strönd í vetur, sem ekkert er heiðarlegri en þetta.“ „Hvernig var hún? Komdu með hana,“ sagði hann fastmæltur, „var hún um mig?“ „Nei, heldur mér viðkomandi,“ sagði Þóra. „En það er bezt að hætta þessu þrefi og lofa því að skraía það, sem það vill,“ svaraði hún og fór inn. Eftir nokkrar mínútur var hún komin út í dyrnar aftur. Hann stóð á hlaðinu og horfði* yfir túnið hvanngrænt og fullsprottið, það var ekki laust við að brýrnar lyftust vitund. „Ef þér finnst ómögulegt að búa við okkur hérna í 'dalnum,“ tók hún til máls stillilega, „veiztu, að þú getur fengið frelsi þitt aftur, ef þú óskar þess.“ „Já, einmitt það,“ svaraði hann. „Þú hefur ekki á móti því, að ég fari. En fyrir hverjum á ég að rýma? Mér sýnist þeir báðir vera bundnir þessir gæðingar þínir,“ málrómur hans skalf af reiði. „Dettur þér í hug, að ég færi að gifta mig aftur, ef við skildum? Heldurðu að ég sé ekki búin að fá nóg af þessu fallega hjónabandi,“ sagði hún svo stillt, að hann var hissa. „Mér finnst svo sem ekkert að því,“ sagði hann kergjulega. „Ekki það. Þú ert svo sem ekkert vandlátur. „Mér finnst það bara ómögulegt, að búa svona saman.“ „En þú veizt, að ég fer aldrei. Ég er búinn að segja þér það.“ „Þetta var bara tilboð,“ sagði hún„ „ef þér finnst ólíft hér. En þú skalt ráða til þín vinnufólkið utan af ströndinni, ég ætla ekki að eiga við það að fá það héðan úr dalnum.“ Svo fór hún jnn og kom ekki aftur. Eftir messu sat Magga gamla ánægjuleg inni við kokkhús- borðið hjá Lísibetu og drakk gott kaifi. Lísibet var blíðleg eins og hún var vön, en minntist ekki einu orði á Þóru eða nýju bað- stofuna, spurði bara svona, hvort henni sjálfri liði ekki bærilega. „Ajæja, 'svona,“ svaraði Magga. „Ég finn það vel, að það eru orðin húsbóndaskipti, hann er ekki eftirbátur Þóru að því leyti, að hann vorkennir manni ekki að vinna, enda er hann duglegur sjálfur og þau bæði.“ „Ojá, ekki vantar það,“ var það eina, sem Lísibet sagði. En Anna spurði eftir því kátbrosleg, hvort ekki væri væntan- legt nýtt barn í nýju baðstofuna. „Jú, það lítur út fyrir það,“ svaraði Magga og fór líka að brosa. „Hefurðu ekki heyrt talað um, að það eigi að taka kaupakonu yfir sláttinn?“ spurði Lísibet, „eða ætli hann ætli henni að ganga út sá góði maður?“ bætti hún við, og það var ekki vandi að heyra kuldann í röddinni. „Nei, ónei, hún ætlar sér að ganga út eins og vant er, sagði hún mér um daginn.“ „Þá fæðist ekki litla barnið lifandi, eða heldurðu það, mamma?“ spurði Anna. „Það er engin hætta, góða mín. Þóra er hraust, en það verður erfitt fyrir hana,“ sagði Lísibet. Svo bættust aðrir kirkjugestir við borðið, og annað umræðuefni var tekið fyrir. En þegar Magga kvaddi Lísibetu og þakkaði henni fyrir allt gott og elskulegt eins og hún var vön, sagði hún: „Mundu það, Magga mín, að það eru alltaf nóg húsakynni hérna á Nautaflötum, ef þér kynni að finnast þessi nýja baðstofa í Hvammi of þröng fyrir þig.“ Magga jánkaði án þess að skilja, hvað hún meiti fyrr en löngu seinna. GAGNLEG SKILABOÐ * Sumarið var votviðrasamt og kalt. Töðurnar náðust þó með sæmilegri nýting, Ármann var kaupamaður á túninu í Hvammi. Þóra gekk út eins og hún var vön, en aldrei hafði henni dottið í hug, að það yrði eins erfitt og það reyndist. En notalegt var að koma inn í upphitaða baðstofuna eftir vos og erfiði dagsins, því Magga eldaði inni, þegar kalt var. Oft datt henni í hug, þegar hún var að hátta, að næsta dag yrði hún víst að sætta sig við að liggja í rúminu vegna bólguþrimla, sem sóttu á fæturna eftir að hún fór að ganga á engjarnar, sem allar voru blautar vegna vot- viðranna. En næsti dagur kom með nýja krafta og nýjan áhuga, hún fór á fætur eins og vant var. Sigurður minntist aldrei á það, að erfitt væri fyrir hana að raka í bleytunni eða fáraðist um það, þó hún háttaði seinna en aðrir, sem honum fannst þó svo átakanlegt sumarið áður. Þóra kvartaði heldur aldrei eða mæltist til hlífðar. Hún var köld og fáskiptin og gerði sjaldan að gamni sínu, enda voru skapsmunir manns hennar algerlega samstemmdir veðráttunni, ónotalegir þegar illa viðraði, en heldur skárri, ef eitthvað viðraði betur. Nú voru þrjár vikur, síðan túnið var hirt og enginn baggi kominn í tóftina. Magga gamla trítlaði ofan að ánni í úðarigningu á laugardagskvöldið. Kýrvargarnir stóðu þar og hímdu, en gátu ekki haft sig heim. Þóra stóð við hrífuna eins og hún var vön. Jói var að smala. Þarna var þá maður á ferð utan eyrarnar. Það var sannarlega nýtt að sjá ókunnugan fyrir hana. Ekki var gesta- gangurinn í Hvammi nú orðið. Hún dokaði við, svo hún gæti skrafað við gestinn, sem hún þekkti, að var Jón Jakobsson. Hann stanzaði hestinn og kastaði á hana kveðju. „Það er hálf ónotalegt veðrið á degi hverjum,“ bætti hann við. „Æi jæja, það er leiðindatíð, enda eru skapsmunirnir hálf stirðir hjá fólkinu,“ svaraði hún raunaleg á svip. „Er hann ekki rækallans drumbur þessi nýi bóndi?“ sagði hann. „Heldur finnst manni það nú. Hann er að minnsta kosti ekkert sérlega vorkunnlátur við kvenfólkið og líklega ekki við neinn,“ svaraði hún. „Er það Þóra Björnsdóttir, sem er að raka þarna í mýrinni?“ spurði hann og benti með svipunni þangað, sem Þóra rakaði í fangahnapp. „Ertu nú hættur að þekkja hana?“ skrækti Magga. „Ja, ég hélt kannske, að það væri einhver kaupakona, satt að segja finnst mér ekki veður fyrir hana. En hún ætlar að láta hann drepa sig sjálfa og þennan barnunga, sem er þó í hennar ábyrgð að skíla lifandi í veröldina. Eða finnst þér það ekki, Magga?“ Hún hriSti höfuðið. Þá bætti hann við: „Reyndar væri það nú ekki það versta fyrir þau bæði.“ „Nú þykir mér þú segja mikið, Jón minn,“ vældi Magga, gamla. „Svo finnst þér það? Þú vildir kannske segja Þóru þetta, og láttu fylgja með, að nú efist ég ekki um það lengur, að Sigurði þyki vænt um hana — elski hana.“ „Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að bera á milli fólks það, sem kannske gæti komið úlfúð af stað. Mér sýnist líka nágrennið vera orðið eitthvað þögult og þungbúið, svo ekki sé á bætandi.“ „Hefur Þóra gefið þér það í skyn?“ „Ekki með einu orði.“ „Jæja, það er ekkert af okkar hálfu, bara stórlyndið í henni eins og vant er. Hún reiddist víst eitthvað við mig þarna á nýárinu, en það hefur nú komið fyrir áður. Ég bið að heilsa henni, blessuninni, og segðu henni þetta, sem ég var að tala við þig, það hitar henni kannske svolítið í illveðrinu.“ Svo kvaddi hann og fór. Það húðrigndi, meðan Magga var að koma kúnum upp með læknum, þangað sem hjónin voru við heyvinnuna. Þóra rakaði og saxaði. Ljáin var líka nærri búin. Hún tók af sér skýluna og vatt hana milli handanna, þegar Magga kom í slægjuna. Svo greip hún upp fang og færði það í hnappinn. Vatnið hnpaði ofan úr því. „En þú skulir ekki hætta, manneskja,“ vældi Magga. „Þetta gæti ég nú hugsað, að væri þétt. Hvað skyldi hann faðir þinn hafa sagt og hugsað, ef hann hefði ímyndað sér, að þetta ætti fyrir þér að liggja?" „Ég er að strekkja við ljáarhornið,“ svaraði Þóra. „Geturðu ekki reynt að hafa þig áfram með kýrnar,“ spurði Sigurður höstugur. „Ætlarðu að láta þær standa þarna og úða í sig úr slægjunni. Þér er bezt að hafa sjálfa þig undir þak, svo þú króknir ekki, og hugsa svo ekki um aðra.“ „Það er gott, ef að það sjá ekki fleiri vinnubrögðin hérna en ég, og þyki nóg um,“ vældi hún, um leið og hún rak kýrnar úr slægjunni og heim í fjósið. Aldrei hafði Þóra verið eins illa haldin og einmitt þetta kvöld. Hún gat ekki sofnað fyrir þrautum í fótunum. Líklega yrði það svo, að hún kæmist ekki á fætur næsta morgun. Hún heyrði gegnum svefninn, að Magga var farin að klæða sig. Gat það skeð, að nú væri kominn morgunn. Ósköp hafði nóttin verið stutt. Hún ætlaði að sofna svolitla stund enn. Óskandi, að engar kvíaær væru til, þá mætti hún sofa. Næst vaknaði hún við, að Sigurðyr ýtti við henni. „Heldurðu, að rollunum fari ekki að verða mál á að komast út,“ sagði hann í sínum vanalega kaldranalega málrómi. „Magga er komin ofan fyrir löngu. Það er skárri svefninn." Nú var það gremjan sem yfirsteig vanlíðan hennar, hún reis upp og fór að klæða sig. Hann færði sig ofar, þegar hún steig fram úr rúminu, svo að hún gæti setið á rúmstokknum. En hún greip sokkana sína og flutti sig yfir á rúm Möggu. Hún gat þó ekki annað en kveikað sér, þegar hún steig í fæturna. Hann heyrði það og spurði hálfsofandi, hvort hún væri nokkuð lasin. Það kom ekkert svar. Þá færði hann sængina ofar og blessaði þá ágætu niðurröðun skaparans að hafa einn dag af hverjum sex hvíldardag. Magga var að hella á könnuna, þegar Þóra kom fram í eld- húsið. Hún hresstist við kaffi-ilminn. „Drottinn góður!“ kallaði Magga upp yfir sig. „Svei mér, ef þú gengur ekki draghölt, manneskja. Hvar heldurðu þetta lendi?“ „Það skánar við kaffið, Magga ruín. Verst fyrst á morgnana,“ sagði Þóra. Hún settist við hlóðirnar og saup úr bollanum. „Hafðu svo heitt á könnunni, þegar ég kem af kvíunum. Ég má ekki vera að drekka meira, það er orðið svo'framorðið.“ Þegar þær nokkru seinna sátu sín undir hvorri kú úti í fjósinu, sagði Magga: „Ég var með kveðju til þín, Þóra.“ „Kveðju til mín! Frá hverjum?“ „Ég fann mann hérna niðri við ána í gærkvöldi, þegar ég var að ná í kýrnar.“ „Ég sá nú það,“ sagði Þóra. „En ég býst ekki við, að hann biðji að heilsa mér framar." „Samt gerði hann það, aumingja pilturinn, hann er alltaf jafn almennilegur,“ sagði Magga hátíðlega. Hún heyrði, að Þóra hló kaldan, lágan hlátur. Hún beið þess, að Þóra spyrði sig einhvers, en hún hélt áfram að mjólka og þagði. „Honum ofbýður vinnuharkan hérna,“ sagði sú gamla. „Ég vildi, að þú hefðir haft vit á að segja honum að láta það afskiptalaust." „Hann má nú trútt um tala, eins og konan hans átti nú góða ævi í fyrra og reyndar ævinlega.“ Það hnussaði í Þóru. „Það getur nú leikið sér fólkið það, sem ekki veit aura sinna tal. Svo hefur nú alltaf verið farið með önnu eins og veikt barn, svo henni brygði sjálfsagt við, ef hún ætti að fara að vinna eins og manneskja.“ „Ójá, því er nú misskipt láninu,“ andvarpaði Magga. „En ég sagði honum, að mér dytti ekki í hug að skila neinu, sem gæti vakið úlfúð,“ bætti hún svo við.“ • „Hann segir aldrei neitt skemmtilegt nú orðið,“ svaraði Þóra. „En hvað var það, sem þú áttir að skila til mín?“ spurði hún, og ofurlítill vottur af brosi sást á andlitinu. „Langar þig til að heyra það?“ „Því ekki það.“ „Hann sagði, að þú ætlaðir að láta drepa þig sjálfa og þennan blessaðan barnunga, sem stæði þó í þinni ábyrgð að skila lifandi í veröldina.“ Þóra sótroðnaði. „Var það ekki eitthvað meira?“ „Jú, ójú, eitthvað var það meira. Hann sagði, það væri líka kannske það bezta fyrir ykkur bæði — nefnilega þig og barnið. Og svo bætti hann því við, að hann efaðist ekki lengur um það, að Sigurði þætti vænt um þig. — Og hann sagðist búast við, að þetta hlýjaði þér í kuldanum, ef ég skilaði því til þín.“ „Ég kann nú illa við að kafna í ljá, þegar hann er ekki nema eitt við sláttinn. Mér er víst sama, hvað hann rausar,“ sagði Þóra, og þvagan fór að ganga hraðara við fötuhölduna. „Ég hélt, að pabbi þinn hefði nú skilið þér svo eftir, að þú gætir goldið kaupakonu, en þyrftir ekki að þræla svona eins og þú gerir. Sjálfsagt hefur hann ætlazt til, að þær yrðu þér eitthvað til þæginda þessar krónur, sem hann var búinn að draga saman í mörg ár.“ „Ég ætla mér ekki að útvega vinnufólk hingað,“ svaraði Þóra. „Það getur orðið óánægja út úr einhverju öðru.“ „Óánægja? Hvenær er annað en óánægja hér. Þetta er ekkert heimilislíf, þessi ósköp. Ég er hræddur um, að pabba þínum hefði ekki líkað ævin þín, eins og hún er orðin. Hann hefði ekki átt að vera eins „gúlatroðinn“ í fyrrasumar og hann var yfir því, að þú hefðir farið í göngur; hvað skyldi það vera hjá þessu að geta ekki stigið 1 heilbrigðan fót og standa þó úti í hverju sem viðrar. En svo verð ég nú að segja það, að þú ert ósveigjanleg að minnast aldrei einu orði á, hvað þú ert lasin.“ „Það batnaði víst ekkert við það,“ svaraði Þóra. „Ég verð á fótum, meðan ég get, hvað sem öllum skilaboðum líður. Var Jón fullur í gærkvöld?" „Eitthvað var víst í kollinum á honum, en mikið var það ekki. Hann er nú alltaf svo spaugsamur, eins og þú þekkir.“ Magga margþvoði ketilinn, þegar ha'nn var búinn, tók hún til skyrkollunnar. „Eitthvað yrði nú líklega sagt, ef þú legðist nú fyrir tímann af þessari vosbúð og þrældómi," hélt hún áfram. Hún var mæisk í dag. „Þá ætti hann nú ekki upp á pallborðið hjá fólkinu hérna í dalnum, hann Sigurður, ekki hefur það svo mikið álit á honum, manntetrinu.“ „Ég býst við, að það láti hann í friði, hvað umtalið snertir,“ sagði Þóra snúðugt. „Ojá, þú heldur það. Ef þú hefðir þín eyru á annara höfði, heyrðist þér kannske annað. Ég man, hvað söng í henni Ragnheiði minni á Hóli, sunnudaginn sem lýst var í fyrsta skipti í fyrra sumar. Það verð ég þó að segja, þó að Sigurður haldi ekki mikið upp á Lísibetu og Jón, að þau tóku sæmilega svari hans þá, enda er það ekki siður þeirra að hlusta á baktal um fólk.“ Lækurinn flissaði og gjálfraði, svo þær urðu að tala nokkuð hátt til að yfirgnæfa hávaða hans, og sunnan andvarinn kastaði hverju orði beint inn í hlustirnar á Sigurði, sem stóð heima á hlaðinu. Hann lét brýrnar síga. Hvern fjandann kom Jóni eigin- lega við, hvort barnið fæddist lifandi eða dautt, og kannske væri það bezt fyrir þau bæði. Þetta voru ekki ógeðsleg boð, sem hún fékk, en þau særðu hann ekki síður en hana. Hann ranglaði suður að ærhúsinu. Það var lítið í tóftinni, heldur minna en í fyrra, allt var þá ákjósanlegt, annað nú. Hann gekk fram og aftur um húsa- hlaðið og gaf sólinni hornauga, hún barðist við ofurmagn skýjanna. Skyldi verða nokkur gagns þurrkur í dag. Það var óhugsandi. Alltaf þessi sama úlfúð í tíðinni, sem gat gert alla vitlausa. Þóra var lögzt upp í rúm undir sæng, þegar hann kom inn. Skyldi henni nú hafa orðið þetta litla um að heyra þessi skilaboð, hugsaði hann. En upphátt spurði hann, hvort hún væri svo sem nokkuð lasin. „Því dettur þér það í hug?“ spurði hún. „Þú ert ekki vön að leggja þig upp í rúm.“ „Mér sýnist þú hvíla þig á sunnudögum; þó ertu víst ekki lasinn.“ „Það ætti að vera útlátalaust að segja mér, ef þú ert lasin.“ Hun svaraði ekki, en lagði aftur augun og breiddi sængina yfir andlitið til hálfs. „Þú vekur mig, ef þarf að rifja,“ sagði hún eftir nokkra þögn. „Það er víst engin hætta á því,“ sagði hann fýlulegur. „Ég er líka að fara út að Hvoli,“ bætti hann við. „Ekki rifjum við allt heyið. Það geturðu þó ekki látið þér detta í hug.“ „Hvað svo sem getur þetta lið, aflóga kerlingargarmur og strákpatti. En það er víst engin hætta á því, að það verði þurrkur.“ Hann tók rakhnífinn upp úr borðskúffunni og sótti fram heitt vatn í bolla og fór að reyna að skafa vikugamlan, rauðan skegghýjunginn. Þóra var sofnuð, áður en hann hafði lokið við það. Henni var líka sama, hvort hann var með skeggi eða ekki, svo fjarlæg voru þau orðin hvort öðru. Hún skellti allri skuld- inni á hann. Hann hafði verið allt annar maður síðan á jólunum. Þótt hann reyndi að sýnast hlýlegur, var það ekki annað en yfir- skin til að halda henni í skefjum til vorsins. Nú þurfti hann ekki að óttast skilnað lengur, þess vegna óhætt að koma til dyranna eins og hann var vanalega klæddur. „Hvað svo sem ætlar hann með tvo til reiðar?“ spurði Jói Möggu frammi í eldhúsi. „Mósi leggur alltaf kollhúfur, þegar hann sezt á bak á honum.“ „Fór hann á Mósa? Líklega hefur hann þó ekki minnzt á það við hana aumingja Þóru! Nú hefúr hún þó næði til að sofa. Það skulum við gera líka, sofa í allan dag, því ekki kemur hann heim fyrr en undir háttatíma,“ sagði Magga. Eftir dágóða stund svaf allt heimilisfólkið í Hvammi. Um kvöldið kom Sigurður heim. María systir hans var með honum. Hún ætlaði að verða í Hvammi, það sem eftir var sláttar- ins. Með henni kom sól og vindur. KAUPENDUR LÖGBERGS Á ÍSLANDI Gerið svo vel að senda mér sem fyrst greiðslu fyrir yfirstandandi árgang Lögbergs, kr. 75.00. Dragið ekki að greiða andvirðið. Það léttir innheimtuna. Æskilegt að gjaldið sé sent í póstávísun. Þeir sem eiga ógreidda eldri árganga, eru vinsamlega beðnir að snúa sér til mín. BJÖRN GUÐMUNDSSON FREYJUGATA 34 . REYKJAVÍK

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.