Lögberg - 10.12.1953, Blaðsíða 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 10. DESEMBER, 1953
f...... ' V
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DA LALÍF
^— .....................................r
Þóra hamaðist við hrífuna, meðan ólguna í blóði hennar var
að lægja. Alltaf þurfti hann að kvelja hana með einhverju. Skyldi
nokkur hafa vitað það, að María var ráðin allan sláttinn. Það
var ólíklegt. En það var hægt að ímýnda sér, að svo væri, til að
kvelja hana með því. Hún horfði á eftir þeim. Þeir voru ekki
komnir úr augsýn ennþá. Þessir menn yrðu aldrei gamlir, hugsaði
hún, og aldrei annað en vinir. En hún var orðin gömul fyrir tím-
ann, gerði sér aldrei glaðan dag, fór aldrei út af heimilinu, kom
aldrei á hestbak, að heitið gat, hátt á annað ár. Þetta var ekkert líf.
Það eina, sem var einhvers virði, var Björn litli. Ennþá gat hún
ekki hugsað um hann nema í hjáverkum sínum, fyrir annríki.
Það var ekki að furða, þó það sneiddi til hennar það fólk, sem
hafði enga þekkingu á erfiðleikum.
Hún hrökk við, þegar hún heyrði rödd Sigurðar, þurra og
kalda:
„Hefurðu ekki séð brýnisstubb einhvers staðar hérna í
slægjunni?"
Hann hafði verið að slá kippkorni ofar, en var allt í einu
kominn þarna til hennar,án þess hún yrði þess vör.
„Einhvers staðar varð það fyrir mér,“ svaraði hún stuttlega,
„en ég veit ekki, hvað þú getur gert með það. Þér hefði verið
nær að koma með hrífu og hjálpa mér með ljána.“
„Mér sýndist það ekki vera svo mikið eftir af henni, að þú
kæmir henni ekki af ein. En brýnið get ég notað svo sem tvo,
þrjá daga,“ svaraði hann og hélt áfram að leita.
„Þarna var hann lifandi kominn með smásálarskapinn," hugs-
aði hún, „að gefa sér tíma til að svingla eftir svo sem þriggja
þumlunga brýnisbút, en láta sig engu skipta, hvað ljánni leið.“ Öll
gremjan snerist til hans, sem hafði heft frelsi hennar með stálvilja
sínum, allir hennar erfiðleikar voru honum að kenna.
„Hvaða hyski var hér á ferðinni áðan?“ spurði hann.
„Það var áreiðanlega ekkert hyski; allur ungdómurinn þarna
framan af bæjunum að fara á skemmtun, sem á að halda á Hrafn-
stöðum í kvöld.“
„Miklir déskotans asnar eru þessar manneskjur.“ sagði Sig-
urður gramur, „að dansa um hásláttinn.“
Þá sauð gremjan upp úr hjá henni, svo hún hlífðist ekki við
að kasta framan í hann, sem hana hafði logsviðið undan skömmu
áður.
„Það er engin furða þó þeim finnist það óþarfi, sem ekkert
sjá eða hugsa um annað en sífelldan þrældóm.“ En hann var ekki
eins hörundssár. Setti bara upp gamla þráasvipinn, sem hún gat
tæplega liðið, og sagði:
„Það er víst betra að vinna svo að maður svitni, en snúa sér
í hring eins og vanka-skepna."
Hann fann brýnið, stakk því í vasa sinn og sagði, um leið og
hann gekk í burtu:
„Það er ekki hægt að segja, að það hafi góð áhrif á þig að sjá
þessa leikbræður þína.“
LÍSIBET KEMUR 1 HEIMSÓKN
Þegar Þóra hafði lokið við málaverkin daginn eftir, flýtti hún
sér inn í baðstofuna til Björns litla, sem bylti sér óklæddur í
rúminu. Hún hafði hlakkað til þess allan morguninn að sjá
drenginn þveginn og í hreinum fötum. Það var sorglegt, að verða
að vanhirða barnið. Hún tók hann og bar hann í sænginni fram
að eldavélinni. Þar var hlýjast. „Nú skal Björn litli verða fínn,“
sagði hún í gæluróm og fór að þvo honum um kollinn. Sigurður
hafði lagt sig, en vaknaði við það, að drengurinn gaf frá sér hljóð,
þegar verið var að klæða hann í skyrtuna.
,Ailtaf geturðu verið að þvo þessum krakka um skrokkinn,"
6agði hann hálf-sofandi. „Ég get nú ekki meint, að það þurfi að
þvo honum í hvert sinn, sem hann fer í hreina skyrtu. Það veitir
víst ekki af að fara að rifja bráðlega.“ Svo sofnaði hann aftur.
Þóra anzaði honum engu og hélt áfram að klæða drenginn, og
talaði við hann á meðan, svo hann yrði rólegri: „Nú þarf að greiða
gullkollinn. Þá er mömmudrengur orðinn fallegur.“
Sigurður reis upp og talaði enn um að rifja, um leið og hann
fór fram. Þóra setti drenginn í rúmið hans og fór að breiða yfir
hitt rúmið. Hún hafði rétt lokið við það, þegar Magga kom inn
með óvæntan gest. Þóru varð ekki vel við. „Lísibet,“ sagði hún
upphátt, svo hissa varð hún. Hvað skyldi standa til? spurði hún
sjálfa sig.
Lísibet heilsaði Þóru og barninu blíðlega. „Ósköp er hann
orðinn stór og myndarlegur, blessaður drengurinn þinn,“ sagði
hún og tók Björn litla á handlegg sér. „Þetta er nú skárri
maðurinn.“
Þóra bauð henni sæti. Hún sá, að hún var að líta í kring um
sig í baðstofunni, sem var allt annað en skemmtileg útlits. Gólfið
óskúrað og óhreinu fötin af barninu í hrúgu á gólfinu hjá eldavél-
inni. Hún fór að stama fram einhverri afsökun á því, hvernig liti
út hjá sér. En Lísibet greip fram í: „Það er víst engin von, að þú
getir unnið bæði úti og inni. Mér stóð hreint ekki á sama, þegar
ég frétti, að María væri farin og þú ein eftir.“
Þóra fór fram með fötin af Birni litla. Hún losnaði þá við að
ræða um Maríu. Þegar hún kom inn aftur, fór hún að spyrja,
hvað væri að frétta, því hér kæmi ekki neinn til að segja fréttir.
„Hvernig stendur á því, að enginn kemur til þín? Hér komu
þó gestir engu síður en á hina bæina í dalnum, meðan pabbi þinn
réð heimilinu.“
Enn þurfti Þóra að fara fram til að ná í ketilinn. Hún snerist
eirðarlaus innan um baðstofuna, meðan hitnaði á katlinum. Það
bjó eitthvað undir þessari heimsókn. Lísibet var ekki vön að
heimsækja nágrannana, nema eitthvað sérstakt væri um að vera,
veikindi eða fátækrabasl á einhvern hátt. En þá lét hún það ekki
bíða að líta inn til þeirra.
Magga gamla kom inn og spurði Lísibetu ósköp einfeldnislega,
hvort hún ætlaði langt að fara.
„Ekki lengra. Ég kom bara til að vita, hvernig Birni litla liði,
því Jói sagð mér, að hann væri lasinn,“ svaraði hún. Þá fyrst
mundi Þóra eftir að þakka henni fyrir meðalið, sem hún hafði
sent henni.
„Honum batnaði nú vel af þeim,“ sagði Magga, „en hann var
óvær í gær, seinni partinn. Mér finnst hann vera nokkuð þungur
á handleggjunum á mér; þeir eru nú ekki orðnir svo merkilegir.“
„Nærri má nú geta,“ sagði Lísibet og virti fyrir sér holdlausar
handleggjapípurnar í treyjuermunum. Svo sagði hún: „Kemur
Maríá í dag til ykkar?“
„Hún María?“ flaustraði Þóra út úr sér. „Ég býst ekki við,
að hún komi aftur.“
„Var hún ekki ráðin hér í allt sumar?“ spurði Lísibet.
„Ég veit það varla,“ svaraði Þóra. Henni fannst Lísibet allt of
nærri sér og færði sig fram að eldavélinni. „Það er heldur nota-
legra að hafa eldavélina inni,“ sagði Þóra, til þess að leiða samt^lið
í aðra átt.
„Það er ólíkt nota'legra fyrir drenginn," sagði Lísibet, „en þú
nýtur þess lítið, þegar þú stendur við hrífuna allan dagnn.“
Þá fór Þóra að spyrja eftir, hvenær unga fólkið hefði komið
heim af ballinu. Sízt af öllu vildi hún ræða um sínar heimilis-
ástæður, þær voru ekki svo skemmtilegar. Magga fór þá að tala
um gigtina í handleggjunum á sér. Hún gæti ekki sofið hálfan
svefn fyrir þrautunum. Ekki varð Þóra rólegri við það að hlusta
á kveinið í henni.
Björn litli var sofnaður í fagninu á Lísibetu. Þóra tók hann
og lagði hann í rúmið.
„Þú kemur aldrei fram eftir til að sjá Jakob okkar,“ sagði
Líisþet. „Og meira að segja hef ég heyrt, að þú hafir aldrei komið
á hestbak í sumar. Mér finnst það nú allt of mikil hamingja, að
gefa manninum allar stundir, en setja gömlu kunningjana alger-
lega til hliðar.“ Hún brosti svo einkennilega, að Þóra varð feimin
og roðnaði.
„Það er nú Björn litli, sem heldur mér heima,“ sváraði hún og
leitaði að hvítum dúk á borðið; raðaði síðan brauðfötum og bolla-
pörum, ásamt sykri og rjóma. Til allrar hamingju var til kaffi-
brauð, síðan töðugjöldin voru drukkin. Svo kom kaffið í bollana.
Þóra ætlaði að drekka líka. Borðið stóð undir glugganum. Magga
kom trítlandi með fötu og fyllti hana með vatni. Bar hana spöl-
korn frá læknum, þar setti hún hana niður og sló höndunum utan
í mjaðmirnar. Þetta var siður hennar, ef henni leið illa í hand-
leggjunum.
Gat hún ekki haft sig frá glugganum, hugsaði Þóra. Hún sá,
að Lísibet horfði á hana full samúðar. Svo spurði hún:
„Hvað er hún orðin gömul, hún Magga?“
„Hún er bráðum sjötíu og þriggja ára.“
„Ekki er nú furða, þótt handleggirnir séu orðnir þreyttir.
Heldurðu nú ekki, Þóra mín, að við förum að þiggja að hafa það
rólegt, ef við náum nokkurn tíma þeim aldrei?“
,,Það eru víst flestir fátæklingar, sem verða að vinna, meðan
þeir geta,“ sagði Þóra og hrærði stöðugt í bollanum; hann var
víst ótrúlega seinn að renna þessi sykur.
„Ekki finnst mér það nú sjálfsagt,“ svaraði Lísibet stillilega.
Samvizkan sló Þóru, svo hún sótroðnaði. Hefði einhver annar
tekið sér þetta til umræðu, hefði hún líklega sagt honum að gera
svo vel og skipta sér ekkert af henni Möggu gömlu. Það kom víst
engum við, hvort hún vann mikið eða lítið. En nú var það Lísibet
og engin önnur, sem sat þarna, og hún var alltaf sjálfsagður
málsvari lítilmagnans, enda bar svipur hennar þess vott, að hún
ætlaði að hafa sitt fram eins og vant var.
„Hún hefur fullkomið vinnukonukaup,“ var það eina, sem
Þóra gat sagt.
„Þó það væri nú. En það hefur nú heyrzt, að það þyki of mikið
að fóðra þessar skepnur fyrir hana.“
Þóru fannst þrengja óþægilega að brjóstinu. Hver var það,
sem lá í eyrunum á þessari manneskju; allt vissi hún.
„Það er nú ekki allt satt, sem maður heyrir,“ sagði Þóra
stuttlega.
„Það er ekki vani minn að fara með það, sem ég veit ekki
hvort er satt,“ svaraði Lísibet, og svipur hennar harnaði. „Þeir
urðu samferða, mennirnir okkar, neðan úr kaupstað núna nýlega.
Mér þykir ótrúlegt, að þú álítir, að Jakob sé farinn að búa til
sögur.“
„Nei, það dettur mér ekki í hug,“ sagði Þóra lágt. Svo beið
hún þess, sem næst kæmi. Um vörn var ekki lengur að tala.
Lísibet hélt áfram eftir dálitla þögn: „Ég kom hingað nokkrum
sinnum, þegar hann pab'bi þinn lá banaleguna. Það er nú einu
sinni sannfæring okkar, að við eigum að gera það, sem fólk æskir
eftir á þeim tímamótum. Hann bað mig að líta eftir Möggu. Þess
vegna er ég hingað komin. Ég veit, að hún vinnur allt of mikið,
og svo er ráð fyrir gert að taka skepnurnar af henni eins og með-
gjöf. Hún á að gefa þær með sér.“ —
„Þetta nær engri átt,“ greip Þóra fram í.
Lísibet hélt áfram: „Hann bað mig líka fyrir þig, en þú þurftir
mín ekki með og réðir þér sjálf, og ég þykist vita, að þú hafir valið
vel og sért ánægð, þótt fljótfærnislega hafi verið lagt af stað.“
Þóra gat varla setið kyrr undir slíkum lestri. Samt reyndi
hún að sýnast róleg og bera höfuðið hátt. Þótt hún væri algerlega
varnarlaus, ætlaði hún ekki að hopa fyrr en í fulla hnefana. Þó
gat hún ekki ráðið við óstyrkinn, sem var í röddinni, þegar hún
komst að með að tala.
„Pabbi sálugi talaði um það við mig, að Magga yrði hér það,
sem hún ætti eftir ólifað. Þér getur þó ekki fundizt, að það standi
þér nær að uppfylla síðustu óskir hans en mér — barninu hans.
Og þess vegna er óþarfi að ræða um þetta meir.“
„Ég veit það vel, að hann ætlaðist til þess, að hún yrði hér.
En hann hefur ekki ætlazt til þess, að hún yrði látin vinna helm-
ingi meira en hún hefur unnið í mörg ár. Þú þekkir það nú, Þóra
mín, aj gamalli reynslu, að ég er margskiptjn. En mér hefur
fundizt það oftastnær verða einhverjum til góðs. Manstu, þegar
ég reið yfir að Hóli og tók aumingja barnið af Ragnheiði?“
„Já,“ víst mundi hún það vel. Þá höfðu bæði hún og aðrir
daðst að Lísibetu, þegar hún tók þurfaling af Ragnheiði gömlu,
sem hún vanhirti að öllu leyti .Það vissu líka allir, að enginn hafði
getað afrekað það önnur en hún. Hvenær hafði Þóra hugsað
nokkru sinni til þessarar konu öðruvísi en með aðdáun, þangað
til núna?
„Það var í það eina skipti, sem Jakob minn taldi það úr, að
ég færi út af heimilinu. Hann þekkti hvaða svarkur Ragnheiður
er,“ hélt Lísibet áfram, „en ég hefði aldrei fyrirgefið sjálfri mér,
ef ég hefði látið það afskiptalaust. Ég get ekki hugsað til þess, að
börnum og gamalmennum líði illa. Pabbi þinn þekkti það, að þið
Magga hafið aldrei skilið hvor aðra. En hitt hefur honum sjálf-
sagt ekki dottið í hug, að maðurinn þinn yrði alveg tilfinningalaus
harðstjóri.“
„Hann vinnur mikið sjálfur og ætlast þess vegna til mikils af
öðrum,“ gat Þóra skotið inn í.
„Hann vinnur þó ekki nema eins manns vinnu, en ykkur
Möggu lætur hann vinna tvöfalda vinnu.“
„Það hefur víst sérstakt gaman af því, fólkið hérna í dalnum,
að færa allt út á versta veg fyrir honum,“ gat Þóra skotið inn í
aftur.
„Hér þarf enga sögusögn. Það' er svo stutt á milli, að maður
sér hvað gerist. Hann kemur ekki að orfinu, fyrr en þú ert langt
komin með mjaltirnar. Skeð getur, að hann sé eitthvað að flýta
fyrir inni, ég veit það ekki. Þú keppist við það, sem þú getur, að
koma af því mesta í bænum, svo þú getir komizt út strax eftir
skattinn, hitt læturðu Möggu gera með barninu. Svo keppistu við
úti. Þér finnst sjálfsagt, að hann þurfi ekki að raka. Þetta kalla ég
að vinna tvöfalda vinnu. Þú finnur ekki til þess, af því að þú ert
hraust og áhugasöm fyrir búskapnum. Öðru rnáli er að gegna með
Möggu. Hún er búin fyrir löngu að slíta sínum kröftum. vinnur
aðeins af vana, meðan hún getur komizt úr rúminu.“
„Það verður nú stundum að gera fleira en gott þykir,“ sagði
Þóra.
„Það er enginn vandi að fá kaupakonu, og það er einhver
fátækari en þið, sem lætur það eftir sér,“ sagði Lísibet.
Svo þú ert þá komin til þess að taka Möggu af mér?“ sagði
Þóra skjálfrödduð. „Finnst þér þú hafa vald til þess?“
„Nei, ég er ekki komin til þess. Þú misskilur mig, ef þú álítur
það,“ sagði Lísibet og röddin varð hlýrri.
„Mér datt bara í hug, hvort ekki væri hægt að benda þér a
ráð til að losna úr þessari bóndabeygju, sem þú ert komin í. Því
hefði ég nú einhvern tíma átt bágt með að trúa, að Þóra litla í
Hvammi léti manninn ráða algerlega yfir sér.“
Þóra stóð upp og hellti afur í bollann hjá gestinum. Hennar
bolli stóð óhreyfður ennþá.
„Ef þú átt við, að ég skilji við Sigurð, þá er þýðingarlaust að
nefna það. Hann gefur aldrei eftir skilnað.“
„Drekktu kaffið og vertu róleg. Ég hef aldrei ætlað mér að
fara fram á það. Ég sé, að það er mikið varið í mann þinn, en hann
er nú alinn upp við þetta. Móðir hans hefur víst ekki átt neina
sérlega ágætis ævi og gengur víst undir öl'lum á heimilinu ennþá.
Pabbi þinn var alltaf að draga saman og leggja fyrir, til þess að
þér gæti liðið vel. Þess vegna er það skylda þín að taka stúlku,
svo þú þurfir ekki að láta Möggu líða svona báglega.“
„Ég er orðin hálfþreytt á þessum mágkonum mínum. Stelp-
urnar voru vitlausar í öyndi, hvernig sem ég reyndi að leika við
þær, og svo fer María, án þess að minnast á það einu orði. En ég
tók það einu sinni í mig að ráða ekki fólk héðan úr dalnum til
okkar.“
„Ef að hann lætur þig ekki hafa nógar stúlkur utan af strönd-
inni, þá er það sjálfsagt, að þú ráðirjpær sjálf, hvaðan sem þú færð
þær,“ sagði Lísibet og brosti nú í fyrsta sinn.
Þá ranglaði Magga gamla inn. Þóra var hissa á því, að hún
skyldi ekki hafa tekið eftir því fyrr, hvað fötin hennar voru
óhrein og hún sjálf vesældarleg.
„Komdu hérna með bolla handa þér, Magga mín,“ sagði
Lísibet.
„Ég er, held ég, ekki þessleg, að setjast við dúkað borð,“ vældi
Magga, en kom þó með bollann, hikandi að nálgast klæðis-reið-
fötin. Loksins fékk Þóra tækifæri til að hafa sig út. Það er alltaf
óviðkunnanlegt að láta gestina sitja eina inni. Nú gat Magga
komið í hennar stað.
„Þetta er bara skemmtileg baðstofa,“ byrjaði Lísibet samtalið,
og drengurinn efnilegur.“
„Það má segja, hann er efnilegur, blessunin. Það er líka það
eina, sem heldur mér á þessu heimili. Hún er orðin alveg eins og
hann, sér ekkert nema vinnuna, lætur allt reka á reiðanum innan
bæjar. Ef hann Björn heitinn hefði verið ánægður."
„Ég er að vona, að þetta breytist til batnaðar,“ sagði Lisibet
hughreystandi.
Þóra flýtti sér út úr bænum. Helzt hefði hún viljað fleygja
sér niður í varpann og skæla eins og krakki, sem barinn er til
hlýðni. Stórlæti hennar var algerlega brotið á bak aftur. Gremjan
sauð í henni til Lísibetar. Var hún að hefna sín fyrir það, að hún
hafði brotizt undan ráðríki hennar, með því að koma, þegar verst
gegndi og benda henni á, hvað hún stæði skammarlega 1 stöðu
sinni. Hingað til hafði þessi kona komið til hennar, þegar neyðin
þrengdi mest að. En nú? Gerði hún þetta í góðri meiningu? Hún
sá þær sitja saman við baðstofuborðið, ríku konuna í fínu reið-
fötunum með stráhattinn, og Möggu, lítilfjörlega, óhreina, vand-
ræðaleg á svip yfir smæð sinni. Svona hafði Magga ekki litið út,
meðan faðir hennar réð hér húsum. Hann hafði alltaf haft fata-
skipti sjálfur á sunnudögum, áður en hann las húslesturinn. Það
höfðu aðrir gert líka. Ef að Magga varð sein fyrir að hafa fata-
skipti, spurði haíln um hana, hvort hún hefði ekki einhverjar
hreinlegri spjarir að fara í. N'ú voru lestrarbækurnar ekki snertar
og ekki hugsað um neitt annað á sunnudögum en hvort ekki væri
hægt að vinna eitthvað. Hún vissi ekki fyrir víst, hvort Sigurður
var læs; hann leit aldrei í bók eða blað. En einhvern veginn hafði
hann þó komizt fram úr því að lesa reikninginn sinn. Jú, líklega
var hann læs.
Nú heyrðist hreyfing heima við bæjardyrnar. Þær voru
komnar út, Magga og Lísibet. Hún lagði við hlustirnar.
„Þú ættir að koma fram eftir einhvern sunnudaginn. Það
hressti þig upp,“ heyrði hún Lísibetu segja.
Svo heyrðist kjökurhljóð í Möggu:
„Það verður nú líklega reynt að láta mann hafa eitthvað
annað að gera en ganga á bæi. Ég vildi helzt flytja mig í garðinn til
hans Björns heitins. Það var öðruvísi ævin mín hjá honum.“
„Þú manst, að það er alltaf pláss fyrir þig hjá mér. Jón minn
tekur á móti þér, ef ég er ekki viðlátin. En ég vona, að til þess
komi ekki. Það væri leiðinlegt fyrir aumingjann hana Þóru.“
Svo kvöddust þær, og Magga þakkaði snöktandi fyrir allt gott
og elskulegt sér auðsýnt.
Einhverntíma var hún ekki eins hrifin af Lísibetu. En nú var
allt gleymt, sem áður var. Það vantaði nú ekki annað, en að Jón
gæti hælzt yfir því, að Magga hefði gengið í burtu frá henni.
Eitthvað skyldi fyrr ganga á, hugsaði Þóra og rigsaði heim að
dyrunum. Magga smaug eins og skuggi inn í dyrnar. Þóra leysti
bleika gæðinginn frá hesthússteininum. „Hann fær ekki einu sinni
að naga varpann, aumingja klárinn,“ sagði hún og gaf honum
lausan tauminn.