Lögberg - 18.11.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 18.11.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 18. NÓVEMBER 1954 En áður en hann hafði lokið við matinn, voru barin þrjú hressileg högg í bæjarþilið. Birni var sagt að fara til dyranna. Nokkru seinna kom hann inn með gestinn, sem var Ketilríður. „Hér sé Guð í góðum bæ. Sælt og blessað veri fólkið. Guð blessi ykkur heimsókn mína“, rollaði hún upp, um leið og hún kom inn úr dyrunum. Svo faðmaði hún Þóru og óskaði henni til ham- ingju með þetta blessaða „Guðsljós“, sem hún væri búin að eignast. Síðan signdi hún hvítvoðunginn og bað fyrir honum. „Ég skrapp þetta fyrir blessaða húsmóðurina. Það kom nú heldur fát á hana, þegar Jón kom inn og sagði henni, að hér væri fæddur drengur, sem ekki væri neitt sérlega ánægður við hana, því hann fyndi enga spjör til að klæða sig í. Það vantar nú kannske ekki, að hann geti komið laglega fyrir sig orði, maðurinn sá“, sagði Ketilríður og fékk Þóru fataböggulinn. „Þá fær hann þó eitthvað til að fara í“, sagði Þóra. Hann var vafinn í einhverja garma af Boga litla“. Hún skoðaði fötin, og litlu systkinin færðu sig nær rúminu og horfðu á þessi fínu föt, sem nýi bróðir átti að fá. „En hvað hún hefur gengið vel frá þessu, allt „strauað“ og strokið. Og þarna hefur hún gefið mér blúndur“, sagði Þóra ánægjuleg á svip. „Það er nú ekki að spyrja að því, sem hún snertir á; allt er það jafn prýðilegt, bæði til munns og handa“, sagði Ketilríður. „Saumaskapurinn gengur betur hjá henni en mér“, sagði Þóra. „Ég var búin að sníða buxur á drengina og kjól á Kristínu mína, meira varð það nú ekki. Björn minn er kominn með hnéð út úr buxunum, sé ég er. Ég hef nú aldrei verið svona á vegi stödd“. „Hvaðan færðu hjálp?“ greip Ketilríður fram í fyrir henni. „Ég hef ekki von um nokkra hjálp. Systir Sigurðar var búin að lofa okkur viku, en hún meiddi sig í fæti, svo að útséð er um það. Ég hef bara enga von, enda hef ég ekkert getað reynt fyrir mér“. „Ja, hverslags vandræði eru þetta. Láttu mig sjá þessar spjarir, sem þú varst búin að sníða. Ég býst við, að Anna telji það ekki eftir sér, að koma þeim saman fyrir þig. Ég skal líka þvo þvott fyrir þig, ef þér leggst ekki annað til“. Björn var fljótur að finna buxnaefnið og kjólefnið. Það var í böggli niðri í kofforti. Hann hafði ekkert á móti því að fá nýjar buxur. Ketilríður kvaddi með sömu innilegheitum og hún hafði heilsað. Þóru var óvenjulega hlýtt til hennar. Hún hafði alltaf heldur sniðgengið þá konu, og fundizt óviðfelldið tal hennar, að því ógleymdu, hvernig hún hafði komið fram á Nautaflötum sumarið sem Anna var verst komin til heilsunnar. Ketilríður geystist fram -grundirnar. Hún hafði veðjað við Sigga um, að hún skyldi ekki verða klukkutíma í burtu. Anna var í eldhúsinu þegar hún kom heim aftur. Hún fékk henni böggulinn um leið og hún skýrði henni frá ástæðunum í Hvammi. Anna bað fyrir sér aftur og aftur. „Drottinn minn, að vera alein með fimm börn. Hvernig á ég að fara að þessu, að geta ekki hjálpað henni! Aumingja Þóra!“ Hún fór inn í hús og sagði manni sínum fréttirnar. Hann var alltaf svo ráðagóður. „Hvernig á ég að fara að þessu?? Mig langar til að hjálpa henni. En Borghildur er ekki vön við að vinna annars staðar en hér, og aumingja stúlkan er nú eins og hún er. Skyldi vera til nokkurs, að biðja Ketilríði að fara til hennar?“ Hann hristi bara höfuðið. „Herra trúr! Hana Ketilríði? Hún hlyti að kremja ungbarn í sundur með þessum óskapa höndum. En við verðum samt að hjálpa henni. Ef Þóru leggst ekki eitthvað til, þá fer Borghildur út eftir og verður þar í nokkra daga, ef ég tala um það við hana“. „Já, en eldamennskan, þegar Manga er svona bág?“ sagði Anna kvíðin. „Þið hljótið, held ég, að komast einhvern veginn út úr því að elda matinn fáeina daga“. ' „Ef ég hefði haft Línu, þá væri ég ekki í vandræðum", sagði hún. „Nei, þá værir þú ekki í vandræðum“, sagði hann. Hann gekk dálitla stund um gólf, svo settist hann við skrif- borðið og fór að skrifa eitthvað. Anna vissi, að samræðunum var lokið. Hún fór fram í baðstofuna og talaði um það við Borghildi, hvort hún héldi, að hún vildi fara út að Hvammi, ef Þóra væri í vandræðum. Hún bjóst við því, að hún myndi gera það, þó að hún væri óvön því að snúast við krakka nú í seinni tíð. „Það er víst ágætt skíðafæri?“ sagði Jón, sem kom fram fyrir, og var búinn að setja upp húfu og vettlinga. „Já, það er ágætt“, sagði Ketilríður, sem vissi, að spurning- unni var beint til sín. „Ég var ekki margar mínútur hérna á milli bæjanna, það verð ég að segja, með raupinu og öllu saman. Þetta eru líka indælis skíði, sem Þórður lánaði mér‘.‘. V„Ég er að hugsa um að skreppa yfir að Hóli“, sagði Jón og kvaddi konu sína með kossi. „Það hefur lengi verið ætlun mín, að finna Ella. Hann hlýtur að vera heima núna“. „Hvers vegna ferðu svona seint; myrkrið er að skella á“, sagði Anna. „Það er ekki svo dimmt. Nógur er snjórinn, og hann lýsir dálítið. Kannske verður líka tunglsskin í kvöld, þó að dimmt sé í lofti“. Svo lagði hann af stað. Það var ekki löngu eftir að Ketilríður fór, að hundurinn gaf til kynna, að nýr gestur væri að koma að Hvammi. En hann hafði ekki fyrir því að berja, heldur gekk beint inn göngin og bankaði á baðstofuhurðina. „Hver getur það verið, sem ekki ber í bæjarþilið?“ sagði Friðrik litli. Hann þorði ekki að opna baðstofudyrnar, þó að hann stæði rétt hjá þeim. Björn litli hljóp til dyranna, og gesturinn kom inn í Ijósið og bauð gott kvöld. Það var Jón hreppstjóri. „Ég gat ekki verið að ómaka Björn litla til dyranna. Hann hefur víst í mörgu að snúast núna“, sagði hann þegar hann kom innar á gólfið. Svo heilsaði hann og óskaði hjónunum til hamingju með soninn. „Ég átti ekkert erindi annað en að sjá hann“, sagði Jón við Þóru. „Þú þekkir það, hvað ég er hrifinn af börnunum. En hvað hann er stór og myndarlegur; og hvað hann hefur kraftalegar hendur. Hann verður sterkur, þessi snáði. Þú færð þar duglegan vinnumann, Sigurður. En kannske líka dálítið skapstóran, eins og mamma hans er“. „Ég hef nú líka hugsað mér að láta þá puða, þegar þeir komast upp“, sagði Sigurður og brosti. Hann bauð gesti sínum sæti. Yfirsetukonan fór að láta ketilinn yfir eldinn. Af vana tók Jón upp pípuna og tróð í hana tóbaki. En þegar hann aðgætti, að bæði ungbarn og sængurkona voru rétt hjá honum, ætlaði hann að stinga henni í vasa sinn. „Þér er alveg óhætt að kveikja í pípunni“, sagði Þóra. „Ég þoli reyk vel, og barnið er á kafi í sænginni“. Hann þakkaði og kveikti í pípunni. Talið barst að fönninni og jarðleysinu. „Við förum að finna til hrossanna, ef hann bleytir í allri þessari fönn, sem helzt lítur út fyrir núna“, sagði Jón, þegar hann hafði sogið pípuna nokkrum sinnum. „Þú hefur alltaf jörð fram í Selsmýrum á hverju sem gengur. Það er munur eða ég“, sagði Sigurður. „Það eru stórhlunnindi fyrir þig, að Selið er í eyði“. „Ég byggi það heldur engum, nema ef Þórði dytti í hug að fara að búa, en það lítur ekki út fyrir að hann ætli mikið að hugsa um það“. „Kristín litla færði sig að hnjám gestsins og horfði á þessar skrítnu reykjargusur, sem hann sendi frá sér öðru hverju. Hann fór að tala við hana: „Þú ert heldur lítil til að rázka fyrir mömmu, anginn litli. Hvaða ráðskonu hefurðu, Sigurður?“ „Ekki nokkra manneskju; ég er alveg í standandi vandræðum", sagði Sigurður. „Hvernig ferðu að því, Ætlarðu sjálfur að þvo litla drengnum og elda matinn ofan í ykkur? Ég kalla þig seigan, ef þú gerir það“. Sigurður hristi höfuðið. „Það er nú eitthvað annað en að ég geti það. Meiri staur en ég er ekki til við innanbæjarstörf. Það lítur út fyrir, að ég verði nauðbeygður til þess að ganga um sveitina á morgun og biðja hverja stúlku, sem ég sé, að vera mér hjálpleg. Ég get nú hugsað mér, að það gangi ekki sérlega vel“. Jón sneri máli sínu til Þóru. „Gætirðu ekki þegið, að konan tæki af þér litla drenginn meðan þú liggur. Það hlyti að verða til hægðarauka“. »Ég get sjálf farið að hugsa um hann. Hann er líka kominn á brjóstið“, flýtti Þóra sér að svara. „En að Bogi litli kæmi þá frameftir?“ „Hann yrði vitlaus af óyndi. Hann er einþykkur“, sagði Þóra. „Litla stúlkan gæti komið líka, þá leiddist honum ekki“. Nú fannst Þóru málið ætla að fara að vandast. Þá kom Sigurður henni til hjálpar. „Okkur kæmi miklu betur að fá stúlku. Þó að krakkarnir færu, þá yrði ég samt í vandræðum með heimilið. Ég er svoddan „barri“, og svo hef ég nóg annað að gera. En ekki er ég hræddur um, að krakkarnir kynnu ekki við sig hjá ykkur“. Honum fannst Þóra taka þessum góðu tilboðum of fálega. „En það er nú svona“, sagði Jón, „þó að stúlkurnar séu þrjár, þá eru þær ekki vel heppilegar. Borghildur er hreint alltaf upp- tekin síðan prjónavélin kom. En þessi nýja stúlka er svo mikill klaufi við matreiðsluna. Blessuð konan verður sjálf að vera við eldamennskuna, ef eitthvað á að ganga“. „Hún hefur nú bara gott af því,“ sagði Þóra glettin. „En það á ekki við hana. Enda er leiðinlegt að gjalda vinnu- konu kaup, ef húsmóðirin þarf að gera verkin, sem hún á að vinna“. „En Ketilríður?“ sagði Björn litli. „Ég get ekki ímyndað mér, að nokkur kona geti látið hana snerta á barni fyrir sig. En ekki vantar dugnaðinn. Það má hún eiga, að enginn kvenmaður hefur unnið mér betur en hún. En þar eru líka allir hennar kostir taldir“. „Ekki vantar þó fyrirbænirnar og blíðmælgina, þegar hún kemur sem gestur“, sagði Sigurður hálfkíminn. „Já, það er víst það eina, sem hún hefur numið af Páli. Það er þessi sleikjuskapur fyrst í stað, þar sem hún kemur, en það er fljótt að hverfa“. „Þér gengur ekki vel að losna við hana“, sagði Þóra. „Nei, ég er hættur að hugsa mér, að það verði hægt“, sagði Jón, þreytulegur á svip. „Ég vísaði henni hreint og beint í burtu í fyrra sumar, en eftir nokkrar vikur var hún komin aftur. Ég gerði það fyrir konuna að leyfa henni að vera fram að jólum. En hún er ófarin enn, og verður líklega til vorsins, hvað sem þá tekur við“. „Ég vildi óska, að einhver kvenmaður tæki slíkri tryggð við mitt heimili“, greip Sigurður fram í. „Þú óskaðir þess ekki, ef þú fyrirhittir aðra eins manneskju og Ketilríði. Hún leggur illt til allra og hefur alla upp á móti sér nema Önnu. En það getur verið, að ég geti bent ykkur á stúlku, og hana góða — það er hún Lína, sem verið hefur hjá okkur undanfarið. Móðir hennar er nú orðin frísk. Ég talaði við karl- angann um daginn niðri í kaupstað. Mér þykir ekki ólíklegt, að hún fáist. Það er náttúrlega langt að ná til hennar, en hún er líka ágæt; sú yrði nú ekki slæm við börnin“. „Það var nú skárri sendingin, að fá þig í heimsókn ,ef það yrði til þess að við fengjum Línu“, sagði Þóra með ánægjusvip. „Þú þurftir nú ekki að efa það, þegar annar eins maður var á ferðinni“, sagði hann glettinn. Yfirsetukonan kom með kaffið. Sigurður brá sér fram í stofu eftir svolitlu víntári, sem hann átti á flösku síðan á lokadegi sjó- manna um haustið. Enginn maður í sveitinni var svo saman- skroppinn, að hann gæfi ekki Jóni hreppstjóra út í kaffið, ef eitthvað var til á heimilinu. Jón sat lengi og skrafaði, eftir að hann hafði lokið við að drekka kaffið og tæma flöskuna. Bogi litli var orðinn svo kumpán- legur við hann, að hann sat á hné hans og skoðaði úrið hans. „Það yrðu ekki vandræði með drenginn þann arna“, sagði Sigurður. Honum fannst það stakasta vanþakklæti af konu sinni, að þiggja ekki, að drengurinn færi fram eftir. Hann volaði oft við stokkinn hjá henni. Og Björn litli varð að reyna að hafa ofan af fyrir honum á nóttunni. „Hann yrði varla svona rólegur, þegar hann færi að syfja. Það getur enginn svæft hann annar en Björn“, sagði móðir hans, ekkert hlý í huga til mann's síns fyrir afskiptasemi hans. Það var ekki víst, að hann kæmi aftur, ef hann á annað borð færi fram eftir. Loks stóð gesturinn upp og sagði, að annaðhvort væri fyrir sig að gera, að fara að hugsa til heimferðar, eða biðjast gistingar. Hann leitaði í vasa sínum og tók upp óhreint sendibréf. „Heldurðu að þú reynir þá að fara á fjörur við Línu?“ spurði hann Sigurð. „Já, ég er staðráðinn í því. Ég má til að gera það“. „Þá ætla ég að biðja þig fyrir þetta bréf. Það er búið að þvælast lengi í vasa mínum. Ég gleymdi því um daginn, þegar ég hitti Árna“. Sigurður tók við bréfinu og leit utan á það. „Hverslags klór er þetta utan á bréfinu?“ sagði hann. x „Já“, sagði Jón, „það er varla læsilegt, þess vegna hef ég ekki viljað senda það á skotspónum. En til Línu er það samt“. „Má ég ekki fara með litla bróður heim í jakkavasanum heim? spurði hann litlu systkinin, þegar hann var ferðbúinn. „Þú getur ekki komið honum í vasann", sagði Kristín litla. „Hvað segir þú um það, Björn minn?“ „Ég vil heldur að hann fari en Bogi“, sagði Björn litli, „en ég veit, að mamma vill ekki, að hann fari“, bætti hann við. „Það er nú einmitt það, að mamma þín vill ekki gefa mer neitt af sinni miklu auðlegð“. Sigurður gekk nokkrum sinnum um gólf, áður en hann yrti a konu sína. En hún vissi, hvað hann mundi segja, þegar hann tæki til máls. „Ég skil bara ekkkert í þér, kona, að vera með þessa stífni og þiggja ekki, að drengurinn fari fram eftir, þegar þú veizt, hvaða erfiðleikar eru með hann heima“, sagði hann ergilegur. „O, það kemst einhvern veginn af“, sagði hún undur róleg- „Tæplega yrði hann rólegri hjá öllum ókunnugum. Ég er óðum að hressast, og þá get ég farið að hugsa um blessaðan kútinn minn“. Þá hætti Sigurður að nöldra, enda þýddi það ekkert. Henni varð ekki um þokað, ef hún í fyrstu ætlaði sér það ekki. ENDURFUNDIR Sigurður fór á fætur fyrir dag, gaf fénu og bar vatn í fjósið. Hitt átti Björn litli að gera. Hann dró með sér skíði, svona til vonar og vara. Á vökunni um kvöldið kom hann aftur og Lína með honum, sæl og blómleg, eins og nýútsprunginn túnfífilh Þóra bauð hana hjartanlega velkomna. Henni hafði ekki oft þótt vænna um annað en að sjá hana. Strax morguninn eftir var yfir* setukonan sótt neðan úr kaupstað, svo að ekki mátti tæpara standa, að heimilið yrði í vandræðum. Siggi á Nautaflötum fór þennan sama dag út í dal. Anna bað hann að koma við í Hvammi og vita, hvort nokkuð hefði lagzt til með stúlku. Anna hafði lagt sig í rökkrinu um kvöldið, og var i þann veginn að sofna, þegar Ketilríður snarast inn með tals- verðu fasi. „Ertu sofnuð, Anna mín?“ spurði hún og laut yfir hana. „Já, svona hér um bil“, sagði hún. „Ég hélt kannske, að þú hefðir gaman af að heyra hver er orðin ráðskona í Hvammi. Það er nú reyndar engin önnur en Sigurlína Árnadóttir, sem við könnumst báðar við! Ha, ha!“ „Mér þykir vænt um að heyra, að Þóra skuli vera búin að fa svo góða stúlku“, ságði Anna hálfsofandi. Það léttir af mér öllum áhyggjum hennar vegna“. „Já, ójá. Ég býst við því, ef stelpan er ekki orðin alvitlaus, að hún reyni að standa sína „pligt“. En það er líklega vissara fyrir þig, að láta ekki manninn ganga alveg lausbeizlaðan þessa dagana, sem hún verður í nágrenninu“, hvíslaði Ketilríður. Anna reis upp við olnboga; svefninn sýndist vera búinn að yfirgefa hana allt í einu. „Þér dettur þó ekki í hug, að hann fari að hlaupa alla leið ut að Hvammi til að hitta hana?“ spurði hún áköf. Ketilríður hló lágt. Anna heyrði, en sá það ekki. „Annað eins hefur nú verið lagt á sig, þegar svoleiðis stendur a. Hann er heldur ekki beint seinn á fæti, maðurinn sá, og ekki er víst, að hann þyrfti alla leið. Ekki var hann lengi út að Hvammi þarna um veturinn, þegar hann var að hjálpa henni Þóru að koma fénu í húsin og gefa á garðann með henni. Við sáum það svo vel frá Jarðbrú“. „Hvenær var það nú svo sem?“ spurði Anna forvitin. „Þá varst þú eins og hvert annað barn“, sagði Ketilríður. Dísa hentist inn og sagði þær fréttir, að Siggi á Ásólfsstöðum væri að tala við Þórð niðri á túni. Ketilríður rak hana fram með harðri hendi og sneypti hana fyrir blaðrið um allt, sem hún ssei- Hún ætlaði sér að tala meira við húsmóðurina. En þá ^kom hús- bóndinn sjálfur inn og settist út við gluggann; hann kveikti sér i pípu. Þá var auðséð, að hann ætlaði ekki strax út aftur. Ketilríður stóð því upp og fór fram úr húsinu. „Hefurðu heyrt nokkuð um það, að hún Lína sé komin að Hvammi?“ spurði Anna mann sinn. Nei, það hafði hann ekki heyrt. „Það er gott, að Borghildur þarf þá ekki að fara“, sagði hann. „Eiginlega finnst mér að sú kona megi aldrei fara frá heimilinu • „Já, ég er fegin, að Þóra fékk hana Línu, jafn dugleg sem hún er“. Hann samsinnti því. Hún gat ekki heyrt, að hann væri neitt ánægjulegur í rómnum. Líklega var þetta eins og hver önnur tortryggni úr Ketilríði, hugsaði Anna og breiddi sængina vel ofan á sig. Henni væri víst alveg óhætt að sofna. Hann færi varla að finna Línu meðan hann væri að reykja úr pípunni. Henni fannst það svo hlægilegt, sem Ketilríður hafði sagt, að hana langaði helzt til að segja manni sínum það, svo að hann gaeti hlegið að því líka. En Þórður hafði enga biðlund, þegar hann heyrði, að Lina var komin í nágrennið. Hann mátti til með að sjá hana, og Þa^ strax. Hún hafði komið hans vegna, það vissi hann vel. Hún hafði sagt það í bréfinu, að sig langaði fram í blessaðan dalinn. Og nu var hún komin alla leið fram að Hvammi. Hann sagði, að sig vantaði eina ána; féð hefði verið fyrir utan um daginn. Líklega hefði hún álpazt saman við Hvamms-ærnar, því að þær höfðu verið rétt fyrir utan merkin. Hann ætlaði að bregða sér út eftir og spyrja um hana. Jóh taldi það heldur úr. Þéir höfðu verið að stinga út vetrarstunguna um daginn, og Þórði væri nær að hvíla sig en fara að leita að ánni, sem líklega hefði kæft sig í „síkinu eða „langdýinu“, og væri dauð fyrir löngu. Það yrði bara ny steik hjá Borghildi á morgun, sagði hann. En Þórður var góður hirðir, sem vildi leita að ánni. Hann hafði fataskipti í snatri, og fór í hvíta, útprjónaða ullarpeysu. Hún var eitt af því, sem prjona- vélin og Borghildur framleiddu. Svo náði hann sér í heitt vatn og fór að raka sig.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.