Lögberg - 24.02.1955, Page 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 24. FEBRÚAR 1955
HELDUR DREG ÉG MIG I HLÉ
Daginn eftir kom Siggi að eldhúsglugganum. Lína var með
hálfgerðan höfuðverk og niðurdregin yfir að hugsa um það, sem
komið hafði fyrir þarna uppi í hvamminum. Hún vonaði, að það
hefði verið draumur. En hvað sem því leið, þá var það skammar-
legt að drekka sig fulla.
„Hvar varstu eiginlega í gærkvöldi?“ spurði Siggi. „Ég kom
hingað, og það vissi enginn neitt um þig. Ekki einu sinni mál-
skjóðan litla, sem allt veit, hún Silla“.
„Ég skil nú svo sem ekkert í því, hvenær það hefur verið,
nema ef það hefur verið mjög seint, því að ég háttaði snemma.
Tannpínan var að kvelja mig“, sagði hún.
„Þú ert líka framúrskarandi ræfilsleg, skal ég segja þér“.
„Ég veit það vel“, sagði Lína og hugsaði til þess, hvernig Siggi
myndi horfa á sig, ef hann vissi sannleikann. Hún fór að spyrja
hann um hvernig aflinn væri, til þess að reyna að koma í veg
fyrir, að hann minntist á Jón. Hún óttaðist, að hún kæmi upp um
sig með því að roðna. Þá var það Silla, sem kom henni til hjálpar.
Siggi fór von bráðar frá glugganum. Honum þótti Silla óþolandi.
Hann minntist aldrei faramar á þetta.
Einn laugardaginn, seint á slætti, kom Þórður niður í kaup-
staðinn. Lína sá til hans og aðgætti, hvenær hann yrði ferðbúinn.
Hann stanzaði sjaldan lengi í kaupstaðnum. Hann var ekki einn af
þeim, sem hanga aðgerðarlausir í búðunum heila og hálfa tímana.
Siggi þrammaði allt í einu upp að læknishúsi. Lína þekkti
göngulagið á hljóðinu, áður en hún leit út um gluggann. Hann
stanzaði við opinn gluggann, eins og hann var vanur.
„Ég veit, að Þórður er kominn“, sagði Lína, áður en hann
byrjaði að tala.
„Hann er að fara. Gætirðu fundið hann upp í Stóra-Hvammi?“
„Ég reyni það að minnsta kosti“, sagði Lína.
Hún bað Sillu að koma kaffinu fyrir sig inn. Hún mætti til að
finna mann utan af Strönd, sem hún vissi að væri staddur í
Hvammkoti einmitt núna. Silla hafði alltaf tíma frá sínum
heimilisstörfum, og varð við bón hennar.
Lína beið dálitla stund í hvamminum þangað til Þórður kom.
Hún gat ekki ráðið við tárin, þegar hún hugsaði til þess, hvað hún
í raun og veru var fölsk og ómerkileg manneskja í samanburði við
hann, þennan stillta og trygglynda mann, sem aldrei hafði gefið
nokkurri konu ást sína nema henni einni. En hún ætlaði að bæta
honum það allt, þegar þau væru farin að búa saman. Þá ætlaði
hún að vera honum svo góð kona, og hafa heimilið svo skemmtilegt,
að hann yrði ánægður. En leyndarmál sitt gæti hún aldrei sagt
honum.
Þegar Þórður kom og steig af baki, flýtti hún sér að þurrka
tárin. Hún hljóp á móti honum.
„Þú ert þá hérna, elsku stúlkan mín“, sagði hann glaður. „Ég
var farinn að halda, að ég fengi ekki að sjá þig. En af hverju
hefurðu verið að gráta, einmitt núna, þegar þú áttir von á að
finna mig? Af hverju græturðu, elskan mín? Hvað er það, sem
gerir þig svona veiklynda?“
Hann horfði á hana þessum þunglyndislegu, spyrjandi augum,
sem gerðu hana hrædda. Hún grúfði andlitið undir vanga hans,
svo að hann sæi þau ekki, og svaraði lágt:
„Mér datt bara í hug, að það hefði verið gaman að fara með
þér fram í dalinn, og þá gat ég ekki annað en farið að vola. Mér
leiðist alltaf, og ég þrái vorið, sem lítur út fyrir að aldrei ætli
að koma“.
„Það kemur, góða mín. Vertu viss“, sagði hann hughreystandi.
„Þess verður víst langt að bíða“, sagði hún. „Enn eru ekki
liðnir nema tæpir fjórir mánuðir. Mér hafa fundizt þeir voðalegir“.
„En samt líða þeir“, sagði hann, þessi rólyndi maður.
Þau settust niður, og Lína hallaði sér að honum, á meðan hann
talaði við hana um búskapinn tilvonandi, og um það, hvað sér
þætti vænt um hana, og hvað hann læsi bréfin hennar oft, áður
en hann læsti þau niður í koffortin. Þá datt henni í hug það, sem
óskrifað hafði verið á eitt bréfið, og að hún hefði sífellt verið að
brjóta heilann um, hvar þar hefði átt að koma.
„Hvað var það, sem þú áttir við í einu bréfinu þínu? Þú
skrifaðir, að þú ætlaðir aldrei að láta það koma fyrir þig, að vera
hræddur um mig. Heldur . . . Hvað ætlaðirðu að segja næst? Ég
hef oft hugsað um það“, sagði hún.
„Það var þýðingarlaust að skrifa meira. Ég veit, að þú ert
góð stúlka, og það kemur aldrei til þess. Ég misskildi þig þá og
var vondur við þig. Það var ég líka í fyrstu, og af því stafaði öll
mæðan, sem fyrir kom. Svo tölum við ekki meira um það“.
„En mig langar svo mikið til þess að vita, hvað þú varst búinn
að hugsa þér að skrifa. Var það kannske eitthvað hræðilegt?“
„Hræðilegt?“ tók hann upp eftir henni. „Nei, ég vona, að slíkt
komi aldrei fyrir mig, að gera eitthvað, sem er hræðilegt. Ég
ætlaði bara að skrifa: „Heldur dreg ég mig þegjandi í hlé“. Það
var þetta, sem ég hugsaði mér að skrifa, en ég sá, að það var
þýðingarlaust að vera að orðlengja meir um það, sem ég vona, að
aldrei komi fyrir aftur“.
Var það vitleysa eða ímyndun, að henni heyrðist einhver þungi
kominn í rödd hans, sem hún kannaðist þó vel við?
Hún hjúfraði sig þéttar að honum og sagði hlæjandi: „Ó, ég
er svona forvitin. Þú verður að fyrirgefa mér það eins og allt
annað“.
„En ég vona, að þú verðir góð stúlka og látir þetta ekki henda
þig í annað sinn“, sagði hann.
„Þú mátt aldrei yfirgefa mig, Þórður. Ég get ekki hugsað mér
að vera annars staðar en hjá þér í Selinu. Og nú skulum við nota
okkur tímann til að ráðgera búskapinn. Ég er búin að raða því
öllu niður í huganum. Við látum bæinn vera á sama stað og hann
er núna. Það er svo stutt í lækinn. En mig langar til að hafa
glugga á suðurstafni baðstofunnar, og þar ætla ég að hafa gardínur
fyrir og blóm í potti. Það á svo sem að vera fínt, skaltu vita“.
„Það er aldrei þú sért búkonuleg núna“, sagði Þórður glettnis-
leSa- >>En þér að segja, þá eru mörg ár síðan ég býggði bæinn upp í
huganum, og þá hugsaði ég mér að hafa stóran glugga á stafninum“.
„Mörg ár? Varstu þá farinn að hugsa um að búa í Selinu,
áður en ég varð konuefnið þitt?“ spurði hún hlæjandi.
>>Ja> ég hef alltaf ætlað mér að búa þar. Ég var bara að bíða
eftir konunni, því að ég hef aldrei ætlað mér að verða piparkarl“.
„Nú skaltu heyra, hvað ég ætla að verða dugleg, þegar við
erum farin að búa“, greip hún fram í fyrir honum. „Ég ætla alltaf
að fara fyrst á fætur á morgnana, reka úr túninu á vorin og sumrin
og fara svo að hita kaffið og færa þér í rúmið“.
„Nei, hættu nú, góða. Heldurðu, að ég liggi í rúminu, meðan
þú hitar kaffið. Það verður líklega ekkert af því. Við bændur
höfum ekki á okkur neinn kaupstaðarsið, látum ekki bera kaffið
inn á rúmið. Ertu orðin svona kaupstaðarlega sinnuð? Kannske
hugsarðu þér að hafa tvær vinnukonur eins og frúrnar hérna á
Ósnum?“
„Ekki aldeilis, vinur. Ég ætla alls eins vinnukonu að hafa. Ég
get líklega rakað á eftir þér. Ef það verður ljáarhorn, þá hjálparðu
mér með það, áður en ég fer heim að mjólka“.
„Einhver verður þó líklega að hugsa um krakkana“, sagði
hann glettnislega.
„Þú ætlar þó líklega ekki að fara að hrúga niður krökkum?“
sagði hún.
„Heldurðu kannske, að við komum okkur ekki upp vinnufólki“.
„Kannske einni stúlku“, sagði hún.
„Mér er víst meiri þörf á að fá vinnumann en þér vinnukonu,
þar sem ég er mikið eldri en þú“, sagði hann og skellihló að þessum
barnalegu samræðum.
„Jæja þá, óskabörnin — en hreint ekki fleiri“, sagði hún. „Ég
fer ekki að útslíta mér á barneignum, skal ég segja þér. Það er
nóg annað að gera en vera sífellt með smábörn á hendleggnum“.
„Það er líka nógur tími til að tala um það, þegar farið er að
búa“, sagði hann og kyssti hana tvo kossa á hlæjandi munninn.
„Þú ert svo falleg, Lína. Þú fríkkar með hverju ári. Nú skal ég
segja þér, að ég skildi Skjóna minn eftir hjá Sigga, svo að þú getir
farið út að Háakoti á morgun og svo nokkrar krónur líka. Þú getur
keypt eitthvað í búið fyrir þær. Það er ekki gjöf, þú þarft ekki að
vera að þakka það. Það kemur inn í sameignina“.
»Ég er þegar búin að kaupa sex teskeiðar og fjórar matskeiðar
og borðdisk. Er það ekki góð byrjun?“
„Jú, ágæt. En gott væri nú samt að eiga bollapör og diska
líka“.
Já, auðvitað kaupi ég það. Þér hefur þó líklega ekki dottið í
hug, að ég hugsaði ekki fyrir neinu öðru en skeiðunum“.
„Jú, þú ert svo mikið konuefni, að það er óþarfi að vantreysta
þér. Á jólunum skulu hringarnir koma. Það er ekki svo mjög langt
þangað til“.
„Ó, ég vildi, að þau væru komin“, sagði hún.
„Á jólunum", tautaði Lína við sjálfa sig á heimleiðinni. Þangað
til varð hún að synda milli skers og báru. Það var varla hægt að
fá nákvæmari samlíkingu. Hún kveið fyrir því, hvað hún yrði
skömmustuleg, þegar Jón hreppstjóri færi að óska henni til
hamingju.
En þá væru líka vandræði hennar á enda.
SILLA SEGIR FRÉTTIR
Siggi kom að eldhúsglugganum snemma á sunnudagsmorgun-
inn og afhenti Línu stóran böggul af alls konar góðgæti frá Þórði,
ásamt peningabréfi, og svo sagði hann henni, að Skjóni biði
eftir henni.
„Leggðu á söðulinn minn, Siggi minn“, sagði Lína. „Ég er
bráðum ferðbúin“.
Silla ætlaði að verða í eldhúsinu fyrir hana á meðan. Hún
hafði alltaf tíma frá sínum störfum. Nú var sunnudagur og þá gat
„pabbi gamli“' hugsað um það, sem þurfti að gera. Það var ekki
svo mikið. Lína nestaði sig vel af sælgæti handa systkinunum,
hitt lét hún inn í búrskápinn.
„Já, stjórni mér sá, sem vanur er!“ sagði Silla. „Þú ert ekki
spör á aurana, að kaupa allt þetta „gottelsi“. Ég líklega smakka á
því, meðan þú ert í burtu“.
„Það skaltu gera, Silla mín“, sagði Lína. „Piltarnir eru svona
góðir við mig. Þeir gefa mér þetta, og svo lána þeir mér hest líka
til að ríða út“.
„Almáttugur, en það eftirlæti. Þú ert svei mér góð að hafa
þetta lag á þeim. Á Siggi Daníels þennan hest?“
Lína neitaði því, en hún vildi ekki segja henni, hver ætti hann.
Næsta dag fór Silla ofan til Helgu og Villu og bauð góðan
daginn.
„Það er mikið þú ert ekki alltaf hjá Línu“, sagði Helga. „Það
þykir mörgum gaman að líta inn til þeirrar stúlku. Eitthvað
þurfum við stundum að segja Sigga“.
„Já, það er nú líka lítandi inn til hennar, skal ég segja ykkur.
Þið hafið varla annað eins til að „traktera" gesti ykkar á, þó þið
séuð í kaupmannshúsi“, sagði Silla drýgindalega.
„Hvað svo sem er það, sem hún hefur, vín eða hvað?“ spurði
Helga forvitin.
„Það er bara eins og maður líti inn í sælgætisverzlun að líta
inn í búrskápinn hjá henni. Svo var þar súkkulaðistykki, sem tíu
króna seðli var stungið undir miðann á, og hún vissi ekkert um
hann, fyrr en ég fór að tala um það við hana. Og þar var líka vín í
glasi. Svona býr hún nú, drósin sú“.
„Ég hefði líklega reynt að hirða seðilinn sjálf og ekki verið að
segja henni frá honum“, sagði Villa.
„Nei, þjófur hef ég aldrei verið“, sagði Silla móðguð.
„Það er meira gæfulambið hún er, sú manneskja“, sagði Helga.
„Kona sagði mér um daginn, að hún hefði komið ofan í búð og
keypt þar fínindis bollapör, kar og könnu, og ég man ekki hvað og
hvað, og borgaði það allt út í peningum. Hvers lags svo sem pen-
ingauppspretta er það? Það er rétt eins og ég. Mér veitir ekki af
kaupinu mínu til að klæða mig af því“.
„Kaupinu? Dettur þér í hug, að manneskjan hafi ekki ein-
hverja „aukasportlur", nærri má nú geta. Mamma gamla segir,
að hún sé viss um, að hún hafi peninga út úr karlmönnum, svona
fyrir sjálfa sig. Hún er nú eldri en tvævetur, hún mamma gamla,
og þekkir hvernig kjóarnir kvaka. En hvaða svo sem strákar ættu
það að vera? Hún sést ekki á snakki með nokkrum strák, nema
honum Sigga Daníels, — Sigga hérna, meirra ég. Kannse það sé
hann. Kannske að hann beri í hana sælgæti og peninga?“
„Hann fór með böggul upp að glugganum til hennar í gær-
morgun“, sagði Villa.
„Mér sýnist nú Siggi ekki fara neitt dult með það, að hann sé
að hugsa um Rósu Björns, og þau hvort um annað. Ég hef líka
spurt hann að því, hvort það væri eitthvað á milli hans og Línu.
En hann sagði, að svo væri ekki. En hann var drjúgur yfir því, að
hún ætti pilt. En svo er ekkert að marka þvaðrið úr honum“,
sagði Helga.
„En nú dettur mér dálítið í hug“, sagði Silla ákaflega spekings-
lega. „Hún Rebekka Hinriks var að segja mér frá því um daginn.
Þá bara kemur Lína og kaupir eina kommóðuna, sem hann Hinrik
smíðar og selur, og Siggi Daníels með henni. Þá hafði einhver karl
utan af Strönd komið þar inn og hann bara klappað á herðarnar
á Línn og sagt, að einhverntíma hefði hann ekki trúað því, að hún
hefði ráð á því að kaupa svona dýrt stykki. Og Lína hafði kaf-
roðnað. Kannske hann sé nú sá lukkulegi. Hún sagði, að hann væri
efnaður ekkjumaður og héti Gísli“.
„Já, hver fjandinn“, sagði Villa. „Það væri þá lyst að taka að
sér ekkjumann, sem heitir Gísli. Nú hætti ég að trúa. En keypti
hún virkilega kommóðuna? Það er svo sem álíka og við Helga,
sem ekkert eigum nema koffortin. Náttúrlega er hún trúlofuð,
manneskjan, og er að taka í búið bollapör og allt mögulegt. Jæja,
ekki ætla ég að öfunda hana, ef það er gamall ekkjumaður. Það
hefur líklega margur álitið, að það lægi meira fyrir henni, þessari
líka perlu. En ég öfunda hana af kommóðunni. Hún er himnesk“.
„Já, hún er falleg“, sagði Silla. „Hún er með gylltum laufum
fyrir skráargötunum, og svo glansar á hana eins og spegil. Rebekka
sagði, að hún hefði borgað hana út í peningum. Haldið þið, að það
sé álíka og við, hinir garmarnir. Svo báru þeir hana á handbörum
á milli sín, Simmi hjá lækninum og Siggi Daníels, upp að læknis-
húsi og drösluðu henni alla leið upp á herbergi“.
„Varð hún svona veik?“ spurði Villa utan við sig af öllum
þessum fréttum. Silla veltist um af hlátri.
„Það var kommóðan, en ekki Lína, sem þeir báru?“
En Helga hlammaði sér niður á eldhússtólinn og blés
mæðulega.
„Heldur vil ég vera heilsulaus piparmey og aldrei eignast
kommóðu en eiga ekkjumann, sem heitir Gísli“.
Næsta dag flutti Silla tvær leynilegar trúlofanir milli manna.
Það var trúlofun Sigga Daníels og Rósu Björns, og Línu hjá
lækninum og ekkjumanns af Ströndinni. Hann hét Gísli.
Sumarið var liðið og haustið komið með rigningum og myrkri,
sem því er alltaf samferða. Lína hlakkaði til, þegar Þórður kæmi í
sláturtíðinni. Hún hafði margt að segja honum um allt það, sem
hún var búin að kaupa í búið. Og Þórður hafði þó hlakkað enn
meira til endurfundanna. En svo þegar hann kom loksins, hafði
hann varla tíma til að líta upp að húsinu, sem hún var í. Það var
komið myrkur, þegar hann var búinn að búa upp á hestana, og
hann sagði við Sigga, að hann yrði víst að fara án þess að sjá
Línu í þetta sinn. En Siggi ætlaði að reyna að vera hjálplegur, og
fór með honum áleiðis. Vegurinn lá rétt við læknishúsið. Siggi fór
inn í eldhúsdyrnar í fyrsta sinn og spurði Línu, hvort hún mætti
vera að því að finna sig hérna út fyrir dyrnar. Lína þóttist vita,
hvað um væri að vera og þvoði sér í flýti um höndurnar, því hún
var í slátrum og Silla Jóhanns með henni.
Þá var kallað innan úr stofudyrunum:
„Lína, visky og sódavatn!“ Það var læknirinn, sem kallaði. Og
Lína varð að hlýða. Hún hljóp ofan í kjallara eftir því, sem hús-
bóndanum þóknaðist að kalla eftir. Þórður beið fyrir utan gluggann
og horfði inn fyrir ofan gluggatjaldið, á elskulegustu stúlkuna,
sem til var í veröldinni. Hún var orðin talsvert breytt, fölari af
innisetum og ekki eins feit. Honum fannst hún fallegri en áður.
Hestarnir stigu áfram með sláturklyfjarnar og hurfu út í myrkrið.
Það var ekki um annað að gera en fara án þess að fá hlýjan koss af
þessum indælu, brosmildu vörum. Þó höfðu þær misst fegursta
roðann við það að snerta forboðna eplið, veturinn áður. Hún þurfti
að hugsa um sinn verkahring og hann um sín störf. Hann ætlaði
bara að geyma þessa fögru mynd af henni í huganum, þangað til
hann fyndi hana næst. Hann bað Sigga fyrir sælgætisböggul til
Línu, og svo steig hann á bak og reið eftir hestunum.
„Svei mér, ef það var ekki einhver þarna úti í myrkrinu“,
sagði Silla. „Almáttugur. Ég hefði orðið hrædd, ef ég hefði verið
ein. Hann var að horfa inn um gluggann, þessum þá líka augum
undan sjóhattinum. Var hann að reyna að narra þig út í myrkrið
til hans, strákskrattinn hann Siggi. Mér hefur aldrei geðjazt að
honum, þeirri gorkúlu. Þú skalt vara þig á honum, Lína“.
„Þú þarft nú ekki að lýsa Sigga fyrir mér eða vara mig á
honum. Við erum nú ekkert ókunnug11, sagði Lína fálega.
„Nei, auðvitað þekkirðu hann. En ég er anzi hrædd um, að
hann sé ekki í neinu eftirlæti þarna í húsinu. Það er nú reyndar
sama, hvaða vinnuhræða þangað kemur, hún er úthrópuð um allt
eftir nokkrar vikur. En hver heldurðu að það hafi verið, sem stóð
fyrir utan gluggann?“
„Það var kærastinn minn“, sagði Lína hreinskilnislega. „Hann
langaði til að heilsa mér. En það er nú svona að vera annarra hjú,
þá getur maður ekki einu sinni heilsað kærastanum sínum“.
„Almáttugur!“ sagði Silla. „Það er þó ómögulegt, að þú eigir
kærasta með svona augu. Því í ósköpunum baðstu mig ekki að
fara inn með vínið, fyrst sakirnar stóðu svona fyrir þér. Er það
ekki aldeilis feikna gaman að vera trúlofuð? Hvað heitir hann?
Viltu segja mér það?“
„Þú færð að heyra það á jólunum, þá setjum við upp hringana“,
sagði Lína brosleit.
„Almáttugur, þú ert bara lukkuleg. Skyldi maður heimsækja
frúna, þegar hún er farin að búa. Ætlarðu að eiga heima hérna
á Ósnum?“
„Nei, ég bý í dalnum“.
KAUPENDUR LÖGBERGS
Á ÍSLANDI
Gerið svo vel að senda mér sem fyrst greiðslu fyrir
yfirstandandi árgang Lögbergs, kr. 75.00. Dragið
ekki að greiða andvirðið. Það léttir innheimtuna.
Æskilegt að gjaldið sé sent í póstávísun. Þeir sem
eiga ógreidda eldri árganga, eru vinsamlega beðnir
að snúa sér til mín.
SINDRI SIGURJÓNSSON
LANGHOLTSVEGI 208 — HEYKJAVIK