Lögberg - 09.06.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 09.06.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 9. JÚNI 1955 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF Dagurinn hafði verið hlýr og kvöldið líka. En Hildur hafði sagt, að það myndi kólna í nótt, því að það hefði rokið upp úr keldunum fyrir sunnan túnið. En Lína tók samt ekki þanrr spá- dóm alvarlegar en svo, að hún lét ekki einu sinni yfir sig skýlu. En hún var ekki búin að bera af margar hrúgur, þegar kaldur andi fór að blása utan dalinn, sem feykti með sér þokuslæðingi fram fjallshnjúkana. En Lína var kappgjörn og einsetti sér að fara ekki heim fyrr en hún hefði komið öllum hrúgunum í einn haug og þar með lokið við túnávinnsluna. Vindurinn varð æ svalari og þokan þykkari með súldarhraglanda, sem bleytti hárið og gerði handleggina sárkalda. Lína kepptist því meira við, til þess að reyna að halda á sér hita. En henni tókst það ekki. Hún var farin að hríðskjálfa, áður en hún hafði lokið við þær. Þvílíkur skjálfti. Hún var alveg hissa. Hún mundi varla eftir því, að hún hefði skolfið fyrri. En hrúgurnar skyldu samt sem áður hverfa. Og loksins kláraði hún þá síðustu upp úr rennvotu grasinu og hljóp heim. Hún var svo lánsöm, að engin skepna var nærri túninu, svo að hún gat farið að hátta. Það var ekki vanþörf á að komast ofan í glóðvolgt rúmið. Hildur losaði svefninn, þegar Lína kom inn, og sá, hvernig hún leit út, hríðskjálfandi með rennvott hárið. Þetta hafðist nú af klæðleysinu. Nokkrum sinnum hafði hún þó talað um það við hana að klæða sig betur. En það var orðinn vani að glæ- næpast svona, hugsaði hún hálfsofandi. Hún ætl- aði að fara að spyrja Línu, hvort hún ætti ekki að skerppa ofan og hita á katlinum, en þá varð hún alveg forviða á því, sem hún sá Línu aðhafast. Hún opnaði eina skúffuna í kommóðunni og dró þar upp stóra vínflösku og saup á svona líka hressilega hvað eftir annað. Þetta varð að vera. Af þessu hafði lyktin stafað, sem hún hafði svo oft fundið fram úr henni. Hún hafði náttúrlega þetta til að hressa sig á því, þegar hún vakti. Hildur undraðist að Lína skyldi eiga þetta og hafa gaman af því að drekka það. Lína flýtti sér að læsa flöskuna niður og komast í rúmið. „Aumingja barnið, ósköp skelfurðu“, sagði Hildur. „Þú hefur ekki gætt að því að fara í peysuna og hafa eitthvað um höfuðið. Og veðrið orðið svona vont. Þetta datt mér í hug“. Það var sama, hvernig Hildur reyndi að verma hana. Lína skalf eins og hrísla í vindi. Seinast fór Hildur fram í fjós, rak kúna á fætur og mjólkaði úr henni hátt í könnu. Það var þrílit fjórðungskýr, og mjólkin úr slíkum skepnum hefur frá aldaöðli verið álítin allra meina bót. „Drekktu þetta, góða mín, og vittu, hvort þér hægist ekki“, sagði hún. Lína drakk þá nokkuð af hlýðni við Hildi, sem allt vildi gera henni til geðs. Hildur fór svo aftur upp í rúmið. Lína hætti smám saman að skjálfa og loks gat hún sofnað. En Hildur sofnaði ekki. Henni leizt ekki á heilsu stúlkunnar. Nú þegar hún hætti að skjálfa, varð hún kafrjóð og brennheit. Líklega var hún að veikjast. Hamingjan góða, ef hún ætti nú að fara að horfa upp á veikindi aftur, hugsaði hún kvíð- andi. Hildur lá og bylti sér þangað til klukkan var orðin sex. Þá fór hún að klæða sig. Þau fylgdust með gamla siðnum og færðu frá nokkr- um ám. Þess vegna þurfti að fara snemma á fætur og mjólka ærnar og hleypa lömbunum til ánna. En það gekk stundum erfiðlega að vekja Dodda. Hún byrjaði alltaf að tala til hans, þegar hún var setzt framan á rúmstokkinn. Nú fór hún til hans og strauk yfir vangann á honum. „Doddi minn! Doddi minn! Farðu nú að vakna, góði minn. Það er nú með fyrra móti, en ég varð andvaka, þegar aumingja stúlkan kom inn. Ég skal segja þér það, Doddi minn, að ég er svo hrædd um að hún sé að veikjast. Hún fór út á gerðið berhöfðuð og með bera handleggina, og svo kom súld og kuldi og hún kom heim blaut og skjálfandi. Þvílíkt óskapa ólán!“ Doddi glaðvaknaði undir eins aldrei þessu vant. „Hvað ertu að segja, mamma?“ Hún endurtók frásögnina. Hann reis upp í rúminu og blés út um nasirnar af ákafanum. „Það er ekki von, að vel fari“, byrjaði hann. „Er þetta nokkurt vit að vera með þessa beru handleggi hér fram í sveitinni — dalnum. Nei, það er ekki von á því betra. Það er nú kannske dálítill munur eða í þessum sjóðbullandi heitu kaupstaðarstofum. Það er áreiðanlega ekki von á því betra, en leiðinlegt er það samt“. Hildur stundi þungan og horfði áhyggjufull á svip yfir í rúmið, þar sem Lína svaf blóðrjóð í kinnum með tíðan andardrátt. „Guð gefi að hún fari ekki að veikjast. Ég er búin að sjá nóg af veikindum“, sagði hún. „Þú ferð svo að klæða þig, góði minn, meðan ég lífga eldinn og læt upp ketilinn“. Doddi kom bráðlega fram alklæddur. „Hann er víst kaldur úti núna, það er víst óhætt að fara í jakkann“, sagði hann. „Já, hann er bara andkaldur“, sagði Hildur. Hún stóð í bæjardyrunum með fötuna í hendinni. Svo lögðu þau af stað. Stekkurinn stóð niður við ána, heldur framar en bærinn. Ærnar lágu flestar kringum stekkinn. Það var búið að stía lömbunum frá nokkrum sinnum, svo að ærnar voru farnar að spekjast. Einstaka ær rak þó upp jarm öðru hvoru. Hildur hljóp léttilega kringum ærnar. Doddi ranglaði syfjandalegur á eftir með hendurnar í vösunum. „Skerptu þig ofurlítið, Doddadrengur!“ kall- aði hún. „Ungir bændur verða að geta vaknað á morgnana, ef vel á að fara“. Þá tók hann undir sig klunnalegt stökk og hljóp heim að stekknum og dreif ærnar inn með það sfima. „Þú skalt nú sjá, hvort það fer ekki að ganga“, sagði hann hreykinn. Það tók þó nokkurn tíma að mjólka ærnar og koma lömbunum til þeirra. En þegar. því var lokið, greip Doddi fötuna og þau flýttu sér heim. Hildur hafði alltaf verið með hugann hjá Línu. Hún vonaði, að nýmjólkin myndi hressa hana. Doddi hughreysti hana: „Hún verður albata, þegar hún vaknar, vertu viss“. Það bullsauð á katlinum, þegar þau komu inn í eldhúsið. Doddi settist á eldhúskistuna með kaffikvörnina milli hnjánna, meðan Hildur síaði mjólkina. Þar næst var hellt á könnuna. Hildur hlakkaði til að smakka á kaffinu í þessum kulda, en samt ætlaði hún áður að líta inn. til aumingja Línu. Doddi sat á kistunni og beið eftir kaffinu. „Nú dámar mér aldeilis“, sagði Hildur, þegar hún kom fram. „Hún hefur bara kastað upp allri mjólkinríi, vesalings manneskjan. Hefði hún ekki látið þennan óþverra ofan í sig áður, hefði hún áreiðanlega haft gott af henni“. „Hvað segirðu? Hvað lét hún ofan í sig?“ spurði Doddi forvitinn. „Æ, það var vínskratti. Auðvitað hefur hún ætlað að hita sér á því, en það er aldrei til bóta“. „Á hún vín?“ „Það er svo að sjá, og það ekkert lítið“, sagði gamla konan og drakk kaffið sitt hugsandi. „Ja, mér lízt nú ekkert á það, ef hún ætlar að fara að veikjast", sagði Doddi. „Það datt mér nú aldrei í hug“. „O-jæja, maður sér nú skammt í þeim efnum sem öðrum“, andvarpaði Hildur. Lína lá í hitamóki allan daginn. Öðru hvoru gerði hún það fyrir Hildi að dreypa á mjólkinni, en hún kom upp úr henni jafnharðan aftur. Þetta var hreint ekki álitlegt. Um kvöldið kom Helga á Hóli. Hildur sagði henni frá mæðu sinni úti á hlaði. „Ó-já, það má gera of mikið af öllu“, sagði Helga, „líka fínheitunum. Þær vilja heldur veikj- ast þessar ungu stúlkur, en að klæða sig al- mennilega“. Helga settist á rúmstokkinn hjá Línu og hélt um úlnlið hennar, eins og hún væri að telja æða- slögin, og sagði, að hún hefði háan hita — mikinn hita. Og hún hristi höfuðið framan í Hildi. Helga átti lækningabókina og las oft í henni. „Þér lízt ekki á hana“, sagði Hildur, þegar Helga var að fara. „Nei, það er nú eitthvað annað. Hún hefur feikna hita. Náttúrlega hefur manneskjan „forkjulast“ og þá er nú ekki við góðu að búast. Ef ég væri í þínum sporum, léti ég undir eins sækja lækni, áður en lungnabólgan gerir vart við sig“. Hildur stundi þungan. „Þú heldur, að þess þurfi?“ „Já, það er áreiðanlega alvara á ferðum“, sagði Helga. Svo kvaddi hún nágrannakonu sína, og fór ekki óánægð. Það var ekki allt fengið fyrir Hildi gömlu, þótt hún fengi nýja vinnukonu. Hún hefði ekki átt að vera alveg svona hreykin. „Helga er að ráðleggja okkur að sækja lækni“, sagði Hildur við Dodda, þegar þau voru að reka inn í stekkinn um kvöldið. Doddi glápti á hana alveg hissa. Svo hristi hann höfuðið raunalega og sagði: „Að sækja lækni! Nú lízt mér á. Þú veizt, hvernig það gekk, þegar pabbi og Björg voru veik“. „Það var allt annað, góði minn“, greip móðir hans fram í. „Það var svo hættuleg veiki, sem þau fengu“. „Heldurðu að þetta sé ekki eins hættulegt, sem gengur að Línu?“ „Það vona ég, að ekki sé“. Doddi stundi mæðulega. „Þetta datt mér al- drei í hug að kæmi fyrir. Það var svo skemmti- legt, meðan hún var frísk og var að syngja“, sagði hann dapurlega. „Það verður líka þó nokkuð dýrt að fara að tosa lækninum hingað fram eftir“. „Hún borgar það auðvitað", sagði Hildur. „Svo-o-o“, sagði þá Doddi. „Á ég að leggja af stað eftir honum í kvöld?“ „Við tölum um það við hana. Ekki förum við að sækja hann án hennar samþykkis“, sagði Hildur. „Auðvitað verður að tala um það við hana“, sagði hann. Þegar þau komu heim, læddist Hildur inn í baðstofuna til að tala við Línu. Doddi stóð fyrir framan boðstofudyrnar og beið eftir að heyra, hvað Lína legði til málanna. Lína sneri sér til veggjar og heyrði ekkert til Hildar, svo varlega gekk hún um hurðina. Hildur gat ekki betur séð og heyrt en að Lína væri að gráta undir sænginni. „Lína mín!“ sagði hún blíðlega og klappaði ofan á kollinn á henni. „Ertu ósköp veik núna — líður þér ákaflega illa?“ Línu varð bilt við. „Nei, nei, ég hef ekkert selt upp núna“, svaraði hún á kafi í sænginni. „Viltu láta ná í lækni, góða mín?“ „Lækni?“ „Já, Helgu finnst það sjálfsagt“. „Er hún eitthvert brot af lækni sjálf?“ spurði Lína og hló dálítið, Hildi til mikillar ánægju. „Hún á lækningabókina“, sagði Hildur alvarleg. Doddi var kominn inn á gólfið. „Ég skal fara strax eftir honum, ef þú vilt, Lína“, sagði hann ákveðinn. „Ég ætti nú ekki annað eftir en að fara að sækja Halldór lækni til að horfa á gubbuna úr mér“, sagði Lína. „En ég þakka ykkur samt fyrir umhyggjuna“, bætti hún við. „Helga býst við ,að þú munir fá lungnabólgu", sagði Doddi og hrukkaði ennið við þá tilhugsun. „Þið þurfið ekkert að vera hrædd um það. Lungun í mér eru víst í góðu lagi, hvað sem Helga segir.' Þér er óhætt að fara að hátta, Doddi minn. Þetta moltnar úr mér“, sagði Lína. „Jæja, þú heldur það, góða mín, að það þurfi ekki lækni“, sagði Hildur sárfegin. „Ó-nei, .hann bætir mér víst ekki mikið“. „Er þér ekki vel við hann?“ spurði Doddi. „Þú talar einhvern veginn svoleiðis um hann“. „Það er svo sem hvorugt“, sagði Lína. „En það er víst óþarfi að trúa á meðulin hans, þau bæta heilsu fárra“. „Ekki var mikið gagn að þeim, þegar pabbi var veikur‘“, sagði Doddi. „Ó, það ver nú enginn dauðanum“, sagði Hildur hógværlega.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.